Leikskólabörnin og snjalltæknin

Tæknin er frábær, um það þarf ekkert að deila en hún getur líka flækt lífið ótrúlega, þvælst fyrir og sett mann í óþægilegar aðstæður. Flestir sem ferðast um netið hafa lent í að opna óþægilegar síður, fengið popup glugga með guð veit hverju, séð hræðilegar fréttir, fengið á baukinn fyrir klaufaskap á samskiptamiðli eða bara tínt tímanum klukkustundum saman í ávanabindandi leik eða vafri. Við fullorðna fólkið getum sem sé átt í mesta basli með snjalltæknina.

Ég sá ungan krakkaorm úti að leika sér um daginn með símann í annarri hendinni, reglulega hrökk barnið við og kíkti á símann, skilaboðin dingluðu inn og barnið svaraði, nú eða ekki. Skyldu foreldrarnir vita hvað síminn truflar barnið mikið? ætli þeir fari ekki örugglega yfir skilaboðasöguna í lok dags? Hvar á að geyma bölvað tólið? Má geyma það heima eða ætli afinn geti ekki prjónað hulstur til að hafa um hálsinn? Bíddu, bíddu, nú er ég farin eitthvað út af sporinu en skildi einhver hafa kennt barninu nóg til að halda því sæmilega öruggu? Er athyglisspan foreldrana nægilegt til að fylgja tækninotkun barnsins vel eftir eða eru þeir sjálfir villuráfandi í greipum tækninnar? Jamm, það er margt sem fer um hugann.

Á kaffihúsum eru hvítvoðungar að horfa á myndbönd í stað þess að kjá framan í foreldra sína, kornabörn æfa stafróf þegar þroskinn kallar á samskipti og verkefni sem örva heilann (já, ég er að segja að utanbókarlærdómur er ekkert sérstaklega gagnlegt nám), smákrakkar horfa á youtube og skipta um hraðar en auga á festir og athyglin er út um víðan völl þegar virkilega þarf að hjálpa þeim við að ná ró, skipulagi á hugann og halda athygli.

Hvað ætlaði ég annars að segja? Jamm, tæknin gerir börn ekki sjálfkrafa örugg, fær, klár, tilbúin undir framtíðina, rík, hamingjusöm eða hvaða rök svo sem færð eru með tækninotun ungra barna. Þau geta hins vegar orðið allt þetta ef fullorðinn er með þeim í tækniheimi, útskýrir, hvetur, hjálpar og fylgist með. Stundum þarf að setja orð á lærdóminn og stundum finna ný forrit og leiðir. Ung börn ættu ekki að vera ein með tæki og alls ekki nettengd tæki.  Af hverju ekki? Nú t.d. vegna þess að netið er jafn fullt af vondu efni og góðu og þegar upp er staðið kemur ekkert í staðinn fyrir samskipti, spjall, notaleg heit og húmor sem bara fæst með samskiptum við þá sem manni þykir vænt um. Þroski, andleg líðan, nám og færni ungra barna getur aldrei byggt bara á vélum, fólk þarf umhyggju og börn þrífast á henni. Ertu nokkuð búin að gleyma Harry Frederick Harlow?

http://www.bbc.com/news/blogs-trending-39381889

Leikskólakennaranám við Háskólann á Akureyri

Háskólinn á Akureyri tók til starfa árið 1987 og kennaradeild var stofnuð árið 1993. Haustið 1996 settust síðan fyrstu leikskólakennaranemarnir á háskólabekk undir dyggri leiðsögn Guðrúnar Öldu Harðardóttur brautarstjóra leikskólabrautar. Áhersla í náminu var á listir og sköpun, leikskólafræði, heimspeki, umhverfi og náttúru, með samþætting þessa sviða að leiðarsljósi. Lögð var áhersla á vettvangsnám og unnin vönduð handbók sem fylgdi nemum á vettvang. Fjarnám hefur alla tíð verið mikilvægur þáttur í námi kennaranema við HA.

Hugtakið leikskólafræði varð til og annað einkennishugtak leikskólabrautar var vísindasmiðja en Kristín Dýrfjörð hefur í gegnum árin þróað og byggt upp vönduð námskeið með áherslu á fjölbreytt vísindi í leikskólastarfi.

