Pallborðsinnlegg um raun- og tæknigreinar… #visindi19

Ég sat í pallborði ráðstefnu MSHA og málþings um náttúrufræðimenntun þann 30. mars 2019, Vísindi í námi og leik. Þar var tekist á um tvær spurningar og eru svör mín hér neðar

Hverjar eru helstu áskoranir í skólakerfinu þegar nám og kennsla í raungreinum og tækni eru annarsvegar? 

Ég sit hér sem leikskólakennari og sem slíkur veit að í leikskólanum er löng hefð fyrir samþættu skólastarfi, viðfangsefni eru fléttuð saman og unnið með þroska og nám á mörgum sviðum með einu og sama viðfangsefninu. Það er því áskorun í því að fá hinn almenna kennarar til að flétta raun- og tæknigreinar inn í starf sitt eða nota þær sem útgangspunkt

Í leikskólanum og yngri bekkjum grunnskóla er unnið með grunnþætti, og þeir eru almenns eðlis og á valdi þess kennara sem vill. Nú vona ég að engin misskilji mig og telji að ekki þurfi sérþekkingu til að kenna sérhæfð viðfangsefni, það er ekki það sem ég á við og sérfræðiþekkinguna má bæta t.d. í kennaranámi og við þurfum einnig að vinna með kennurum að því að efla bæði stelpur og stráka í þessum greinum. Þar liggur ein áskorunin

Það virðast vera til svið sem fólk hefur það viðhorf til að allir geti kennt það. Man eftir því í tengslum við dönsku á sínum tíma og reyndar einnig um leikskólakennslu. Og önnur sem sett hafa verið á stall, svo sem tölvurnar og snjalltæknin En það eru einnig svið sem í gegnum tíðina hafa verið vafin ákveðinni dulúð eins og ég held eigi við um raun- og tæknigreinar. Grunn þekking í rafleiðni, kóðun, eðlis- eða efnafræði eða stærðfræði getur verið á valdi hins almenna leik eða grunnskólakennara ef hann setur sig inn í efnið og lærir um það. Ekkert síður en leikskólakennarinn getur sungið með börnum, unnið með hljóðfæri, hljóð, takt, hljómfall og grunnþætti tónlistar án þess að vera langskólagenginn í tónlist. M.a.o. tel ég áskorun felast í að vekja athygli hins almenna kennara á því sem hann getur gert á þessu sviði, dags daglega, í þemaverkefnum eða í einstökum verkefnum

Yngri börn læra á með því að leika sér með viðfangsefnið, leikur er námsleið leikskólabarna og við ættum að læra af börnunum og tenga raungreinar og sköpun saman. Margir leikskólakennarar vinna heilmikið með náttúruvísindi, tilraunir og athuganir tengdar náttúrinni ofl. Einnig líffræði og jarðfræði, náttúruöflin  s.s. veður og fleira. Rannsóknir, uppgötvanir, lausnaleit og ígrundun eru einnig hluti af leikskólastarfi

Sem sagt að samþætta viðfangsefni, að kennarar veigri sér ekki við að gera það sem þeir geta, gleyma ekki sköpuninni og að hafa gaman af

Til hvaða aðgerða þarf að grípa til að mæta þeim áskorunum sem hér hafa verið nefndar? 

Það er margt sem má gera til að efla raun- og tæknigreinar og út frá mínu kennaramiðaða sjónarhorni þá vil ég byrja á að nefna þá sem valdið og peningana hafa. Menntamálaráðuneytið leggur mikla áhersla á læsi og það hefur varla farið fram hjá neinum. Fjölmörg sveitarfélög hafa lagst á árina með þeim í læsisverkefnum og átaksvinnu á þessu sviði. Þetta tel ég hafa komið niður á öðrum þáttum í skólastarfi, ekki síst í leikskólaumhverfinu … en þetta er ekki tvennt ólíkt og aðskiljanlegt

Sveitarfélögin þurfa að fjármagna skólana þannig að mögulegt sé að kaupa þau tæki og efni sem þarf til að kenna börnunum í gegnum „hands on“ aðferðir, með því að gera og hafa í höndunum. Þannig læra ung börn best en þetta kostar peninga

Háskólarnir geta boðið upp á símenntunarnámskeið og opnað þau námskeið sem þegar eru í boði á þessu sviði fyrir starfandi kennara og við í HA höfum stigið fyrstu skrefin í þessa átt

