Föst heima með börnin 2. hluti

Það er auðvitað fjölmargt sem hægt er að gera heima með börnunum til tilbreytingar og listinn gæti því verið endalaus en hvernig væri að skapa listaverk, læra að sauma, prjóna eða hekla, nú eða vefa. Það er kannski örlítið meira mál að smíða en alls ekki óyfirstíganlegt. Við hjónin höfum reyndar orð á okkur fyrir að vera léttgeggjuð og hér er eitt og annað brasað sem sumir jesúsa sig yfir. Sálarróin ætti ekki að hanga á óaðfinnanlegu hreinlæti og snyrtimennsku rétt meðan börnin leika.

Listaverk: Skoðið listaverk tiltekins listamanns og vinnið verk í sama anda. Ef þig vantar tillögu má benda á Gustaf Klimt, Picasso, Piet Mondriaan, Keith Haring, Andy Warhol, Miro, Jackson Pollock, Henri Matisse ofl. ofl. Listinn byggir á því sem ég hef sjálf unnið með og þvi eru nöfnin valin út frá mínu áhugasviði og því verulega takmarkandi. Auðvitað mætti eins velja handversmann, tónlistamann, skáld eða hvern annan þann sem gaman væri að vinna með.

Vefnaður: Það eru ýmsar einfaldar leiðir til að vefa, s.s. að nota pappaspjald og klippa/skera 1/2 cm. inn í efri og neðri brún með 1/2 -1 cm. bili (samstætt) og vefja garni hring eftir hring þar til vefstólinn er tilbúin. Þá má hefja vefnaðinn með garni eða efnislengjum. Þegar stykkið er til er klippt á spottana á miðri bakhlið og bundið fyrir.

Munið þið eftir að hafa skrifað leynibréf með hreinum sítrónusafa? Hreint undur þegar skriftin birtist ef bréfið hitnar (hárblásari eða straujárn dugar vel til þess að afhjúpa leyndardóminn).

Þá var ekki síður gaman að leika leikinn: Ekki koma við gólfið eins og Lína Langsokkur kenndi vinum sinum Önnu og Tomma þarna um árið. Húsgögn, teppi og púðar mynda þrautabraut, helst í hring en ef það er ekki hægt þá má fara fram og til baka… og æfðu þig í að segja alls ekki “passaðu þig” “farðu varlega” eða “ekki detta” … tilgangslaus óhljóð af þinni hálfu sem bara trufla. Börn fara varlega, flest passa sig og gera það sem þau ráða við og … og haltu þér nú fast …það er eðlilegt að börn skrapi hné eða lófa, reki sig á og merji tá. Þannig læra þau á veröldina, lífið og sig sjálf og þau þurfa nauðsynlega á því að halda að fá að reyna á sig, gera tilraunir og þá jafnvel detta eða meiða sig smá.

Tik-tack-toe er leikur sem ég veit ekki hvað heitir á ástkæra ylhýra en snýst um keppni tveggja við að ná þremur eins í röð, þvert, lágrétt eða milli horna. Annar merkir með krossi en hinn með hring á níu reita borð. Auðvelt að teikna og má vera margnota ef notaðir eru legokúbbar í sitt hvorum litnum, tölur, tappar eða annað sem til er. Leikinn má flækja með því að nota borðtenniskúlu og kassa/glös og boppa boltanum á rétta staðinn, segir sig sjálft að það fer ekki alltaf eins og áætlað er.

Kenndu barninu að baka eða elda. Gerið það saman. Brauðbollur, kjötbollur, pastaréttir og hakkréttir eru margir afar einfaldir og hakk og spagettí fellur oft vel í kramið hjá börnum. Brytjaðir ávextir með grískri jógúrt er í uppáhaldi hjá okkur öllum sem eftirréttur og er einfalt í undibuningi. Egg, steikt, soðin eða hrærð eru barnameðfæri. Vöfflur, íslenskar skonsur og lummur eru einnig einfaldar og ég er löngu hætt að nota sykur í þær uppskriftir. Svo má lifa hættulega og skera nokkrar paprikur í tvennt eftir endilöngu og hreinsa þær, helltu vel af olíu yfir og saltað og piprað, smyrðu vel með pítsasósu, og þá osti, pepperoní- eða skinkubitum. Bakaðu við 180 í 10-15 min. Önnur einföld aðferð er að smyrja brauðsneið með pítsasósu, bæta við pepperóni eða skinku og osti áður en brauðið er bakað í ofni. Brauð með tómatsósu, brytjuðum pilsum og osti er líka ágætis snakk og brauðsneið með bökuðum baunum og osti hitað í ofni er ágætt líka. Allt uppskriftir sem börn geta gert að mestu sjálf. Ef þér ofbauð þetta má alltaf bara poppa.

