Dagur einhverfu 2019 – foreldrarnir

F6D83F88-C759-49BF-8BB7-A32977E8A67DDagur einhverfu og ég lofa að þreyta ykkur ekki á ítrekuðum áminningum enda skipta þær engu ef engar fylgja efndirnar. Það segir lítið að dreifa stolti, ánægju og stuðningi ef þú gerir ekki neitt í málefnum einhverfa, a.m.k. þess með einhverfu sem þú þekkir. Heimsókn, símtal eða stund með viðkomandi er meira virði en allar dreifingar heimsins, skilningur, umburðalyndi eða úthald … og það þarf úthald til að halda slíku sambandi gangandi, það er þetta sem þú þarft að gera. Margir með einhverfu eru einangraðir, ekki af því að þeir vilja það heldur af því að hinir nenna ekki að leggja á sig fyrirhöfnina við að eiga samskipti við þá. Samskipti af þessari sortinni krefjast þess að þú hættir að hugsa um sjálfan þig fyrst og fremst og oh boy hvað fólk á erfitt með það nú til dags. Samskiptin krefjast þess líka að þú hættir að lesa í orð og athafnir, því fólk með einhverfu segir hlutina gjarnan hreint út og þá er alveg óþarfi að móðgast þó ekki sé fylgt ströngustu kurteisisreglum. Gestir hafa snúið upp á sig þegar aspargusinn minn kemur í dyrnar og spyr: Hvað er hann að gera hér? Er hann ekki að fara? Þurfti hann að koma með börnin sín? Allt spurningar til að fá svör, ekkert meira, ekkert minna. Hann er í stöðugri upplýsingaleit og það væri okkur hollt að líta á heim einhverfra meira eins og google. Þú finnur svo sannarlega ekki alltaf það sem þú leitaðir að en það þýðir ekki að svarið sé ekki rétt, spurningin var bara röng

Og hættið að dæma foreldrana, þetta er alveg nógu erfitt án þess. Hve oft ætli ég hafi þurft að hlusta á vel meint orð vina og kunningja, ættingja eða bara ókunnugra um það sem ég ætti að gera eða oftar, það sem ég ætti að hætta að gera. Fólk greinir barnið og okkur hiklaust, setur á okkur stimpla og dóma hægri vinstri og nú nota ég þekkta skammstöfun til að segja það sem mér finnst um slíkt FO! (afsakið orðbragðið en kommon?). Getið þið ekki bara notað facebook á okkur og sent like og hjörtu í staðinn?

Það ruglar marga þegar aspargusarnir spyrja -af hverju eða -hvers vegna, um atburði sem “allir hljóta nú að skilja” en er bara ekki svo einfalt. Það sem þú þarft að gera er einfaldlega að svara hreint og beint, án útúrsnúninga og án kaldhæðni. Spurningum eins og -af hverju þarf að segja bless? -Af hverju þarf að þakka fyrir matinn? -Af hverju þarf að heilsa? -Af hverju? Og þetta eru alvöru spurningar sem þarf að svara með alvöru svörum. Leitaðu ráða hjá viðkomandi ef þú ert ekki viss og fáðu svörin þar sem þau eru. Ekki taka sjálfræðið af þeim og halda að þú vitið betur. Ekki takmarka möguleika aspargusanna þarna úti, leyfið þeim að takast á við lífið og aðstæður og verkefni, á sínum hraða og með sínu lagi en með dyggri hjálp og allri þeirri aðstoð sem þeir þurfa. Ekki halda að þú vitir betur og í guðanna bænum hlustaðu á foreldrana, merkilegt nokk þau hafa ótrúlega mörg svör og verða fljótt hokinn af reynslu

Mömmuráð mitt til hinna foreldranna er eftirfarandi. Greindu aðstæður þegar allt fer á hliðina og lærðu af þeim. Það er alltaf ástæða þó við sjáum hana ekki alltaf. Stundum er það hljóð eða ljós, snerting eða atburður, stundum kvíðinn sem tekur yfir en það er alltaf ástæða, alltaf. Pabbinn vill minna ykkur á að þið finnið ekki uppskrift á netinu til að fara eftir. Þetta er bara vinna, þangað til þú röltir síðustu ferðina fyrir ætternistapann, vinna og aftur vinna. Og þó við brosum stundum af listunum sem aspargusinn er snillingur í að gera til að halda jafnvægi á tilfinningavoginni þá ættum við að læra af þeim og gera lista, í samráði við einstaklinginn sem um ræðir, um það sem hentar og má og hins sem ber að varast að gera eða segja. Kannski getur þú smella einum úrklippuvegg á Instagram um málefnið enda skiptir það meiru en margt annað sem á Instagram-ið ratar

Ef þið þekkið aspagusfjölskyldu þarna úti, farið í heimsókn, talið við barnið/einstaklinginn, leggið ykkur fram við að eiga samskipti því oft er það ekki mikið mál, bara sýna lit og finna þá leið sem hentar. Setjast með viðkomandi við púsl, tölvuleik, skoðið bók, teiknið, perlið…eða hvað það nú er sem þeim þykir gaman. Bjóða viðkomandi út úr húsi í eitthvað það sem honum líkar og látið vita að hann þarf ekkert að tala, ekkert að segja nema hann vilji. Það dásamlega í þessu sambandi er að ef við einhvern er hægt að eiga hrein og bein samskipti þá er það fólk af þessari sortinni. Því skaltu bara spyrja, hvað finnst þér gaman að gera? Viltu kenna mér það? Eða, getum við gert það saman? Og þú gætir komist í dýrlingatölu með því að bjóða pössun eða hlé, vinna að því að fá barnið til að gista eða það sem er enn betra flytja inn svo foreldrarnir geti fengið kvöldstund, nótt eða helgi til að sofa. Jamm helsti draumur foreldra í þessari stöðu getur verið að sofa í friði

Ef þú átt börn kenndu þeim að vera almennilegar manneskjur því merkilegt nokk, börn hafa svo lélegar fyrirmyndir allt í kringum sig að þetta þarf að kenna. Kenndu þeim að gefa af sjálfum sér, gefa tíma sinn og athygli, vera örlát og mjúk í samskiptum. Og vertu góð fyrirmynd, vertu örlát(ur) og mjúk(ur), gefðu af sjálfum þér og gefðu af tíma þínum og athygli.

Ég hef litla þolinmæði fyrir umræðum um að frávik og fatlanir séu gjöf, því fer fjarri, mest megnis vegna þess að samfélagið gerir slíkt að hindrun, að ókleyfum vegg, að hrösunarhellu. Foreldrar þurfa að berjast, barnið þarf að berjast og sem fullorðinn þarf einstaklingurinn að berjast og það er óásættanlegt. Við þurfum að skapa betra samfélag þar sem allir eru samþykktir og allir duga eins og þeir eru og hafa sitt pláss, líka félagslega

Ég vona innilega að þú notir aprílmánuð eða hið minnsta daginn í dag, DAG EINHVERFRU … til að gera eitthvað fyrir málefni einhverfra, fyrir foreldrar einhverfra eða það sem væri allra best, fyrir einhvern með einhverfu. Og hástafanotkun mín hér rétt framar mun rugla minn aspargus í ríminu en við verðum nú að hafa gaman af þessu líka … góðar stundir

Blogg um sama efni frá í fyrra: https://annaelisaisl.wordpress.com/2018/04/02/dagur-einhverfu-2018-stubburinn-minn/

Ein hugrenning um “Dagur einhverfu 2019 – foreldrarnir

  1. Bakvísun: Dagur einhverfu 2020 – í miðju kófinu | Koffortið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s