Pallborðsinnlegg um raun- og tæknigreinar… #visindi19

Ég sat í pallborði ráðstefnu MSHA og málþings um náttúrufræðimenntun þann 30. mars 2019, Vísindi í námi og leik. Þar var tekist á um tvær spurningar og eru svör mín hér neðar

Hverjar eru helstu áskoranir í skólakerfinu þegar nám og kennsla í raungreinum og tækni eru annarsvegar? 

Ég sit hér sem leikskólakennari og sem slíkur veit að í leikskólanum er löng hefð fyrir samþættu skólastarfi, viðfangsefni eru fléttuð saman og unnið með þroska og nám á mörgum sviðum með einu og sama viðfangsefninu. Það er því áskorun í því að fá hinn almenna kennarar til að flétta raun- og tæknigreinar inn í starf sitt eða nota þær sem útgangspunkt

Í leikskólanum og yngri bekkjum grunnskóla er unnið með grunnþætti, og þeir eru almenns eðlis og á valdi þess kennara sem vill. Nú vona ég að engin misskilji mig og telji að ekki þurfi sérþekkingu til að kenna sérhæfð viðfangsefni, það er ekki það sem ég á við og sérfræðiþekkinguna má bæta t.d. í kennaranámi og við þurfum einnig að vinna með kennurum að því að efla bæði stelpur og stráka í þessum greinum. Þar liggur ein áskorunin

Það virðast vera til svið sem fólk hefur það viðhorf til að allir geti kennt það. Man eftir því í tengslum við dönsku á sínum tíma og reyndar einnig um leikskólakennslu. Og önnur sem sett hafa verið á stall, svo sem tölvurnar og snjalltæknin En það eru einnig svið sem í gegnum tíðina hafa verið vafin ákveðinni dulúð eins og ég held eigi við um raun- og tæknigreinar. Grunn þekking í rafleiðni, kóðun, eðlis- eða efnafræði eða stærðfræði getur verið á valdi hins almenna leik eða grunnskólakennara ef hann setur sig inn í efnið og lærir um það. Ekkert síður en leikskólakennarinn getur sungið með börnum, unnið með hljóðfæri, hljóð, takt, hljómfall og grunnþætti tónlistar án þess að vera langskólagenginn í tónlist. M.a.o. tel ég áskorun felast í að vekja athygli hins almenna kennara á því sem hann getur gert á þessu sviði, dags daglega, í þemaverkefnum eða í einstökum verkefnum

Yngri börn læra á með því að leika sér með viðfangsefnið, leikur er námsleið leikskólabarna og við ættum að læra af börnunum og tenga raungreinar og sköpun saman. Margir leikskólakennarar vinna heilmikið með náttúruvísindi, tilraunir og athuganir tengdar náttúrinni ofl. Einnig líffræði og jarðfræði, náttúruöflin  s.s. veður og fleira. Rannsóknir, uppgötvanir, lausnaleit og ígrundun eru einnig hluti af leikskólastarfi

Sem sagt að samþætta viðfangsefni, að kennarar veigri sér ekki við að gera það sem þeir geta, gleyma ekki sköpuninni og að hafa gaman af

Til hvaða aðgerða þarf að grípa til að mæta þeim áskorunum sem hér hafa verið nefndar? 

Það er margt sem má gera til að efla raun- og tæknigreinar og út frá mínu kennaramiðaða sjónarhorni þá vil ég byrja á að nefna þá sem valdið og peningana hafa. Menntamálaráðuneytið leggur mikla áhersla á læsi og það hefur varla farið fram hjá neinum. Fjölmörg sveitarfélög hafa lagst á árina með þeim í læsisverkefnum og átaksvinnu á þessu sviði. Þetta tel ég hafa komið niður á öðrum þáttum í skólastarfi, ekki síst í leikskólaumhverfinu … en þetta er ekki tvennt ólíkt og aðskiljanlegt

Sveitarfélögin þurfa að fjármagna skólana þannig að mögulegt sé að kaupa þau tæki og efni sem þarf til að kenna börnunum í gegnum „hands on“ aðferðir, með því að gera og hafa í höndunum. Þannig læra ung börn best en þetta kostar peninga

Háskólarnir geta boðið upp á símenntunarnámskeið og opnað þau námskeið sem þegar eru í boði á þessu sviði fyrir starfandi kennara og við í HA höfum stigið fyrstu skrefin í þessa átt

Kennarar þurfa að bera sig eftir björginni. Sækja nám og námskeið ef þeir telja sig skorta þekkingu eða vilja læra meira

Kennarasambandið sinnir kannski fyrst og fremst kjaramálum en ég tel það geta, í samvinnu við samband íslenskra sveitarfélaga, haft í huga þegar samið er að símenntun kennara að hún sé markvissari en nú … amk geta báðir þessir hagsmunaaðilar lagt sitt af mörkum 

Margt er vel gert og víða í skólum eru fyrsta flokks kennarar á þessu sviði að gera góða hluti og kannski ættum við að draga fram bestu dæmin, því oft held ég að kennarar læri best af jafningjum um hagnýtar útfærslur

Ábyrgðalaus pæling um tækni, ensku, uppeldi og fleira

1395DB57-546A-4897-A674-B7030F84F264Nokkrir dagar með karlinum í útlöndum um daginn og fátt að gera annað en tala saman. Hingað til höfum við tekið umræðuna um börn í heimi tækni (tölvur, síma, spjöld) eða kannski frekar talað um foreldra, kennara og fullorðna í tækniheimi því það verður að segjast að mér finnst fæstir fullorðnir sérlega góð fyrirmyndir eða skynsamir þegar að þessu kemur.

