Ferða-langurinn: Hugsað heim

 

Í dag hugsa ég heim, ekkert skrítið svo sem, búin að vera á stanslausu randi í á þriðju viku með markmið upp á hvern einasta dag en ekki í dag, því í dag ákvað ég eiga mér frídag og hvernig haldið þið að ég sé búin að nota hann hingað til? Jamm, ég hugsa heim, fann vefmyndavélar frá gilinu heima, frá Vaðlaheiði með útsýni yfir pollinn minn og að lokum úr fjallinu, er ekki bara kominn nægur snjór til að opna? Ég hugsa heim en um leið nýt ég þess í botn að vera léttklædd á kaffihúsi sem selur morgunverð með öllu og eðalkaffi í þokkabót á spottprís, nýt þess að vita að úti bíða götur sem ég hef ekki séð enn, söfn og gallerí með dásemdir og guð veit hvað. Frábær dagur framundan og samt, þá hugsa ég heim. Þessi pistill er sem sé allt annars eðlis en fyrri pistlar enda er sunnudagur og ég í fríi (næsta ljósmynd Arnar Yngvason)

874FF415-FA9C-40E6-B799-232CB929126D

Heim

Framandi augnaráð
og ókunnug tungumál
stræti stórborgar
og strandir óbyggða
ekkert er alveg eins
og landið mitt hrjóstruga
Sama hve víða fer
landið mitt fylgir mér
Mig langar svo heim

Enn önnur vika, ár
mánuðir liða hjá
Stundum læðist inn
löngun í fjörðinn minn
og þegar enginn sér
hugurinn bjargar mér
Ég er ekki ein
þegar dreymir mig heim
Mig langar svo heim

Þá sakna ég beljandans
kuldans og hraglandans
Sólar um miðnætti
daga í svartnætti
Brimsins og bylgjunnar
bláhvítu bárunnar
Birta svo undur blá
eða hrollköld og grá
þá dreymir mig heim

Norðlensku dalirnir
nikka og faðma mig
fjöllin mín standa keik
stórskorin undirleit
Blómlegu grundirnar
smáfríðar bæði og hógværar
Fallegi bærinn minn
eyrin og pollurinn
Þá er ég komin heim
(AE)

Við minnismerkið um helförina:

92A2A530-4C94-4700-AA21-B5411F2F08D2

Þegar maður er langt að heiman, stormur á skerinu, hriktir í jöklum og hvað eina, þá er skrítið að vera langt í burtu. Síðan er gengið inn í búð og í hillunni stendur íslenskt lýsi, sérmerkt og einkar heimilislegt. Jamm, Arnar fann lýsi í hverfisapótekinu, hann hefði átt að hafa meiri áhyggjur af lýsisleysi í ferðinni

Liðið mitt heima eyðir sunnudegi í jólahúsinu Eyjafirði:

8726BA8B-7C80-4AD0-8E82-9A9B9253A30F

Sunnudagur

Kaffi í krúttlegum bolla
kaka á næst leiti
eitt dásemdar kaffihúsið enn

Götur sem hlykkjast
gáskafullar og grellnar
eða liggja þráðbeinar og stoltar

Hrikalega dimm húsasund
hjákátlegt kvikt ímynduarafl
og ég hlæ að sjálfri mér

Gluggar geyma gersemar
glöggt er gestsaugað
ekkert er fjarri sanni

Held út í daginn himinlifandi
heimóttleg á stundum
meðan sólin brosir í kampinn
(Í Bucharest 5.11. 2017)

52980AB3-9E92-4A59-B5E2-5A5DB1516919

Eitt af því sem ég hef enn ekki nefnt er hvernig borgin tekur stakkaskiptum þegar rökkvar. Umhverfið klæðist í ævintýrabúning og ljósin breyta ásjónum húsanna. Ganga meðfram kanalnum, rölt um þröngar götur eða breið stræti, allt verður þetta annað í myrkrinu

EED433EB-183E-43E6-9CB7-E2EAE70633FB

Hversvegna

Segðu mér
Hefur þú nokkru sinni
staldrað við og spurt
hversvegna?

