Kirkjurnar sem hörfuðu undan sovétblokkunum

Eftir opinbera heimsókn til Kóreu vildi Ceaușescu endurgera Bucharest í líkingu við höfuðborg Norður Kóreu, Pyongyang. Í fyrri pistli nefndi ég hvernig stór svæði voru jöfnuð við jörðu til að rýma til fyrir nýbyggingunum og markmiðið að eyða öllum táknum og minningum tengdum fortíðinni. En það sem færri vita er að verkfræðingur að nafni Eugeniu Iordăchescu fann upp aðferð til að færa hús heilu og höldnu (þið getið lesið um það i tenglum hér neðar) og þannig var átta kirkjum bjargað í Bucharest og fimm annarsstaðar sem og hóteli, banka og tveimur íbúðabyggingum, sumum með fólkinu enn inni. Ferðalag bygginganna var mislangt, allt að 300 metrar í þeim tilvikum sem lengst var farið. Kirkjurnar kúra nú í felum undir veggjum blokkanna, utan sjónmáls eins og forsetinn vildi hafa það og þær eru ekki auðfundnar nema þú sért beinlínis að leita að þeim. Sagan segir að forsetinn hafi gefið flutningsleyfi vegna þess að hann var sannfærður um að þetta væri ómögulegt í framkvæmd. Í dag lagði ég upp í leiðangur til að leita að fjórum af þessum kirkjum og borða hádegismatinn úr bréfpoka eins og innfædd

CEC8EBF3-A754-4B4D-A174-8FED340069ED

Fyrsta kirkjan sem við leituðum að og fundum eftir smá labb fram og til baka er
Biserica Mihai Vodă. Sextándu aldar bygging og sú er þyngsta byggingin sem flutt var, um 9000 tonn. Klukkuturninn var einnig fluttur þá 24 metra sem þurfti til að ná honum úr vegi nýbygginganna

Því næst var stefna okkar sett á Biserica Schitul Maicilor en hún er frá 18. öld og var fyrsta kirkjan sem var flutt, ekki minna en 245 metra, árið 1982. Verkefnið tók fimm mánuði. Tuttugu og tvær kirkjur voru á lista yfir byggingar sem mátti flytja en óþolinmæði forsetans olli því að ekki var hægt að bjarga fleirum

Verkfræðingurinn Eugeniu Iordăchescu segir að verkamenn hafi neitað að eyðileggja kirkjurnar og þá hafi fangar verið látnir vinna verkið, eitt sinn með þeim afleiðingum að prestur kirkjunnar lést úr hjartaáfalli við að sjá kirkjuna sína hverfa. Næst styttum við okkur leið frá fyrri áætlun og römbuðum nær viðstöðulaust á kirkju númer þrjú á listanum Mănăstirea Antim en hún er talin gimsteinn, byggð í Brancovan stíl.

Eftir kyrrláta dvöl í forgörðum við kirkjuna steingleymdum við upphaflegri áætlun , að leita að Biserica Schitul Maicilor og stefndum beint að kirkju númer fjögur á listanum mínum, Biserica Sfântul Ilie Rahova

Ég mæli með gönguferð að baki blokkanna sem ramma inn strætið sem liggur að höll fólksins, þar er margt að sjá en áður en ég segi skilið við kirkjurnar sem var bjargað er hér ein að lokum, Sfantul Ioan, hana höfðum við skoðað áður

ABD4C688-CA70-4531-B229-BA1993395431

https://www.theguardian.com/cities/2016/dec/14/bucharest-moved-churches-safety-communist-romania

Communism vs. Religion in Romania: How churches were saved from demolition by a brilliant engineer

Ferða-langurinn: Konurnar og stríðið

Í dag er fæðingardagur merkilegrar konu, hún var fædd 1915, lifði tvennar styrjaldir og lét ekki mikið yfir sér í daglegu amstri, sem nóg var af. Hana dreymdi um að mennta sig en lífið skammtaði henni erfið verkamannastörf, fyrst sem vinnukona á sveitabæ þar sem streðið átti engan endi og síðar við heimilstörf í annara manna húsum auk þess að reka sitt eigið barnmarga heimili. Eftir börnin ellefu enduðum ég og systir mín hjá henni og afa og þannig var nú það

7B714FE8-979A-4498-AB33-49ADB8DE2F39

Deginum hennar eyði ég þetta árið í Rúmeníu. Hér þeysa lögregluþjónar á túrbo-segway um götur gamla bæjarins og lögreglubílar með blikkandi ljós og þær háværustu sírenur sem ég hef heyrt sikksakka á ofsahraða um göturnar. Hávaðinn líklega nauðsynlegur því flautan er sannarlega mikilvægur hluti ökuferða í Rúmeníunni og ég er viss um að flautan og steyttur hnefi er hluti af kurteisis ritúali ökumanna í Bucharestborg. Nú sit ég á kaffihúsi kenndu við Van Gogh og það er klukkutíma bið eftir matnum. Ég þurfti að hugsa mig um þegar þjónninn nefndi biðina. Hér er ég í útlöndum, hef ekkert að gera og taldi það eftir mér að bíða eftir matnum. Hvílík vitleysa og ég sit sem fastast en horfi á vestur evrópubúa koma og fara án þess að borða vegna þess að þeim liggur á. Lífið á ekki að vera það sem gerist meðan þú hleypur um og eltir vindinn, svo hér sit ég og nýt lífsins í Bucharestborg, glorsvöng og hlakka til að fá matinn minn, einhverntímann á eftir

8C2E7DF2-8F44-4630-AC81-D07791BC3383

Þetta er líka dagurinn þegar karlarnir tóku kosningarnar heima svo þessi pistill er eiginlega bara um konur

6E09A0AC-ED21-4CB1-B2C3-6C36F89C4048

Á þjóðminjasafninu um daginn sá ég mynd af konu sem mig langaði að fræðast um og af því ég satt að segja skil afskaplega lítið í rúmönsku, þarf ég að kynna mér sögu hennar betur síðar. Mér hefur hins vegar farið mikið fram í handapati til tjáningar síðan ég kom hingað og TMT (tákn með tali) sem ég lærði þarna um árið hefur nýst mér afar vel í að koma mínu til skila. Fólkið hérna er þolinmótt og gefst ekki upp þó þeir skilji mig ekki strax, ég kann að meta það