Tæknin er í eðli sínu bara tæki, …kóðar, forrit og jú möguleikar, endalausir möguleikar. Ég elska iPadinn minn meira en ég ætti en eiginlega væri réttara að segja að ég elskaði möguleikana sem iPadinn minn gefur mér því ef þessi gefur upp öndina uppfæri ég hið snarast í næsta stykki iPad 3.0. Ég er sem sé á öðrum iPadnum og sá fyrst gat ýmislegt, þessi sem ég á núna getur enn meira. Hann gerir samt i raun ekkert nema ég segi honum að gera það, þess á milli liggur hann bara hógvær og hljóður og bíður eftir mér en í honum hef ég bókasafnið mitt og því endalaust úrval af lesefni, ég hef tónlistina mína og því get ég hlustað þegar mig langar … nú eða hlustað á hljóðbók, tær snilld á ferðalögum. Ég hef dagbókina mína í spjaldinu og hún sinkar við dagatalið í vinnunni og Arnars svo nú skiptir engu þó hann gleymi að segja mér hlutina, þeir eru þarna á vísum stað. Ég hef netið og þar með bókasöfnin út um allan heim eða hvað sem mig langar að fræðast um og grúska. Ég get tekið ljósmyndir, hreyfimyndir, hljóðupptökur og unnið með þetta allt. Barnabörnin (og ég) eigum þarna nokkra leiki til afþeyingar og ég er með forrit til að halda utan um bókanir á flugi, gistinu, brottafararspjöld og hvaðeina. Ég get samið ljóð hvar sem er, skrifað pistla, sett saman efni og birt, haft samskipti um vefinn eða tölvupóstinn. Dásamlegt alveg í örþunnu 10” tæki sem vegur sama og ekkert. Ég get unnið hvar sem er, notið hvar sem er og gleymt mér hvar sem er. Sem sé tæknin er frábær.

Nóg um mig en tvennt vil ég segja um fullorðna, svona utan við að þeir mættu margir hverjir sýna betra fordæmi, það er mikilvægt. Nenni ekki að skrifa um kurteisi, samskipti, tilitsemi og á stundum tilætlunarsemi í kringum tækninotkun fullorðinna (m.a. síma) eða hvernig þeir deila sora, vitleysu eða myndum af börnum, fötluðum og slíku, um það hef ég tjáð mig áður (Arnar skrifaði um foreldra og tæknina á féssíðu sinni 2.3 2019).  Í fyrsta lagi þá er mýtan um tæknigetu barna og ungmenna er stórlega ofmetin. Já, ég hef mál mitt á fullyrðingu og læt aðra, nátengda fylgja í kjölfarið, ensku kunnátta barna er einnig stórlega ofmetið fyrirbrigði og þvi miður oft á kostnað islenskunnar. Börn þurfa sterkan grunn í móðurmáli til að eiga bestu möguleikana á að fóta sig í næsta máli og allt hangir þetta saman við líkur á gengi í námi til fullorðinsára. 

Foreldrum er ekki einum um að kenna, stjórnvöld hafa að mínum dómi allt of þrönga sýn á læsi og ættu að láta sig meiru varða vandað barnaefni á góðri íslensku fyrir yngstu börnin. Þau þurfa góðar bækur því það verður að segjast að það er lítill metnaður á bak við of margar barnabækur. Og þó að það kosti þarf að gera vönduð forrit fyrir yngstu börnin, forrit sem byggja á öllu þrennu þekkingu og hæfni í forritun, í hönnun og í námi og þroska ungra barna. Oft vantar hið minnsta síðasta þáttinn. Að lokum þyrfti að gera kröfu á barnaefnið sem sýnt er í íslensku sjónvarpi og í guðanna bænum koma böndum a Dóru landkönnuð, Manna meistara og aðra sambærilega sem rugla tungumálum skammlaust og án aðgeiningar þvert á fræði um máltöku, bæði íslensku og annars máls en við fullorðna fólkið þurfum að draga úr oftrú á mikilvægi enskunnar, því eins og kemur fram framar, þarf sterkan grunn í móðurmáli og þann grunn verðum við að gefa börnunum. Það er ekkert fínt að smábörn bregði fyrir sig ensku, krúttlegt já en ekki eitthvað sem á að gera mikið úr eða halda að standi fyrir eitthvað meira. Börn þurfa að fá upplýsingar á borð við “já, þetta er red á ensku en á íslensku heitir þessi litur rauður”.  Ég átti samræður við fimm ára gutta um daginn sem upplýsti mig um að hann og félagarnir töluðu ensku í leikskólalanum og þá, sagði hann, þá segja kennararnir okkur að tala íslensku. Hvað veldur því að fimm ára krakkar vilja heldur tala ensku en móðurmálið? Á hvaða leið erum við eiginlega? Og margt ungt fólk getur vel bjargað sér á ensku en það er ekki hið sama og hafa djúpa þekking eða færni í málinu. Ég vildi óska að fólk hætti að slá um sig með staðhæfingunum börn eru svo fær í tækninni, og krakkar eru svo klárir í ensku. Staðreyndin er sú, eins og með aðrar mýtur, sumir eru færir og klárir, margir kannski meðal eða lítið og sumir afar lélegir. Afhverju haldið þið að börn séu eitthvað öðruvísi sem heild en aðrir hópar samfélagsins?

