Ábyrgðalaus pæling um tækni, ensku, uppeldi og fleira

1395DB57-546A-4897-A674-B7030F84F264Nokkrir dagar með karlinum í útlöndum um daginn og fátt að gera annað en tala saman. Hingað til höfum við tekið umræðuna um börn í heimi tækni (tölvur, síma, spjöld) eða kannski frekar talað um foreldra, kennara og fullorðna í tækniheimi því það verður að segjast að mér finnst fæstir fullorðnir sérlega góð fyrirmyndir eða skynsamir þegar að þessu kemur.

Tæknin er í eðli sínu bara tæki, …kóðar, forrit og jú möguleikar, endalausir möguleikar. Ég elska iPadinn minn meira en ég ætti en eiginlega væri réttara að segja að ég elskaði möguleikana sem iPadinn minn gefur mér því ef þessi gefur upp öndina uppfæri ég hið snarast í næsta stykki iPad 3.0. Ég er sem sé á öðrum iPadnum og sá fyrst gat ýmislegt, þessi sem ég á núna getur enn meira. Hann gerir samt i raun ekkert nema ég segi honum að gera það, þess á milli liggur hann bara hógvær og hljóður og bíður eftir mér en í honum hef ég bókasafnið mitt og því endalaust úrval af lesefni, ég hef tónlistina mína og því get ég hlustað þegar mig langar … nú eða hlustað á hljóðbók, tær snilld á ferðalögum. Ég hef dagbókina mína í spjaldinu og hún sinkar við dagatalið í vinnunni og Arnars svo nú skiptir engu þó hann gleymi að segja mér hlutina, þeir eru þarna á vísum stað. Ég hef netið og þar með bókasöfnin út um allan heim eða hvað sem mig langar að fræðast um og grúska. Ég get tekið ljósmyndir, hreyfimyndir, hljóðupptökur og unnið með þetta allt. Barnabörnin (og ég) eigum þarna nokkra leiki til afþeyingar og ég er með forrit til að halda utan um bókanir á flugi, gistinu, brottafararspjöld og hvaðeina. Ég get samið ljóð hvar sem er, skrifað pistla, sett saman efni og birt, haft samskipti um vefinn eða tölvupóstinn. Dásamlegt alveg í örþunnu 10” tæki sem vegur sama og ekkert. Ég get unnið hvar sem er, notið hvar sem er og gleymt mér hvar sem er. Sem sé tæknin er frábær.

Nóg um mig en tvennt vil ég segja um fullorðna, svona utan við að þeir mættu margir hverjir sýna betra fordæmi, það er mikilvægt. Nenni ekki að skrifa um kurteisi, samskipti, tilitsemi og á stundum tilætlunarsemi í kringum tækninotkun fullorðinna (m.a. síma) eða hvernig þeir deila sora, vitleysu eða myndum af börnum, fötluðum og slíku, um það hef ég tjáð mig áður (Arnar skrifaði um foreldra og tæknina á féssíðu sinni 2.3 2019).  Í fyrsta lagi þá er mýtan um tæknigetu barna og ungmenna er stórlega ofmetin. Já, ég hef mál mitt á fullyrðingu og læt aðra, nátengda fylgja í kjölfarið, ensku kunnátta barna er einnig stórlega ofmetið fyrirbrigði og þvi miður oft á kostnað islenskunnar. Börn þurfa sterkan grunn í móðurmáli til að eiga bestu möguleikana á að fóta sig í næsta máli og allt hangir þetta saman við líkur á gengi í námi til fullorðinsára. 