Svo þegar heim var komið googlaði ég konuna og komst að því að hún hét Ecaterina Teodoroiu, áður Cătălina Vasile Toderoiu, fædd árið 1894, lést árið 1917. Hún var rúmönsk stríðshetja, barðist í fyrri heimstyrjöldinni sem second Lieutenant, afsakið en ég er ekki innvikluð í herbrölts lyngóið. Hún sem sé var í kennaranámi þegar fyrra stríð hófst en barðist ein örfárra kvenna í heiminum í því stríði og er hyllt í heimalandinu sem hetja, m.a. sæmd heiðursmerkjum fyrir frammistöðu sína. Hún særðist oftar en einu sinni, var tekin til fanga en lét aldrei deigan síga og vakti virðingu samferðamanna sinna. Þegar hún leiddi menn sína í bardaganum sem leiddi hana til dauða á hún, helsærð að hafa sagt eitthvað á þessa leið; áfram menn, ekki gefast upp, ég er enn með ykkur

F919D16E-EDE3-433F-88C7-F992408D0252

Fleiri konur börðust í fyrri heimstyrjöldinni, þ.m.t. Flora Sandes liðsmaður í konunglega serbneska hernum, sennilega eina breska konan sem barðist í fyrra stríði. Sandes var fædd 1876 en lést 1956. Hún var marg heiðruð og þjónaði sem sergent major og síðar sem captein (hef enn ekki lært neitt meira um hernaðar lyngóið og held ég sleppi því bara). Haft er eftir Sandes að hún hafi notið útreiða og veiðiferða í uppvexti sínum og óskað þess heitast að hafa fæðst sem drengur en hvað um það, hún ók gömlum frönskum kappakstursbíl, lærði fyrstu hjálp og fleira gagnlegt áður en hún hélt til Serbíu þar sem hún vann á sjúkrabíl á vegum rauða krossins sem þjónustaði herinn. Sandes varð viðskila við hópinn sinn og til að hafa möguleika á matarskammti, gekk í herinn. Hún kleif metorðastigann, einkum eftir að hún særðist alvarlega í bardaga. Ófær um að berjast meira rak Sandes spílala þar til stríðinu lauk og var fyrst kvenna skipuð officer. Æviminningar sínar skrifaði hún í bókinni:

9ED1AA87-D5B1-41A7-9F24-CAB88162B46B

Eftir stríð gifti hún sig, bjó í Serbíu og ók einum fyrsta leigubílnum í Belgrad. Hún var kölluð til starfa þegar seinna stríð brast á og Þýskaland réðst inn í Júgóslavía en innrásinni var lokið áður en af því yrði að Sandes tæki við skyldum sínum. Hún flutti síðar til Englands og lést þar

Milunka Savić (Милунка Савић) er einnig merkilskona sem kom að stríðsbrölti en hún var fædd 1892 og lést 1973, serbi sem barðist í Balkan stríðinu, líklega mest heiðraða konan sem barist hefur í allri hernaðarsögunni. Þegar bróðir hennar var kvaddur í herinn fór hún í hans stað, klippti af sér hárið og klæddist karlmannsfötum. Fljótt fékk hún heiðursmerki og nafnbótina corporal og ekki uppgötvaðist hvers kyns hún var fyrr en hún særðist í bardaga og þurfti lækninga við. Ég hef áður rekist á tilvitnun í þessa merku konu en gerði mér ekki grein fyrir samhenginu fyrr en núna. Sagan segir að þegar það kom í ljós að hún var kona þótti ótækt að hún tæki þátt í bardaga, jafnvel þó að Savić hefði þegar barist í tíu slíkum. Henni bauðst flutningur í hjúkrunardeild hersins en Savić hafnaði flutningum og sagðist vilja berjast. Officerinn lofaði að hugsa málið og svara næsta dag. Þá rétti Savić úr sér og svaraði- Ég mun bíða. Sagan segir að hún hafi ekki þurft að víða mjög lengi eftir svari. Savić var hermaður og afrekaði m.a. að hertaka 23 búlgara árið 1916 ein síns liðs. Saga hennar eftir stríð er lika merkileg en ég læt þetta gott heita

15EDD850-7F3E-4F6B-A3B5-0890C9B7377C

Síðasta konan sem ég nefni er Sofija Jovanović (Софија Јовановић). Fædd 1895 og látin 1979, önnur serbnesk stríðshetja úr Balkanstríðunum og fyrri heimstyrjöldinni. Jovanović gekk í herinn undir karlmannsnafninu Sofronij og barðist við varnir Belgrad árið 1915 með meiru. Hún hefur verið kölluð hin serbneska Jóhanna af örk en tungumálaörðugleikar valda því að ég get ekki kynnt mér hana betur, hið minnsta að sinni

FE99D16B-FFF5-4853-BAC3-90E7F7B9815A

Um margar kvennanna hafa verið gerðar kvikmyndir. Valið dæmi fyrir ykkur:

https://www.historia.ro/sectiune/portret/articol/legenda-ecaterinei-teodoroiu-ce-spun-arhivele-militare

Lee, J. (2006). „A Nurse and a Soldier: Gender, Class and National Identity in the First World War Adventures of Grace McDougall and Flora Sandes“.

Women’s History Review. 15 (1): 83–103. doi:10.1080/09612020500440903.

Wheelwright, Julie (1989). Amazons and Military Maids: women who dressed as men in the pursuit of life, liberty and happiness. Pandora. ISBN 0-04-440356-9

https://en.m.wikipedia.org/wiki/Women_in_the_military

Ferða-langurinn: Hverfið mitt

Fallegur dagur í Bucharestborg, sólin skín og ég alltof dúðuð eftir napran belginginn í gær. Í dag stefnum við á verslunarmiðstöðina sem ég framan af hélt að væri tónlistarhús, myndin skýrir þann miskilning kannski

BC2D3015-7DEF-4782-99A1-3E20B910AC43

Ferðalagið að heiman hófst með biluðum rennilás á bakpoka sem ég náði að hella öllu úr og troða í annan á einni mínútu sléttri áður en brennt var út á flugvöll. Fljótt kom í ljós að saumur hafði gefið sig á bakpoka númer tvö og fyrirliggjandi að ég þyrfti að kaupa nýja vesku. Á hverjum degi raknaði ögn meira upp af saumnum og að lokum var mér ekki til setunnar boðið, ferð í mall-ið varð ill nauðsyn. Á gönguferðum mínum um borgina hef ég kíkt í margar veskjabúðir en ég komst að því að kvenveski eru töskur sem bornar eru í olnbogabót, líkt og flugfreyjurnar gerðu í auglýsingum Loftleiða hérna um árið. Þau fáu bakpokalíki sem ég sá dugðu rétt fyrir varalit en í bărbați (karla) hippsterbúð fann ég almennilegan bakpoka og er himinsæl með rúmgóða leðurtuðru sem kostaði 140 lei eða rúmar fjögur þúsund krónur. Þegar frá kaupunum hafði verið gengið með formlegum hætti litum við hvort á annað, ég og minn eigin bărbați og sögðum í kór – eigum við ekki að koma okkur út héðan? Jebb, það gerðum við. Merkilegt hvað verslunarmiðstöðvar eru allsstaðar sömu sálarlausu báknin, þar sem fólk streymir áfram á ofurhraða og hávaði glymur á göngunum. Haldið þið að það væri ekki nær að spila Mosart eða einhverja innlenda klassík á rólegu nótunum?

