Ferðalangurinn – er Manchester meira en Old Traford og Etihad?

Eftir að ég gerði ferðaplön mín til Manchester ljós fékk ég fljótt fjölmargar ábendingar um afþreyingu í borginni sem allar snerust um fótbolta, fótboltaleiki, fótboltasöfn eða fórboltaleikvanga. Þegar að ferðinni kom var ég því jafnnær og áður um hvað borgin hefði upp á að bjóða fyrir fólk með engan áhuga á þeirri ofmetnu íþrótt. Ég tók þessu sem áskorun og ætla meira að segja að blogga um hvað fólk eins og ég, háskólagrúskari, bókaunnandi, femínisti, listunnandi og nörd hef til boltaborgarinnar að gera. En fyrst þarf að fljúga rándýrt til Reykjavíkur, taka leigubíl fyrir kr. 1600 á umferðamiðatöðina þar sem úti rigndi eldi og brennisteini, sitja í kulda og trekki, bíða í tvo tíma eftir rútunni á völlinn og hafa ekkert um að velja að borða nema samloku úr sjálfsala, jákvæðu fréttirnar eru að samlokan kostaði minna en sambærilegur biti í mötuneyti HA

 

Og þá er ég komin til Manchester. Það fyrsta sem mig langar að nefna er örlítið en samt svo stórt. Út um alla borg getur glöggur ferðamaður rekist á Manchester (worker bee) býfluguna á ólíklegustu stöðum, hún er tákn iðnaðarins sem einkenndi borgina lengst af og má rekja aftur til iðnbyltingarinnar. Býflugan varð hluti af merki borgarinnar árið 1842 og flugurnar skutu víða upp kollinum þegar Town Hall var opnað 1877 svo hafið augun opin ef þið leggið leið ykkar þangað. Flugan er líka á klukkunni á Refuge Assurance building (frá 1912) en aðrar verðið þið að finna sjálf, það er meira gaman þannig

Býfluguna má finna á ólíklegustu stöðum, á blómapottum, skiltum, ofl. Býflugan varð tákn sameingar gegn hryðjuverkum eftir sjálfsmorðárás 22. maí 2017 á tónleikum Ariana Grande en aðdáendur hennar voru mikið til börn og ungmenni. 22 létust, þar af tíu börn og særðir voru um 800. Minnismerki um látna, 22 býflugur, má finna á húsgafli The Koffei Pot á Oldham street og margir bera tattú af býflugu til merkis um samhug og samstöðu gegn hryðjuverkum

Frá býflugum með táknræna merkingu að öðrum harmleik. 15. júní árið 1996 sprakk geysiöflug sprengja í miðborg Manchester, sú stærsta sem sprungið hafði á enskri grund síðan í heimstyrjöldinni síðari. Fréttamyndir frá atburðinum sýna óhugnalega eyðileggingu á stórum hluta af verslunarhverfi borgarinnar. IRA eða Írski lýðveldisherinn bar ábyrgð á tilræðinu en lét vita fyrirfram svo engin lést þó 200 særðust. Eftir að rykið settist mátti sjá rauðan póstkassa standa nær óskemmdan í brakinu. Áhrifaríkt tákn sem enn stendur sem merki um þrautsegju í sínum eldrauða lit og sagan segir að pósturinn í kassanum hafi verið óskemmdur og borist í réttar hendur. Póstkassan má finna rétt eftir að Cross steet verður að Corporation steet

Það er ekki tilviljun að fyrstu skrefin mín í Manchester eru engin dans á rósum heldur stiklað milli stórra áfalla í sögu borgarinnar. Mér þótti það við hæfi eftir allar fótboltaábendingarnar, hins vegar voru einnig, rétt í fyrrasumar, fjörtíu ár síðan Louise Brown, fyrsta glasabarnið fæddist á Royal Oldham hospital, ekki leiðinleg frétt það

Fyrir sjötíu árum síðan hönnuðu snillingar við Manchester háskóla (áður Victoríu háskóli) tölvu sem talin er sú fyrsta í heimi með svokölluðu stored program sem þýddi að forritið var í tölvunni en ekki utan hennar. Við þessi yngri í bransanum munum eftir að hafa ræst tölvur upp af floppí diskum og keyrt upp prógrömm en þarna í Manchester náðist þessi áfangi sem þeir kalla the Manchester Small-Scale Experimental Machine (SSEM) eða Manchester Baby. Tölvan sú var bæði lítil (en plássfrek) og ófullkomin en jafnvel á þeirra tíma mælikvarða innihélt hún þá meginþætti sem skilgreina tölvur i dag. Þróunin leiddi af sér tölvuna Manchester Mark 1, síðar Ferranti Mark 1 og nú er ég búin að glata áhuga allra nema hörðustu áhugamanna en áður en ég hætti þarf ég að koma því að að Baby hafði eins kílóbæta minni og gat sitthvað þó