Einfaldar uppskriftir það sem hollustan flaug út um gluggann: Hálfur banani á pinna, dýft í bráðið súkkulaði með rjóma glubbi á toppinn …nammi namm.

Ískrap á fimm mínútum sléttum: 1 stór siplock poki og annar minni (u.þ.b. 1 l og 4 l). 2,4 ml mjólk, 1 tsk sykur (sumir vilja ögn meira), 1/2 tsk vanilludropar, 0.8+ml salt (tæplega 1 dl.). Ísmolar, iskurl. Helltu mjólk, sykri og vanilludropum í minni pokann. Fylltu þann stærri mep ísmolunum og saltinu. Settu minni pokann inn í þann stærri og lokaðu báðum vel. Hristu hraustlega í fimm mínútur. Fiskaðu litla pokann út og þerraðu … njótið. Ps. Trikkið með saltið og ísinn dugar líka ef þig vantar skyndikælingu á drykkinn… djúsinn vildi ég sagt hafa :).

Svo hefur auðvitað einhver snillingurinn gefið út þessar fínu leiðbeiningar um það hvernig best er að snúa sér við eldhúsverkin með leikskólabörnum:

https://kidshealth.org/en/parents/cooking-preschool.html

Hér eru fjölmargar hugmyndir að barnvænum uppskriftum:

https://www.sitters.co.uk/blog/15-fun-cooking-activities-for-kids.aspx

https://www.bbcgoodfood.com/recipes/collection/kids-cooking

https://tasty.co/article/melissaharrison/cooking-with-kids

https://www.tasteofhome.com/collection/easy-recipes-for-kids-to-make-by-themselves/

Þessar eru nú ekki ætar en kannski langar þig frekar að finna þinn innri föndrara og láta gamminn geysa með skæri og blað … og börnin, ekki gleyma börnunum:

https://www.happinessishomemade.net/quick-easy-kids-crafts-anyone-can-make/

https://www.goodhousekeeping.com/home/craft-ideas/how-to/g1389/diy-kids-activities/?slide=1

https://www.easypeasyandfun.com/crafts-for-kids/

Ef þér detta engir leikir í hug þá eru hér fyrirtakst hugmyndir að leikjum:

https://parenting.firstcry.com/articles/top-40-fun-indoor-games-for-kids/

https://www.familyfuntwincities.com/indoor-games-for-kids/

https://www.todaysparent.com/toddler/20-fun-indoor-games/

… og ef þið eigið lego eru hér nokkrar námstengdar hugmyndir, ekki að lego sé ekki yfirleitt fyrirtaks námsleið eitt og sér en maður getur alltaf á sig blómum bætt… https://childhood101.com/lego-learning-activities/

Blundar í þér þrá til að læra að teikna? Hér má finna leiðsögn og þú getur lært um leið og börnin: https://www.kennedy-center.org/education/mo-willems

Svo má komast í safaríferð með leiðsögn heima í stofu: https://m.facebook.com/cincinnatizoo/

Eða taka kúrs og láta reyna á listrænu hliðina: https://www.kitchentableclassroom.com/online-art-classes-for-kids/

… og ef fullorðna fólkinu leiðist þá er alltaf gott að glugga í bók, kannski rijfa upp svo sem eins og einn gamlan standard… Eða bara eitthvað nýrra:

http://www.openculture.com/free_ebooks

https://mashable.com/article/free-ebooks/

https://www.free-ebooks.net

En þegar upp er staðið má það helst af ástandinu læra hve starf leikskóla- og grunnskólakennara er mikilvægt og hve skiljanlegt er að börnin ykkar þurfa hvíld og ró þegar skóladeginum lýkur…Verum heiðarleg hérna … hve mörg ykkar myndu í raun kjósa að vera ábyrg fyrir námi, þroska og líðan 24-30 barna í litlu rými allan liðlangan daginn… (og á skítalaunum í þokkabót)? Um leið og ég sendi heilbrigðiststarfsfólkinu okkar baráttukveðjur og þakka fyrir mig og mína segi ég skál fyrir kennurum, þið eigið það skilið.