Kennarar þurfa að bera sig eftir björginni. Sækja nám og námskeið ef þeir telja sig skorta þekkingu eða vilja læra meira

Kennarasambandið sinnir kannski fyrst og fremst kjaramálum en ég tel það geta, í samvinnu við samband íslenskra sveitarfélaga, haft í huga þegar samið er að símenntun kennara að hún sé markvissari en nú … amk geta báðir þessir hagsmunaaðilar lagt sitt af mörkum 

Margt er vel gert og víða í skólum eru fyrsta flokks kennarar á þessu sviði að gera góða hluti og kannski ættum við að draga fram bestu dæmin, því oft held ég að kennarar læri best af jafningjum um hagnýtar útfærslur

Ábyrgðalaus pæling um tækni, ensku, uppeldi og fleira

1395DB57-546A-4897-A674-B7030F84F264Nokkrir dagar með karlinum í útlöndum um daginn og fátt að gera annað en tala saman. Hingað til höfum við tekið umræðuna um börn í heimi tækni (tölvur, síma, spjöld) eða kannski frekar talað um foreldra, kennara og fullorðna í tækniheimi því það verður að segjast að mér finnst fæstir fullorðnir sérlega góð fyrirmyndir eða skynsamir þegar að þessu kemur.

Tæknin er í eðli sínu bara tæki, …kóðar, forrit og jú möguleikar, endalausir möguleikar. Ég elska iPadinn minn meira en ég ætti en eiginlega væri réttara að segja að ég elskaði möguleikana sem iPadinn minn gefur mér því ef þessi gefur upp öndina uppfæri ég hið snarast í næsta stykki iPad 3.0. Ég er sem sé á öðrum iPadnum og sá fyrst gat ýmislegt, þessi sem ég á núna getur enn meira. Hann gerir samt i raun ekkert nema ég segi honum að gera það, þess á milli liggur hann bara hógvær og hljóður og bíður eftir mér en í honum hef ég bókasafnið mitt og því endalaust úrval af lesefni, ég hef tónlistina mína og því get ég hlustað þegar mig langar … nú eða hlustað á hljóðbók, tær snilld á ferðalögum. Ég hef dagbókina mína í spjaldinu og hún sinkar við dagatalið í vinnunni og Arnars svo nú skiptir engu þó hann gleymi að segja mér hlutina, þeir eru þarna á vísum stað. Ég hef netið og þar með bókasöfnin út um allan heim eða hvað sem mig langar að fræðast um og grúska. Ég get tekið ljósmyndir, hreyfimyndir, hljóðupptökur og unnið með þetta allt. Barnabörnin (og ég) eigum þarna nokkra leiki til afþeyingar og ég er með forrit til að halda utan um bókanir á flugi, gistinu, brottafararspjöld og hvaðeina. Ég get samið ljóð hvar sem er, skrifað pistla, sett saman efni og birt, haft samskipti um vefinn eða tölvupóstinn. Dásamlegt alveg í örþunnu 10” tæki sem vegur sama og ekkert. Ég get unnið hvar sem er, notið hvar sem er og gleymt mér hvar sem er. Sem sé tæknin er frábær.

Nóg um mig en tvennt vil ég segja um fullorðna, svona utan við að þeir mættu margir hverjir sýna betra fordæmi, það er mikilvægt. Nenni ekki að skrifa um kurteisi, samskipti, tilitsemi og á stundum tilætlunarsemi í kringum tækninotkun fullorðinna (m.a. síma) eða hvernig þeir deila sora, vitleysu eða myndum af börnum, fötluðum og slíku, um það hef ég tjáð mig áður (Arnar skrifaði um foreldra og tæknina á féssíðu sinni 2.3 2019).  Í fyrsta lagi þá er mýtan um tæknigetu barna og ungmenna er stórlega ofmetin. Já, ég hef mál mitt á fullyrðingu og læt aðra, nátengda fylgja í kjölfarið, ensku kunnátta barna er einnig stórlega ofmetið fyrirbrigði og þvi miður oft á kostnað islenskunnar. Börn þurfa sterkan grunn í móðurmáli til að eiga bestu möguleikana á að fóta sig í næsta máli og allt hangir þetta saman við líkur á gengi í námi til fullorðinsára. 