En þá aftur að tækninni. Fullorðnir eiga til að hafa oftrú á að tæknin efli nám, hún getur sannarlega gert það ef viðeigandi tækni, notuð i samvinnu og með aðstoð foreldra (kennara) sem leið að tilteknum þroska, færni eða getu. En að rétta ungu barni youtube og gefa því lausan tauminn er ekki bara líklegt til að lenda fljótt inn á óviðeigandi efni heldur getur það unnið gegn því að barnið efli athyglisgáfu sína, úthald og eftirtekt svo dæmi séu tekin. Og að rétta krakka eða ungling snjalltæki og ýta því svo út í lífið er glapræði. Foreldrar verða að taka ábyrgð á tækninotkun barnanna, ábyrgð sem þýðir að þeir setja reglur og viðmið, læsa tækjum á ákveðnum tímum, sjá til að þau séu ekki við rúmin á nóttunni eða í notkun rétt fyrir svefnin, gæta þess að börnin séu ekki ínáanleg alltaf eða hvernig sem er og já það eru stillingar fyrir þetta allt. Svo þarf að opna allar síur og varnir sem hægt er en eina alvöru vörnin er sífellt og stöðugt eftirlit með tækninotkun barnanna. Börn eiga ekki rétt á einkalífi í þessu samhengi en þau eiga rétt á vernd og vörn í öllu því sem hægt er, það er skylda foreldra. Stundum spyr ég mig hver sé sá fullorðni í sambandinu þegar fólk veigrar sér við að setja reglur eða takmarka notkun barnanna. Séð hef ég börn kúska foreldra sína með hótunum eða væli um að allir aðrir hafi meira frelsi, meira val, engir aðrir foreldrar séu eins og þeirra, svona strangir, svona vondir. Og börn eru klár og vita hvaða rökum má beita til að ná sínu fram, þau nefna að þau verði útundan, þeim strítt, þau missi af, þau hafi ekki sömu möguleika og hinir í von um að foreldrarnir láti undan. Tækninotkun barna snýst um uppeldi og kannski meira nú en nokkru sinni fyrr og foreldrar verða að sinna þessu uppeldi. Ég gæti talið endalaust upp hætturnar, hættur á að ókunnugir nái tengslum við barnið, að þau komist í óviðeigandi efni, séu lögð í neteinelti eða bara fái leiðinleg skilaboð, þau verði varnarlaus þegar efni um þau er dreift eða þau leggi aðra í einelti, dreifi efni sem gerir önnur börn varnarlaus eða falli í skaðlegar gryfjur af öðrum toga. Ég gæti rætt um klám og áhrif þess á samskipti til langframa og svo má endalaust telja upp en ég ætla ekki að gera það heldur hvetja foreldra til að ræða við börnin, reglulega og aftur og aftur, um hvað þau eru að gera á netinu, um hættur, um siðferðir, kurteisi og allt þetta sem þarf að ræða. Og ég hvet foreldra til að setja reglur, vera foreldrar.

Þankar inn í skólamálaumræðuna

Í Fréttablaðinu í dag (14.3. 2019) segir Margrét Pála margt og sumt fékk mig til að staldra við, sumu er ég hjartanlega sammála og margt má til sannsvegar færa. Sannarlega skortir fé í menntakerfið og búa má mun betur að börnum og kennurum. Það er einnig nauðsynlegt að huga að jafnrétti innan skólastofa og utan og ekki ætla ég að ræða aðferðir Hjallastefnunnar í þeim málum, hitt er mikilvægt að muna í þessu samhengi og það er að höfundur er stofnandi Hjallastefnunnar, fyrirtækis sem rekur fjölmarga skóla, í hagnaðaskyni, i einkarekstri, og samkeppni við aðra skóla

Fyrsta atriðið sem ég rak mig á eru tölur um góðan árangur Hjalla drengja í lestri, athugið að hér er bara rætt um lestur ekki læsi. Umhugsunarefni mitt í þessu samhengi er hvort það geti verið að nemendahópur einkarekins skóla endurspegli ekki þverskurð af samfélaginu. Félagsleg staða barna, bakgrunnur og aðstæður að öðru leyti skipta máli fyrir námsárangur og mikilvægt að vita hve stór hluti nemendahópsins er af erlendum uppruna, með fötlun eða greiningar, hver menntun foreldra og fjárhagsstaða heimilanna er. Allt eru þetta atriði sem taka þarf með í reikninginn þegar árangur skóla er metinn, hver sem skólinn er

Annað atriðið sem ég staldra við er að mér finnst drengir talaðir niður eða stúlkur upp sitt á hvað og hvoru tveggja leggst illa í mig, kennarann og jafnréttissinnann. Fleira ræður námsárangri en kyn og tær eðlishyggja er af mörgum talin gamaldags eða hið minnsta bara hálfur sannleikurinn. Stúlkur eru ekki allar eins og drengir ekki heldur og jafnvel þó höfundur nefni það er eðlishyggjan þó ríkjandi í gegnum textann

