Ferða-langurinn: Átök um mannanna vonsku

Löbbuðum inn á matsölustað þar sem hægt var að velja eitt og annað mis kunnuglegt og blanda við meðlæti að eigin vali. Þjóninum þótti ég heldur létt á fóðrinu og skellti einni sleifarfylli af kartöflumús á diskinn minn í lokin og hristi hausinn yfir mér, músin sú var brimsölt og ekki hið minnsta sæt svona til samanburðar við þessa íslensku. Fyrir herlegheitin, mat fyrir tvo og hálfan, því Arnar langaði að prófa tvennt, og drykki með, borguðum við 33 lei eða um 1000 kr. Enduðum á kaffihúsi í lok dags og ég skrifa þessar línur meðan Arnar skissar og notar til þess kaffið sitt. Ég er markvisst að skrifa mig frá öðru því sem við gerðum í dag því ég er enn að melta upplifun dagsins sem hófst á þjóðminjasafni rúmena Muzeul National de Istorie al Romaniei. Þar er heilmikið léttmeti að skoða svo sem byggingar og skart frá rómverjum ofl. en einn hluti safnsins er tileinkaður fyrra stríði. Þeir víla ekki fyrir sér rúmenar að sýna myndir af vígvelli og endurgera svo hryllingurinn verður ljóslifandi

Verð að viðurkenna að ég hafði gott af að sjá ófegraða myndina sem sett var upp. Stríð eru aldrei falleg og það var gott fyrir sálina að ganga meðfram síkinu að safnaferðinni lokinni. Umferðin er aðdáunarverð, ég get engan vegin skilið hvaðan sumir bílarnir koma eða hvert þeir eru að fara. Bílum er lagt þar sem er pláss, sama hvort það lokar aðra inni eður ei. Lögreglan flautar og veifar til að létta umferðatafir á fjölförnum gatnamótum en ekki get ég séð að það breyti miklu

Síðan lá förin að minnismerki rúmena um helförina Stiftung Denkmal en frá Rúmeníu voru hundruð þúsunda fluttir í útrýmingabúðir og á hverri hlið minnismerkisins er hluti úr orðinu ZACHOR eða MUNUM. Höfundur verksins er Peter Jacobi, þýskur listamaður ættaður frá Transylvaníu. Engin þjóð önnur en þjóðverjar ber ábyrgð á fleiri lífum gyðinga en rúmenar og í minnismerkinu, sem er mótað í líkingu gasklefa, er ætla að sýna viðurkenningu þjóðarinnar á hlut sínum í helförinni en um 300- 380.000 gyðingar og rómafólk var flutt í útrýmingarbúðir á vegum rúmanska ríkisins. Við minnismerkið má lesa um hvernig fólkið var flutt burt eins og búfé og kirkjugarðar gyðinga hreinsaðir af minnismerkjum sem seld voru til annarra nota. Í sýningargluggum eru örfáir legsteinar sem hægt var að endurheimta eftir stríð. Utan við klefann má finna rústrauð listaverk, bæði Davíðstjörnu og vagnhjól til minningar um fórnarlömbin, gyðingana og rómafólkið. Inn í minnismerkinu er sérstök stemming og ljósið spilar á veggina í gegnum sérhannaða gluggana í loftinu. Ég gat engan vegin hugsað mér að taka mynd þarna inni en vel er hægt að fletta minnismerkinu upp og sjá ljósmyndir, kannski fer ég þarna aftur síðar

Við vígslu minnisvarðans árið 2009 sagði Traian Basescu forseti það skyldu þjóðarinnar að viðurkenna þjóðernishreinsanirnar og sýna fórnarlömbunum virðingu með því að muna. Á þeim tímamótum voru einungis 5700 gyðingar búsettir í landinu en fyrir seinna stríð voru þeir 800.000 augljós afleiðing sögunnar. Á sínum tíma lagði Nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel sitt af mörkum til að vekja fólk til vitundar um mikilvægi þess að taka ábyrgð á helförinni, Wiesel lifði sjálfur af dvöl í Auschwits og Buchenwald og var sextán ára þegar Buchenwald var frelsað og um upplifun sína skrifaði hann bók sína Night sem hefur verið gefin út á ótal tungumálum. Bækurnar Dawn og Day komu í kjölfarið og fjalla um aðlögun að lífi eftir helför. Wiesel er nýlátinn

