Yngstu börnin á netinu

Á alþjólega netöryggisdeginum þann 9. febrúar 2021 hélt ég erindi um netöryggi yngstu barnanna, eða barna á leikskólaaldri. Erindið er hér sett fram með ítarlegri hætti og skýrari tengingum við heimildir en hægt var þá. Að mestu eru þetta þó mínar vangaveltur um mikilvægt málefni sem gefa þarf miklu meiri athygli, á mörgum sviðum samfélagsins. Áhersla mín hér er á netnotkun utan skóla og þar með tala ég til foreldra enda er reginn munur á tölvu- og netnotkun heima eða í skólanum.

Börn og netið. EU kids online er fjölþjóðlegt rannsóknarsamstarf 33 evrópu þjóða með aðkomu UNICEF og með áherslu á að afla upplýsinga um tækifæri, áhættu og öryggi 9-16 ára barna á netinu. Rannsóknir hafa staðið yfir frá árinu 2006 og eru reglulega gefnar út skýrslur um niðurstöðurnar. Skýrslurnar eru aðgengilegar á síðu verkefnisins www.eukidsonline.net  Hér er vitnað til skýrslu frá árinu 2010 en þar kom fram að börn fara yngri og yngri á netið, með fjölbreyttari hætti og víðar í daglegu lífi en áður án þess að það skili endilega þeim árangri að efla sköpunarhæfni eða færni til samvinnu svo dæmi séu tekin (2010). Í skýrslu tíu árum síðar (2020) kemur fram að síminn (snjallsímar) er aðal tækið sem börn nota til að nálgast netið og á þeim tíma sem leið milli skýrsla varð töluverð aukning á fjölda barna sem eiga snjallsíma, og þar með þeim tíma sem börn eru á neti. En það kemur líka fram að allt að 18% barna fer á netið í gegnum gagnvirk leikföng (2020). Chen og Adler (2019) tóku saman tölur yfir skjánotkun barna í USA á árunum 1997-2014 og niðurstaðan er sú að skjátími allra yngstu barnanna hafði aukist umtalsvert á þessum árum, sérstaklega allra yngstu barnanna en 2014 var skjátími þessa aldursthóps ríflega þrír tímar á dag að meðaltali eða sama tímalengd og 3-5 ára börn eyða við skjá. Í Kanada er þessi tími álitin klukkutíma styttri (Canadian Paediatric Society, Digital Health Task Force) og ef litið er til Bretlands þá sýna rannsóknir að 51% barna yngri en eins árs eru við skjá daglega (Cheung og Vota, 2017).

Ættu börnin kannski að vera að gera eitthvað annað? Leikskólakennarinn í mér segir að þessar tölur ættu að hringja viðvörunarbjöllum sem hugsa þarf um. Ekki vegna þess að skjár eða snjalltæki sé hættulegt viðfangsefni heldur vegna þess að á fyrstu fimm árunum er lagður grunnur að öllu því sem á eftir kemur. Þetta er dýrmætur tími sem þarf að nota til að efla alhliða þroska barnanna, málþroska, félagsþroska, hreyfiþroska, vitrænan þroska og alla hina þroskaþættina. Tími sem heilinn er að mynda allar þær brautir og tengingar sem koma barninu vel til framtíðar. Á þessum árum er lagður grunnur að námi, tengslum, getu og færni sem ung börn þurfa að læra í gegnum samskipti og með því að vera með raunverulega hluti í höndunum. Þannig sér leikskólakennarinn glötuð tækifæri í of mikilli skjánotkun ungra barna og tekur undir það sem sumir fræðimenn vilja meina … að skjánotkun barna yngri en 2 ára ætti að vera afar takmörkuð og skjánotkun 3-5 ára innan skynsamlegra marka og með öryggið í hávegum. Ekki bara netöryggið heldur ekki síður innan þeirra marka að það komi ekki niður á heilsu og þroska barnanna. Hér treysti ég foreldrum til að beita skynseminni. Til að setja malið í samhengi bendi ég á heilsuvera.is en þar eru gefnar ráðleggingar um skjánotkun barna og foreldrum ráðlaht að forðast ætti skjátíma með börnum yngri en 18 mánaða og takmarka skuli tímann sem 18 mánaða til 5 ára börn eru við skjá (https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/throskaferlid/uppeldi-barna/skjarinn-og-bornin/).