Foreldrum er ekki einum um að kenna, stjórnvöld hafa að mínum dómi allt of þrönga sýn á læsi og ættu að láta sig meiru varða vandað barnaefni á góðri íslensku fyrir yngstu börnin. Þau þurfa góðar bækur því það verður að segjast að það er lítill metnaður á bak við of margar barnabækur. Og þó að það kosti þarf að gera vönduð forrit fyrir yngstu börnin, forrit sem byggja á öllu þrennu þekkingu og hæfni í forritun, í hönnun og í námi og þroska ungra barna. Oft vantar hið minnsta síðasta þáttinn. Að lokum þyrfti að gera kröfu á barnaefnið sem sýnt er í íslensku sjónvarpi og í guðanna bænum koma böndum a Dóru landkönnuð, Manna meistara og aðra sambærilega sem rugla tungumálum skammlaust og án aðgeiningar þvert á fræði um máltöku, bæði íslensku og annars máls en við fullorðna fólkið þurfum að draga úr oftrú á mikilvægi enskunnar, því eins og kemur fram framar, þarf sterkan grunn í móðurmáli og þann grunn verðum við að gefa börnunum. Það er ekkert fínt að smábörn bregði fyrir sig ensku, krúttlegt já en ekki eitthvað sem á að gera mikið úr eða halda að standi fyrir eitthvað meira. Börn þurfa að fá upplýsingar á borð við “já, þetta er red á ensku en á íslensku heitir þessi litur rauður”.  Ég átti samræður við fimm ára gutta um daginn sem upplýsti mig um að hann og félagarnir töluðu ensku í leikskólalanum og þá, sagði hann, þá segja kennararnir okkur að tala íslensku. Hvað veldur því að fimm ára krakkar vilja heldur tala ensku en móðurmálið? Á hvaða leið erum við eiginlega? Og margt ungt fólk getur vel bjargað sér á ensku en það er ekki hið sama og hafa djúpa þekking eða færni í málinu. Ég vildi óska að fólk hætti að slá um sig með staðhæfingunum börn eru svo fær í tækninni, og krakkar eru svo klárir í ensku. Staðreyndin er sú, eins og með aðrar mýtur, sumir eru færir og klárir, margir kannski meðal eða lítið og sumir afar lélegir. Afhverju haldið þið að börn séu eitthvað öðruvísi sem heild en aðrir hópar samfélagsins?

En þá aftur að tækninni. Fullorðnir eiga til að hafa oftrú á að tæknin efli nám, hún getur sannarlega gert það ef viðeigandi tækni, notuð i samvinnu og með aðstoð foreldra (kennara) sem leið að tilteknum þroska, færni eða getu. En að rétta ungu barni youtube og gefa því lausan tauminn er ekki bara líklegt til að lenda fljótt inn á óviðeigandi efni heldur getur það unnið gegn því að barnið efli athyglisgáfu sína, úthald og eftirtekt svo dæmi séu tekin. Og að rétta krakka eða ungling snjalltæki og ýta því svo út í lífið er glapræði. Foreldrar verða að taka ábyrgð á tækninotkun barnanna, ábyrgð sem þýðir að þeir setja reglur og viðmið, læsa tækjum á ákveðnum tímum, sjá til að þau séu ekki við rúmin á nóttunni eða í notkun rétt fyrir svefnin, gæta þess að börnin séu ekki ínáanleg alltaf eða hvernig sem er og já það eru stillingar fyrir þetta allt. Svo þarf að opna allar síur og varnir sem hægt er en eina alvöru vörnin er sífellt og stöðugt eftirlit með tækninotkun barnanna. Börn eiga ekki rétt á einkalífi í þessu samhengi en þau eiga rétt á vernd og vörn í öllu því sem hægt er, það er skylda foreldra. Stundum spyr ég mig hver sé sá fullorðni í sambandinu þegar fólk veigrar sér við að setja reglur eða takmarka notkun barnanna. Séð hef ég börn kúska foreldra sína með hótunum eða væli um að allir aðrir hafi meira frelsi, meira val, engir aðrir foreldrar séu eins og þeirra, svona strangir, svona vondir. Og börn eru klár og vita hvaða rökum má beita til að ná sínu fram, þau nefna að þau verði útundan, þeim strítt, þau missi af, þau hafi ekki sömu möguleika og hinir í von um að foreldrarnir láti undan. Tækninotkun barna snýst um uppeldi og kannski meira nú en nokkru sinni fyrr og foreldrar verða að sinna þessu uppeldi. Ég gæti talið endalaust upp hætturnar, hættur á að ókunnugir nái tengslum við barnið, að þau komist í óviðeigandi efni, séu lögð í neteinelti eða bara fái leiðinleg skilaboð, þau verði varnarlaus þegar efni um þau er dreift eða þau leggi aðra í einelti, dreifi efni sem gerir önnur börn varnarlaus eða falli í skaðlegar gryfjur af öðrum toga. Ég gæti rætt um klám og áhrif þess á samskipti til langframa og svo má endalaust telja upp en ég ætla ekki að gera það heldur hvetja foreldra til að ræða við börnin, reglulega og aftur og aftur, um hvað þau eru að gera á netinu, um hættur, um siðferðir, kurteisi og allt þetta sem þarf að ræða. Og ég hvet foreldra til að setja reglur, vera foreldrar.