B1F3C228-0CF0-4F11-AB65-132C9A9D989E

Baráttan fyrir viðurkenningu á voðaverkunum í stríðinu var torsótt og í raun við ramman reip að draga því þjóðin er klofin í viðhorfi sínu til stríðsins. Ian Antonescu hershöfðinginn sem bar ábyrgð á ákvörðunum um þjóðernishreinsunina er af mörgum Rúmönum enn dáður fyrir framgöngu sína í stríðinu og baráttu hans gegn Sovétríkjunum. Sá hluti sem hann átti í ofsóknum gegn gyðingum og rómafólki flækir málin. Það er erfitt að viðurkenna að sami maðurinn geti bæði unnið ótrúleg þrekvirki og óskiljanleg illvirki. Í greinum og viðtölum sem ég hef lesið er lausnin og svarið oft talið felast í menntun, að tekið sé markvisst á öllum hliðum sögunnar í skólakerfinu. Þannig megi halda því til haga sem gerðist í stað þess að reyna að gleyma. Staðreyndin er hins vegar sú að um 10% rúmena vilja ekkert með gyðinga hafa að gera. Sannarlega er helförin hluti af námsefni skóla og í gildi lög gegn því að viðurkenna ekki helförina en mesta hættan, segir Alesandru Climecku sagnfræðingur er fólgin í að aðdáun á þeim er að ofsóknunum stóðu hvort sem þeir eru taldir píslarvottar eða hetjur

2AC9DA2E-1B50-414D-932D-1F273AD04939

Strax við vígslu minnismerkisins heyrðust gagnrýnisraddir sem sögðu hneysu að meira væri gert úr hönnuði verksins en þeim sem það ætti að heiðra. Á skilti við innganginn er hvergi minnst á hve margir dóu heldur er listamaðurinn mærður en þagað um fórnarlömbin. Árið 2016 skrifar Mihaela Rodin grein þar sem litið er yfir tregðu rúmena til að horfast í augu við hlut sinn í þjáningu þeirra er lifðu af og mikilvægi þess að viðurkenna að illvirki var framið. Hluti vandans sé fólgin í að engin rúmeni var nokkru sinni sóttur til saka fyrir þátt sinn í helförinni. Hér er texti sem dæmi um hvað hefði átt að standa á plattanum umdeilda:

1927AF40-0C6E-41D6-BB89-2ED5E5D0990E

Styrjaldir og ofsóknir eru íslendingi sem býr á Íslandi framandi en þegar hvoru tveggja er ljóslifandi á hverju horni er vart annað hægt en að velta fyrir sér hvað drífur mannlegt eðli áfram. Það er áratuga löng hefð fyrir að láta þjóðverja bera alla ábyrgð á helförinni og tala um hana sem eina dæmið um þjóðernishreinsanir meðan þær eiga sér stað leynt og ljós víða um heim. Fólk eins og við verður skyndilega eitthvað annað en fólk og kemur mér ekki við lengur, á ekki lengur rétt á grundvallar mennsku eða reisn og með einhverju því móti er hægt er að fyrra sig allri samfélagslegri ábyrð, láta sér á sama standa. Í því viðhorfi liggur mikil hætta og ég sé ríkjandi einstaklingshyggju og nýfrjálshyggju sem þátt í vandanum, hyggjur sem felast í því að horfa á sjálfan sig fremur en aðra, ota sínum tota og skara eld að eigin köku hvaðan svo sem eldurinn er tekinn og hverjum sem svo verður kalt í kjölfarið

http://isurvived.org/InTheNews/HolocaustMemorial-Romania.html
https://www.timesofisrael.com/romania-struggles-to-confront-holocaust-past/

Ein hugrenning um “Ferða-langurinn: Átök um mannanna vonsku

  1. Bakvísun: Ferðabloggin – Rúmenía | Koffortið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s