Nú sitjum við og jöfnum okkur … já, á kaffihúsi kenndu við New York og borðum samlokur sem bera nöfnin Philadelphia og Manhattan. Kaffið er fínt og músíkin góð svo hér ætlum við að vera um stund, skrifa og skissa

003D306D-A5EC-4942-B7F1-8A81319DCC23

Byltingartorgið Piata Revolutiei er í bakgarðinum okkar, fyrrum Piața Palatului eða hallartorgið. Það var þar sem forsetinn flutti ræðurnar sem mörkuðu upphaf og endi á ferli hans. Sú fyrri í ágúst 1968 þegar vinsældir hans voru í hámarki og hann fordæmdi innrás rússa í Tékkoslóvakíu og hóf að vinna að pólitískum aðskilnaði frá Kreml. Sú síðari þann 21. desember 1989 þegar reiður almúginn safnaðist saman til að mótmæla yfirgangi forsetans

En það er margt fleira á byltingartorginu. Þar stendur höll sem nú hýsir þjóðlistasafnið. Þar er einnig Rúmanska bókhlaðan, háskólabókasafn og söguleg bygging Arhenee Palace hotel. Við suðurendan kúrir hógvær en gullfalleg lítil kirkja sem ber nafnið Kretzulescu og hýsir trúarhóp kenndan við austur orthodox, rétttrúnaðarkirkja ættuð að austan en ég verð að játa mig sigraða í trúarbragða – tungumálaflækjunni en hitt er víst að bygging kirkjunnar hófst árið 1720 og hún var gerð upp árið 1935. Síðan varð að endurbyggja hana í kjölfar jarðskjálfta 1944 og aftur 1974 sem og eftir byltinguna 1989

Á torginu eru líka fjölmörg listaverk, minnismerki og táknmyndir tengdar stríði, byltingu, hetjum og píslarvottum, Memorialul Renaşterii eða minning um endurfæðingu, sem heiðrar þjáningu og fórnarlömb byltingarinnar (höfundur: Alaxandru Ghilduş)

Byggingarnar hérna eru fjölbreyttar og fallegar, sumsstaðar spila þær einkar vel saman og nýbyggingar endurspegla gömlu húsin. Við mænum töluvert upp húsveggi og tökum myndir af því sem á vegi okkar verður, margt ótrúlega fallegt

Mig langar að segja ykkur frá húsi sem vakti sérstaka athygli mína og hýsir nú verkalýðsfélag arkítekta, já rúmenar hafa verkalýðsfélag fyrir arkitektana sína. Húsið, Casa Paicescu, eyðilagðist í byltingunni og var byggingin sem nú stendur hönnuð af Dan Martin og Zeno Bogdănescu 2002 með það að markmiði að heiðra byltinguna. Fallega er það gert, húsið sem sé


http://rezistenta.net/2007/12/crima-de-la-casa-paucescu.html

Ferða-langurinn: Fátæktin og fólkið

Upp að íbúðinni okkar liggja 111 þrep, þangað gengur einnig lyfta ef áhugi er fyrir hendi en við höfum ekki notað hana síðan fyrsta daginn að við tróðum okkur inn með töskurnar og eiganda íbúðarinnar og ég get svarið að gólfflöturinn er ekki meira en lítill partur úr fermetra. Að auki þarf að loka innri fellidyrum sem taka sitt pláss. Svo sem ekkert að því að nota lyftuna töskulaus en við röltum þetta upp og niður enda veitir ekki af eftir allar kaffihúsaferðirnar sem margar kalla á fíneríis bakkelsi sem biður um að vera borðað. Í dag gengum við langt og mikið, auk fastra liða við að þramma tröppurnar okkar

5450C946-7C04-4F04-8FB4-B0F121B65167

Gönguferð dagsins hófst á ferð austur yfir Bulevardul Nicolae Bălcescu. Þar þræddum við mannmargar götur í hverfi sem mátt hefur muna fífil sinn fegurri. Það er greinilegt að hér er fátæktin meiri en í hverfunum kringum gamla bæinn og mörg húsanna auð og að niðurlotum komin. Mér finnst þetta erfið ganga tilfinningalega og því settum við stefnuna á Piata Universitatii eða háskólatorgið. Torgið liggur um miðja vegu á Bulevardul Unirii, breiðstrætinu sem liggur upp að alþingishúsinu Palatul Parlamentului eða Casa Poporului, höll fólksins eins og hún er kölluð í daglegu tali. Þegar á torgið kom blönduðum við okkur í mannhafið. Rómafólk með allskyns söluvöru í bréfpokum var við hvert fótsporvoru og ófáir voru þeir betlararnir, mis illa til reika, sumir fatlaðir eða með þroskafrávik. Ég á bágt með að lauma ekki aur að ellihrumum konum og fótalausi gamli maðurinn sem ýtti sér um stéttina og bað um ölmusu snerti við mér. Þá hugsa ég heim, i velferðakerfið sem við höfum og þó margt megi þar gera betur og ég er þakklát

031D8FF8-5E45-4999-B723-0276905CC682

Við gengum breiðstrætið til vesturs, í átt að höll fólksins. Hún er minnisvarði um stjórnartíð Ceausescu og eins og ég nefndi í fyrri pistli, ein af stærri byggingum heims. Það þurfti aðkomu 700 arkítekta til að koma 12 hæða bákninu upp úr jörðinni og upplýsingum ber ekki saman um hve margar hæðir eru neðanjarðar, líklega átta. Það er þó á hreinu að kristal ljósakrónan í sal mannréttinda Sala Drepturilor Omului vegur tvö og hálft tonn og í sumum ljósakrónum í höllinni eru 7000 perur. Hann veit hvað hann hefur að gera húsvörðurinn þar. Ég veit þó ekki hvort hann getur nokkuð gert að því að byggingin sekkur í jörð um 6 mm. á ári