Þankar inn í skólamálaumræðuna

Í Fréttablaðinu í dag (14.3. 2019) segir Margrét Pála margt og sumt fékk mig til að staldra við, sumu er ég hjartanlega sammála og margt má til sannsvegar færa. Sannarlega skortir fé í menntakerfið og búa má mun betur að börnum og kennurum. Það er einnig nauðsynlegt að huga að jafnrétti innan skólastofa og utan og ekki ætla ég að ræða aðferðir Hjallastefnunnar í þeim málum, hitt er mikilvægt að muna í þessu samhengi og það er að höfundur er stofnandi Hjallastefnunnar, fyrirtækis sem rekur fjölmarga skóla, í hagnaðaskyni, i einkarekstri, og samkeppni við aðra skóla

Fyrsta atriðið sem ég rak mig á eru tölur um góðan árangur Hjalla drengja í lestri, athugið að hér er bara rætt um lestur ekki læsi. Umhugsunarefni mitt í þessu samhengi er hvort það geti verið að nemendahópur einkarekins skóla endurspegli ekki þverskurð af samfélaginu. Félagsleg staða barna, bakgrunnur og aðstæður að öðru leyti skipta máli fyrir námsárangur og mikilvægt að vita hve stór hluti nemendahópsins er af erlendum uppruna, með fötlun eða greiningar, hver menntun foreldra og fjárhagsstaða heimilanna er. Allt eru þetta atriði sem taka þarf með í reikninginn þegar árangur skóla er metinn, hver sem skólinn er

Annað atriðið sem ég staldra við er að mér finnst drengir talaðir niður eða stúlkur upp sitt á hvað og hvoru tveggja leggst illa í mig, kennarann og jafnréttissinnann. Fleira ræður námsárangri en kyn og tær eðlishyggja er af mörgum talin gamaldags eða hið minnsta bara hálfur sannleikurinn. Stúlkur eru ekki allar eins og drengir ekki heldur og jafnvel þó höfundur nefni það er eðlishyggjan þó ríkjandi í gegnum textann

Tilvitnun  í greinina “Það myndast talsvert þroskabil milli stúlkna og drengja á fyrstu æviárunum sem verður mjög afdrifaríkt í kringum 5, 6 ára aldurinn. Þar byrjar vandinn því að þroskabilið veldur umtalsverðum frammistöðumun milli kynjanna.” Sem leikskólakennari með langa starfsreynslu hef ég að efasemdir en leiðréttið mig ef ég fer rangt með en sýna mælingar mikinn kynjamun í námsárangri við grunnskólabyrjun og mikinn þroskamun? (Sem ekki er tengdur þeim þáttum sem ég hef þegar talið upp, greiningum, fötlunum, bakgrunni osfrv.) Á árunum mínum sem leikskólakennari fimm ára barna sá ég ekki svona skýran kynjamun í öllum þeim árgöngum sem skólinn skilaði af sér á næsta skólastig. Ég á við mun í þvi sem skiptir máli fyrir nám og þroska, og ég gáði, því ég líka var alin upp í menntakerfinu með ótal mýtum um drengi og stúlkur. Ég get vitnað í erlendar rannsóknir sem sýna að við grunnskólabyrjun er ekki munur á getu barna eftir kyni í stærðfræði. Niðurstöður úr Hljóm2, stafrænni stafaþekkingu og öðrum þeim prófum sem lögð voru fyrir bentu ekki til áberandi kynjamunar en allt gat tónað vel við greiningar, frávik eða útskýrða þroskaseinkunn barna og önnur atriði svo sem ef íslenska var þeirra annað mál. Ef einhver veit um rannsóknir hér á landi sem sýna sláandi kynjamun í þroska og námsgetu við grunnskólabyrjun vil ég gjarnan fá upplýsingarnar ef þið viljið vera svo væn

