Dimmalimm og Muggur

Nýverið auglýsti Óðinsauga að von væri á nýrri útgáfu af Dimmalimm með nýjum og fleiri teikningum. Hugmyndin hefur fengið misjafna dóma og töluverðar rökræður átt sér stað hér og þar í netheimum. Ættingjar Muggs hafa einnig lýst andúð sinni á útgáfunni og í grein á Vísi segir “Aðstandendur Muggs segja ósiðlegt að útgáfan verði undir hans nafni því verkið sé ekki eftir hann þegar myndum hans hefur verið skipt út.” og einn af sonum Dimmalimm, eins og þeir orða það, segir: “En það sem aðstandendunum svíður sé að verið sé að nota nafn Muggs við verk sem er ekki hans.” Greinina má finna hér:

https://www.visir.is/g/20232469241d?fbclid=IwAR3ukk97HTlfVeNhHpSWvRzBDthq2eS2ADuJnrcN28MRIHEmJtm-ditqwbw_aem_AQtLwyishR7qlLTcunlnNR_7TqK3FcDQCoyfi2Mqj5CsljabOLTKHkQWUGzwsWnsoIg

Við fyrstu sýn datt mér helst í hug að AI hefði teiknað myndirnar en útgefandi svaraði fyrirspurn minni um hver myndskreytti bókina á þessa leið “Myndirnar eru undir áhrifum frá frummyndunum. Þær eru svo unnar í teymisvinnu þriggja listamanna, frá Íslandi, Úkraínu og Argentínu. Þeir eru eftirtaldir: Huginn Þór Grétarsson, Olena Soroka og Vladimir Rikowski.” M.a.o. byggt er á myndum Muggs og það eitt og sér vekur margar spurningar, ekki síst hvort ekki hefði verið betra að gera alveg nýjar myndir og þá kannski nýtískulegri. En hvað um það röksemdafærslur útgefanda og vangaveltur annarra má m.a. lesa á Facebook síðu útgáfunnar þar sem bókin er auglýst. Ég hvet fólk til að beita gagnrýnni hugsun á hvoru tveggja. Mig langar þó að nefna eitt sem kemur fram í rökum fyrir nýju myndunum og það er að þær séu fleiri en áður. Dimmalimm Muggs hefur sjö síður með stuttum texta og átta myndir, því eru myndirnar bara nokkuð margar miðað við lengd sögunnar en það er jú bara mín skoðun, auðvitað má klippa textann enn meira niður ef bókin er ætluð yngstu börnunum. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að saga eins og Dimmalimm Muggs henti börnum frá 3-4 ára aldri og þá eru átta myndir og sambærilegur fjöldi lína á blaðsíðu ágæt samsetning. Kannski er nýja Dimmalimm harðspjaldabók fyrir allra yngstu börnin. Kannski.

Dimmalimm er ein af mínum uppáhalds bókum, sannarlega barn síns tíma en í sögunni er Dimmalimm barn, það sést á teikningunum og það finnst mér dýrmætt. Annar kostur við söguna er að Dimmalimm tekst á við sorg og missi þegar svanurinn hennar deyr og hún syrgir hann um tíma. Bókin er, eins og áður segir, prýdd átta myndum, sem hver og ein er listaverk, líka myndin af trénu á lokasíðu bókarinnar sem mér fannst svo ævintýralega fallegt með öllum sínum litlu hjörtum. Dimmalimm elskaði náttúruna, kom vel fram við dýrin og lék sér fyrir utan höllina, sem var svolítið eins og hún væri að stelast og þar fann hún vin í svaninum á tjörninni. En vísukornið í lokin er auðlært og fallegt, sérstaklega þegar lesandinn man að höfundur var með litlu frænku sína í huga þegar sagan var samin.

Engin er eins þæg og góð
og Dimmalimmalimm
Engin er eins hýr og rjóð
og Dimmalimmalimm

Og fyrir þau sem vilja meina að bókin hafi vondan boðskap, sérstaklega fyrir stelpur þá mega stelpur alveg vera þægar og góðar líka, það er ekki slæmir eiginleikar, sérstaklega þegar rætt er við þær um hvað er að vera þægur og góður (skilgreiningin er nefnilega ekki ein og meitluð í stein). Um jákvæðan boðskap sögunnar hef ég þegar rætt.

Mér finnst hugmyndin um nýja Dimmalimm verri eftir því sem ég sé fleiri myndir úr nýju útgáfunni, nú siðast uppgötvaði ég að tréð með hjartalaga blöðunum sem Muggur gerði svo brothætt og fallegt er endurgert í nýju útgáfunni. Hvenær hættir málverk eða teikning að vera endurgerð og verður stuldur? Hví var ekki gert valið annað konsept í stað þess að nota tréð sem hefur enga tilvísun í sögunni? Ég er orðin efins um hve mikið nýtt er í þessum nýju myndum en það verður að segjast að bókin er enn ekki komin út en ég er reikna svo sem ekki með að kaupa bókina.