Ég geri mér heldur ekki grein fyrir hvort inn í öllum þeim tölum sem nefndar eru er allt svæðið eða bara höllin. Húsin meðfram götunni, svo langt sem augað eygir í austur, sem og boginn sem umfaðmar höllina, eru gífurlega mikil mannvirki þó auðvelt sé að horfa fram hjá þeim þar sem þau kúra undir ferlíkinu. Mér finnst það mikilfenglegt en áferðafagurt er það ekki. Byggingin sú er sem sé önnur, þriðja eða fimmta stærsta bygging í heimi, allt eftir því út frá hverju er reiknað (flatarmáli, grunnfleti eða þyng). Rekstrakostnaður á ári við hita og rafmagn í höll fólksins er á við meðalstóra borg. Talið er að á milli 20.000 og 100.000 manns hafi að jafnaði unnið að byggingunni, stundum á þremur vöktum og hún krafðist margra mannslífa, ég las á einni sögusíðunni að líklega hafi um 3000 manns fórnað lífi sínu við bygginguna. Því má ekki gleyma þegar dáðst er að hugviti mannanna

C3B881DC-B162-4667-8B55-4F273CC63EFC

http://edition.cnn.com/travel/article/ceausescu-trail-bucharest-romania/index.html

https://www.dcnews.ro/mobile/peste-ce-s-a-construit-casa-poporului-vezi-imagini-din-1982_386644.html

http://www.gandul.info/magazin/casa-poporului-se-scufunda-in-sol-in-fiecare-an-ce-spun-specialistii-despre-acest-fenomen-13739642

F5730C52-88F1-4A5B-A584-644D8FA60EF0

Ferða-langurinn: Átök um mannanna vonsku

Löbbuðum inn á matsölustað þar sem hægt var að velja eitt og annað mis kunnuglegt og blanda við meðlæti að eigin vali. Þjóninum þótti ég heldur létt á fóðrinu og skellti einni sleifarfylli af kartöflumús á diskinn minn í lokin og hristi hausinn yfir mér, músin sú var brimsölt og ekki hið minnsta sæt svona til samanburðar við þessa íslensku. Fyrir herlegheitin, mat fyrir tvo og hálfan, því Arnar langaði að prófa tvennt, og drykki með, borguðum við 33 lei eða um 1000 kr. Enduðum á kaffihúsi í lok dags og ég skrifa þessar línur meðan Arnar skissar og notar til þess kaffið sitt. Ég er markvisst að skrifa mig frá öðru því sem við gerðum í dag því ég er enn að melta upplifun dagsins sem hófst á þjóðminjasafni rúmena Muzeul National de Istorie al Romaniei. Þar er heilmikið léttmeti að skoða svo sem byggingar og skart frá rómverjum ofl. en einn hluti safnsins er tileinkaður fyrra stríði. Þeir víla ekki fyrir sér rúmenar að sýna myndir af vígvelli og endurgera svo hryllingurinn verður ljóslifandi

Verð að viðurkenna að ég hafði gott af að sjá ófegraða myndina sem sett var upp. Stríð eru aldrei falleg og það var gott fyrir sálina að ganga meðfram síkinu að safnaferðinni lokinni. Umferðin er aðdáunarverð, ég get engan vegin skilið hvaðan sumir bílarnir koma eða hvert þeir eru að fara. Bílum er lagt þar sem er pláss, sama hvort það lokar aðra inni eður ei. Lögreglan flautar og veifar til að létta umferðatafir á fjölförnum gatnamótum en ekki get ég séð að það breyti miklu

Síðan lá förin að minnismerki rúmena um helförina Stiftung Denkmal en frá Rúmeníu voru hundruð þúsunda fluttir í útrýmingabúðir og á hverri hlið minnismerkisins er hluti úr orðinu ZACHOR eða MUNUM. Höfundur verksins er Peter Jacobi, þýskur listamaður ættaður frá Transylvaníu. Engin þjóð önnur en þjóðverjar ber ábyrgð á fleiri lífum gyðinga en rúmenar og í minnismerkinu, sem er mótað í líkingu gasklefa, er ætla að sýna viðurkenningu þjóðarinnar á hlut sínum í helförinni en um 300- 380.000 gyðingar og rómafólk var flutt í útrýmingarbúðir á vegum rúmanska ríkisins. Við minnismerkið má lesa um hvernig fólkið var flutt burt eins og búfé og kirkjugarðar gyðinga hreinsaðir af minnismerkjum sem seld voru til annarra nota. Í sýningargluggum eru örfáir legsteinar sem hægt var að endurheimta eftir stríð. Utan við klefann má finna rústrauð listaverk, bæði Davíðstjörnu og vagnhjól til minningar um fórnarlömbin, gyðingana og rómafólkið. Inn í minnismerkinu er sérstök stemming og ljósið spilar á veggina í gegnum sérhannaða gluggana í loftinu. Ég gat engan vegin hugsað mér að taka mynd þarna inni en vel er hægt að fletta minnismerkinu upp og sjá ljósmyndir, kannski fer ég þarna aftur síðar

Við vígslu minnisvarðans árið 2009 sagði Traian Basescu forseti það skyldu þjóðarinnar að viðurkenna þjóðernishreinsanirnar og sýna fórnarlömbunum virðingu með því að muna. Á þeim tímamótum voru einungis 5700 gyðingar búsettir í landinu en fyrir seinna stríð voru þeir 800.000 augljós afleiðing sögunnar. Á sínum tíma lagði Nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel sitt af mörkum til að vekja fólk til vitundar um mikilvægi þess að taka ábyrgð á helförinni, Wiesel lifði sjálfur af dvöl í Auschwits og Buchenwald og var sextán ára þegar Buchenwald var frelsað og um upplifun sína skrifaði hann bók sína Night sem hefur verið gefin út á ótal tungumálum. Bækurnar Dawn og Day komu í kjölfarið og fjalla um aðlögun að lífi eftir helför. Wiesel er nýlátinn