Hvað er hægt að gera heima með börnunum á tímum Covid 19

Nú er fyrirsjáanlegt að fjölskyldur dvelja meira heima en venja ber til og því datt mér í hug að taka saman nokkur hagnýt ráð úr fjölskyldubókinni minni og deila með þeim sem áhuga hafa. Auðvitað er margt sem hér fer á eftir tengt árstíð, staðsetningu, samsetningu fjölskyldu eða aldri barna en flestar hugmyndirnar má aðlaga að aðstæðum hverju sinni. Fæst kostar nokkuð nema fyrirhöfn og tíma en samvera og samskipti eru lykil þættir einmitt núna og ekki síst þegar dunda á heima í ró og næði.

Ég þigg gjarnan ábendingar og tillögur að fleiri hugmyndum í athugasemdum og verið ófeimin við að bæta við efni og dæmum, það er ekki eins og ég hafi fundið upp hjólið í þessum málum en mér þykir mikilvægt að við stöndum saman á þeim óvenjulegu tímum sem við lifum núna. Margt af því sem hér á eftir kemur er hugsað sem dægradvöl en af því að ég er ég þá er kennslu og námsvinkill í býsna mörgu eða það er auðvelt að bæta honum við með lítilli fyrirhöfn. Vertu ófeimin(n) að spyrja ef þú vilt þannig útfærslur.

Fyrsta spurningin er kannski sú hvað það er sem er gott að eiga heima ef börn eru á heimilinu og ég mæli með því sem hér kemur á eftir og stendur utan sviga en set innan sviga lúxus útgáfuna. Þannig er gott að eiga nóg af pappír og blöðum (rúllu af pappír ef vel er í lagt og maskínupappír), litir eru á listanum s.s. trélitir, vaxlitir fyrir yngri börn (og jafnvel tússlitir), vatnslitir og pensill (þekju, eða akríllitir og þykkari pappír) en endilega notið það sem til fellur heima til að mála á, teikna á eða föndra með, s.s. kassa undan matvöru, morgunkorni, pokana utan af hveitinu, milli blöð sem koma með kexi ofl. Konfektkassar og fleiri slíkir eru fyrirtaks rammar til að festa verk barnanna í og gera ögn meira úr þeim og endurvinnanlegu pappaformin sem sumt hakkið kemur í eru fyrirtaks málningablöð. Allt þetta má einnig nota með málningarlímbandi til að búa til skúlptúra eða leikföng, já, ég mæli með að eiga lím, límband, og málningarlímband, skæri, blýant, strokleður, yddara, (heftara, gatara, reglustiku, málband eða tommustokk, stækkunargler). Margt af þessu er sjálfsagt þegar til víða. Efni í leikdeig (sjá neðar) er ekki vitlaus hugmynd til viðbótar. Vasaljós eru til margra hluta nytsamleg, sérstaklega þegar enn er myrkur og hægt að búa til skugga í gegnum allskonar hluti eða fara í leikinn hver er hluturinn og sýna útlínur á vegg. Slæður af öllum gerðum fyrir ímyndunarleiki geta gert gæfu muninn (glerlaus gleraugu/sólgleraugu, hattar og húfur, fullorðins föt að klæða sig upp á ofl.). Venjuleg spil og önnur spil (sum bókasöfn lána spil) og auðvitað bækur. Kubbar (lego eða einhver útgáfa af öllum hinum kubbagerðunum) eru víða til og um að gera að nota. En snúum okkur að fáeinum hugmyndum.

Orðaleikir og bílaleikir heima: Frúin í Hamborg er orða- og athyglisleikur sem gaman er að leika með börnum á ákveðnum aldri og hengingaleik má leika með fimm ára börnum og eldri, orðin bara valin vel. Einnig eru til fjölmargar vísnagátur sem má leika sér með, googlið orðið vísnagátur bara og sjáið hvað kemur upp. Margir foreldrar þekkja það að leika allskonar leiki í bílferðum til að stytta ferðirnar og slíka leiki má eins leika við gluggana heima ef einhver umferð er um götuna. Þannig má safna bílum af einhverjum lit eða sort fyrir lengra komna, hver finnur fyrsta dýrið, telja þá fugla sem viðkomandi sér eða fólk í tilteknum fötum (með húfu, í úlpu, með bakpoka …), litinn á fötum þess sem ganga hjá eða persónueinkenni. Með eldri börnum má safna stigum, skrá niðurstöður og krossa við einskonar stöpplarit eða línurtit um hve marga af þessu eða hinu má finna (strætó, bíll, hjól, gangandi/ börn, fullorðnir/… osfrv.) Smá rannsóknarvinna getur verið holl og góð í hófi 🙂 og ef sömu gagna er aflað dag eftir dag má kannski finna mynstur og velta fyrir sér ástæðum. Svo má velta fyrir sér hvert er fólkið að fara, hvað er það að gera?