…Hér var ég búin að setja inn mynd af trénu í nýju útgáfunni en ég tók hana út, ég bara gat ekki horft á hana lengur en aftur að Mugg.

Muggur hét Guðmundur Thorsteinsson og lést rétt liðlega þrítugur að aldri. Hann kom þó miklu í verk og arfleifð hans dýrmætar þjóðagersemar á borð við altaristöfluna í Bessastaðakirkju svo dæmi sé tekið. En mörg verk Muggs tengjast börnum og um hann er skrifað: “Honum var sérstaklega sýnt um að segja sögur, enda var hann barngóður með afbrigðum og þekkti betur sálarlíf barna en flestir aðrir fullorðnir”.

Muggur mynskreytti Þulur Theodóru Thoroddsen en Theodóra var móðursystir hans. Mynskreyting hans á 10 litlu negrastrákum er einnig mörgum kunn og endurútgáfa þeirrar bókar olli nokkru fjaðrafoki fyrir nokkrum árum en það er efni í annan pistil.

Ég á einnig bókina Búkolla sem er myndskreytt af Muggi en sú sem ég á kom út árið 1951 og hann teiknaði myndir við fleiri ævintýri. Það er því skemmtilegt að Dimmalimm rataði inn í barnaleiki íslenskra barna með leiknum 1 2 3 4 5 Dimmalimm.

Sagan um Dimmalimm og vatnslitamyndirnar sem prýða hana verða til árið 1921 og Muggur gerði sem gjöf til systurdóttur sinnar, Helgu Egilsson. Dimmalimm kom fyrst út árið 1942 í blárri harð kápu sem vafin var í hlíf með forsíðumyndi og örlitlum upplýsingum um Mugg.

Þar stendur m.a. um Mugg að hann hafi verið “einn gáfaðasti og fjölhæfasti listamaður sem Ísland hefur átt”. Muggur var leikari góður og lék árið 1919 í fyrstu leiknu íslensku kvikmyndinni. Hann var einnig gamanvísnasöngvari og tróð á stundum upp sem slíkur þegar hann skorti fé.

Ég fékk 1. útgáfu af Dimmalimm í 50. ára afmælisgjöf og sú er með kápunni (hlífinni utan um bókina). Það er fátítt að finna fyrstu útgáfu með kápunni því þær voru gjarnan innrammaðar eða gefnar sem tækifærisgjafir en undir hlífinni er kápan fallega blá á litinn. Eintakið mitt fannst í Bandaríkjunum og því fylgja upplýsingar um bókina og þýðing á sögunni á ensku.

Bókin með sögunni um Dimmalim hefur verið endurútgefin þó nokkrum sinnum í gengum tíðina og ég á útgáfu sem Helgafell gaf út en hún er án árs. Þar er sagan um Dimmalimm sögð á íslensku, dönsku, ensku, þýsku og frönsku. Greinilega hugsuð til tækifærisgjafa til erlendra vina og ættingja.

Eins og ég nefndi veit ég ekki hvar í röðinni sú útgáfa er en áttunda útgáfa bókarinnar er með harðspjalda kápu og ögn stærri en fyrri útgáfur 1991 (1. prentun), 1992 (2. prentun). Mig vantar því þó nokkrar útgáfur í safnið mitt sem komu út þarna á milli.

Níunda útgáfa bókarinnar kom út 2004 og er ljósmynduð frumútgáfa.

Árið 2006 var Dimmalimm gefin út, þá með hvíta harða kápu.

Fram til ársins 2006 höfðu því komið út 10 útgáfur af Dimmalimm en ég á bara þær sem hér hafa verið nefndar. Á tímabili, fyrir svona tíu árum síðan, var hægt að fá Dimmalimm á nokkrum erlendum tungumálum í ferðamanna hluta Eymundsson en það er þó nokkuð síðan þær hættu að sjást.

Fyrir áratug gaf dótturdóttir mín ömmu sinni heimatilbúna útgáfu af Dimmalimm í sumardagsgjöf og hér neðar má sjá myndir af þeirri útgáfu. Textinn er skrifaður á pólsku og söguþráðurinn hinn sami og Muggs þó höfundur þessarar útgáfu taki sér það bessaleyfi að sleppa Pétri í hásætinu enda eru prinsar að dómi höfundarins vita gagnslausir.