Tilvitnun  í greinina “Það myndast talsvert þroskabil milli stúlkna og drengja á fyrstu æviárunum sem verður mjög afdrifaríkt í kringum 5, 6 ára aldurinn. Þar byrjar vandinn því að þroskabilið veldur umtalsverðum frammistöðumun milli kynjanna.” Sem leikskólakennari með langa starfsreynslu hef ég að efasemdir en leiðréttið mig ef ég fer rangt með en sýna mælingar mikinn kynjamun í námsárangri við grunnskólabyrjun og mikinn þroskamun? (Sem ekki er tengdur þeim þáttum sem ég hef þegar talið upp, greiningum, fötlunum, bakgrunni osfrv.) Á árunum mínum sem leikskólakennari fimm ára barna sá ég ekki svona skýran kynjamun í öllum þeim árgöngum sem skólinn skilaði af sér á næsta skólastig. Ég á við mun í þvi sem skiptir máli fyrir nám og þroska, og ég gáði, því ég líka var alin upp í menntakerfinu með ótal mýtum um drengi og stúlkur. Ég get vitnað í erlendar rannsóknir sem sýna að við grunnskólabyrjun er ekki munur á getu barna eftir kyni í stærðfræði. Niðurstöður úr Hljóm2, stafrænni stafaþekkingu og öðrum þeim prófum sem lögð voru fyrir bentu ekki til áberandi kynjamunar en allt gat tónað vel við greiningar, frávik eða útskýrða þroskaseinkunn barna og önnur atriði svo sem ef íslenska var þeirra annað mál. Ef einhver veit um rannsóknir hér á landi sem sýna sláandi kynjamun í þroska og námsgetu við grunnskólabyrjun vil ég gjarnan fá upplýsingarnar ef þið viljið vera svo væn

Í greininni eru margar fullyrðingar, mikið um sterkar lýsingar og efnið sett fram eins um sannleika sé að ræða en ég er engan vegin sannfærð og þykir sérlega miður þegar fullyrt er um að stúlkur fái minni athygli eða strákar séu skammaðir. Rannsóknir hafa sýnt að slíkan halla má finna tengdan kyni, kynþætti og fleiru en okkur skortir íslenskar rannsóknir á þessu og ég veit að margir kennarar eru meðvitaðir um áhættuna og gæta sín á henni

Höfundi er einnig tíðrætt um kynjamenningu og ég verð einfaldlega að láta þá umræðu bíða betri tíma svo einhver nenni nú að lesa þessa þanka til enda. Að lokum ítreka ég það sem ég skrifaði ofar, menntakerfið er sárlega fjársvelt en góðu fréttirnar eru að við eigum ótal færa kennara sem sinna starfi sínu af dugnaði og fagmennsku. Það er sannarlegs kominn tími til að samfélagið standi betur við bakið á þeim en einkarekstur í grunnþjónustu er að mínu viti aldrei rétta leiðin og í besta falli til að ýta undir samfélagslega mismunun. Ástæða þess að ég setti hugleiðingar mínar niður á blað eru ekki síst hagsmunatengsl höfundar greinarinnar og ég tel hollt að lesa greinina út frá því sjónarhorni.

Greinin sem vitnað er til: https://www.frettabladid.is/frettir/nu-urfa-drengir-og-karlar-a-risa-upp

Heimildir

Gibbs, B. (2010). Reversing fortunes or content change? Gender gaps in math-related skill throughout childhood. Social Science, 39(4), 540–569.

Goetz T., Bieg , M., Lüdtke, O., Pekrun, R. og  Hall, N. C. (2013). Do Girls Really Experience More Anxiety in Mathematics? Psychological Science, 24(10) 2079–2087l

Worell og Goodheart (2006). Handbook of Girls’ and Women’s Psychological Health: gender and wellbeing across the lifespan. New York, NY, US: Oxford University Press.

Ferðalangurinn í Manchester – líður að heimferð

Ráðstefnur og fundir, margt fólk og spjall um fög og fræði, ég þreyti ykkur ekki á því öllu og geri því skil á öðrum vettvangi en í dagslok gekk ég um borgina og rakst þá stundum á eitthvað óvænt, eins og gamla byggingu á fjórum hæðum með allskonar sérkennilegum smáverslunum hverri innan um aðra í Kolaportsstíl (í norðurhluta miðborgarinnar). Alltaf gaman að ganga um og skoða gamla tölvuleiki og allskonar dót og drasl. Við gengum líka fram á Out house alveg óvart þó það hafi reyndar verið á dagskránni fyrstu dagana en urðu útundan í öllu brasinu. Norðarlega í miðbænum má finna kamra nokkra sem eitt sinn voru yfirgefnir steinkumbaldar og mikið lýti þar til árið 2010 að listamennirnir Tasha Whittle og Ben Harrison, tóku sig saman og umbreyttu salernunum í gallerí. Á þriggja mánaða fresti eru settar upp nýjar sýningar. Á sömu slóðum er eina verk Banksy í borginni frá árinu 2001 sem smám saman hefur horfið á bak við auglýsingar, skemmdir ofl. 

Athugull gæti tekið eftir litlum glugga undir gluggum Manchester Craft and Designe Centre (Copperas street megin). Byggingin er frá Victoríutímanum og þjónaði fyrst sem markaður fyrir fasteignaviðskipti ef ég skil þetta rétt en þarna er nú m.a. kaffihús. Verkið lítiláta ber nafnið Mr Smith’s Dream. Smith þessi var gæludýrabúðareigandi og um tíma mátti á þessum slóðum finna fjölmargar slíkar verslanir í hverfinu. Verkið hannaði Liz Scrine til minningar um Smith sem sagt er að hafi gjarnan haft draumfarir um dýrin sín en það er vel þess virði að guða á gluggann og virða draum herra Smith fyrir sér