Netöryggi 0-6 ára barna. En hvers ber þá að gæta með yngstu börnunum? Foreldrar geta unnið fyrirbyggjandi starf, meðal annars með þeim leiðum sem gefnar eru hér á eftir:
Vertu með börnunum þegar þau eru á netinu:. Leiktu þér með barninu í snjalltækinu og sýndu gott fordæmi. Ekki skamma ef barn ef það brýtur reglurnar, það er þitt en ekki þeirra að passa upp á öryggið og það er ekki hægt að ætlast til að ung börn beri ábyrgð á því sem þau geta lent í með einum röngum smelli, sem búið er að útbúa sérstaklega til að lokka þau að. Segðu barninu að koma til þín alltaf ef eitthvað fer úrskeiðis.
Taktu þátt í því sem börnin eru að gera og vertu alltaf nærri, með annað augað á því sem fram fer.
Taktu stjórnina meðal annars með því að setja reglur og gefa leiðbeiningar. Sem byggir á þátttöku.
Notaðu öryggisstyllingar (og barnapíur). Stilltu tæki, forrit og leiki þannig að fyllsta öryggis sé gætt en vertu samt vakandi og mundu að virkja öryggisstillingar á leitarvélum.
Notaðu lykilorð og gættu þess að barnið viti lykilorðið ekki, þau geta verið ótrúlega nösk á að uppgötva slíkt.
Veldu aldurs og þroskasvarandi viðfangsefni. Gættu þess að efnið henti aldri og þroska barnsins, sé ekki of eða van en kannski mest að það sé vandað, það er mikið rusl í umferð.. Veldu eins viðeigandi efni og hægt er, efni sem er öruggt, skemmtilegt, örvandi með menntunargildi og hér er líka mikið af lélegu efni í boði sem er markaðsett vel. Og gættu þess að ofmeta ekki gagnsemi menntunar- forrita, þau virka stundum minna eða ekki ef þau eru ekki notuð með öðrum (Jindal og Kanozia, 2019).
Settu mörk Sumt má, annað ekki.
Og notaðu þau hjálpartæki sem í boði eru svo sem barnvænar leitarvélar:
Kiddle (kiddle.co) sjónræn leitarvél
Swiggle (swiggle.org.uk)
KidRex (alarms.org/kidrex)
Wacky Safe (wackysafe.com)
Safe Search Kids (safesearchkids.com)

Augljósa áhættan fyrir yngstu börnin á netinu er hin sama og fyrir eldri börn.
Ókunnugir s.s. perrar (predators) eða aðrir sem markvisst herja á börn í skilaboðum og á spjallsvæðum. Neteinelti, sem getur færst í raunheima og þá þeir sem fiska (phishing) eftir viðkvæmum upplýsingum.
Óviðeigandi efni s.s. klám eða kynferðislegar tilvísanir, ofbeldi eða óhugnaður, óviðeigandi orðbragð eða hegðun og að síðustu aðgangur að stolnu efni (sjóræningaefni).
Tölvan sjálf getur svo auðvitað verið í ákveðinni áhættu fyrir vírusum, að börnin hendi eða eyði gögnum sem verra er að missa. Það getur hent að þau rusli til þar eins og á kannski til að henda utan tölvu nú eða börnin hreinlega eyði peningum. Börn vita oft meira og kunna meira en við höldum en að sama skapi eru þau líklegri til að falla í gildrurnar sem eru lagðar fyrir þau af mikilli list í gegnum leiki og öpp. Sem dæmi má nefna að lítil börn skilja ekki endilega að robux, sem er gjaldmiðill roblox sem er vinsæll fjölspilaleikur, kostar alvöru peninga, íslenskar krónur í raunheimi. Því þarf að gæta að tengingum við debit eða kredit kort, huga að buy with one click og nú nýverið þarf að passa sérstaklega upp á auto fill, sem fyllir inn allar upplýsingar sjálfkrafa fyrir heimsendingu ofl.

Önnur möguleg áhætta. Sitthvað hefur verið skrifað og rannsakað um áhrif skjánotkunar á þroska og heilsu ungra barna. Meðal annars áhættu á sjón, athyglisgáfu, skammtímaminni, vitrænan þroska, hreyfiþroska, fín- og grófhreyfingar, félagsþroska og samskipti, tilfinningaþroska og tengsl (Barr ofl. 2010; Zimmerman og Christakis, 2007; Zimmerman og Christakis, 2005; Lin ofl. 2015; Tomopoulos ofl. 2010; Duch ofl 2013; Lillard og Peterson, 2011; Lerner og Barr, 2014; Li ofl. 2015). Meðal annara orða þá snýst umræða á þessum nótum um að ung börn ættu kannski að vera gera annað megnið af tíma sínum en vera í snjalltæki og því minna því yngra sem barnið er. Þegar upp er staðið skiptir samt miklu hvað er gert með barninu í annan tíma, fær það næga örvun, næg jákvæð félagsleg samskipti, er talað nægilega mikið við það, útskýrt og leikið við það, hefur það næga möguleika á hreyfingu … osfrv. Eftir því sem grunnurinn er betri ætti því hófleg skjánotkun að skipta minna máli en við getum öll verið sammála um að viðmið um sjátíma eru skynsamleg mörk sem á að hafa í huga.