Sagan um Dimmalimm hefur verið sett á fjalirnar sem leikrit, ballet og brúðuleikrit. Atli Heimir Sveinsson gerði tónlist við verkið og Atli Már Árnason texta sem má heyra hér:https://www.bornogtonlist.net/Dimmalimm/

Jóhannes úr Kötlum samdi ljóðið Guðsbarnaljóð um Mugg og ljóðið má finna hér:https://timarit.is/page/6278000#page/n43/mode/2up

Fyrstu útgáfuna má skoða hér:http://baekur.is/bok/d6359c2c-ce94-4e68-9d34-33b47df4effc/Sagan_af_Dimmalimm

Spilin sem Muggur hannaði:

Dimmalimm er ekki bara bók heldur menningaarfur sem hefur fylgt þjóðinni um langt skeið og dýrmæt sem slík. Sagan og myndirnar eru samstæð listaverk og því ekki furða þó fólki misbjóði ef því finnst að sögunni, eða arfleifð Muggs, vegið. Undrar hvern sem vill.

Sögur fyrir svefninn…

Sérfræðingum af ýmsu tagi er gjarnan tíðrætt um kosti þess að lesa fyrir börn áður en þau fara að sofa. Um það þarf ekki að deila en minna (varla nokkuð sem heitið getur) er talað um gildi þess að syngja börn í svefn. Mínar fyrstu ljúfu minningar eru að sofna á meðan Eyja, ömmu systir og mömmuígildi okkar margra, söng fyrir mig um engla og sóleyjar (Sofðu rótt). Ljúf laglína og draumfagur kveðskapur sem hafði mikil áhrif á krakkann, það sakaði ekki að Eyja strauk um kinn og minningin er dýrmæt. Við Arnar fórum með þulur fyrir stelpurnar okkar fyrir svefninn en sungum líka vísur eins og Sofðu unga ástin mín og frumburðurinn hafði á orði að þetta væri mesta hryllingslag sem hægt væri að bjóða barni uppá. En ég söng líka lagið hennar Eyju og mörg fleiri.

Barnabörnin völdu sína einkennissöngva. Fyrir Snúðinn söng ég oftast Litla sæta ljúfan góða en afinn Kumbaya og ósjaldan söng afinn það fyrir hana í gegnum krabbameinið, bæði þegar hann var á staðnum og í gegnum facetime. Snældan vildi fátt heyra afann syngja annað en um stóru brúna sem fór upp og niður en amman söng til skiptis Fríða litla lipurtá og Drengurinn minn, draumur míns hjarta. Við sungum margt fleira, gamalt og gott og það var mér ljúft og skylt að syngja fjölskyldusöngvana tvo sem fylgt hafa ættinni lengur en elstu menn muna, annar er um kýrnar í fjósinu og hinn um bóndadótturina sem frelsaði prins úr álögum, ekki amarlegur fjölskylduarfur það.

Ljóð, visur, þulur og rímur eru góð undirstaða undir læsi rétt eins og lesturinn en hrynjandinn og takturinn er ómetanleg viðbót. Söngvar eru líka svo oft litlar sögur og mér er það minnistætt þegar litli pilturinn minn bað mig að syngja sögusöngva og eitt sinn vildi hann heyra þrjár söngvasögur, eina um strákinn sem hugsar, eina um strákinn sem býr til sögur og eina um strákinn sem þorir. Ef þú hefur ekki kveikt á perunni við hvaða stráka hann átti þá eru það auðvitað hann Ari sem var lítill, Tumi sem fór á fætur og Gutti (Guttavísur). Svona geta börn lesið í textana og skapað sína eigin merkingu. Börn sem mikið er sungið fyrir og sungið með eru börn sem fá forskot á læsið ekki síður en þau sem lesið er fyrir en umfram allt eru samverustundir fyrir svefninn fóður fyrir sálina, skapa nánd og góðar minningar. Ekki veit ég hve oft svona stundir enduðu í spjalli þar sem allt var látið flakka og létt á sálinni fyrir svefninn. Það á vel við að enda á orðum Erlu Stefáns: Góða nótt, og dreymi þig vel…

Textarnir fylgja hér neðan við.

Sofðu rótt
Sofðu rótt, sofðu rótt,
nú er svartasta nótt.
Sjáðu Sóleyjar vönd,
geymdu hann sofandi í hönd.
Þú munt vakna með sól,
Guð mun vitja um þitt ból.