B1F3C228-0CF0-4F11-AB65-132C9A9D989E

Baráttan fyrir viðurkenningu á voðaverkunum í stríðinu var torsótt og í raun við ramman reip að draga því þjóðin er klofin í viðhorfi sínu til stríðsins. Ian Antonescu hershöfðinginn sem bar ábyrgð á ákvörðunum um þjóðernishreinsunina er af mörgum Rúmönum enn dáður fyrir framgöngu sína í stríðinu og baráttu hans gegn Sovétríkjunum. Sá hluti sem hann átti í ofsóknum gegn gyðingum og rómafólki flækir málin. Það er erfitt að viðurkenna að sami maðurinn geti bæði unnið ótrúleg þrekvirki og óskiljanleg illvirki. Í greinum og viðtölum sem ég hef lesið er lausnin og svarið oft talið felast í menntun, að tekið sé markvisst á öllum hliðum sögunnar í skólakerfinu. Þannig megi halda því til haga sem gerðist í stað þess að reyna að gleyma. Staðreyndin er hins vegar sú að um 10% rúmena vilja ekkert með gyðinga hafa að gera. Sannarlega er helförin hluti af námsefni skóla og í gildi lög gegn því að viðurkenna ekki helförina en mesta hættan, segir Alesandru Climecku sagnfræðingur er fólgin í að aðdáun á þeim er að ofsóknunum stóðu hvort sem þeir eru taldir píslarvottar eða hetjur

2AC9DA2E-1B50-414D-932D-1F273AD04939

Strax við vígslu minnismerkisins heyrðust gagnrýnisraddir sem sögðu hneysu að meira væri gert úr hönnuði verksins en þeim sem það ætti að heiðra. Á skilti við innganginn er hvergi minnst á hve margir dóu heldur er listamaðurinn mærður en þagað um fórnarlömbin. Árið 2016 skrifar Mihaela Rodin grein þar sem litið er yfir tregðu rúmena til að horfast í augu við hlut sinn í þjáningu þeirra er lifðu af og mikilvægi þess að viðurkenna að illvirki var framið. Hluti vandans sé fólgin í að engin rúmeni var nokkru sinni sóttur til saka fyrir þátt sinn í helförinni. Hér er texti sem dæmi um hvað hefði átt að standa á plattanum umdeilda:

1927AF40-0C6E-41D6-BB89-2ED5E5D0990E

Styrjaldir og ofsóknir eru íslendingi sem býr á Íslandi framandi en þegar hvoru tveggja er ljóslifandi á hverju horni er vart annað hægt en að velta fyrir sér hvað drífur mannlegt eðli áfram. Það er áratuga löng hefð fyrir að láta þjóðverja bera alla ábyrgð á helförinni og tala um hana sem eina dæmið um þjóðernishreinsanir meðan þær eiga sér stað leynt og ljós víða um heim. Fólk eins og við verður skyndilega eitthvað annað en fólk og kemur mér ekki við lengur, á ekki lengur rétt á grundvallar mennsku eða reisn og með einhverju því móti er hægt er að fyrra sig allri samfélagslegri ábyrð, láta sér á sama standa. Í því viðhorfi liggur mikil hætta og ég sé ríkjandi einstaklingshyggju og nýfrjálshyggju sem þátt í vandanum, hyggjur sem felast í því að horfa á sjálfan sig fremur en aðra, ota sínum tota og skara eld að eigin köku hvaðan svo sem eldurinn er tekinn og hverjum sem svo verður kalt í kjölfarið

http://isurvived.org/InTheNews/HolocaustMemorial-Romania.html
https://www.timesofisrael.com/romania-struggles-to-confront-holocaust-past/

Ferða-langurinn: Dýralífið og nostalgían

Fyrsta morgunin vaknaði ég við torkennilegt hljóð og lagði upp í leiðangur til að kanna hverju sæti. Komst þá að því að á syllunni utan við baðherbergisgluggan búa önnur hjón, fiðruð og að mestu grá á fjaðrir. Við nefndum dúfnaparið Jón og Gunnu og við borðum öll morgunmat saman áður en haldið er út í daginn. Á kvöldin þarf ég svo að muna að loka þeim hurðum sem á milli okkar eru til að vakna ekki þegar Jón og Gunna kalla til okkar í morgunsárið. Að öðru leyti eru pöddurnar hérna betur aldar en heima, a.m.k. eru þær sjónarmun stærri blessaðar og ég er bara fegin að það er komið haust i Bucharestborg

Þar sem ég í sakleysi mínu sit og sötra annan eða þriðja kaffibolla dagsins og narta í dýsætt og torkennilegt bakkelsi sem örugglega var ætlað fleiri en einum, hljómar í hátalaranum innslag og í huganum syng ég með “ljósin á ströndu skína skær, skipið það færist nær og nær og þessi sjóferð endi fær, ég fer í fríið …” Textinn er reyndar allt annar en kunnugleikinn er notalegur og ég get ekki annað en brosað út í annað meðan ég horfi út um gluggan á fólkið ganga hjá. Ykkur leikur kannski forvitni á að vita að múffan og kleinuhringurinn á diskinum mínum er selt sem “MINI” og þau koma í pörum, tveir kleinuhringir og tvær múffur, ég afþakkaði helmingin og velti fyrir mér hvernig ekki “mini” er

C3E74E3F-7302-4C89-BCFF-B67476921895

Á öðru kaffihúsi, á öðrum degi hefur rúmanskur Bjöggi upp rödd sina og syngur ástarlög, ég get svarið að ég skil textann og ég raula með og dilla mér ögn í stólnum, ekki mikið og ekki áberandi en það er bara ekki hægt annað en vera léttur i lundu og heimilisleg stemmingin yljar inn að hjartarótum. Textinn er örugglega eitthvað á þessa leið:

Með þér

Í klisjum ég syng
og allt um kring
er ást
með þér

með þér er allt bjart
og aldrei neitt svart
bara ást
með þér

Ég elska eina þig
og þú ein átt mig
eilif ást
með þér

Glimmer og glans
ég býð þér upp i dans
og ást
með þér

Já, svona var nú textinn sá, ég lýg engu um það, álíka djúpt kveðið og margt sem heyrist í útvarpinu heim

38FA3A73-2C4E-4570-861B-0409625542E9

Nú hef ég þvælst um gamla borgarhlutann (old town) suður og vestur. Helst vekur athygli mína að á neðstu hæð húss getur verið fínasti veitingastaður þó aðrar hæðir séu illa til reika. Velviðhaldið hús milli tveggja sem verulega þyrftu aðhlynningar við er algeng sjón og mér finnst við heima gætum lært margt af nýtni og nægjusemi rúmena. Allsstaðar eru litlar einingar í alskyns rekstri og Arnar bíður spenntur eftir að hárið á honum vaxi ögn svo hann geti farið á rakarastofu, ég lofa að elta og mynda herlegheitin.