Ef þú stendur á einni af þeim þremur brúum sem þvera ána Irwell hver ofan í annarri í miðborginni getur þú komið auga á Cathedral steps, menjar um iðnaðinn sem einkenndi borgina lengst af. Þarna er falið þónokkuð mikið rými neðanjarðar sem notað var sem sprengjubyrgi í seinni heimstyrjöldinni og opnaðist upp í fyrirtæki í kring til að auðvelda aðgang. Svæðinu var lokað þar sem áin flæddi reglulega og olli skemmdum á því og þó umræða hafi verið um að opna svæðið fyrir almenningi hefur ekki orðið af því. Fornir inngangar eru greinanlegir frá Greengate Square. Núna voru hins vegar miklar vega- og byggingaframkvæmdir í gangi og ekki hægt að komast að svæðinu

Piccadilly station – lestarstöðin í miðborg Manchester er nýtýskuleg bygging en rétt undir teinunum má sjá gömlu stöðina, Mayfield Railway Station. Byggð árið 1910, henni var lokað 1960 og núna er hún í endurbyggingu og fær vonandi nýtt hlutverk. Gamla stöðin hefur verið sögusvið nokkurra kvikmynda í heimsendastíl ef einhver hefur áhuga á að fletta því upp

Það er margt fleira að gera í Manchester en ég komst til að skoða, sögusafn, asískt listasafn, gallerí og ég hef ekki nefnt að ég heimsótti listasafnið Manchester art gallery, sem er alveg heimsóknarinnar virði. Hins vegar sakna ég grænna svæða í borginni og er ekki viss um að ég sækist sérstaklega eftir að koma hingað aftur, upplifunin einhvernveginn been there done that en að því sögðu verð ég hérna aftur innan skamms

D22C54E4-0AAA-42D3-B8EA-0C06CAC09417

Daginn endaði ég svo á að sofa i gamla þvottahúsinu mínu frá því ég bjó í Reykjavík á námsárunum. Núna er það ein sú minnsta stúdíóíbúð sem ég hef séð, eða öllu heldur herbergisnefna með baði. Það er svona þegar landsbyggðarfólk lendir í Keflavík klukkan 16.30 og engar samgöngur norður fyrr en á morgun. Í borginni okkar fengum við okkur mat á notalegum stað við Laugaveginn, Arnar lallaði síðan með mig á kaffihús og við endum kvöldið í Pennanum. Enn höfum við ekki fengið neinn til að tala við okkur á íslensku og þannig lýkur þessu ferðalag í þetta sinnið. Þakkir fyrir samveruna

Ferðalangurinn á rölti í rigningu í Manchester

Í dag gekk á með hellidembum og við byrjum daginn á morgunverði í breskum stíl, á matsölustaðnum voru fjórir gestir, við og tveir karlar sem töluðu íslensku, þessi heimur er lítill. Við röltum á tvö bókasöfn í dag, tökum því rólega og nutum sólargeislanna milli rigningaskúranna sem kölluðu á að við fjárfestum í regnhlíf enda orðin hefð að kaupa eina í hverri ferð

Fyrra safnið sem við heimsóttum var John Ryleys Library, sem er merkisstaður fyrir ýmissa hlutia sakir. John þessi var iðnjöfur, líklega sá fyrsti í borginni til að verða vellauðugur. Bókasafnið er minnisvarði um hann í boði ekkjunnar og tekur hún á móti gestum í andyri safnsins, stytta af henni allt svo. Húsið sjálft sker sig úr umhverfinu, nokkuð drungalegt í neogotneskum stíl skreytt víravirki undir áhrifum art noveau

EBFE89DF-7927-4A84-BD09-997E573B32C3

Gullfallegt bókasafn sem geymir ómetanlegan bókmenntaarf allt frá miðöldum, Guttenberg biblíu og elstu mynjar biblíuhandrita sem til er svo dæmi séu tekin. Safnið opnaði 1900 og er nú hluti af bókasafni Manchester háskóla

09ED54CB-62BA-4F7E-BFDA-4F219F4E729335DEAEEF-D66C-4EE4-BD9F-3004A7983813922D8951-7D94-4121-B376-A4659905C98782891616-E69B-4244-9526-92C24B20EA01

Seinna safnið sem við heimsóttum er Chetham’s Library, nær fjögurhundruð ára gamalt og þar nam Karl Max í sína tíð og þar mótaði hann kenningar sínar í samvinnu við þýska heimspekinginn Friederich Engels og þangað má því í einhverju tilliti rekja upphaf Marxiskra fræða og kommúnistaávarpsins. Safnið er til húsa í byggingu sem byggð var um 1400, fyrrum sjúkrahús og síðar prestaskóli. Chetham’s finnur þú á móti þjóðar fótboltasafninu (National Football Museum) og gengið er inn um hlið á Long Millgate, rétt við Cathedral Gardens. Þar bíða gestir við hliðið eftir skipulögðum ferðum á safnið en fá síðan að ráfa um og njóta. Myndirnar segja meira en orð svo gerið þið svo vel

8B72B40C-7369-4EB0-85C0-E30C7BACCB1A88FDA160-B3FF-4E0B-B509-D35D78FC5454C485582E-9228-4A79-8013-24A13006350114E448FB-A8C0-455A-B3A0-C85760410042

Ferðalangurinn – Manchester, merkissaga við hvert fótmál

Í dag gerðum við heilmargt en fyrst fundum við kaffihús, fengum okkur morgunsopann og eldsneyti fyrir daginn en héldum svo af stað. Röltum vestur á bógin í átt að Vísinda- og iðnaðarsafninu en stöldruðum fyrst við menjar frá tímum rómverja á þessum slóðum, þær má víst rekja aftur til ársins 200

 

Sagan er hér við hvert fót mál og það mega þeir eiga manchesterbúar að þeir henda henni ekki fyrir róða heldur draga hana fram og sníða nútímann í kringum hið gamla