Góða nótt, góða nótt,
vertu gott barn og hljótt.
Meðan yfir er húm,
situr engill við rúm.
Sofðu vært, sofðu rótt,
eigðu sælustu nótt.
(Brahms/Jón Sigurðsson)

Sofðu unga ástin mín
Sofðu unga ástin mín,
úti regnið grætur.
Mamma geymir gullin þín,
gamla leggi og völuskrín.
Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

Það er margt, sem myrkrið veit,
minn er hugur þungur.
Oft ég svarta sandinn leit
svíða grænan engireit.
Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.

Sofðu lengi, sofðu rótt,
seint mun best að vakna.
Mæðan kenna mun þér fljótt,
meðan hallar degi skjótt,
að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.
(Jóhann Sigurjónsson, úr Fjalla-Eyvindi)

Litla sæta ljúfan góða
Víða liggja leiðir,
löngum útþrá seiðir,
margur sinni æsku eyðir
úti á köldum sæ.

Langt frá heimahögum
hef ég mörgum dögum,
eytt og æskuárin streyma,
en ég skal aldrei, aldrei gleyma
blíðri mey sem bíður heim
bjarta nótt í maí.

Litla sæta ljúfan góða
með ljósa hárið
lætur blíðu brosin sín
bera rósailm og vín
allar stundir út til mín.

Litla sæta ljúfan góða
með ljósa hárið,
fyrir hana hjartað brann,
hún var allra besta stúlkan sem ég fann.

Hennar hlátur minnir mig fossanið
af hennar munni vil ég teyga sólskinið,
vorsins blær sem hennar kitlar kinn,
er kossinn fyrsti minn.

Hennar augu ljóma eins og hafið blátt,
ég hef ótrúlega hraðan hjartaslátt.
Hún er stúlkan sem ég einni ann,
ég enga betri fann.
(Thore Skogman/Valgeir Sigurðsson)

Góða nótt
Drengurinn minn, draumur míns hjarta
dýrlegust gjöf móður ert þú.
Eiga þú munt ævina bjarta,
óskin mín besta’ er til þín sú:

Góða nótt, þú glókollur minn,
glöð og sæl ég strýk þína kinn.
Góða barm ég guði þig fel,
góða nótt, og dreymi þig vel.

Hreykin ég er af þessum snáða,
uppvaxinn mun fallegur sveinn.
Frumburður minn, fæddur til dáða,
fremri þér verður ekki neinn.

Góða nótt, ég sveipa þig sæng,
sofðu rótt sem ungi’ undir væng.
Okkur, sveinn, er gæfan svo góð,
góða nótt, ég syng þér mitt ljóð.

Ætti’ ég ei þig, eflaust ég væri
einmana sál, gleðilaust hér.
Vagga ég þér, vinurinn kæri,
væran í blund í örmum mér.

Góða nótt, senn gleymi ég mér,
gott mér finnst að sofna hjá þér.
Hér mun guð nú gefa okkur tveim
góða nótt í draumanna heim.

Aldrei hjá þér svefnsins ég sakna,
senn fæ ég blund þína við hlið.
Litlum hjá dreng, ljúft er að vakna,
ljómandi dagur tekur við.

Góða nótt þú, glókollur minn,
glöð og sæl ég strýk þína kinn.
Góða barn, ég guði þig fel,
góða nótt, og dreymi þig vel.
(Erla Stefánsdóttir)

Fríða, litla lipurtá
Fríða litla lipurtá
Ljúf með augun fögur djúp og blá
Að dansa jenka er draumurinn
hún dansar fyrir hann afa sinn.

Annað dansa ekki má,
annað en jenka, ónei það er frá.
Allir klappa hó og hó og hæ
hlegið hátt og dansað dátt
því nú er kátt í bæ

Fríða litla lipurtá
Ljúf með augu fögur djúp og blá
Að dansa jenka er draumurinn
hùn dansar fyrir hann afa sinn
(Jenni Jóns)

Stóra brúin
Stóra brúin fer upp og niður,
upp og niður, upp og niður,
stóra brúin fer upp og niður,
allan daginn

Bílarnir aka yfir brúna,
yfir brúna, yfir brúna.
Bílarnir aka yfir brúna,
allan daginn

Skipin sigla undir brúna,
undir brúna, undir brúna.
Skipin sigla undir brúna,
allan daginn

Flugvélar fljúga yfir brúna,
yfir brúna, yfir brúna.
Flugvélar fljúga yfir brúna,
allan daginn

Fiskarnir synda undir brúna,
undir brúna, undir brúna.
Fiskarnir synda undir brúna,
allan daginn

Fuglarnir fljúga yfir brúna,
yfir brúna, yfir brúna.
Fuglarnir fljúga yfir brúna,
allan daginn

Börnin ganga yfir brúna,
yfir brúna, yfir brúna.
Börnin ganga yfir brúna,
allan daginn

Aravísur
Hann Ari er lítill.
Hann er átta ára trítill
með augu svo falleg og skær.
Hann er bara sætur,
jafnvel eins, er hann grætur
og hugljúfur þegar hann hlær.