Í greininni eru margar fullyrðingar, mikið um sterkar lýsingar og efnið sett fram eins um sannleika sé að ræða en ég er engan vegin sannfærð og þykir sérlega miður þegar fullyrt er um að stúlkur fái minni athygli eða strákar séu skammaðir. Rannsóknir hafa sýnt að slíkan halla má finna tengdan kyni, kynþætti og fleiru en okkur skortir íslenskar rannsóknir á þessu og ég veit að margir kennarar eru meðvitaðir um áhættuna og gæta sín á henni

Höfundi er einnig tíðrætt um kynjamenningu og ég verð einfaldlega að láta þá umræðu bíða betri tíma svo einhver nenni nú að lesa þessa þanka til enda. Að lokum ítreka ég það sem ég skrifaði ofar, menntakerfið er sárlega fjársvelt en góðu fréttirnar eru að við eigum ótal færa kennara sem sinna starfi sínu af dugnaði og fagmennsku. Það er sannarlegs kominn tími til að samfélagið standi betur við bakið á þeim en einkarekstur í grunnþjónustu er að mínu viti aldrei rétta leiðin og í besta falli til að ýta undir samfélagslega mismunun. Ástæða þess að ég setti hugleiðingar mínar niður á blað eru ekki síst hagsmunatengsl höfundar greinarinnar og ég tel hollt að lesa greinina út frá því sjónarhorni.

Greinin sem vitnað er til: https://www.frettabladid.is/frettir/nu-urfa-drengir-og-karlar-a-risa-upp

Heimildir

Gibbs, B. (2010). Reversing fortunes or content change? Gender gaps in math-related skill throughout childhood. Social Science, 39(4), 540–569.

Goetz T., Bieg , M., Lüdtke, O., Pekrun, R. og  Hall, N. C. (2013). Do Girls Really Experience More Anxiety in Mathematics? Psychological Science, 24(10) 2079–2087l

Worell og Goodheart (2006). Handbook of Girls’ and Women’s Psychological Health: gender and wellbeing across the lifespan. New York, NY, US: Oxford University Press.

Forrit (öpp) – Sögugerð og fl.

Ég er oft spurð um tiltekin forrit eða öpp fyrir börn. Í dag fékk ég eina slíka fyrirspurn og ákvað að taka saman nokkur sem ég hef kíkt á eða notað. Sum eru „æðisleg“ afsakið hugaræsinginn, önnur svona lala og sum myndi ég aldrei nota. Það þýðir þó ekki að einhver annar gæti ekki nýtt sér þau. Svo hér er list yfir nokkur dæmi. Ég tek enga ábyrgð á gæðum og svara ekki fyrir kosti. Kannski gæti listinn gagnast þér samt en hafðu í huga að mín skoðun flæðir yfir og allt um kring, lituð af því að ég legg sköpun, opin efnivið og frelsi til að gera það sem manni dettur í hug, ofar öðru. Gerið þið svo vel.

book creatorBook creator. Fyrir 8 ára og eldri, sem sýnir hve aldursviðmið eru villandi. Dugar vel í leikskóla. Til fyrir bæði Ipad og Android. Fær góða dóma sem vandað bóka- og sögugerðaforrit. Fjölbreytt útlit á bókina þína, upptökur og innflutningur á myndböndum, hægt að teikna, vinna saman og forritið vinnur með Google drive ofl.

my storyMy Story. Sögugerði – teiknimöguleikar. Ætlað 5-12 ára börnum í skólaumhverfi, hægt að vista í möppur, flytja út ofl. Á ensku auðvitað sem takmarkar möguleikana en kennarinn er hvort eð er með börnunum svo það ætti að ganga fyrir yngstu börnin. Athugið að þetta á við um öll forritin að meira eða minna leiti. Þarf iOS 7.1 eða nýrra, er fyrir iPhone/iPad/iPod touch.

ruby cubesRory´s Story Cubes. Fyrir 7 ára og eldri. Þessa nota ég í raunheimi og með leikskólabörnum. Hér er forrit, einfalt og skapandi. Fyrir bæði Android og iphone/ipod touch/ipad.