Húsverkin: Jamm, lifið heldur áfram og húsverkin þarf að vinna. Barnabörnin mín vita að það er staðreynd að við dönsum í eldhúsinu, stundum í stofunni líka en lykilatriðið er að gera það saman og hafa gaman á meðan. Stundum er skylda að dansa í eldhúsinu og við gerum það oft. Hressileg danstónlist, smá keppni fyrir þá sem hafa keppnisskap t.d. um fáránlegustu hreyfingarnar, bestu frammistöðuna eða uppstillinguna osfrv. eða skiptast á og sýna bestu taktana eða múvin, afsakið ég bara varð að sletta smá, keppa um bestu frammistöðuna ofl. Sum börn þola keppni illa og yngri börn ráða alls ekki við slíkt, því er keppni alltaf í gamni og hóflega ábyrgðalaus. Svo má auðvitað bara dansa allskonar samvinnudansa fyrir hina en hvernig sem framkvæmdin er þá gerir dans verkin miklu skemmtilegri

Útivera: Farið endilega út með börnin 1-2 á dag. Kannski bara út í garð að leika en gerið það saman. Svo má fara í gönguferðir um nágrennið og gera úr því rannsóknarleiðangra, finna skrítnasta, flottasta, dularfyllsta, besta (osfrv.) tréið, húsið, gluggann, hurðina, bílinn…. (osfrv.) og þá koma snjalltækin sér vel til að mynda það sem fyrir augu ber og vinna úr þegar heim kemur. Endilega leyfið börnunum að taka sínar eigin myndir og þannig má fara í ferð sem snýst bara um að mynda það sem barninu finnst merkilegt af einhverri ástæðu.

Ferð á næstu skólalóð getur verið góð hugmynd og allt eftir árstíma og veðri má heimsækja skrúðgarða (sambærilega við listigarðinn á Akureyri, Mynjasafnsgarðinn…) farið út með sleða, gefið öndunum, klífið snjófjöllin sem moksturstækin skilja eftir eða leitið að brekkum. Börn þurfa að hreyfa sig og það er engin tilviljun að leikskólakennarar skipuleggja útveru gjarnan tvisvar á dag. Ef það er snjólaust má fara út að hjóla, bara farið út um stund.

Farið út að ganga, gjarnan með markmið. Sjálf á ég barn sem á sínum tíma þurfti að hreyfa og fundum við allskonar trykk til að gera gönguferðir spennandi. Brjóta pappírsbát og senda í ævintýraför á næstu á eða læk, Ef þið búið svo vel má smíða bát úr nátturulegum efnivið s.s. spýtubút og nota hugmyndaflugið þegar kemur að því að gera mastur og segl. Notið umhvefisvænt efni eftir því sem kostur er og alls ekki plast. Skapa má ævintýri í kringum bátinn og fyrirhugaða ferð hans og jafnvel tengja bókum eða sögum sem til eru heima. Bátur getur flutt skilaboð til ættingja og vina eða ókunnugra sem á vegi hans verða og svo má fara heim og semja sögu um ferðir bátsins, hvert hann fór, hverja hann hitti og þau ævintýri og hættur sem hann lenti í. Hér getur tæknin komið sterk inn. Það má skrá ferlið, taka ljósmyndir eða vídeó af vinnunni við bátinn, ferðinni að sjó, á eða læk og sjósetningunni. Síðan sögugerðinni og eftirvinnunni sem getur verið margskonar, teikna má ævintýrin sem báturinn lendir í, síðan má leira bátinn eða annað úr ævintýrinu i kringum bátinn, ykkur sjálf eða söguna (uppskrift að trölladegi eða leikleir fylgir neðar), finna og hlusta á sjóarasöngva eða ferðalagalög og hvað eina sem ykkur dettur í hug eða hentar því sem til er heima.

Nestisferðir eru ekki háðar árstíma og smurt brauð eða ávextir og vatn með er alveg nóg í dásamlega nestisferð. Hér skiptir veður og færð minna máli en að klæða sig vel.

