…meint svik við #metoo

Ég hef farið allan hringinn undanfarið, verið reið, fúl, pirruð, leið, sorgmædd, undrandi og eignlega á endanum rasandi yfir skilningsleysi fólks og virðingaleysi gagnvart þolendum ofbeldis. Meint*heimskuleg skrif og athugasemdir tröllríða samfélags- og fréttamiðlum, skrif um að sök sé ekki sök nema fórnarlambið gangi alla leið og gefi opinbert veiðileyfi á sig með því að stíga fram undir nafni. Skrif sem rengja sögur og atvik af því kallinn/kellingin er svo helvíti merkilegur pappír eða skrif um að þolandi skuldi samfélaginu eitthvað og verði sjálfviljugur að ganga til eigin aftöku án dóms og laga, sem er það sem hendir þá sem opinbera sig sem þolendur. *Fyrra ég mig ekki allri ábyrgð ef ég nota orði meint með þessum hætti hér framar? Mér sýnist það vera þannig sem orðið er notað nú orðið leynt og ljóst…

Við sem samfélag skuldum þolendum það að standa með þeim, verja þá en ekki kalla eftir enn meiri árásum… og það veit það hver sem vill að í slíkum málum er nær ómögulegt að ná fram réttlæti, hvað þá koma þeim fyrir dóm og þá nær útilokað að dómur skili neinu. Þetta er samfélagið sem við búum í og kjarni #metoo var að draga stöðuna fram, gefa þolendum rödd ekki neyða þá til að fara í bardaga sem yrði alltaf ljótur, langvinnur og nánast fyrirfram tapaður fyrir þolendur

Svo þú, lesandi góður, hefur auðvitað rétt á þínum skoðunum, rétt á að skrifa þær og tjá, rétt til að koma því áframfæri sem þér finnst mikilvægt en hitt hef ég efasemdir um hve siðferðislega rétt það er að þú getir sett þig í dómarasæti um sekt eða sakleysi og leyft þér að traðka á þeim sem þegar hefur þolað nóg. Við þá sem segja að sögur af þessu tagi séu uppspuni þá vil ég spyrja til baka, hversvegna eru það fyrstu viðbrögð þín að efast? Það er miklu líklegra að sagan sé sönn en login, miklu líklegra… og þegar fleiri en einn hafa sömu sögu að segja hlýtur sannleiksgildið að vera meira ekki minna. Þolendur eru sjaldnast að skrökva enda ekki arða að heilbrigða skynsemi í því að stíga fram með ásökun um ofbeldi, hvað þá kynferðislegt og í því liggur stærsta þversögnin í allri umræðunni. Krafa er sett á þolendur um að stíga fram… en svo eru fyrstu viðbrögð að segja þá ljúga… hugsaðu um það…

26. september birtist grein góðrar konu í Fréttablaðinu þar sem vitna er til facebook færslu hennar. Hún segir að #met­oo byltingin hafa verið til lítils ef að konurnar stígi ekki fram og að þolendur ættu „án kvíða og ótta“ að geta komið fram undir nafni og þannig staðið með sjálfum sér og öðrum kyn­systrum sínum. Tilgangurinn virðist sá að vernda mann­orð tiltekins manns og er það gott og gilt en hún heldur áfram og segir það “svo­kallaðri Met­oo byltingu til háðungar,“ ef þolendur stíga ekki fram undir nafni. Þar kristallast svo mikill grundvallarmisskilningur á #metoo að það er næstum fyndið ef það væri ekki um leið svona grafalvarlegt og sorglegt. Segjum sem svo að þolendur stígi fram, sagan hefur kennt og sýnt skýrt hvað gerist næst. Það yrði svo sannarlega ekki án kvíða og ótta svo vitnað sé í orð konunnar sem greinina skrifar og það er svo sannarlega hvorki hennar né annara að ákveða með hvaða hætti þolendur standa með sjálfum sér. Það þarf ekki að grafa djúpt eða víða til að sjá hvaða málsmeðferð þolendur mega eiga von á og ahugasemdakerfið sýnir líka vel hvað bíður þeirra sem stíga fram og benda á ofbeldi eða yfirgang. Hvort sem við viljum horfast í augu við það eða ekki þá er veröldin full af ómerkilegu fólki sem hagar sér vel inn á milli, fólk sem gerir vonda hluti eða jafnvel hræðilega þegar þú sérð ekki til. Og veistu, það að þú sást það ekki þýðir ekki að það hafi aldrei gerst. Svolítið skrítið að þurfi að benda fullorðnu fólki á þá staðreynd. Við erum nefnilega samfélag sem ver og jafnvel umbunar skíthælum en traðka þá í skítinn sem benda á að keisarinn er ekki sú silkihúfa sem hann skreytir sig með heldur raun berrassaður og til skammar. Nafnbirtingar eru viðkvæmt og alvarlegt mál en vandinn liggur í því, hvort heldur er í stóra samhenginu eða því litla, að við lifum í gerendavænu samfélagi þar sem þolendur eiga sér ekki viðreisnar von og afbrotin eru mörg og víða.

#metoo byltingin var ekki hugsuð til að henda þolendum fyrir úlfana heldur þvert á móti til að við hin tökum slaginn fyrir þá. Þolendur skulda engum neitt og sértaklega ekki yfirgangsseggjum og ofbeldismönnunum og alls ekki þeim sem kemur málið hreint ekkert við. En í hvert sinn sem þolandi vogar sér að stinga upp höfði hópast lýðurinn á torg og hrópar hástöfum til varnar mannorði, fjölskyldu og framtíð sakbornings rétt eins og hin hliðin sé mannorðs, fjölskyldu og framtíðarlaus eða skipti hið minnsta engu máli. Af því við vitum jú öll að að það má alls ekki rugga bátnum með óhreina tauji þess sem níðst er á og í sameiningu ýtum við þeim í kaf aftur eða fáum þá til að þegja með öllum tiltækum ráðum. Það er svo miklu auðveldara þannig… ja að minnsta kosti þangað til þú ert þolandinn, þá verður það ekki svo auðvelt lengur…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s