Kids story buildingKids Story Builder Frá Microsoft. Sögugerð með myndum og hljóði. Fyrir Windows 10 og 8.1/Windows 10 Mobile/Windows Phone.

ToonasticToontastic 3D (fyrir 6 ára og eldri) Skapandi hreyfimynda-sögugerð. Fyrir Android og iphone/ipod touch/ipad og Chromebook. 8.1 og 8)

My story editorMy story editor Forrit fyrir fullorðna (Sjá í Crome web store).

comics and...Comic and meme creator. Deilimöguleikar. Einfalt en tilbúið, lítil sköpun að mínu viti en fær ágæta dóma. Fyrir Android og á Google play.

The completaThe complete Fairytale play theater. Fyrir 5 ára og eldri. Nafnið segir það sem segja þarf. Opin endi á sögum ofl. (Enska). Fyrir iphone/ipod touch/ipad.

Strip designerStrip designer. Fyrir 8 ára og eldri. Einfald að skapa teiknimyndalínur með eigin myndum. Fyrir iphone/ipod touch/ipad.

audio booAudioBoo. Hljóðbók.

we videoWeVideo. Heldur utan um myndir, atvik og minningar og breytir þeim í myndbönd. Deilimöguleikar.

animotoAnimoto. Heldur utan um persónulegu myndböndin í fallegri framsetningu (pro-quality segja auglýsingar) veldu tónlist til að spila undir.

piccollagePic collage. Hægt að setja saman myndir, myndbönd, límmiða ofl.

friendsLego Friends story maker. Fyrir 6. ára og eldri … uhh NEI, þarf að segja meira? Lítil sköpun, afmarkaður stelpnaheimur en þar fyrir utan má skrifa, birta og er einfalt í notkun. Límmiðar, upptökumöguleiki ofl. Ekki dæma, ég reyni af alefli að vera sanngjörn hérna.

Vettvangsferðir og útikennsla – Innbærinn

Meðfylgjandi er tengill á verkefni nema í námskeiði í kennaradeild Háskólans á Akureyri sem heitir Menning og samfélag. Verkefnið var unnið í lotu þegar allir nemar komu til Akureyrar og viðfangsefnið var vettvangsferðir og útikennsla. Sá hluti sem áhugasamir sjá hér er fyrsta skref, grunnvinna sem nota má til frekari úrvinnslu. Bæði er hægt að fara í einstakar eða endurteknar vettvangsferðir á staðina, nota má verkefnin við þemavinnu eða máta þau við kenningar og aðferðir í kennslufræðum. Nemar unnu inn á rafræn kort (googlemaps) af innbæ Akureyrar. Vinnan sem hér sést er hrá, nokkurskonar hugarflug um mögulega kennslufræðilega notkun svæðisins og hún er einnig tilraunakennd sem útskýrir að sumar myndir eru á hlið. Við lærðum nefnilega að allar myndir þarf að taka lágréttar (landscape) og við lærðum einnig að skynsamlegt er að nota lög (layer) fyrir ólíka hluta verkefnis. Hins vegar var vinnan unnin á staðnum og ekki möguleiki á að endurtaka það sem betur hefði mátt fara en á heildina litið var ferlið lærdómsríkt fyrir mig sem kennara og vonandi nema líka. Eftir örstutta kveikju frá kennara unnu nemar í pörum og áttu að setja niður 4-5 punkta á kortið og gera tillögur að hvernig mætti nýta staðina til kennslu. Þeir tóku ljósmyndir og upptökur á staðnum og könnuðu umhverfið. Þegar í skólann var komið bættu þeir inn hugmyndum og fínpússuðu texta. Nemar eru bæði í leikskóla- og grunnskólafræðum.

Njótið vel Anna Elísa og frábæru, hugmyndaríku þriðja árs nemarnir í kennaranámi haustið 2017.

Til að fá sem besta yfirsýn og aðskilja punktana þarf að þysja sem mest inn (zoom) á myndina. Ef smellt er á punktana má finnna texta, myndir, myndbönd, ítarefni og leiðbeiningar.