Notið tæknina til að skypa/facetima/myndsíma á ættingja og vini og það er fullt af fólki þarna úti sem nennir alveg að lesa fyrir börnin ykkar eða hafa ofan af fyrir þeim með ykkur eða fyrir ykkur um tíma í fjarfundi og það getur verið mikil tilbreyting. Sem dæmi man ég að eitt sinn gerðu afinn og barnabarnið allskonar tilraunir saman í gegnum skype þar sem afinn var með sýnikennslu og þau ræddu málin og áttu góða stund.

Bakstur með börnum eða eldamennska er eitthvað sem flestum finnst gaman að gera og það er ekki bannað að baka smákökur þó jólin séu búin, fara svo í nestisferð (sjá ofar) eða halda partý (sjá neðar). Þetta þarf ekki alltaf að vera svo flókið.

Sull í vaskinum með nokkrar dósir og sleifar getur haldið börnum uppteknum lengi, og fyrir eldri leikskólabörnin má skapa smávægilega umgjörð s.s. þvottastöð fyrir bílana/dúkkurnar eða sundlaugagarð fyrir legokarlana/playmóið… notið hugarflugið.

Útilega inni. Það má gera sér dagamun með því að fara í útilegu heima. Búa saman til virki eða hús undir eldhúsborðinu, stofuborðinu eða borðstofuborðinu með teppum og jafnvel sofa þar. Virkið getur eins verið yfir rúmi barnanna og þá má nota lak og málningarlímband til að breyta rúminu í tjald. Ef ætlunin er að sofa þar saman er auðvitað best að umbreyta stærsta rúmi hússins.

Fjársjóðsleit má síðan undirbúa og framkvæma úti eða inni og örugglega hægt að finna fjölmörg dæmi á vefnum ef að er gáð, allt eftir aldri og áhuga barnsins/barnanna. Einfaldasta útgáfan er líklega sú að gefa börnunum lista yfir hluti (myndrænan fyrir þau yngri) og svo felst leikurinn í að safna saman öllu sem á listanum er, tímarammi getur þvælst fyrir sérstaklega ef börnin eru fleiri en eitt eða á misjöfnum aldri en ef börnin eru eldri á vel við að setja tímamörk. Svo má auðvitað fara í ratleik eða skipulagðari útgáfur að vild og endilega deilið slíkum hugmyndum ef þið eigið tilbúnar svo fleiri geti notið. Googlið bara scavenger hunt for young children og skoðið bæði texta og myndir (images). Þarna eru fullt af hugmyndum sem má aðlaga eða þýða.

Púsluspil og önnur spil: Gefið ykkur tíma til að púsla og púsl þarf ekki að klára í einni atrennu. Spilið á spil og þá er veiðimaður er það spil sem mér finnst börn læra einna fyrst (4 ára) þó Olsen olsen komi fast á hælana, Yatsy má spila með einföldum reglum og þá hentar best að spila röðina (fyrst 1 svo 2 þá 3 osfrv.) og spila bara fyrsta hlutann. Allt eru þetta viðfangsefni sem byggja undir þekkingu á tölum, talningu og magni (stærðfræði). 

Það er lika einkar auðvelt að útbúa einföld sudoku fyrir börn, fyrst bara með myndum (t.d. dýr, hlutir…) og síðar formum (ferningur, þríhyrningur, hringur) áður en þau læra á tölurnar með auknum aldri og þroska (auðveldustu útgáfurnar henta 2-3 ára). Ég mæli með að byrja með fjóra reiti og tvær myndir en þyngja svo smám saman. Það má alveg nota legokubba í tveimur litum í stað mynda/talna eða eitthvað annað smálegt sem börnin eiga og þá er líka handhægt að endurnýja rammana. Ég ykkur til að endurnýta það sem til fellur s.s. pappakassa undan matvöru, pappaspjöld eða pappír.

Partý kvöld: Haldið einkapartý til dæmis búningakvöld jafnvel með þema og undirbúið veislu (t.d. popp og vatn eða með mat eða snakk sem þið undirbúið saman). Skreytið og undirbúið af fullri alvöru og það getur verið gaman að hafa jólaþema (og ef keypt voru jólanáttföt er hér tilvalið tækifæri til að draga þau fram). Partý má gera með allskonar þema, jól, sumar, afmæli þó engin eigi afmæli, framandi menningarþema osfrv. Málið er að gera sér dagamun og hafa gaman af og vinnan við að undirbúa matseðil, skreytingar, mat eða drykk (þarf ekki að vera dýrt eða flókið) osfrv. getur tekið allan daginn ég tala nú ekki um ef undirbúin eru skemmtiatriði og athugið að ekki þarf nema tvo svo hægt sé að halda partý.