En spurningum Ara
er ei auðvelt að svara:
Mamma af hverju er himininn blár?
Sendir Guð okkur jólin?
Hve gömul er sólin?
Pabbi, því hafa hundarnir hár?

Bæði pabba og mömmu
og afa og ömmu
þreytir endalaust spurninga suð:
Hvar er sólin um nætur?
Því er sykurinn sætur?
Afi, gegndu, hver skapaði Guð?

Hvar er heimsendir amma?
Hvað er eilífðin, mamma?
Pabbi, af hverju vex á þér skegg?
Því er afi svo feitur?
Því er eldurinn heitur?
Því eiga ekki hanarnir egg?

Það þykknar í Ara,
ef þau ekki svara
og þá verður hann ekki rór,
svo heldur en þegja,
þau svara og segja:
Þú veist það, er verðurðu stór.

Fyrst hik er á svari,
þá hugsar hann Ari
og hallar þá kannski undir flatt
og litla stund þegir,
að lokum hann segir:
Þið eigið að segja mér satt.
(Ingibjörg Þorbergs / Stefán Jónsson)

Hann Tumi fer á fætur
Hann Tumi fer á fætur
við fyrsta hanagal,
að sitja yfir ánum
lengst inn í Fagradal.

Hann lætur hugann líða
svo langt um dali og fjöll
því kóngur vill hann verða
í voða stórri höll.

Og Snati hans er hirðfífl
og hrútur ráðgjafinn,
og smalahóll er höllin,
en hvar er drottningin?
(Mozart / Freysteinn Gunnarsson)

Guttavísur
Sögu vil ég segja stutta
sem að ég hef nýskeð frétt.
Reyndar þekki þið hann Gutta,
það er alveg rétt.

Óþekkur er ætíð anginn sá,
út um bæinn stekkur hann
og hoppar til og frá.
Mömmu sinni unir aldrei hjá
eða gegnir pabba sínum!
Nei, nei það er frá

Allan daginn út um bæinn
eilíf heyrast köll í þeim
Gutti, Gutti, Gutti, Gutti,
Gutti, komdu heim

Andlitið er á þeim stutta
oft sem rennblautt moldarflag.
Mædd er orðin mamma hans Gutta,
mælir oft á dag

Hvað varst þú að gera, Gutti minn?
Geturðu aldrei skammast þín
að koma svona inn?
Réttast væri að flengja ræfilinn.
Reifstu svona buxurnar
og nýja jakkann þinn?

Þú skalt ekki þræta, Gutti,
það er ekki nokkur vörn.
Almáttugur, en sú mæða
að eiga svona börn

Gutti aldrei gegnir þessu.
Grettir sig og bara hlær.
Orðinn nærri að einni klessu
undir bíl í gær.

O’n af háum vegg í dag hann datt.
Drottinn minn – og stutta nefið
það varð alveg flatt.
Eins og pönnukaka.
Er það satt?
Ó, já, því er ver og miður,
þetta var svo bratt.

Nú er Gutta nefið snúið.
Nú má hafa það á tröll.
Nú er kvæðið næstum búið.
Nú er sagan öll.
(Bellman/Stefán Jónsson)

Enid Blyton

Fyrsti hluti þessa bloggs varð til á fæðingardegi Enid Blyton (11.8 1897–28.11 1968) en síðar bætti ég við það og bjó að lokum til stutt myndband fyrir nemendur mína í HA, sjá slóð neðar.

Enid Blyton skrifaði hátt í 800 bækur, 762 útgáfur ef við erum nákvæm, ja eða þannig var það síðast þegar var talið. Einkar afkastamikill höfundur sem sum árin gaf út 40 bækur, geri aðrir betur. Bækur hennar hafa verið þýddar á 90 tungumál og eru sífellt endurútgefnar. Langlífur orðrómur um að Blyton hafi í raun notað „ghost writers“, hulduritara sem skrifuðu fyrir hana en hún tók alla tíð fyrir það.