 

Mér fannst þetta líka í gær þegar ég skrifaði: The Godlee Observatory var gefinn Manchester háskóla við upphaf síðustu aldar og hefur staðist tímans tönn, veður, stríð og vanrækslu jafnvel þó hann sé varla meira en viður og pappamassi. Ágætis áminning um að styrkleiki og ending kemur í allskonar myndum. Stjörnuskoðunarstöðin trjónir á toppi Gotneskubygginga háskólans sem minnismerki fyrstu daga stjörunfræðinnar. Það er eiginlega ótúlegt að vera hér þar sem sagan er við hvert fótmál endalaust langt aftur á bak og varðveitt, lyft upp og haldið til haga hvert sem litið er

D6EC0FB0-88F8-432D-9821-5652483BFBA3

Stöðin var gjöf frá bómullarbarón með sama nafn og hún, í sinni smæð státar af sjónauka sambærilegum þeim sem Newton notaði á sínum tíma. Þrátt fyrir smæð sína átti stöðin sinn þátt í tungllendingu ameríkana með því að vara geimfarana við varasömum gíg. Stöðin stóð af sér það sem hér er kallað German Blitz sem lagði byggingar í kring í rúst. Það er möguleiki, ekki veit ég þó hvernig, að skoða stöðina enda er hún sögufrægt minnismerki og ég ákvað að taka næturmynd fremur en þessa venjulegu í dagbirtu. Stjörnuskoðunarstöðina má greina ef þú er stendur í garðinum hjá Alan Turing (sjá síðasta pistil) en aftur að safninu, ég veit ekki hve lengi við eiginlega vorum þar en gaman var það og hvílíkur metnaður… fótbolti hvað?

 

Safnið teygir sig yfir heilmikið svæði, elstu lestarstöð í hinum enskumælandi heimi, vöruhús og verksmiðjur. Fyrirlestrar og lifandi sýningar út um allt safn og ókeypis inn. Geri aðrir betur, enda var safnið fullt af barnafjölskyldum og nóg við að vera, m.a. salur með allskonar tilraunum tengdum rafmagni, eðlis- og efnafræði, náttúruöflunum, veðri, jarðhræringum ofl.

 

En þarna var líka nóg fyrir nördinn, bæði mig og karlinn. Við skoðuðum Mark 1, já og BABY sem virkar enn að hluta til, hver hefði trúað því?

 

Og við sáum líka Rocket og þá varð karlinn glaður og lét eins og hann hefði hitt fornan vin. Það vill henda þegar tækin sem lesið er um í æsku birtast ljóslifandi og óvænt … og óvænt var það því vélin var tímabundið í sýningu. Rocket er sem sé ein fyrsta gufueimreiðin og var smíðuð fyrir keppni um besta farartækið til að nota á teinana milli Manchester og Liverpool árið 1829, hún á sér lengri sögu enn fótboltinn keppnin milli borganna tveggja. Teinarnir voru sem sé komnir og hugmyndin að nota gufuvélar við hliðina á teinunum til að toga vagnana á vírum. Stephenson réði þeim frá þessu og haldin var keppni um hentuga eimreið, eða Rainhill trials. Fimm vélar tóku þátt og Stephensons Rocket var eina vélin sem lauk keppni og var því sigurvegarinn. Galdurinn kannski sá að hann notaði mörg rör í vélina sína eða 25 í stað eins til tveggja áður og þannig náðist mun meira afl. Svona er nú heimurinn skrítinn

 

Í vöggu suffragettanna má vel halda þessu til haga:

C6992C8D-E42F-45F6-B9C3-1E5216EBFA0F

Safnið er fullt af fræðslu um uppfinningar, nýungar og þróun í tækni, bæði í tengslum við iðnaðinn en einnig svo ótal margt annað, samskiptatækni, afþreyingu, véla- og verkfræði, hönnun, rafmagn ofl. ofl. Í Manchester á Pósturinn Páll heima en persónur og leikendur voru í frí þegar okkur bar að garði en framleiðandinn, Cosgrow Hall Films framleiddi einnig brúðumyndirnar um Dodda (Noody) og fleiri sem við eflaust þekkjum s.s. The wind in the willows og fyrstu seríu Bubba byggis

 

Við röltum meðfram kanalnum á leiðinni heim á hótel, notalegt rölt rétt eins og við værum langt úti í sveit þarna í miðri stórborginni

 

Fyrir hundrað árum síðan stofnaði Emmeline Pankhurst (1858-1928) bresku suffragette hreyfinguna sem svo staðfastlega barðist fyrir réttindum kvenna, m.a. kosningarétti. Emmeline þessi var frá Manchester. Barátta þeirra varð til þess að fyrstu konurnar kusu árið 1918 i kjölfar lagabreytinga sem heimiluðu sumum konum að kjósa og það var svo tíu árum síðar að fólk eldri en 21. árs, af báðum kynjum, gat kosið. Seint á síðasta ári var afhjúpuð stytta af Emmeline í tilefni af því að hundrað ár voru liðin síðan fyrsta konan kaus. Athöfnin var merkileg fyrir fleiri hluta sakir því ekki hafði verið reist stytta af konu í borginni í á annað hundrað ár. Síðasta styttan af konu var af Victoríu drottningu í reist í Piccadilly Garden um þar síðustu aldamót. Við heimsóttum Emmeline í dag

9F1F8F7F-86DC-426F-BFA8-E6FEE61365A6

Bókin, My own story, eftir Emmeline Pankhurst (1914) var kvikmynduð undir heitinu Suffragette, með Merril Streep í hlutverki Emmeline og það verður að segjast að Emmeline á mörg gullkornin ómetanleg eins og Trust in God. She will provide. Hún sagði líka We have to free half of the human race, the women, so that they can help to free the other half

Daginn enduðum við á rölti um kínahverfið og nutum þess að borða kínverskan mat áður en við fórum upp á hótel og feistæm-uðum á barnabörnin

 

Hér má lesa ræðu Emmeline Freedom or death (2013) https://www.theguardian.com/theguardian/2007/apr/27/greatspeeches1

Annie Kenney er önnur dóttir Manchester, suffragette og baráttukona sem einnig er vert að kynna sér

Ferðalangurinn – er Manchester meira en Old Traford og Etihad?