9EFDA756-9B5C-4160-B73D-3F4922C40D83

Ef þú gengur fram á mann, sitjandi á bekk í Sackville park, er ekki ólíklegt að þú hafir rekist á Alan Turing (1912-1954) sem hefur setið þarna á bekknum sínum síðan 2001. Hann var mikill snillingur, fékkst við stærðfræði, tölvunarfræði og dulmálsfræði svo fátt eitt sé nefnt. Alan þessi var frumkvöðull mikill sem sá fram á veginn og lagði sitt af mörkum til að gera stafrænt og líkamlegt líf okkar hinna auðveldara í nútímanum. Ég get alveg mælt með að lesa sér til um Turing machine sem lagði grunn að mörgu því sem á eftir kom, m.a. Baby sem ég nefndi hér ofar en eintak af henni má sjá á Science and Industry Museum í Manchester

Alan átti sinn þátt í að leysa gátuna um Enigma dulmálsvélina og ef þú lítur í kringum þig þarna við bekkinn sérðu kannski skilti með dulmáli líku því sem var í Enigma-vélinni og ef þú nærð að leysa gátuna sérðu að þarna stendur Founder of Computer Science en Alan þessi er einnig kallaður faðir gervigreindar með meiru. Á stríðsárunum vann Alan í Bletchley Park (Station X) þar sem hann leysti Enigma gátuna með meiru en Blechley park er átjándu aldar herrasetur norðut af London og spilaði hlutverk í heimstyrjöldinni síðari. 10.000 manns unnu þar þegar mest var og talið er að 75% starfsmanna hafi verið konur og sex af hverjum tíu klæðst einkennisbúningi. Hægt er að heimsækja staðinn en það verður að bíða betri tíma, einhvern daginn þegar ég hef nægan tíma í London en áður en ég sný mér aftur að Alan þá er verð ég að nefna eitt. The Bletchley Circle er heitið á míni seríu sem ég mæli með og er aðgengileg á Netflix. Saga af fjórum konum sem unnu í Bletchley Park við upplýsingaöflun og úrvinnslu, m.a. við að leysa úr dulmáli. Eftir stríðið var þessum konum ætlað að verða “venjulegar” húsmæður og gekk það misvel og í þáttunum finna þær sér ráðgátur að leysa. Merkilegir þættir um samfélagslegt vandamál í kjölfar stríðsins sem litið hefur verið rætt um. Á síðari árum hafa komið út nokkrar bækur um konurnar í Bletchley Park, s.s. The debs of Bletchley Park and other stories (Michael Smith, 2015) og The Bletchley girls (Tessa Dunlope, 2015)

C6EC91B8-2F27-4DFE-B390-2C724345A50F

Hér ofan er minnisvarði um þær þúsundir hermanna sem komu blindir heim úr stríðinu og stendur fyrir utan lestarstöðina í  miðbænum

Það eru bara tíu ár síðan störf fólksins í Bletchley voru viðurkennd sem afrek í stríðinu og spurning hvort kynjavinkill ráði þar ekki nokkru því eins og sögufróðir vita skipti starfið sem þarna fór fram miklu um framgang stríðsins og það verður að segjast að sagan hefur viðurkennt hlut karlanna sem þarna unnu og eiginlega markaðsett dulkóðun/afkóðun, stærðfræðina og algorytmana sem þarna var unnið með sem svið karla eins og sjá má berlega í kvikmyndinni The Imitation game þar sem Benedict Cumberbatch lék Turing

En aftur að Alan, vonska heimsins er söm við sig og sögu hans lauk þegar hann stimplaði sig út úr þessu lífi af sjálfsdáðun eftir að hafa verið saksóttur fyrir samkynhneigð, sem var ólöglegt ótrúlega lengi í Englandi. Dómur var kveðin upp og fékk hann val um fangelsun eða vönun og valdi hið síðara. Því er minnismerkið um Alan Turing ekki bara minning um afrek og dáðir heldur svo miklu meira. Það er líklega táknrænt að styttunni var valin staður stutt frá Menningarmiðstöð samkynhneigðra í Manchester. Árið 2017 tóku gildi lög sem í daglegu tali eru nefnd Alan Turing lögin og felast m.a. í afsökunarbeiðni til þeirra karla sem lögsóttir höfðu verið fyrir samkynhneigð í landinu

Ég mæli með að ferðalangur kaupi sér epli og narti í, þarna á bekknum með Alan, hugsi um lífsins gang og ákveði fyrir sitt leyti að vera ekki fífl. Það er eina leiðin til að svona megnið af okkur geti lifað í sæmilegri sátt, sama hvernig við erum

Daginn enduðum við á líbönskum veitingastað í Gay Village og vorum þar hvorki nægilega leðurklædd né með viðeigandi höfuðföt en maturinn var góður og vel útilárinn. Drykkina sötruðum við á hótelbarnum undir forni brú sem nú hefur glatað hlutverki sínu

Um Baby:

http://www.computinghistory.org.uk/det/6013/The-Manchester-Baby-the-world-s-first-stored-program-computer-ran-its-first-program

Um konurnar í Bletchley Park

https://www.theguardian.com/careers/2018/jul/24/meet-the-female-codebreakers-of-bletchley-park

https://www.telegraph.co.uk/history/world-war-two/11308744/The-extraordinary-female-codebreakers-of-Bletchley-Park.html

(Í ferðapisli frá Rúmeníu haustið 2017 skrifaði ég um konur i fyrra stríði)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s