Doddi (Noddy) markaði fyrstu kynni mín af Blyton en síðan las ég allar þær bækur sem ég komst yfir spjaldanna á milli. Ævintýrabækurnar (Adventure series) sem voru 8 talsinsfimmbækurnar (Famous five) en þær urðu 21 og voru mitt uppáhald, leynifélagsbækurnar (Secret Seven) og dularfullubækurnar (Five Find-Outers and Dog) en báðir flokkar innihalda 15 bækur. Bækurnar þrjár, nú eða voru þær fjórar? …um Baldintátu (The naughtiest girl) las ég en ekki oft að mig minnir, þær eru alla vega ekki minnistæðar og þó boða þær jafnrétti, jöfnuð og eru ótrúlega framsæknar á margan hátt. Ég sættist svo aldrei almennilega við ráðgátubækurnar (Barney Mysteries) 6 bækur sem komu út frá og með árinu 1987. Þá er ég fullorðin og gagnrýnni enda sló mig óréttlætið og mismununinn. Síðar las ég bækurnar um bangsa fyrir börnin i leikskólanum en það eru bækur sem Blyton skrifaði síðar á ferlinum. Ég held bara að þar með séu upptaldir þeir flokkar og bækur sem hafa verið þýdd á íslensku eftir þennan merka höfund.

Má bjóða þér að líta í bókaskápinn minn? Blyton trónir þarna efst:

72892A31-50AE-411F-8AF6-E96DC5CF81AF

Doddi er líklega þekktasta sögupersóna Blyton og hún samdi 150 Dodda bækur, sem íslenska Wikipedia segir 24. Doddi hefur verið í sýningum í sjónvarpi frá miðri síðustu öld. Doddi þótti af mörgum ekki merkilegur pappír og var m.a. bannaður hér og hvar í tímanum fyrir ýmislegt, fyrst fyrir að vera lélegur skáldskapur, þá fyrir að sýna pólítíska ranghugsun og enn síðar fyrir homophobiu og rasisma. Það er vandlifað, meira að segja i leikfangalandi. Almennt hafa bækur Blyton fengið á sig þá gagnrýni að hafa þunnt innihald, þær þótt rasískar, forréttindamiðaðar og gjarnan lítið femíniskar og að mínu viti kannski horft fram hjá mörgu sem skiptir máli. T.d. því að höfundur var fæddur á næst síðustu öld og lést fyrir jafnréttisbaráttuna uppúr og í fyrir 1970. Á lista yfir tíu verstu rasísku barnabækurnar má finna tvær bækur eftir Blyton; Dodda og The Three Golliwogs og þar eru þær í félagskap Kypling (Kim), Mark Twain (Stikkilsberja Finnur), Hergè (Tinni í Kongó), Lofting (Dagfinnur dýralæknir), Bannerman (Litli svarti Sambó) og sögunum um húsið á sléttunni (Laura Ingals), de Brunhoff (Babar) og auðvitað Winner (tíu litlir negrastrákar) sem upphaflega voru iníánar, svona getur lán minnihluta hópanna verið fallvalt. Ég gæti nefnt fjölmargt bókunum til varnar á öllum þessum sviðum og vel gæti verið a stundum eigi myndskreytingarnar sinn hlut í gagnrýninni, a.m.k. stundum framan af. Í formála fyrstu bókar Blyton skrifar hún og svarar kannski gagnrýninni að hluta til sjálf og segir að börnin í gær eru ekki eins og börnin í dag:

CD10BB4E-CFD8-476F-A5B5-C15D194F7F86

Gleymum svo ekki að Blyton skrifaði um óþekku stelpuna Baldintátu, um hörku stelpuna Georgínu sem gegndi engu nema strákanafninu Georg og er mögulega fyrsta transbarnið sem ég kynntist og Blyton viðurkenndi að þar væri hún að skrifa um sig sjálfa. En Enyd skrifaði sögur með stelpum í aðalhlutverki og þær kalla ekki allt ömmu sýna, s.s. Baldintáta en fleiri mætti nefna. Hin hliðin er svo dýravinurinn Finnur og Júlíus sem er einkar umhyggjusamur og vingjarnlegur. Munið þið t.d. hann Jonna sem birtist í tveimur seríum (Jack og Dick) og var gott ef það var ekki Anna í tveimur líka. Hvað er þetta með að láta börnin í ólíkum seríum heita sömu nöfnum? Það má alfarið skrifað á íslensku þýðendurna sem hefðu mátt gæta sín betur. 

Enid skrifar líka um einstæðu móðurina, mömmu Finns og Dísu sem tók að sér munaðarlausu systkinin Önnu og Jonna í ævintýrabókunum og dæmin eru fleiri. Ég naut þess að lesa um ferðalög, hættuspil og klára krakka sem saman leystu ur hverri þraut. Munum líka að það var ekki oft á þessum tíma, og alltof fátítt enn í dag að geta lesið um stelpur sem tóku fullan þátt og voru á kafi í ævintýrum. Ég vildi að þýddar hefðu verið fleiri bókaflokka Blyton, sérstaklega þessir sem fjalla bara um stelpur.

