Fyrstu dagarnir í Sheffield

A6FE6C51-68C5-40C3-883B-B16497182197Sheffield er, eða heldur var, þekkt fyrir að vera þungamiðja stáliðnaðar en löngu fyrir þann tíma var hún, má segja hún? Mér finnst borgin vera kvenkyns og stíg þá kannski á einhverjar tær en allt svo hún, borgin var löngu fyrr þekkt fyrir að hér mátti fá gæða hnífa, beitt áhöld og vopn framleidd úr innfluttu evrópsku stáli. Sami grautur í sömu skál en sagan er óralöng og nátengd ánum fimm sem renna um svæðið. Don liðast um nyrsta hluta miðbæjarins, m.a fram hjá Ketham Island sem ég ætla að heimaækja einhvern daginn og er víst alls ekki eyja. Áin Sheaf er suðvestur af miðbænum í ónáttúrulega þráðbeinum farvegi. Rivelin og Porter má finna í vesturátt og Loxley í norðvestur. Í einu úthverfa borgarinnar má finna safn þar sem hægt er að skoða 18. aldar vinnustofu sem á sínum tíma var knúin vatni með vatnsmyllu sem enn stendur og kölluð er Shepherd Wheel

(Húsið til hægri er spítali og nútímaskrípð fyrir aftan gleypir gamla húsið alveg þó sumir myndu kannski segja að það faðmaði það. Svarti kumbaldinn er hús tónlistarakademíunar, einkar óvenjulegt og að mestu glugga laust)

Morguninn notuðum við til að kynnast hverfinu okkar betur og ég mun örugglega nefna það aftur síðar en við gengum fram á litla kirkju, það er litla á innfæddra mælilvarða, ekki íslenskan. Þar hittum við einkar vingjarnlegar konur sem sögðu okkur að skoða minnismerki þar rétt hjá um þá er létust úr kóleru. Við auðvitað hlýddum og fundum fallegan garð þar sem minnismerkið tróndi út á brekkubrún. Í garðinum voru grafnir hundruð manna í fjöldagröf þegar kóleran geysaði árið 1832

Borgin er einkar falleg og nóg af grænum svæðum, görðum og trjám af öllum stærðum og gerðum. Hún stendur á sjö hæðum og göturnar i miðbænum liðast hver um aðra í algerri óreiðu upp og niður hæðina. Jarðfræðilega er fjölbreytnin hér mikil og sem dæmi má nefna að lægsti punktur borgarinnar er tæpir þrjátíu metra yfir sjávarmáli en sá hæsti rúmum fimm hundruð metrum hærra, geri aðrir betur

Við ráfuðum inn í Sheffield Cathedral fyrir hálfgerða rælni eftir að hafa notið blíðunnar úti, mest vegna þess að mig langaði í segul á ískápinn minn og ekki verra að styrkja kirkjuna í túristafílingnum. Inni var messa í gangi og við settumst niður og nutum áður en við skoðuðum okkur um og ég mæli með að gefa sér tíma til að stoppa, ganga um og horfa vel í allar áttir því margt er að sjá og sumt sem íslendingnum þótti skrítið, eins og sverð og hnífar sem afmarka eitt svæðið með æfaforna fána blaktandi yfir (jamm hér þarf að nota ímyndunaraflið því auðvitað blakta fánarnir ekki þarna inni). Kirkjan var byggð í mörgum áföngum og það sést vel þó bútasaumurinn hafi bara tekist bísna vel. Rétt inn af innganginum er tilvalið að líta til himins og dást að The lantern tower…

3C4AEC10-FAB8-4FDE-99B0-13660A1D9D39

…sem ég las einhversstaðar að væri falinn gimsteinn og fallegur var hann í sólinni sem skein gegnum glerlistaverk Amber Hiscott frá 1998/9. Viðarverkið er tákn þyrnikórónu Krists og á vel við að nefna nú þegar föstudagurinn langi bíður hinum megin við miðnættið. Kirkjan sjálf er elsta byggingin í borginni sem enn er í notkun og á sér sögu aftur á tólftu öld. En rúsínan i pylsuendanum var samt að berja augum styttu Brian Fell sem í kirkjunni stendur. Styttan sú er úr stáli og sýnir Betlehemssenuna en það sem mér þykir skemmtilegt er að Jósef heldur á barninu en ekki María eins og algengara er

Þá lá í augum uppi að leita næst uppi aðra styttu, þessa af konunum sem unnu í stálinu í bæði fyrri og seinni heimstyrjöldinni. Verkið er úr bronsi og kallast Women of steel. Martin Jennings heitir listamaðurinn og verkið var sett upp árið 2016 og hlaut hann verðlaun fyrir verkið ári síðar. Við afhjúpunina voru viðstaddar hundrað konur sem höfðu unnið við stáliðnaðinn á sínum tíma en þær og stöllur þeirra voru einnig heiðraðar með heiðursmerki

Eftir snarl á ágætu veitingahúsi í miðbænum var tímabært að hitta Marion vinkonu okkar í húsakynnum háskólans í húsi kenndu við Edgar Allen en hann var verkfræðingur og rak mikinn bissnes i kringum stálið marg um rædda. Húsið er ein af ótal byggingum Sheffield University í miðborginni en háskólarnir tveir, hinn heitir Hallam University, eru frekir a plássið og umhverfið hefur lagað sig að þeim með keðjumatsölustöðum og börum fyrir stúdenta, í götunum allt í kring en útsýnið úr glugganum hennar er töluvert ólíkt mínu og hún hafði orð á því, nýkomin frá Akureyri rétt eins og ég

Marion dró mig á pub og bauð mér upp á bjór bruggaður á svæðinu, þótti ótækt að ég hefði ekki þegar heimsótt krá í landi englendinganna. Nú er ég búin að því og hafði gaman af enda félagsskapurinn góður. Við kváðum að hittast fljótt aftur og við Arnar röltum yfir hæðirnar tvær heim á leið

Að lokum er hér kort af hluta af háskólasvæðinu máli mínu til stuðnings

4AD91C92-EC7F-4A58-9553-EFF6EEDF1878

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s