Eftir að ég gerði ferðaplön mín til Manchester ljós fékk ég fljótt fjölmargar ábendingar um afþreyingu í borginni sem allar snerust um fótbolta, fótboltaleiki, fótboltasöfn eða fórboltaleikvanga. Þegar að ferðinni kom var ég því jafnnær og áður um hvað borgin hefði upp á að bjóða fyrir fólk með engan áhuga á þeirri ofmetnu íþrótt. Ég tók þessu sem áskorun og ætla meira að segja að blogga um hvað fólk eins og ég, háskólagrúskari, bókaunnandi, femínisti, listunnandi og nörd hef til boltaborgarinnar að gera. En fyrst þarf að fljúga rándýrt til Reykjavíkur, taka leigubíl fyrir kr. 1600 á umferðamiðatöðina þar sem úti rigndi eldi og brennisteini, sitja í kulda og trekki, bíða í tvo tíma eftir rútunni á völlinn og hafa ekkert um að velja að borða nema samloku úr sjálfsala, jákvæðu fréttirnar eru að samlokan kostaði minna en sambærilegur biti í mötuneyti HA

 

Og þá er ég komin til Manchester. Það fyrsta sem mig langar að nefna er örlítið en samt svo stórt. Út um alla borg getur glöggur ferðamaður rekist á Manchester (worker bee) býfluguna á ólíklegustu stöðum, hún er tákn iðnaðarins sem einkenndi borgina lengst af og má rekja aftur til iðnbyltingarinnar. Býflugan varð hluti af merki borgarinnar árið 1842 og flugurnar skutu víða upp kollinum þegar Town Hall var opnað 1877 svo hafið augun opin ef þið leggið leið ykkar þangað. Flugan er líka á klukkunni á Refuge Assurance building (frá 1912) en aðrar verðið þið að finna sjálf, það er meira gaman þannig

Býfluguna má finna á ólíklegustu stöðum, á blómapottum, skiltum, ofl. Býflugan varð tákn sameingar gegn hryðjuverkum eftir sjálfsmorðárás 22. maí 2017 á tónleikum Ariana Grande en aðdáendur hennar voru mikið til börn og ungmenni. 22 létust, þar af tíu börn og særðir voru um 800. Minnismerki um látna, 22 býflugur, má finna á húsgafli The Koffei Pot á Oldham street og margir bera tattú af býflugu til merkis um samhug og samstöðu gegn hryðjuverkum

Frá býflugum með táknræna merkingu að öðrum harmleik. 15. júní árið 1996 sprakk geysiöflug sprengja í miðborg Manchester, sú stærsta sem sprungið hafði á enskri grund síðan í heimstyrjöldinni síðari. Fréttamyndir frá atburðinum sýna óhugnalega eyðileggingu á stórum hluta af verslunarhverfi borgarinnar. IRA eða Írski lýðveldisherinn bar ábyrgð á tilræðinu en lét vita fyrirfram svo engin lést þó 200 særðust. Eftir að rykið settist mátti sjá rauðan póstkassa standa nær óskemmdan í brakinu. Áhrifaríkt tákn sem enn stendur sem merki um þrautsegju í sínum eldrauða lit og sagan segir að pósturinn í kassanum hafi verið óskemmdur og borist í réttar hendur. Póstkassan má finna rétt eftir að Cross steet verður að Corporation steet

Það er ekki tilviljun að fyrstu skrefin mín í Manchester eru engin dans á rósum heldur stiklað milli stórra áfalla í sögu borgarinnar. Mér þótti það við hæfi eftir allar fótboltaábendingarnar, hins vegar voru einnig, rétt í fyrrasumar, fjörtíu ár síðan Louise Brown, fyrsta glasabarnið fæddist á Royal Oldham hospital, ekki leiðinleg frétt það

Fyrir sjötíu árum síðan hönnuðu snillingar við Manchester háskóla (áður Victoríu háskóli) tölvu sem talin er sú fyrsta í heimi með svokölluðu stored program sem þýddi að forritið var í tölvunni en ekki utan hennar. Við þessi yngri í bransanum munum eftir að hafa ræst tölvur upp af floppí diskum og keyrt upp prógrömm en þarna í Manchester náðist þessi áfangi sem þeir kalla the Manchester Small-Scale Experimental Machine (SSEM) eða Manchester Baby. Tölvan sú var bæði lítil (en plássfrek) og ófullkomin en jafnvel á þeirra tíma mælikvarða innihélt hún þá meginþætti sem skilgreina tölvur i dag. Þróunin leiddi af sér tölvuna Manchester Mark 1, síðar Ferranti Mark 1 og nú er ég búin að glata áhuga allra nema hörðustu áhugamanna en áður en ég hætti þarf ég að koma því að að Baby hafði eins kílóbæta minni og gat sitthvað þó