Ég las bækurnar ekki gagnrýnislaust, þó ég væri písl. Framkoman við sígaunana stakk mig á stundum og það pirraði mig að börnin þurftu aldrei á salerni. Ég vorkenndi líka aumingja Önnu sem var eilíft að sjóða fimm mínútna egg eins og heimsfriðurinn ylti á nákvæmninni og ég var handviss um að Georg væri með þetta, a.m.k. sauð hún engin egg eða vaskaði upp, braut saman föt fyrir alla og lagaði til eftir hina

040BEED5-4ABE-455B-AB84-5823CA67EAC1

Gagnrýnin á bækur Blyton hefur verið hörð og framan af voru það karlar sem hæst heyrðist í, tökum það með í reikninginn. Þess vegna hafa bækur Blyton verið, og eru, ritskoðaðar, sumu breytt og annað fært í meira pólítískt rétthugsandi búning miðað við tíðarandann núna. 2010 tilkynnti (enska) útgáfufyrirtæki fimm bókanna áætlun um að gefa bækurnar út með breyttri orðanotkun, m.a. skipta orðum út fyrir samheiti sem væru þekktari. Hugmyndinn mætti andstöðu og hún var slegin af. Ég velti fyrir mér hvort einhverjum detti í alvöru í hug að gera það sama við Dickens svo dæmi sé tekið en hitt veit ég að BBC kvikmyndaði ævisögu Blyton árið 2009 með Helena Bonham Carter í aðalhlutverki og heitir sjónvarpsþátturinn einfaldlega Enid

Bækur Blyton hafa ratað á svið, orðið að söngleik, verið kvikmyndaðar ofl. ofl. Blyton er númer sjö á lista mest seldu höfunda í heiminum, ekki svo lítið afrek í sjálfu sér og þá sérstaklega fyrir barnabókahöfund og þar stendur nafn hennar í kjölfar Shakespeare, Agötu Cristy, Barböru Cartland og Daniel Steel. Konur standa sig vel í að skrifa bækur sem seljas, það verður að segjast. Það vakti því nokkra eftirvæntingu þegar handrit að óútgefinni bók fannst um 2011 með sögu um töfrum hlaðna lest ef ég man rétt en ekki veit ég hvort bókin var síðan gefin út svo kannski er hún þarna úti og bíður þess að vera lesin

Fyrsta bók Blyton var ljóðabók og heitir Child whispers (1922, sjá slóð neðar). Blyton sagði að tvennt heillaði börn helst þegar kæmi að skáldskap, annars vegar húmor og hins vegar ljóðræna sem höfðaði til ímyndunaraflsins. Sennilega hefur hún sitthvað til síns máls því hún náði vel,til ungra lesenda.

Fyrsta bók Blyton á íslensku kom út árið 1945 undir heitinu Sveitin heillar. Á Wikipediu er hún sögð úr bókaflokknum sjö saman en í lýsingu á bókinni í Menntamálum (1945) er sagan sögð vera um fjögur börn frá London svo það passar ekki alveg. Hitt er víst að hún var gefin út af bókaútgáfunni Björk, þýðandi var Sigurður Gunnarsson, þá skólastjóri á Húsavík og sagan var lesin í morgunútvarpi barnanna árið 1975. Þessa bók á ég ekki i safni mínu en vildi gjarnan eiga, þó ekki væri nema til að ganga úr skugga um hvaða flokki hún tilheyrir. Fyrsta ævintýrabókin kom út 1950 og þær síðan hver af annari. Fimm bækurnar voru endurútgefnar rétt fyrir aldamótin og sjálfsagt fleiri bókanna ef ég man rétt.

63D58769-79C0-4FD9-B9D2-A9B8B925B1D6

Vel gæti ég skrifað langan pistil um myndskreytingarnar í bókum Blyton og listamennina sem með henni unnu en læt duga að henda í ykkur einum mola: Kenningar eru uppi um að Dodda hafi ætlað að verða evrópska hliðstæðan við Mikka mús, sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Fyrir forvitnissakir:

Meira um bókaflokkana og persónurnar

Fimm bækurnar (Famous five) Júlíus, Jonni, Anna, Georg og hundurinn Tommi (Julian, Dick and Anne and George, and her dog, Timmy) 25 bækur en auk þess skrifaði Blyton smásögur um þau sem komu út í safni á ensku 1995. Krakkarnir eru 10-12 ára

