Hangið á fési á föstudagskvöldi

Þessu annars ágæta föstudagskvöldi var eytt (orð að sönnu) í hálfgerða vitleysu. Kona skrollað yfir facebook veggi og síður og sóaði í það mun meiri tíma en heilbrigt getur talist. Pára á meðan hjá mér upplifun mína og skapa mínar eigin sögur

Einhver er glaður, annar nýbúin að afreka eitthvað merkilegt, sigra sjálfan sig eða þröskuldana í lífinu, annar átti afmæli, sumir deila fegurðinni í kringum sig, sólinni, náttúrunni eða náttúruöflunum. Framkvæmdir í garðinum, ferðalög eða timamót af einhverju tagi. Vinir, gleði, gaman. Svo eru aðrir sem eiga erfitt, einhver er veikur, gæludýrið kvaddi, annar þarf faðmlag eða hrós, smá huggun eða klapp á bakið og allt er þetta hið notalegasta bara. Smelli like-um, hjörtum og brosköllum hér og þar og hugsa hlýlega til stafrænna vina og annara

Þetta er góða hliðin á facebook, hin er svo verri, sú sem gerir besta fólk að afskiptasömum besservissurum með ekkert svigrúm fyrir annara manna skoðanir, upplifanir eða reynslu. Við erum öll þetta fólk á stundum og það er allt í lagi líka, svona í hófi alla vega. Gefum okkur öllum svigrúm til að vera breisk, misstíga okkur eða vera misupplögð. Svo lengi sem ekki er farið langt yfir strikið og vaðið of stórstígt í gegnum blómabeðin, við erum nefnilega öll í þessu saman. Öðrum er svo bara ekki viðbjargandi og best að sætta sig bara við það og skrolla áfram

Svo eru innlegg sem vekja bros, sögur af lífinu og tilveruni, hlátur, glens og fjör. Það getur líka verið pínu fyndið að sjá rólyndis fólk tapa glórunni í umræðu um garðaeitur, ketti á varptímanum eða hvenær smábarn á að hætta á brjósti. Jamm við erum skrítnar skrúfur þetta mannkyn

En svo er það annað sem mér finnst skrítið og það er að sjá fólk fegra sjálfa sig á kostnað annara, Það er mikill misskilningur að fólk verði stærra ef það stendur ofan á einhverjum öðrum, merkilegt nokk, það gerir fólk bara lítið og ræfislegt. Ég skil satt að segja ekki í fólki að haga sér þannig. Sterklega grunar mig þó að flestir sjái í gegnum þannig tilburði og láti ekki blekkjast svo áfram skrolla ég

Öll viljum við sýna okkar bestu hliðar á facebook og öðrum samfélagsmiðlum og það er fullkomlega eðlilegt líka. Að vilja gefa stafrænum vinum okkar örlítinn þátt í gleðinni, geyma bestu augnablikin og geta flett til baka og munað, brot af því besta. Það er hins vegar augljóst að sumir eru af alefli að mála glansmyndir ofan á grámóskulegan striga sem stundum heldur ekki vatni, sumir til að klóra í bakkann, aðrir til að fela hið ljóta sem undir liggur

Ég veit ekki hvaða íslenska orð ég ætti að nota í stað passive agressive enda held ég það skiljist bara bærilega þó á ensku sé en ég rakst á nokkra slíka statusa í kvöld. Hálf sagðar sögur, hálfar ásakannir, hálfur sannleikur. Sett fram undir rós og ætlað að fegra höfundinn, varpa ljósi á hve góður hann er eða hve mikið aðrir eru vondir við hann. Hann á sér margar hliðar yfirgangurinn og ofbeldið og satt að segja verður það ekki betra vafið í bómull eða drussað með flórsykri. Ætli þetta fólk viti hve illa það kemur sjálft fram? Ja, kona spyr sig

Þegar hér er komið i sögunni er ég búin að fá nóg og held ég opni bara bók. Þar mun ekki eitt orð sem ég les vera satt, enginn sem ég kynnist er til í alvörunnni og ekkert sem ég les um hefur nokkru sinni raunverulega gerst. Kannski eins og sumt annað sem ég las í kvöld eða þú last hérna, hver veit