9EFDA756-9B5C-4160-B73D-3F4922C40D83

Ef þú gengur fram á mann, sitjandi á bekk í Sackville park, er ekki ólíklegt að þú hafir rekist á Alan Turing (1912-1954) sem hefur setið þarna á bekknum sínum síðan 2001. Hann var mikill snillingur, fékkst við stærðfræði, tölvunarfræði og dulmálsfræði svo fátt eitt sé nefnt. Alan þessi var frumkvöðull mikill sem sá fram á veginn og lagði sitt af mörkum til að gera stafrænt og líkamlegt líf okkar hinna auðveldara í nútímanum. Ég get alveg mælt með að lesa sér til um Turing machine sem lagði grunn að mörgu því sem á eftir kom, m.a. Baby sem ég nefndi hér ofar en eintak af henni má sjá á Science and Industry Museum í Manchester

Alan átti sinn þátt í að leysa gátuna um Enigma dulmálsvélina og ef þú lítur í kringum þig þarna við bekkinn sérðu kannski skilti með dulmáli líku því sem var í Enigma-vélinni og ef þú nærð að leysa gátuna sérðu að þarna stendur Founder of Computer Science en Alan þessi er einnig kallaður faðir gervigreindar með meiru. Á stríðsárunum vann Alan í Bletchley Park (Station X) þar sem hann leysti Enigma gátuna með meiru en Blechley park er átjándu aldar herrasetur norðut af London og spilaði hlutverk í heimstyrjöldinni síðari. 10.000 manns unnu þar þegar mest var og talið er að 75% starfsmanna hafi verið konur og sex af hverjum tíu klæðst einkennisbúningi. Hægt er að heimsækja staðinn en það verður að bíða betri tíma, einhvern daginn þegar ég hef nægan tíma í London en áður en ég sný mér aftur að Alan þá er verð ég að nefna eitt. The Bletchley Circle er heitið á míni seríu sem ég mæli með og er aðgengileg á Netflix. Saga af fjórum konum sem unnu í Bletchley Park við upplýsingaöflun og úrvinnslu, m.a. við að leysa úr dulmáli. Eftir stríðið var þessum konum ætlað að verða “venjulegar” húsmæður og gekk það misvel og í þáttunum finna þær sér ráðgátur að leysa. Merkilegir þættir um samfélagslegt vandamál í kjölfar stríðsins sem litið hefur verið rætt um. Á síðari árum hafa komið út nokkrar bækur um konurnar í Bletchley Park, s.s. The debs of Bletchley Park and other stories (Michael Smith, 2015) og The Bletchley girls (Tessa Dunlope, 2015)

C6EC91B8-2F27-4DFE-B390-2C724345A50F

Hér ofan er minnisvarði um þær þúsundir hermanna sem komu blindir heim úr stríðinu og stendur fyrir utan lestarstöðina í  miðbænum

Það eru bara tíu ár síðan störf fólksins í Bletchley voru viðurkennd sem afrek í stríðinu og spurning hvort kynjavinkill ráði þar ekki nokkru því eins og sögufróðir vita skipti starfið sem þarna fór fram miklu um framgang stríðsins og það verður að segjast að sagan hefur viðurkennt hlut karlanna sem þarna unnu og eiginlega markaðsett dulkóðun/afkóðun, stærðfræðina og algorytmana sem þarna var unnið með sem svið karla eins og sjá má berlega í kvikmyndinni The Imitation game þar sem Benedict Cumberbatch lék Turing

En aftur að Alan, vonska heimsins er söm við sig og sögu hans lauk þegar hann stimplaði sig út úr þessu lífi af sjálfsdáðun eftir að hafa verið saksóttur fyrir samkynhneigð, sem var ólöglegt ótrúlega lengi í Englandi. Dómur var kveðin upp og fékk hann val um fangelsun eða vönun og valdi hið síðara. Því er minnismerkið um Alan Turing ekki bara minning um afrek og dáðir heldur svo miklu meira. Það er líklega táknrænt að styttunni var valin staður stutt frá Menningarmiðstöð samkynhneigðra í Manchester. Árið 2017 tóku gildi lög sem í daglegu tali eru nefnd Alan Turing lögin og felast m.a. í afsökunarbeiðni til þeirra karla sem lögsóttir höfðu verið fyrir samkynhneigð í landinu

Ég mæli með að ferðalangur kaupi sér epli og narti í, þarna á bekknum með Alan, hugsi um lífsins gang og ákveði fyrir sitt leyti að vera ekki fífl. Það er eina leiðin til að svona megnið af okkur geti lifað í sæmilegri sátt, sama hvernig við erum

Daginn enduðum við á líbönskum veitingastað í Gay Village og vorum þar hvorki nægilega leðurklædd né með viðeigandi höfuðföt en maturinn var góður og vel útilárinn. Drykkina sötruðum við á hótelbarnum undir forni brú sem nú hefur glatað hlutverki sínu

Um Baby:

http://www.computinghistory.org.uk/det/6013/The-Manchester-Baby-the-world-s-first-stored-program-computer-ran-its-first-program

Um konurnar í Bletchley Park

https://www.theguardian.com/careers/2018/jul/24/meet-the-female-codebreakers-of-bletchley-park

https://www.telegraph.co.uk/history/world-war-two/11308744/The-extraordinary-female-codebreakers-of-Bletchley-Park.html

(Í ferðapisli frá Rúmeníu haustið 2017 skrifaði ég um konur i fyrra stríði)