Famous Five

  1. Five on a Treasure Island (1942)
  2. Five Go Adventuring Again (1943)
  3. Five Run Away Together (1944)
  4. Five Go to Smuggler’s Top (1945)
  5. Five Go Off in a Caravan (1946)
  6. Five on Kirrin Island Again (1947)
  7. Five Go Off to Camp (1948)
  8. Five Get into Trouble (1949)
  9. Five Fall into Adventure (1950)
  10. Five on a Hike Together (1951)
  11. Five Have a Wonderful Time (1952)
  12. Five Go Down to the Sea (1953)
  13. Five Go to Mystery Moor (1954)
  14. Five Have Plenty of Fun (1955)
  15. Five on a Secret Trail (1956)
  16. Five Go to Billycock Hill (1957)
  17. Five Get into a Fix (1958)
  18. Five on Finniston Farm (1960)
  19. Five Go to Demon’s Rocks (1961)
  20. Five Have a Mystery to Solve (1962)
  21. Five Are Together Again (1963)

Ævintýrabækurnar (The adventure series) Finnur, Dísa, Anna, Jonni og páfagaukurinn Kíkí (Philip, Jack, Dinah, and Lucy-Ann and Kiki). Bækurnar í flokknum áttu að verða sex en vegna þrýstings bætti Blyton tveimur við. Stelpurnar eru 11 og 12 ára en drengirnir ögn eldri

  • The Circus of Adventure (1952)
  • The River of Adventure (1955)

Leynifélagsbækurnar (The secret seven) Beta og Palli, Lárus, Dísa og Finnur og hundurinn Snati, hér verður eiginlega líka að nefna lögreglumanninn Gunnar (Peter, Janet, Jack, Barbara, George, Pam og Colin). Þessar skera sig úr hinum flokkunum því þær gerast á skólatíma meðan hinar eiga sér stað í skólafríum eins og fimm bækurnar og ráðgátubækurnar eða á ferðalögum erlendis eins og ævintýrabækurnar.

The Secret Seven:

  1. At Seaside Cottage (1947)
  2. Secret of the Old Mill (1948)
  3. The Humbug Adventure (1954)
  4. Adventure on the Way Home (1955)
  5. An Afternoon with the Secret Seven (1956)
  6. Where Are the Secret Seven? (1956)
  7. Hurry, Secret Seven, Hurry! (1957)

Dularfullubækurnar (five find-outers and a dog) (Larry (Laurence Daykin), Fatty (Frederick Trotteville), Pip (Philip Hilton), Daisy (Margaret Daykin), Bets (Elizabeth Hilton) and Buster, Fatty’s dog). Krakkarnir eru 8-13 ára og bækurnar gerast í skólafríum og eru 15 talsins

Five find-outers and a dog

The Mystery of the Burnt Cottage (1943)
The Mystery of the Disappearing Cat (1944)
The Mystery of the Secret Room (1945)
The Mystery of the Spiteful Letters (1946)
The Mystery of the Missing Necklace (1947)
The Mystery of the Hidden House (1948)
The Mystery of the Pantomime Cat (1949)
The Mystery of the Invisible Thief (1950)
The Mystery of the Vanished Prince (1951)
The Mystery of the Strange Bundle (1952)
The Mystery of Holly Lane (1953)
The Mystery of Tally-Ho Cottage (1954)
The Mystery of the Missing Man (1956)
The Mystery of the Strange Messages (1957)
The Mystery of Banshee Towers (1961)

Ráðgátubækurnar (Barney misteries) Reynir, Dóra, Bjarni (Roger, Diana and Barney) krakkarnir eru 13 til 15 ára, 11 ef óþolandi frændinn (Snubby) er talin með

Barney Mysteries

  • The Rockingdown Mystery (1949)
  • The Rilloby Fair Mystery (1950)
  • The Ring O’ Bells Mystery (1951)
  • The Rubadub Mystery (1951)
  • The Rat-a-Tat Mystery (1952)
  • The Ragamuffin Mystery (1959)

Baldintáta Elísabet (Elisabeth Allen)

Anne Digby hélt síðan áfram að skrifa sögurnar um Baldintátu

Ef þú vilt lesa ljóðin í fyrstu bók Blyton þá finnur þú þau hér:

https://archive.org/details/ChildWhispers/page/n47

Ef þú vilt lesa það sem aðrir eru að velta fyrir sér um Blyton:

Grein Ármanns Jakobssonar á Knúz 5. mars 2015

https://knuz.wordpress.com/2015/03/05/eg-vil-vera-strakur-af-draumum-enid-blyton-um-ad-vera-manneskja/

Grein á mbl. í tilefni 100 ára fæðingarafmæli Blyton

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/349466/

Blogg Guðrúnar Láru um Baldintátu 7.11 2011

http://bokvit.blogspot.com/2011/11/utopiskt-barnasamfelag-gulnuum-blasium.html