Forrit (öpp) fyrir leikskólabörn

Á boðstólnum er gífurlegt magn forrita og leikja fyrir leikskólabörn. Það skiptir því miklu máli að velja vel og hafa viðmið til að fara eftir. Sjálf hef ég nokkur atriði í huga áður en ég gef forritum séns. Hið fyrsta er að skoða hver samdi þau og til hvers. Ef höfundar eru viðurkenndir aðillar, sem ég tel traustsins verða, þá gef ég þeim séns. Sem dæmi má nefna fyrirtæki sem hafa á sér gott orð fyrir skapandi nálgun eða háskólar og rannsóknarstofnanir, með þeirri undantekningu þó að ég er ekki í öllum tilvikum hrifin af því hvernig sumir atferlisfræðingar nálgast málefnið og það hefur áhrif á hvernig ég vel forrit og leiki.

Ýmis forrit, stærri og minni, má finna sem efla skapandi hugsun og rannsakandi eðli barna. Þar sem ég veit að fjárhagsáætlanir skóla gera sjaldan ráð fyrir að eytt sé í forrit hef ég reynt að finna forrit sem eru ókeypis eða ódýr. Á síðunni minn Skapandi leikskólastarf er listi yfir þau helstu sem ég hef verið að nota og hef góða reynslu af. Hér verður að gefa þann fyrirvara að ég nota iPad og Apple tölvur og því eru forritin sem ég vel ætluð iOS þó mörg sem ég bendi á séu einnig til ætluð Android.

Mörg forrit sem seld eru sem menntunarfræðileg eða uppeldisleg eru að mínu viti alls ekki þess virði að nálgast þau og ég hvet kennara og foreldra til að vera verulega gagnrýna og eyða ekki tíma barnanna í léleg forrit. Að sama skapi er á boðstólnum fjölmörg forrit fyrir krakka sem eru einhæf og leyfa takmarkaða skapandi hugsun. Munið að tilgangurinn helgar meðalið og ef ætlunin er að fara í gengum æfingu með einni niðurstöðu eða með endurtekningu (drilli) þá duga þessi forrit en eins og þið heyrið er ég ekki hrifin af slíku nema í afar takmörkuðu magni og við sérstakar aðstæður. Gott er einnig að hafa í huga að börn á leikskólaaldri gætu í mörgum tilvikum haft meira gagn af raunverulegum hlutum og þroskaleikföngum en tvívíðri veröld forrita, sérstaklega yngstu börnin. Forrit sem í mörgum tilvikum gera fátt annað en að slökkva á heilabúum á þeim tímapunkti sem framtíðargróðinn felst í að örva og efla heilastarfsemi.

Nýtt forrit þarf að vera þannig að með því að skoða það smástund á að vera ljóst hvernig það virkar. Flókin forrit og óljós eru sjaldan þess virði að setja sig inn í þau nema við sérhæfð verkefni og sérstök (þið munið að nú er ég að fjalla um forrit fyrir leikskólabörn en viðmiðin mín nota ég líka fyrir sjálfa mig og ætlast til að forritarinn kunni vinnuna sína og skapi aðgengileg forrit).

Það kemur fljótt í ljós hvort forrit vekja áhuga barna. Reynslan hefur einnig sýnt mér að börn eru almennt lítið hrifin af tvennu, annars vegar þegar forrit gefa of mikið af leiðbeiningum eða taka fram fyrir hendurnar á þeim með því að sýna hvernig á að leysa verkefnin. Hins vegar vilja börn hafa möguleikann á að gera „vitlaust“, fá að prófa og gera tilraunir sem þau vita að gefa ranga niðurstöðu en allt of fá kennsluforrit gefa þetta svigrúm.

Aldursviðmið eru viðmið, reynsla barna, áhugi og þekking hefur áhrif á hvernig forrit þau þurfa og hve fljótt þau afgreiða ákveðin forrit. Ég er aldrei hrædd við að leyfa börnum að prófa forrit ætluð mun eldri börnum eða fullorðnum, ef þannig stendur á.

Ef forrit eru merkt öðru kyninu sneiði ég hjá því. Forrit eru fyrir krakka, sem sagt alla, og ættu að tengjast grunnþáttum menntunar, námssviðið, þroskaþáttum eða áhugamálum, óháð kyni. Að sama skapi þarf að vera gagnrýnin á hvernig forrit nálgast fjölmenningu og minnihlutahópa.

Vönduð hönnun er lykilatriði. Oft detta hönnuðir í þá gryfju að litadýrðin er úr hófi, smáatiðin stela senunni eða einfaldlega teikningar og hönnun er viðvaningslega unninn. Börn þurfa, og eiga skilið, hið besta og vandaðasta, annað er ekki boðlegt.