Foreldrum er ekki einum um að kenna, stjórnvöld hafa að mínum dómi allt of þrönga sýn á læsi og ættu að láta sig meiru varða vandað barnaefni á góðri íslensku fyrir yngstu börnin. Þau þurfa góðar bækur því það verður að segjast að það er lítill metnaður á bak við of margar barnabækur. Og þó að það kosti þarf að gera vönduð forrit fyrir yngstu börnin, forrit sem byggja á öllu þrennu þekkingu og hæfni í forritun, í hönnun og í námi og þroska ungra barna. Oft vantar hið minnsta síðasta þáttinn. Að lokum þyrfti að gera kröfu á barnaefnið sem sýnt er í íslensku sjónvarpi og í guðanna bænum koma böndum a Dóru landkönnuð, Manna meistara og aðra sambærilega sem rugla tungumálum skammlaust og án aðgeiningar þvert á fræði um máltöku, bæði íslensku og annars máls en við fullorðna fólkið þurfum að draga úr oftrú á mikilvægi enskunnar, því eins og kemur fram framar, þarf sterkan grunn í móðurmáli og þann grunn verðum við að gefa börnunum. Það er ekkert fínt að smábörn bregði fyrir sig ensku, krúttlegt já en ekki eitthvað sem á að gera mikið úr eða halda að standi fyrir eitthvað meira. Börn þurfa að fá upplýsingar á borð við “já, þetta er red á ensku en á íslensku heitir þessi litur rauður”.  Ég átti samræður við fimm ára gutta um daginn sem upplýsti mig um að hann og félagarnir töluðu ensku í leikskólalanum og þá, sagði hann, þá segja kennararnir okkur að tala íslensku. Hvað veldur því að fimm ára krakkar vilja heldur tala ensku en móðurmálið? Á hvaða leið erum við eiginlega? Og margt ungt fólk getur vel bjargað sér á ensku en það er ekki hið sama og hafa djúpa þekking eða færni í málinu. Ég vildi óska að fólk hætti að slá um sig með staðhæfingunum börn eru svo fær í tækninni, og krakkar eru svo klárir í ensku. Staðreyndin er sú, eins og með aðrar mýtur, sumir eru færir og klárir, margir kannski meðal eða lítið og sumir afar lélegir. Afhverju haldið þið að börn séu eitthvað öðruvísi sem heild en aðrir hópar samfélagsins?

En þá aftur að tækninni. Fullorðnir eiga til að hafa oftrú á að tæknin efli nám, hún getur sannarlega gert það ef viðeigandi tækni, notuð i samvinnu og með aðstoð foreldra (kennara) sem leið að tilteknum þroska, færni eða getu. En að rétta ungu barni youtube og gefa því lausan tauminn er ekki bara líklegt til að lenda fljótt inn á óviðeigandi efni heldur getur það unnið gegn því að barnið efli athyglisgáfu sína, úthald og eftirtekt svo dæmi séu tekin. Og að rétta krakka eða ungling snjalltæki og ýta því svo út í lífið er glapræði. Foreldrar verða að taka ábyrgð á tækninotkun barnanna, ábyrgð sem þýðir að þeir setja reglur og viðmið, læsa tækjum á ákveðnum tímum, sjá til að þau séu ekki við rúmin á nóttunni eða í notkun rétt fyrir svefnin, gæta þess að börnin séu ekki ínáanleg alltaf eða hvernig sem er og já það eru stillingar fyrir þetta allt. Svo þarf að opna allar síur og varnir sem hægt er en eina alvöru vörnin er sífellt og stöðugt eftirlit með tækninotkun barnanna. Börn eiga ekki rétt á einkalífi í þessu samhengi en þau eiga rétt á vernd og vörn í öllu því sem hægt er, það er skylda foreldra. Stundum spyr ég mig hver sé sá fullorðni í sambandinu þegar fólk veigrar sér við að setja reglur eða takmarka notkun barnanna. Séð hef ég börn kúska foreldra sína með hótunum eða væli um að allir aðrir hafi meira frelsi, meira val, engir aðrir foreldrar séu eins og þeirra, svona strangir, svona vondir. Og börn eru klár og vita hvaða rökum má beita til að ná sínu fram, þau nefna að þau verði útundan, þeim strítt, þau missi af, þau hafi ekki sömu möguleika og hinir í von um að foreldrarnir láti undan. Tækninotkun barna snýst um uppeldi og kannski meira nú en nokkru sinni fyrr og foreldrar verða að sinna þessu uppeldi. Ég gæti talið endalaust upp hætturnar, hættur á að ókunnugir nái tengslum við barnið, að þau komist í óviðeigandi efni, séu lögð í neteinelti eða bara fái leiðinleg skilaboð, þau verði varnarlaus þegar efni um þau er dreift eða þau leggi aðra í einelti, dreifi efni sem gerir önnur börn varnarlaus eða falli í skaðlegar gryfjur af öðrum toga. Ég gæti rætt um klám og áhrif þess á samskipti til langframa og svo má endalaust telja upp en ég ætla ekki að gera það heldur hvetja foreldra til að ræða við börnin, reglulega og aftur og aftur, um hvað þau eru að gera á netinu, um hættur, um siðferðir, kurteisi og allt þetta sem þarf að ræða. Og ég hvet foreldra til að setja reglur, vera foreldrar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s