Föstudagur til frægðar

Fyrir ekkert svo rosaleg löngu síðan hefði mig aldrei grunað margt af því sem ég hef í dag upplifað, áorkað, lagt að baki eða yfirstigið, bæði gott og annað síðra. Hingað er ég komin þrátt fyrir allt. Lífið er stundum eins og stormur, nálgast með kólgubakka úr norðri, skellur á og setur allt á annan endann en gengur svo yfir. Stundum er lífið eins og sumarið 2021 hér fyrir norðan, næstum of gott til að geta verið satt, og stundum er lífið eins og jarðskjálfti, höggið kemur og svo er allt hljótt, grafarþögn. Oftast er lífið bara eins og látlaus vordagur, hversdagslegt bras og svo er komið kvöld. Hvernig sem svo lífið er þá er eitt sem alltaf getur komið aftan að manni, bæði í jákvæðri og neikvæðri merkingu, og það er hegðun fólks. Undanfarin ár hef ég upplifað óendanlega mikla gæsku, góðvild, hugulsemi, vinsemd og virðingu stundum frá ókunnugum en líka fólkinu í kringum mig. Minn innsti hringur hefur bæði stækkað og minnkað og það er sérstaklega skrítið en kannski bara lifsins gangur. Fólk stígur nær eða lætur sig hverfa og það er merkilegt að upplifa þessar tvær gagnstæðu hliðar þegar önnur er dýrmæt og hjartakær en hin þannig að það er engin leið að taka á henni. Ég hefði aldrei trúað að ég næði þeim árangri sem ég hef náð, gæti það sem ég get og ráði við það sem ég ræð við. Þegar upp er staðið er það eina sem ég hef stjórn á mín eigin viðbrögð þó það væri gott á stundum að geta haft vit fyrir fólki eða sagt því til syndanna. En án gríns hefur lif mitt aldrei áður verið svona ríkt, ljúft og notalegt og ég nýt þess af heilum hug. Það er ekki allt auðvelt, langt í frá en þetta hefst allt á endanum, líka að sætta sig við það sem man ræður ekki við að laga. Takk til ykkar allra sem eruð jákvætt afl í lífi mínu, fjölskylda, vinir, kunningjar, vinnufélagar og ókunnugir… það er dýrmæt gjöf.

Sex ára gömul dreymdi mig um að vinna með börnum, mér tókst það. Unga konan ég átti þann draum heitastan að ala börnin sín upp í friði og spekkt til að verða góðar manneskjur, það tókst með góðra manna hjálp. Mig langaði að textarnir mínir kæmu út á plötu(m) það gerðist og mig langar að vinna meira með þá. Mig dreymdi um frekara nám og eitt skref í einu bætti ég við mig gráðum. Ég ákvað snemma að forgangsraða fjölskyldunni og að mestu náði ég að gera það, a.m.k. stundum. Mig langaði að vera góð amma og sinna barnabörnunum vel, ég vinn enn að því. Lengi hefur mig dreymt um að gefa út bók og nú er hún langt komin. Ekkert af þessu var auðvelt og margt hefur mér mistekist, jafnvel stórfenglega en það er partur af prógramminu ef einhver árangur á að nást og eitt af móttóunum mínum er að einu mistökin eru að hætta að reyna. Það er eitt og annað sem ég hætti að reyna og sumt af því var skynsamleg ákvörðun eins og þegar ég gafst upp á að læra á gítar. Sú ákvörðunum kom mörgum til góða. Ég á enn eftir að láta suma drauma mína rætast, til dæmis ætla ég að læra færeysku, ferðast um færeyjar og eyða góðum tíma þar. Ég ætla líka að læra að hekla einn daginn og gefa út barnabók, kannski get ég það, kannski. Ég á líka þýðingu á texta með innihaldsrík skilaboð við gullfallegt lag og mig langar að komi fyrir almennings sjónir, kannski gerist það, hver veit. Það var líka margt sem ég setti mér að gera aldrei og auðvitað gengur það upp og ofan en tilgangurinn með þessu rausi er að minna á að markmið er fyrsta skrefið til að eitthvað gerist og mér hefur reynst vel að segja hlutina upphátt, henda þeim út í kosmóið, það ýtir við mér að halda áfram og nú þarf ég að finna leið til að gefa bókina út, fyrst þið nú vitið af henni, og það mun halda mér að verki…

Nú hafa einhverjir sett upp snúð og finnst ég montin í meira lagi en ég er stolt af því sem ég er, því sem ég hef gert, og mínu fólki. Það gerir ekki lítið úr öðrum, afrekum þeirra eða getu, hreint ekki. Ef þú ert einn af þeim sem fussar yfir pislinum mínum ráðlegg ég þér að líta í spegil, muna allt það góða sem þú átt, hefur áorkað og ert. Til hamingju, þú ert frábær… og þið hin líka… yfir og út

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s