Var ekki annars komin tími á aðra svona

8A1463A7-A329-4DDF-86A3-7AC342FD4A37

 

Ferða-langurinn: Áskoranirnar

Gaman hef ég af að vera útlendingur, sérstakleg ef ég stend sjálfa mig að heimóttarskap. Vona að þið hafið eins gaman af þessu og ég:

1. Leitaði dauðaleit að bílbelti í leigubílnum, varð að játa mig sigraða. Þjáðist af óútskýranlegu samviskubit alla ferðina auk þess að bíða með lífið í lúkunum eftir að bílstjórinn stefndi ferðinni í voða enda vildi hann benda okkur á allt sem merkilegt gat talist á leiðinni og vílaði ekki fyrir sér að stoppa til að gefa okkur tækifæri til myndatöku, á fjölförnum gatnamótum, í miðju hringtorgi! Ég hafði mig alla við að flýta mér við myndatökuna og afþakkaði kurteislega þegar hann baust til að ljósmynda fyrir mig, þráði helst það andartak er bílarnir í kring hættu að flauta á okkur. Ríghélt í svaninn sem ég hafði um hálsinn eins og hann gæti bjargað mér ef illa færi. Á ferðinni með mér eru nefnilega hvorki meira né minna en þrír fuglar överpisins  (https://www.facebook.com/emberskart/?fref=ts)

1114F651-A299-4D0D-B007-E77C83441B95

2. Fyrsta innkaupaferðin í nýlenduvöruverslun var langt í frá að vera markviss. Hvergi fann ég Bragakaffi og engar vörur frá MS heldur. Leitin að Trópí var líka árangurslaus. Ég ráfaði stefnulaust um búðina, reyndi að ráða í rúnaletur Rúmönskunnar og var hálf umkomulaus. Kom þó að lokum heim með unt, lapte, brânză, suc, uht og cafea. Ég er viss um að þið vitið hvað hið minnsta eitt af þessu þýðir og suc er ekki sykur, bara ef þið helduð það. Keypti mér almennilega kaffikönnu og bolla enda er lífið of stutt fyrir vont kaffi, svo ég vitni í lífsmottó frumburðarins

3C6E9C64-A39C-4DA8-A709-9AD7C72D903F
3. Hér er ENGIN endurvinnsla í boði, ENGIN. Ég geng um með þjakandi króniska samúð með móður jörð, sé í hugskoti mínu jöklana bráðna og Kyrrahafseyjar fara undir vatn og það er allt mér að kenna, ALLT. Að auki er lífshættulegt að henda rusli hérna. Arnar fórnar sér fyrir málstaðinn en eins og áhöfn kútter Haraldar sneri hann aftur og engin dó en við eigum líklega eftir að þurfa að henda rusli oft áður en heim er haldið svo það er of snemmt að fagna mikið. Ég gaf honum samt kaffi þegar hann kom aftur og spurning með að splæsa í víski fyrir næstu ferð. Til að setja myndina í samhengi er engin fyrirstaða, örmjó sylla, ég ýki ekkert ægilega mikið, og við upp á sjöundu hæð, eða Arnar sko og þar er ekkert pappahandrið á okkar hæð eins og sjá má á myndinni við eina ruslasylluna, né heldur hlið eins og er efst en þetta er nú ruslasyllur nágrananna vestan megin við okkur og engin svona lúxus okkar megin, hreint ekki. Jamm, þau eru hættuleg húsverkin í Rúmeníu

322D9C75-E9BB-4E63-A815-C03B51A1539E
4. Kaffið og kökurnar eru kapítuli út af fyrir sig. Það var ákveðin vísbending að flugfreyjurnar sem framreiddu kaffi í vélinni yfir Þýskalandi réttu fólki vatn í glasi og smá duft með. Annars höfum við fengið ágætt kaffi inn á milli, hræódýrt og ágætt. Ég er ekki viss um að ég ráði við íslenska kaffiogmeðþví verðlagið heima eftir að borga fjórfalt minna fyrir hið fyrrnefnda og marfalt minna fyrir hið seinna. Það skýrist við heimkomuna

07C8E140-1705-4B5F-823D-17A96D59336C
5. Íslendingurinn í mér vill hafa hátt til lofts og vítt til veggja. Það er svo sem álíka langt upp hér og heima en það munar víða miklu með yfirsýnina. Eitthvað djúpt í sálinni lítur þröng húsasund hornauga og tröllasögur fá nýjan skilning. Ég get alveg séð skessuna sem elti Búkollu þarna um árið festast að eilífu í þrengslunu í gamla bæjarhlutanum í Bucharest þar sem engin kemst yfir nema fuglinn fljúgandi

FC71D1C3-0B3F-435C-8199-474C29F85FA9
6. Fleira er hér i öðrum skala en ég er vön, að ég segi nú ekki bara öðruvísi en HEIMA. Á leið minni urðu þrep svo há að vel kæmi sér að vera 180 a hæð eða kloflangur mjög, til að ráða við þau án tilhlaups. Hér hefði Velbergklifrandi fundið sig heima þó spurning sé með bræður hans aðra. Dyragættir eru sumar svo þröngar að sæta verður lagi að gera að þeim atlögu en allt hefst þetta nú á endanum og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að “þetta reddast” dugar bara vel við allar aðstæður, líka þegar regnið breytir götunum í fljót og regnhlífarnar þjóta mannlausar fyrir götuhorn

98C3787D-64AB-4173-8663-099DACFA7EC2

Í dag afrekaði ég að ganga framhjá HogM, gleyma að borga kaffibolla á kaffihúsi, láta næstum keyra á mig á götuhorni og kaupa mér skyssubók. Sumt var gaman. Fór líka inn í eina souvenir búð af forvitni og kom út með smáhluti sem eru þeim göldrum gæddir að þeir hætta að vera merkilegir um leið og þeir og þeir yfirgefa búðina. Svona er heimurinn skrítinn (ekkert kaffihús bar skaða @f gerð þessa innleggs)

Ferða-langurinn: Meira um söguna og fólkið

Á einni göngu minni hitt ég eldri mann, Aurelius. Hann gekk að mér og sagði frá minnismerkinu sem við stóðum hjá, sá vissi eitt og annað og kunni sögur úr byltingunni. Á svölunum þarna, sagði hann og benti, hélt Ceaușescu siðustu ræðu sína og við fánann þarna uppi lenti þyrlan sem flutti hann á brott er byltingin náði hámarki. Hann starði dapur upp á bygginguna, fastur i minningu um erfiða tíma

