Forrit (öpp) fyrir leikskólabörn

Á boðstólnum er gífurlegt magn forrita og leikja fyrir leikskólabörn. Það skiptir því miklu máli að velja vel og hafa viðmið til að fara eftir. Sjálf hef ég nokkur atriði í huga áður en ég gef forritum séns. Hið fyrsta er að skoða hver samdi þau og til hvers. Ef höfundar eru viðurkenndir aðillar, sem ég tel traustsins verða, þá gef ég þeim séns. Sem dæmi má nefna fyrirtæki sem hafa á sér gott orð fyrir skapandi nálgun eða háskólar og rannsóknarstofnanir, með þeirri undantekningu þó að ég er ekki í öllum tilvikum hrifin af því hvernig sumir atferlisfræðingar nálgast málefnið og það hefur áhrif á hvernig ég vel forrit og leiki.

Ýmis forrit, stærri og minni, má finna sem efla skapandi hugsun og rannsakandi eðli barna. Þar sem ég veit að fjárhagsáætlanir skóla gera sjaldan ráð fyrir að eytt sé í forrit hef ég reynt að finna forrit sem eru ókeypis eða ódýr. Á síðunni minn Skapandi leikskólastarf er listi yfir þau helstu sem ég hef verið að nota og hef góða reynslu af. Hér verður að gefa þann fyrirvara að ég nota iPad og Apple tölvur og því eru forritin sem ég vel ætluð iOS þó mörg sem ég bendi á séu einnig til ætluð Android.

Mörg forrit sem seld eru sem menntunarfræðileg eða uppeldisleg eru að mínu viti alls ekki þess virði að nálgast þau og ég hvet kennara og foreldra til að vera verulega gagnrýna og eyða ekki tíma barnanna í léleg forrit. Að sama skapi er á boðstólnum fjölmörg forrit fyrir krakka sem eru einhæf og leyfa takmarkaða skapandi hugsun. Munið að tilgangurinn helgar meðalið og ef ætlunin er að fara í gengum æfingu með einni niðurstöðu eða með endurtekningu (drilli) þá duga þessi forrit en eins og þið heyrið er ég ekki hrifin af slíku nema í afar takmörkuðu magni og við sérstakar aðstæður. Gott er einnig að hafa í huga að börn á leikskólaaldri gætu í mörgum tilvikum haft meira gagn af raunverulegum hlutum og þroskaleikföngum en tvívíðri veröld forrita, sérstaklega yngstu börnin. Forrit sem í mörgum tilvikum gera fátt annað en að slökkva á heilabúum á þeim tímapunkti sem framtíðargróðinn felst í að örva og efla heilastarfsemi.

Nýtt forrit þarf að vera þannig að með því að skoða það smástund á að vera ljóst hvernig það virkar. Flókin forrit og óljós eru sjaldan þess virði að setja sig inn í þau nema við sérhæfð verkefni og sérstök (þið munið að nú er ég að fjalla um forrit fyrir leikskólabörn en viðmiðin mín nota ég líka fyrir sjálfa mig og ætlast til að forritarinn kunni vinnuna sína og skapi aðgengileg forrit).

Það kemur fljótt í ljós hvort forrit vekja áhuga barna. Reynslan hefur einnig sýnt mér að börn eru almennt lítið hrifin af tvennu, annars vegar þegar forrit gefa of mikið af leiðbeiningum eða taka fram fyrir hendurnar á þeim með því að sýna hvernig á að leysa verkefnin. Hins vegar vilja börn hafa möguleikann á að gera „vitlaust“, fá að prófa og gera tilraunir sem þau vita að gefa ranga niðurstöðu en allt of fá kennsluforrit gefa þetta svigrúm.

Aldursviðmið eru viðmið, reynsla barna, áhugi og þekking hefur áhrif á hvernig forrit þau þurfa og hve fljótt þau afgreiða ákveðin forrit. Ég er aldrei hrædd við að leyfa börnum að prófa forrit ætluð mun eldri börnum eða fullorðnum, ef þannig stendur á.

Ef forrit eru merkt öðru kyninu sneiði ég hjá því. Forrit eru fyrir krakka, sem sagt alla, og ættu að tengjast grunnþáttum menntunar, námssviðið, þroskaþáttum eða áhugamálum, óháð kyni. Að sama skapi þarf að vera gagnrýnin á hvernig forrit nálgast fjölmenningu og minnihlutahópa.

Vönduð hönnun er lykilatriði. Oft detta hönnuðir í þá gryfju að litadýrðin er úr hófi, smáatiðin stela senunni eða einfaldlega teikningar og hönnun er viðvaningslega unninn. Börn þurfa, og eiga skilið, hið besta og vandaðasta, annað er ekki boðlegt.

Viðmiðin þegar ég skoða forrit eru sem sé eftirfarandi
1. Sá sem semur forritið þarf að vita hvað hann er að gera (þekking á þroska barna, menntun, forritun og hönnun)
2. Forrit þurfa flest að vera ókeypis eða ódýr
3. Skapandi og lærdómsrík forrit eru lykilatriðið (þau felist ekki í mötun eða einhæfum lausnum)
4. Notkunn forrits þarf að vera auðveld (ef ég næ þessu ekki á 30 – 60 sek. Þá hætti ég oftast)
5. Forrit þarf að standast barnaprófið (vekur áhuga fljótt og heldur honum)
6. Aldursviðmið má hunsa
7. Jafnrétti að leiðarljósi
8. Hönnun þarf að vera vönduð

Umrædd viðmið eru mín, út frá þeim menntunarfærðisjónarmiðum sem ég aðhyllist og er eitt sjónarhorn á málefnið og mér að meinalausu þó lesandinn hafi aðra skoðun. Áhugasömum er bent á lista yfir forrit sem ég hef verið að nota á síðunni minni Skapandi leikskólastarf og ég þakka allar ábendingar um gagnleg og áhugaverð forrit, hvort heldur þau passa við viðmiðin mín eður ei 🤓

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s