Ung börn og youtube. Allra yngstu börnin, m.a. þau sem eru yngri en tveggja ára, eru gjarnan að horfa á youtube, bæði sem afþreyingu en líka á efni sem markaðsett er sem þroskavænlegt eða með menntunarmöguleika. Þar liggja þó nokkrir þröskuldar, svo sem að efni á opnum aðgangi er í eðli sínu allskonar, mis vandað, mögulega virkilega óviðeigandi og jafnvel þó það hafi afþreyingargildi er ekki víst að gagnsemi sé mikil fyrir menntun eða þroska barna. Það er vert að minna á tvennt, annars vegar að iðnaðurinn veltir milljörðum, m.a. sá hluti sem snýr að ungabörnum (Burroughs, 2017) og hins vegar að bara á youtube er hlaðið upp um 300 klst. af nýju efni á hverri mínútu sem gerir eftirlit nær ómögulegt. Þá hafa fræðimenn kallað flettingar barna óvart „accidental media usage“ (YouTube Official Blog; 2015, Nansen, 2015) og bent hefur verið á að mikið er um faldar auglýsingar um óhollan mat og drykki (Coates ofl. 2019). Að sama skapi er líklegt að börn sem eru á youtube opni óvart óviðeigandi myndbönd bara með því að vera á youtube (Papadamou ofl. 2019)

Og hvað geta foreldrar þá gert? Tilkynntu óviðeigandi efni, hladdu niður „ad blocker“ tiltölulega auðvelt og ókeypis, stilltu á „restricted mode“, útbúðu áhorfslista fyrir barnið þitt (playlist), horfðu með barninu og sjáðu hvað það horfir á og hvernig það horfir.

Hagnýt hjálpartæki
App blocker fyrir Android: XNSPY https://xnspy.com/features/app-blocking.html
App blocker fyrir iOS (ipad/iphone): https://support.apple.com/en-us/HT201304
Öryggisleiðir google: https://www.internetmatters.org/google-safety-tools-for-families/

Að lokum. Miðlanotkun/netnotkun yngstu barnanna er gefinn lítill gaumur á Íslandi utan við að sett hafa verið viðmið um skjátíma. Hér þarf að gera miklu betur. M.a. þess vegna eru foreldrar í lausu lofti og sumir kannski í fríu falli. Ræða þarf ítarlega og rannsaka hvað netnotkun þýðir fyrir börnin, þroska þeirra, líðan og gengi í námi og lífinu til framtíðar. Rannsaka þarf umfang og áhrif netnotkunnar allra yngstu barnanna (yngri en 3 ára) en einnig hinna (3-6 ára). Það er víst bara ein tilraun sem við fáum með hverju barni. Gerum hana gilda sem samfélag, með skynsemina að vopni

Heimildir

Burroughs, B. (2017). YouTube kids: The app Economy and mobile parenting. Social Media + Society. https://doi.org/10.1177/2056305117707189

Chen W, og Adler J.L. Assessment of Screen Exposure in Young Children, 1997 to 2014. JAMA Pediatr. 2019;173(4):391–393. doi:10.1001/jamapediatrics.2018.5546

Coates, A. E. ofl. (2019). Food and Beverage Cues Featured in YouTube Videos of Social Media Influencers Popular With Children: An Exploratory Study. Front. Psychol.  https://doi.org/10.3389/fpsyg.2019.02142

Duch, H., Fisher, E. M., Ensari, I. og Harrington, A. (2013). Screen time use in children under 3 years old: A systematic review of correlates. Int J Behav Nutr Phys Act 10(102).

heilsuvera.is (án árs). Skjánotkun barna eftir aldri. https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/throskaferlid/uppeldi-barna/skjarinn-og-bornin/

Jindal, R., og Kanozia, R. (2019). Do YouTube based children channels impact parenting? An exploratory study. Journal for All Subjects, 8.

Lerner C , Barr, R.(2014). Screen Sense: Setting the Record Straight; Research-Based Guidelines for Screen Use for Children Under 3 Years Old. Zero to Three 2014. <www.zerotothree.org/resources/series/screen-sense-setting-the-record-straight>

Lillard, A.S. og Peterson, J. (2011). The immediate impact of different types of television on young children’s executive function. Pediatrics 128(4):644–9.

Li, H., Boguszewski, K. og Lillard, A.S. (2015). Can that really happen? Children’s knowledge about the reality status of fantastical events in television. J Exp Child Psychol, 139, 99–114.

Lin LY, Cherng RJ, Chen YJ, Chen YJ, Yang HM. (2015). Effects of television exposure on developmental skills among young children.. Infant Behav Dev; 38:20–6

Nansen, B. (2015). Accidental, assisted, automated: An emerging repertoire of infant mobile media techniques. M/C Journal, 18(5). http://journal.media-culture.org.au/index.php/mcjournal/article/view/1026

Papadamou ofl. (2019). Disturbed YouTube for Kids: Characterizing and Detecting Disturbing Content on YouTube. https://encase.socialcomputing.eu/wp-content/uploads/2019/01/DisturbedYouTubeforKids.pdf

Orlando. J. (2017). The way your children watch YouTube is not that surprising – but it is consern. Western Sydney University. https://theconversation.com/the-way-your-children-watch-youtube-is-not-that-surprising-but-it-is-a-concern-here-are-some-tips-87597

YouTube Official Blog . (2015, February 23). Introducing the newest member of our family, the YouTube Kids app https://youtube.googleblog.com/2015/02/youtube-kids.html

Bæklingur um netöryggi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s