Aurelius er prófessor í tungumálum og eftir að hafa spurt að ætterni dró hann upp spjald með norskri áritun, út reiknuðu og kortlögðu eins og aðeins málvísindafólk getur farið með fallegan texta. Hann spurði hvort við íslendingar skildum almennt norskan texta og var hissa þegar það vafðist ekki fyrir mér að lesa nokkuð viðstöðulaust það sem á blaðinu stóð. Hann var forvitin um íslenskan framburð og við áttum ágætis spjall þó þekking mín á málvísindum sé ósköp grunn. Sumir hætta aldrei að rannsaka og uppáhalds- útlendi starfurinn hans, þá stundina kannski, var æ og hann var forvitin um hvort við þekktum til kauða, jú, jú það viðurkenndi ég. En allt svo, þá fékk ég líka að heyra hvað það er þýðir að hafa ekki félagslegt kerfi í landi þar sem tengsl og peningar skipta meira máli en fólk og margt hafði Aurelius að segja. Hann var óvænt ánægja á fyrsta heila deginum í Bucharest og sögunum hans um byltinguna, byltingahetjurnar og lífið í Rúmeníu lifa með mér áfram ekkert síður en samúð hans með afdrifum forsetahjónanna hötuðu

Þið tókuð kannski eftir að ég kynnti Aurelius sem eldri mann, fyrir því er ástæða. Við fyrstu sýn virtist hann áratugum eldri en við og hann vísaði til okkar sem mikið yngri, það kom svo í ljós að hann var ekki svo mikið eldri en ég. Lífið fer svo sannarlega misvel með fólk þó Arnar minn segi ástæðuna þá að við Íslendingar séum geymd á ís megnið úr árinu og geymumst því einkar vel. Ég óska Aureliusi alls hins besta en samtal okkar minnti mig á hve merkilegt mér þótti að lesa um forsetafrúna Elena, sem var lítið menntuð en skapaði sér nafn sem vísindamaður. Rannsóknirnar gerðu aðrir, greinarnar skrifuðu þeir líka. Þegar frúin kynnti niðurstöður sínar gerði hún það með aðstoð túlks sem í raun var sá sem þekkti efnið og svaraði spurningum. Þetta var löngu fyrir tíma google transelate ef sagan vakti hjá ykkur einhverjar vafasamar hugmyndir. Karl Elenu aftur á móti fór á plat veiðar, skaut birni sem höfðu verið svæfðir áður og þannig gat hann veitt að vild, það var auðvitað regla að enginn mætti veiða fleiri dýr en forsetinn. Óneitanlega minnir þetta á veiðisögu af öðrum forseta, sá var bandarískur og gekk heldur illa í veiðiverð eitt sinnið. Fylgdarmönnum hans þótti það smánarlegt, veiddu björn og bundu hann við tré til að auðvelda drápi og létta af skömm forsetans. Hann hinsvegar neitaði að skjótta varnarlaust dýrið og í kjölfarið varð fyrsti bangsinn til og hét i höfuð forsetans, Teddý bear. Forsetinn var Theodor Roosvelt og árið 1902. Teddy fékk fljótlega andlitslyftingu, bangsinn sko, enda þótti hann full raunverulegur í framan og mýkri ásjóna talin ólíklegri til að hræða lítil börn

Svo öllu sé haldið til haga var á sama tíma framleiddur bangsi í Evrópu, sá var þýskur og hét því óvirðulega nafni Bear 55 PB, síðar framleiddir undir merkinu Steiff. Steiff bangsarnir skera sig úr því þeir eru eyrnamerktir en nóg um það og yfir um hafið því Bretar sigldu síðan í kjölfarið með sinn kuddlemee bangsa en nú er ég komin langt frá efninu, svo segjum þetta gott í bili en smá myndasería i lokin til að setja punktinn yfir i-ið

960320AE-C3D9-4C4B-AFED-F465247DE21C.jpeg

Ferða-langurinn: Sagan og fólkið

1F74DCFB-6B40-4383-AE6A-220BDEB706E0Það er skrítið fyrir aðkomumann að heyra fólk skilgreina sögu sína í fyrir eða eftir byltinguna. Fyrir byltingu réð forseti ríkjum … Nicolae Ceaușescu og valdatíð hans hófst svo sem vel en fljótt sýndi ríkisstjórn hans vald sitt og stalínskum tilburðum hennar slógu fáir við. Leynilögregla njósnaði leynt og ljóst um almenning, og mannréttindi og málfrelsi var fótum troðið, heljartök þeirra á fjölmiðlum áttu sér vart hliðstæðu. Efnahagsleg stjórn var völt og erlendar skuldir landsins margfölduðust. Til að standa straum af greiðslum skulda var lagst í stórfelldann útflutning á auðlindum landsins, þ.m.t. nauðsynjum sem kom afar hart niður á almenningi. Í desember 1989 tók steininn úr þegar herinn réðist gegn fólkinu með þeim afleiðingum að margir lágu í valnum. Almenningur fékk nóg og afleiðingin var Rúmenska byltingin. Ceaușescu og frú Elena flýðu höfuðborgina en voru handtekin, yfir þeim réttað og þau dæmd til dauða fyrir efnahagsleg skemmdarverk. Byltingin kostaði hundruð mannslífa en þessi tvö eru þau sem sagan heldur helst til haga

Á vegi mínum varð skrafhreyfinn og fróður leigubílstjóri. Hann fræddi okkur um borgina og benti á merkisstaði á för okkar og vissi bara þó nokkuð mikið um söfn og minnismerki. Það sem mér þótti þó merkilegast var þegar hann ræddi um valdatíð Ceaușescu. Hann var þeirrar skoðunar að það væri tímabil sem ætti sér góðar hliðar. Bílstjórinn var örugglega fæddur i kringum þann tíma er valdatíð Ceaușescu lauk og alin upp í Rúmeníu nútímans en hann var stoltur af borginni sinni og ánægjulegur ferðafélagi. Í Gardian var nýlega grein um Rúmeniu þar sem fram kom (https://www.theguardian.com/world/2014/dec/07/romanians-seek-a-reborn-revolution-25-years-after-ceausescu) að þriðjungur fólks fædd eftir 1989 telur að lífið hafi verið betra í valdatíð forsetans en núna og ástæðan talin sú að unga kynslóðin hafi ekki skýra sýn á ástandið í landinu í valdatíð forsetans enda er lítið sem ekkert um hana fjallað í skólum og því telja margir að þurfi að breyta