Árið 1998 bauð kennaradeild upp á sérskipulagt nám fyrir leikskólakennara með „gamla“prófið og var ég ein af þeim fjölmörgu fóstrum/leikskólakennurum sem nýttu sér tækifæri til að bæta við menntunina og vinna að B.Ed. gráðu í leikskólafræðum. Framhaldsnám í leikskólafræðum hófst haustið 2000 og þar mátti ljúka námi,  fyrst til diplómu, en síðar til meistaraprófs en þeir sem fyrst hófu námið þurftu að bíða í eitt ár áður en seinni hluti námsins var í boði. Stjórnun og sérkennsla voru námsleiðirnar fyrstu árin en síðar bættust fleiri við og nú síðast upplýsingatækni í námi og kennslu.

Árið 2008 breyttu ný lög stöðunni umtalsvert og nám til kennarafræða við HA var tekið til endurskoðunnar og skipulagt í takt við nýjar áherslur, sem fimm ára nám til meistaragráðu. Nú síðustu ár hefur einnig verið boðið upp á diplómu í leikskólafræðum en þá geta nemar lokið tveggja ára diplómu á grunnstigi sem veitir tiltekna stöðu í leikskólum eða einnig er hægt að haldið hikstalaust áfram og klára eitt ár í viðbót, þriðja árið, til B.Ed. gráðu.

Leikskólafræðin samanstanda af fjölmörgum námskeiðum, sum eru samkennd með grunnskóla- og íþróttafræðum en önnur sérkennd. Jórunn Elídóttir kennir námskeið um leikskólakennarann svo dæmi séu tekin og Kristín Dýrfjörð kennir t.d. námskeið um sjálfbærni og umhverfismennt. Auk þess kennir Kristín vísindasmiðju, en orðspor hennar á þessum vettvangi hefur farið víða. Góður gaumur hefur verið gerður að námskeiðum hennar annars vegar um kennsluaðferðir leikskóla og hins vegar um yngstu börnin í leikskólanum en einnig sér hún um námskeið í stjórnun í leikskóla þar sem áherslan er á deildarstjórnun.

Sjálf hef ég fengið að setja mitt spor á námið, m.a. með námskeiði sem kennt er á 4. ári um ævintýri og ljóð sem kennsluleið í leikskólastarfi auk þess sem ég ber ábyrgð á tveimur námskeiðum um leikinn. Fleiri áhugaverð námskeið má nefna s.s. námskeið um foreldrasamstarf í leikskólum, um málþroska, um bernskuna og barnið í samfélaginu, barnabókmenntir og fleira.

Vettvangsnám er enn stór þáttur í náminu. Nemar fara í skólaheimsóknir á fyrsta ári, dvelja vikur á vettvangi tvisvar á öðru ári og eru viðloðandi vettvang vormisseri þriðja árs. Nemar i diplómunámi ljúka tveimur slíkum námskeiðum. Að lokum er haustmisseri fjórða árs námstími á vettvangi en vormisser fer svo i rannsóknarritgerð og er því allt fimmta árið nokkuð öðruvísi en árin á undan.

Nemar í leikskólafræðum eru annað hvort í staðnámi eða fjarnámi og er fjarnám í auknum mæli sveigjanlegt nám með takmarkaðri viðveru. Það er einkar ánægjulegt og þakklátt starf að kenna leikskólakennaranemum og oft líflegt í tímum. Það fylgir því alltaf nokkurri eftirsjá að sjá hópana brautskrást og yfirgefa skólann til að hefja starfsferil í leikskólum landsins, eftirsjá en einnig mikið stolt og ánægja.

Það eru margar leiðir færar við kennaradeild HA fyrir þann sem vill verða leikskólakennari eða stunda símenntun. Sem dæmi má nefna að starfandi kennarar geta sótt valin námskeið á meistarastigi í gegnum símenntun HA. Ef þeir kjósa geta þeir lokið námskeiðum á sömu forsendum og aðrir nemar og fengið einingar metnar inn á meistarastigið, kostur fyrir þann sem langar að læra meira en veigrar sér við þeirri skuldbindingu sem það er að skrá sig í meistaranám.

Kennaradeild HA er góður kostur fyrir þann sem hefur hug á að verða kennari eða bæta við sig námi. Aðgengi að kennurum er gott, staðblærinn jákvæður og góður og nemendur gjarnan ánægðir að námi loknu.

annaelisa@unak.is

http://www.unak.is/hugogfelagsvisindasvid/kennaradeild

Heimildir eru m.a. sóttar í heimasíðu HA og bókina Háskólinn á Akureyri 1987-2012 sem kom út árið 2012 í ritstjórn Braga Guðmundssonar og gefin út af Háskólanum á Akureyri, höfundar kafla í bókinni eru fjölmargir.