Spilakvöld, kvikmyndakvöld og allskonar annarskonar þemakvöld eða dagpartar eru líka góð hugmynd og um að gera að láta hugmyndaflugið ráða. Karókí eða söngvakeppniskvöld gætu verið afar skemmtileg og þá þarf að æfa vel og undirbúa og með eldri börnum má auðvitað tengja þetta við tæknina hér ofar og útbúa stuttmyndir eða skemmtiefni. Jafnvel grafa í fjölskyldualbúmin (stafrænu) og skrá fjölskyldusögu. Það er verkefni sem gæti tekið marga daga, sérstaklega ef efnið er klippt og tónlist bætt við.

Tæknin sem flestir hafa aðgang að getur gefið magnaða möguleika og þannig getur fjölskyldan notað snjallsímann (eða snjalltækin sem til eru) og búið til kvikmynd, stuttmynd, tónlistarmynd, auglýsingar, fræðsluþætti osfrv. Hvernig væri að kvikmynda þátt um bakstur eða eldamennsku, tísku (klæða sig upp á í allskonar skemmtilegt og fáránlegt), föndurþætti eða hvað annað sem við á. Sjá dæmi um forrit: https://tolvuleikir698342289.wordpress.com/2018/11/05/hvada-tolvuleiki-eru-born-ad-spila/

4-5 ára börn geta brotið pappírsskutlur, gogga eða önnur oregami mynstur ef þið veljið allra auðveldustu gerðirnar, hér kemur youtube sterkt inn sem leið til að finna kennslumyndbönd. Svo má fara í keppni um langdrægustu skutluna og nota málband/tommustokk til að mæla vegalengdina.

Náttúruskoðun er viðeigandi á öllum árstímum. Það má skoða (og rannsaka skýin) finna ævintýrin og mynstrin eða réttu heitin á skýjagerðirnar, jafnvel nota Skyview eða annað forrit sem sýnir stjörnunar þarna úti í geimnum sem ekki sjást á daginn. Vindar og veður gefa fjölmörg tækifæri til að skoða og rannsaka (útbúa úrkomumæli, skoða hitastig og jafnvel skrá …) dýr, gróður og já á veturna má vel skoða tré og runna, fugla ofl. Það er hollt að venjast snemma á að taka eftir náttúrunni, liggja í snjónum (grasinu) og hlusta á vindinn eða náttúruna og horfa á skýin, Þó óneitanlega sé kannski fleira að gera á sumrin megum við ekki gleyma að það þarf ekki mikið til að búa til ævintýri fyrir börn. Smá útúrdúr ef þið eigið eða finnið á vef ljóð Þórarins Eldjárns þá passar hér að rifja upp ljóðið: Það er svo gott að liggja á mjúkum mosa. Svo má klæða sig upp um miðja nótt sem fyrir leikskólabarn getur verið rétt fyrir svefninn, fara út og horfa á næturhimininn og slaka á. Sem sé að skapa tilbreytingu og ævintýri úr því sem í kringum okkur er.

Ég hef markvisst sneitt hjá ýmsu sem tengist snjalltækni nema tækin séu í aukahlutverki enda mikilvægt að leggja áherslu á samskipti og samveru. Hins vegar er fjölmargt sem tæknin getur gert fyrir okkur í aðstæðum sem þessum. Á spotify eru sögur og ævintýri sem hægt er að hlusta á. Leitið að sögur og þá kemur ýmislegt upp. Sama á við um youtube en þá þarf að gæta betur að því að börnin séu ekki ein því það er ekki allt fyrir börn sem auðvelt er að nálgast á þeim miðli.

Hugmyndirnar mínar eru allskonar og kannski getur þú nýtt þér einhverja þeirra eða hið minnsta haft gaman af lestrinum. Ég set örugglega inn framhald síðar en þangað til þá er hér slóð á uppskrift að leikdeigi: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10872/Trolladeig.pdf

Með bestu kveðju frá leikskólakennaranum og lektornum … Lísa

Uppfært: Þegar annað þrýtur þá geta þau ykkar sem hafa Netflix útbúið séraðgang með fræðsluefni (leitið að: educational) og þó enska sé rikjandi mál duga margir fræðsluþættir t.d. náttúrúlífsþættir alveg