Hversvegna stoppa ég
ekki oftar við
og bara er?

Hversvegna horfi ég
ekki í augun á fólki
og brosi?

Hversvegna sest ég
ekki niður og fylgist með
dúfunum?

Hversvegna hlusta ég
aldrei á vindinn, laufin
eða regnið?

Hversvegna þýtur lífið
hjá og ég gleymi
að vera með?
-Hversvegna

Bucharest 23.10 2017

B3073528-7107-42F5-B49B-01376685D99D

Borgarbúar spara lýsinguna sína, hreyfiskynjarar á ljósum í stigagöngum rétt hleypa þér framhjá áður en ljósin slökkna og vel má halda að veitingastaðir og búðir séu lokaðar þegar að er komið, allt vegna þess að ekkert er verið að oflýsa rýmin. Sama á við utan dyra á sumum svæðum meðan götur meðfram breiðstrætum eru upplýstar svo sker í augu

7B8A124F-E9AE-4374-BB8C-8B58ECF58364

Afslöppunardagurinn hófst sem sé á morgunverði á kaffihúsi hér rétt út á horni og indæli eigandinn bauð okkur upp á eftirrétt í boði hússins. Síðast þegar við sátum á sama kaffihúsi og töldum okkur hafa fyrir alltof löngu setið of lengi færði daman mér hvítvínsglas, þá einnig í boði hússins. Eftir morgunmatinn var meiningin að rölta heim, vinna og brasa eitt og annað en einhverra hluta vegna röltum við út í buskann, norður á bóginn eftir Calea Victoriei

7798A480-87B8-42F7-87BB-662F2D760BCE

Bar þá fyrir hús eitt mikið og fagurlega skreytt, ekki að það sé óþekkt hér í Bucharestborg, þvert á móti, en meðan við stöldruðum við og smelltum myndum af glæsilegum art nouveau innganginum gekk út á tröppurnar öryggisvörður í reykingapásu og veifaði okkur inn “come in, go in” sagði hann og við bara hlýddum. Í fordyrinu sat annar öryggisvörður og benti okkur inn um dyr til hægri, sá kunni að segja “tickets”. Ég verð að viðurkenna að við höfðum ekki hugmynd um hvað við vorum búin að koma okkur í en borguðum 6 lei og gengum inn um dyr merktar sala 1 eða reyndar I því hér eru rómverskar tölur notaðar töluvert og upprifjun svo sem holl og góð nema ég held ég hafi aldrei lært það kverið almennilega nema upp að 50. Sem dæmi má nefna að 10. X er auðvitað tíundi október, einfalt

EE4483AE-3995-4CF5-9701-FCA142E669F6

Í ljós koma að við vorum stödd á safni George Enescu en sá var einn frægasti tónlistamaður Rúmeníu, fæddur 1881 látinn 1955. Hann samdi tónlist, útsetti og stjórnaði, spilaði á fiðlu og píanó og kenndi https://www.georgeenescu.ro

58E88DB0-EC8E-45DD-BF83-9EB3644B355F

Nokkrum tímum seinna sátum við undir ljúfum jazz á tónleikum hjá Nicolas Simion, saxafónleikara og nutum, og nutum og nutum…

Og áður en ég gleymi að segja frá því þá fór ég auðvitað í leiðangur um daginn og fann fjórðu kirkjuna sem var færð og mér sást yfir á sínum tíma (sjá pistil um kirkjurnar)

BA1235E9-A2FB-44B1-A6D2-B3DD1BFB150E

409467AD-6CE2-4B7E-8B20-DD605660A91A

Ein hugrenning um “Ferða-langurinn: Hugsað heim

  1. Bakvísun: Ferðabloggin – Rúmenía | Koffortið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s