91D5922B-D6C4-4AD8-9FDB-0B0C292C5E90

Ceaușescu kom miklu í verk á valdatíð sinni og eitt af verkefnum hans var Centrul Civic eða The Civik center sem er átta ferkílómetra stórt svæði í miðborg Bucarest og var endurbyggt í kringum 1980. Þar stendur nú kumbaldurinn the Palatul Parlamentului önnur stærsta byging í heiminum, sem Breska Top Gear gerði svo eftirminnilega fræga þegar þeir keyrðu bíl um neðanjarðarganga tengda höllinni, gamla Top Gear gengið allt svo, þetta nýja nær ekki með tærnar sem þeir höfðu hælana en ef einhvern langar að kikja á valið atriði úr Rúmeníuferð þáttarins og hávaðann sem þeir framleiddu í höll fólksins þá má sjá brot hér: https://m.youtube.com/watch?v=3-tgeaOpIWQ

Hluti af sósíalískri áætlun forsetans, ég er aftur komin í upprifjun á sögu Rúmeníu, fólst í að fjölga þjóðinni um helming, saga sem vert er að mæna í út frá jafnréttissjónarmiðum og kannski geri ég það síðar en aftur að uppbyggingunni sem varla stóð þó undir því nafni vegna þess að framkvæmdirnar fólu m.a. í sér að leggja niður óhagkvæmar, lesist fámennar byggðir, iðnvæða .. eða eins og hugmyndin var … nútímavæða lífvænlegri svæði og þetta þýddi að stór svæði voru jöfnuð við jörðu og byggð upp í anda kerfisvæðingar forsetans. Þess má í framhjáhlaupi geta að á bernskuslóðum forseta var æskuheimil hans eina bygginginn sem fékk að standa. Hvert allt fólkið fór er svo enn önnur sorgarsaga en áætlað er að um 40.000 manns hafi verið fluttir hreppaflutningum í aðgerðunum oft með litlum sem engum fyrirvara

2C66DBEA-E714-48F9-82EF-E01F57075090

Í Bucharest voru sögufrægar byggingar jafnaðar við jörðu, 20 kirkjur, 3 sýnagógur og 3 spítalar ásamt art deco íþróttamannvirki sem ekki átti samleið með hugmyndafræðinni eða voru hið minnsta fyrir. Stærsti minnisvarðinn um uppbygginguna þar er bókstaflega Palatul Parlamentului, eða höll fólksins, byggð með blóði, svita og tárum alþýðunnar. Hús sem án efa er ýktasta dæmið um sjálfsminnisvarða sem ég hef augum litið. Upp að herlegheitunum liggur Stræti hins sósíalska sigurs sem eftir byltingu heitir Bulevardul Unirii (Union) og hefur verið fært í það horf að líkjast Champs-Ėlysées í París

Og áður en ég segi skilið við leigubílstjórann minn þá vildi hann að þið vissuð hve mikið gagn þjóðin hefði í raun haft af því sem eftir stendur frá valdatíð forsetans og nefndi 73 km langan kanalinn sem nær frá Bucharest til Danube og opnar leið út í Svarta hafið, sem dæmi og ekki mætti heldur gleyma lestarkerfinu sem væri forsetanum fyrverandi að þakka. Margar túristagildrurnar, bæði hús og söfn, væru tengdar einræðistímanum og þættu sögulega merkilegar, ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Mér finnst hins vegar mikilvægt að muna að uppbyggingin kostaði mikla eyðileggingu söguminja í ofanálag við það sem fólkið varð að þola

AB348681-C57C-4110-BF7B-A18895F32F11

Ferða-langurinn

Nú legg ég upp í leiðangur í góðum félagskap. Stefnan sett á stað sem ég aldrei komið á áður og það er alltaf spennandi. Það sem er þó meira gaman er að ég ætla að vera þar í mánuð. Þeir sem nenna mega gjarnan fylgjast með ferðalaginu hér (og svo deili ég stundum á fésið ef mér sýnist svo…) en ég gleymdi að segja ykkur að kallinn er með mér… ekki amarlegt það….

Fyrsti áfangi ferðarinn hófst á að betla í besta mínum (smá smjaður því ég þarf að eiga inn annað betl þegar ég kem heim) jamm, besta tengdasyni mínum. Hann skutlaði okkur á Akureyrarflugvöll og þaðan vorum við enga stund til Reykjavíkur, hvílíkur lúxus. Af velli gengum við á BSÍ og þar erum við núna … og áðan … og verðum á eftir…  en allt svo ferðin er hafin. beðið eftir rútu til Keflavíkur þar sem við leggjumst á okkar græna eyra áður en við mætum á flugvöll til að fljúga út í buskann.

 

Það er sérstök upplifun að fara um flugvelli, sérstaklega þá stærri. Ráðvilt fólk reynir af alefli að koma fyrir eins og það viti hvað það er að gera og fetar óvissustigu flugstöðvanna og flækjustigið er töluvert. Að auki er líklegt að búið sé að breyta flugstöðinni frá síðast og óskrifuðu reglunum líka. Þegar vígi innritunar og öryggisleitar eru loks sigruð léttist brúnin og við tekur áskorunin um að forðast að líta í augun á nokkrum manni. Hafsjór af fólki á hraðferð, þar til allt í einu það uppgötvar að ekkert liggur á. Vélin fer ekki nærri strax og ekki einu sinni komnar upplýsingar um hvaða hlið á að stefna á.

Flugstöðvar eiga sitt eigið tungumál og af og til senda kallkerfin frá sér muldur sem engin heyrir og sjá má stressið bylgjast í gegnum mannhafið, fólk lítur ráðvillt upp, horfir í kringum sig og að lokum til himins þegar engin svör finnast annars staðar: Hvað sagði konan? Kom þetta mér við? … og ég velti fyrir mér afhverju svona tilkynningar birtast ekki á skjá til að létta lífið eina agnar ögn. Fæ mér kaffi á meðan ég raða sama slitrum úr síðustu tilkynningu, finnst eins og ég sé að missa af einhverju…

8F7DD989-C414-4D1E-A218-02320DABF4B9.jpeg

en Heathrow, þar er ekkert óljóst og þjónustan framúrskarandi