Í dag var meiningin að taka lífinu með ró og rölta um og koma snemma heim en ferðin varð lengri en áætlað var. Við gistum í airbnb stúdíóíbúð rétt ofan við lestarstöðina og hófum ferðina með því að ganga yfir Park Hill í átt að ánni Don
Park Hill hefur ekki gott orð á sér, það fann ég fljótt þegar ég sagði fólkinu hérna hvar ég dvel en það fer vel um mig og umhverfið ekkert til að hafa áhyggjur af. Það á kannski hið sama við og um Eyrina heima, það getur verið erfitt að reka af sér slyðruorðið en um 1930 var Park Hill hverfið þekkt fyrir lélegan aðbúnað og háa tíðni ofbeldisglæpa og að þeim sökum kallað litla Chicago
Veröld borgarbúa virðist hafa verið frekar aum á þeim tíma, fátækt og eymd fyrir bísna marga. Glæpagengi réðu ríkjum og tókust á, ofbeldi var daglegt brauð og lögreglan stofnaði sérstaka sveit óeinkennisklæddra rummunga til að berja á þeim sem ráfuðu út af beinu brautinni. Hrikalega áhugaverð saga sem ég er alveg dottin á kaf í. En aftur að hverfinu, upp úr 1930 hófst endurbygging sem tafðist í kringum stríðið. Götunni þar sem ég bý núna og öðrum hér í kring var lýst á þennan veg: „…the dwelling houses in that area are by reason of disrepair or sanitary defects unfit for human habitation, or are by reason of their bad arrangement, or the narrowness or bad arrangement of the streets, dangerous or injurious to the health of the inhabitants of the area … and that the most satisfactory method of dealing with the conditions in the area is the demolition of all the buildings in the area.“
Árið 1957 hófst endurbyggingin og teiknaðar voru blokkir í brutaliskum stíl sem liðast hver um aðra eftir hæðinni norðanverðri. Sagan virðist einhverjum þyrnum stráð og nú er stór hluti blokkanna í endurbyggingu, standa auðar og tómar í arfabeði á bak við víragirðingar byggingafyrirtækis.
Við lögðum blokkirnar á hæðinni að baki og gengum norður yfir ána Don, ráfuðum um þar til við enduðum loks á Kelham Island. Iðnaðarsafni borgarinnar, sem á laugardeginum á páskahelginni var harðlokað. Röbbuðum við íbúa hjólhýsa og húsbíla sem hreiðrað höfðu um sig í krika á bak við safnið og þeir buðu okkur á tónleika síðar, einhverkonar þjóðlagahátíð í vændum og hver veit nema við skellum okkur
Mér finnst alltaf gaman að skoða vel unnið grafittí og Sheffield geymir einmitt nokkur verk eftir innfæddan listamann sem kallar sig Phlegm. Verk hans má finna víða um borgina, nokkur í nágrenni lestarstöðvarinnar, svo sem við The Leadmill, The Moor og Charter Row. Eitt er á vegg The Rutland Arms pub en verkið sem ég ljósmyndaði er á vegg húss á norðurbakka Don, rétt áður en komið er að Kelham Island úr austur átt. Phlegm vinnur verk sín í borgarlandslagið, gjarnan á yfirgefnar eða illa hirtar byggingar og eru verk hans súrealísk og virðast segja sögur eða ævintýri í óraunveruleika sínum. Sérstæðar myndfléttur sem minna á comic, eða teiknimyndasögu
Hér eru svo önnur verk, bara til gamans
Eftir sumar ólympíuleikana 2010 heiðuðu bretar vinningshafa sína með því að mála póstkassa í borgunum þeirra gullna. Í Sheffield er slíkur póstkassi til heiðurs Jessica Ennis-Hill sem hlaut verðlaun í sjöþraut. Framtakið átti að standa tímabundið en vegna vinsælda póstkassanna fengu þeir að halda gullna litnum. Mér láðist að segja ykkur frá því í blogginu gær að Sheffield á sitt eigið Walk of Fame en það má finna utan við Town Hall og á fyrrnefnd Jessica skjöld þar ásamt Sean Bean sem ég verð að viðurkenna að er eina nafnið sem ég kannaðist við þarna á frægðargöngunni
Hér heilsar fólk þegar það mætir fólki á götu, ekki kannski í miðbænum en í öðrum hverfum sem við höfum gengið um. Sumir nota orðið love í staðinn fyrir halló og það var pínu skrítið fyrst en venst bara nokkuð vel
Við gengum í gegnum iðnaðarhverfi í dag, síðan þvert yfir miðborgina að Moor markaðnum og þar eru síðustu myndir dagsins teknar og við hvílum lúin bein og kælum sólbrunann