Á jarðarfarardegi

Í dag var Guðni Pétur Guðnason (Heiðarsson) borin til grafar. Elsku vinir, elsku bræður, elsku þið öll, samúð mín er ykkar og það hryggir mig að komast ekki suður í jarðarförina, að geta ekki knúsað ykkur smá eða bara séð ykkur í augliti til auglitis. Við erum með ykkur í anda og fyldumst með streyminu en fannst við bara vera svo óralangt í burtu.

Hugur minn er hjá elsku indælu Sigrúnu, mömmunni sem missti drenginn sinn svona kornungann, alveg fyrirvaralaust. Það er auðvelt að finna til með annarri móður sem missir og ég hugsa um börnin mín, þakklát en um leið svo meðvituðum um hve lítið þarf til og hve óvænt sorgin getur barið að dyrum. Ég hugsa um elsku skemmtilega Heiðar okkar sem þarf að fylgja syni sínum til grafar, spor sem ekkert okkar vill nokkru sinni þurfa að vera í. Og ég hugsa um bræðurna sem misstu svo mikið og horfast í augu við fátækari tilveru en hægt er að hugsa sér. Og ég hugsa til allra hinna sem syrgja, fjölskyldu og vina. Þegar ég heyrði fréttina fyrst raðaði ég nokkrum fátæklegum orðum saman og þau eru þessi:

Drottinn gaf og drottinn tók

Drottinn gaf
og drottinn gaf
svo undurfallega
er piltinn hann gaf
Húsið og hjartað var fullt
hamingjan mætti
Grallarinn, gleðin og kætin
dálítið ærslafullt stundum
og heilmikil læti
Drottinn gaf

Drottinn tók
og drottinn tók
gleðina alla
er piltinn hann tók
Húsið og hjartað er tómt
hamingjan horfin
Grallarinn, gleðin og kætin
eftir ljúf minning
um lífið og lætin
Drottinn tók

Drottinn gaf
og drottinn tók
Drottinn minn gaf
huggun í harmi og von
eilífa elsku og líkn
Er heimurinn hrynur
bjargið sem heldur
náð sem að nægir
Drottinn gaf (25.1. 2021 AE)

En í dag, á jarðarfarardaginn hugsa ég fimm ár aftur í tímann þegar annar drengur kvaddi þennan heim, annað elskað barn, því þau eru jú alltaf börnin okkar þó þau vaxi úr grasi. Á leið suður í jarðarförina páraði ég nokkur orð á blað og þau fylgja hér á eftir. Þá var hugur minn hjá móðurinni og mig langar að færa Sigrúnu þessi orð núna en auðvitað áttu þau líka elsku Heiðar minn:

Börnin okkar

Þau fæðast bæði varnarlaus og fjarskalega smá
falast eftir umhyggju og treysta okkur á
Hreiðra um sig í hjarta og sál og búa sér þar ból
Hvert og eitt í hendur okkar Drottinn sjálfur fól

Við fáum þau að láni elsku vina mín
verndum þau og elskum meðan hjarta okkar slær
Það elskar engin meir en móðir börnin sín
og engin ást nær dýpra né er eins tær

Við gleðjumst þegar gæfan reynist þeim í vil
grátum þó í einrúmi ef finna þau til
berjumst þegar boðaföllin brjóta þeim á
biðjum þegar enga aðra færa leið má sjá

Það nístir inn að beini að missa barnið sitt
hjartað grætur blóði og sálin missir máttinn
en mundu að þú sérð hann aftur yndið mitt
þú kysstir bara góða nótt fyrir háttinn (7.7. 2015 AE)

Engin orð sefa sorgina en í trúnni er von og í guði er hjálp og efst í huga mínum núna eru orðin Náð mín nægir þér…

Knúúúus, Lísa

Ein hugrenning um “Á jarðarfarardegi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s