Viðmiðin þegar ég skoða forrit eru sem sé eftirfarandi
1. Sá sem semur forritið þarf að vita hvað hann er að gera (þekking á þroska barna, menntun, forritun og hönnun)
2. Forrit þurfa flest að vera ókeypis eða ódýr
3. Skapandi og lærdómsrík forrit eru lykilatriðið (þau felist ekki í mötun eða einhæfum lausnum)
4. Notkunn forrits þarf að vera auðveld (ef ég næ þessu ekki á 30 – 60 sek. Þá hætti ég oftast)
5. Forrit þarf að standast barnaprófið (vekur áhuga fljótt og heldur honum)
6. Aldursviðmið má hunsa
7. Jafnrétti að leiðarljósi
8. Hönnun þarf að vera vönduð

Umrædd viðmið eru mín, út frá þeim menntunarfærðisjónarmiðum sem ég aðhyllist og er eitt sjónarhorn á málefnið og mér að meinalausu þó lesandinn hafi aðra skoðun. Áhugasömum er bent á lista yfir forrit sem ég hef verið að nota á síðunni minni Skapandi leikskólastarf og ég þakka allar ábendingar um gagnleg og áhugaverð forrit, hvort heldur þau passa við viðmiðin mín eður ei 🤓

Leikskólabörnin og snjalltæknin

Tæknin er frábær, um það þarf ekkert að deila en hún getur líka flækt lífið ótrúlega, þvælst fyrir og sett mann í óþægilegar aðstæður. Flestir sem ferðast um netið hafa lent í að opna óþægilegar síður, fengið popup glugga með guð veit hverju, séð hræðilegar fréttir, fengið á baukinn fyrir klaufaskap á samskiptamiðli eða bara tínt tímanum klukkustundum saman í ávanabindandi leik eða vafri. Við fullorðna fólkið getum sem sé átt í mesta basli með snjalltæknina.

Ég sá ungan krakkaorm úti að leika sér um daginn með símann í annarri hendinni, reglulega hrökk barnið við og kíkti á símann, skilaboðin dingluðu inn og barnið svaraði, nú eða ekki. Skyldu foreldrarnir vita hvað síminn truflar barnið mikið? ætli þeir fari ekki örugglega yfir skilaboðasöguna í lok dags? Hvar á að geyma bölvað tólið? Má geyma það heima eða ætli afinn geti ekki prjónað hulstur til að hafa um hálsinn? Bíddu, bíddu, nú er ég farin eitthvað út af sporinu en skildi einhver hafa kennt barninu nóg til að halda því sæmilega öruggu? Er athyglisspan foreldrana nægilegt til að fylgja tækninotkun barnsins vel eftir eða eru þeir sjálfir villuráfandi í greipum tækninnar? Jamm, það er margt sem fer um hugann.

Á kaffihúsum eru hvítvoðungar að horfa á myndbönd í stað þess að kjá framan í foreldra sína, kornabörn æfa stafróf þegar þroskinn kallar á samskipti og verkefni sem örva heilann (já, ég er að segja að utanbókarlærdómur er ekkert sérstaklega gagnlegt nám), smákrakkar horfa á youtube og skipta um hraðar en auga á festir og athyglin er út um víðan völl þegar virkilega þarf að hjálpa þeim við að ná ró, skipulagi á hugann og halda athygli.

Hvað ætlaði ég annars að segja? Jamm, tæknin gerir börn ekki sjálfkrafa örugg, fær, klár, tilbúin undir framtíðina, rík, hamingjusöm eða hvaða rök svo sem færð eru með tækninotun ungra barna. Þau geta hins vegar orðið allt þetta ef fullorðinn er með þeim í tækniheimi, útskýrir, hvetur, hjálpar og fylgist með. Stundum þarf að setja orð á lærdóminn og stundum finna ný forrit og leiðir. Ung börn ættu ekki að vera ein með tæki og alls ekki nettengd tæki.  Af hverju ekki? Nú t.d. vegna þess að netið er jafn fullt af vondu efni og góðu og þegar upp er staðið kemur ekkert í staðinn fyrir samskipti, spjall, notaleg heit og húmor sem bara fæst með samskiptum við þá sem manni þykir vænt um. Þroski, andleg líðan, nám og færni ungra barna getur aldrei byggt bara á vélum, fólk þarf umhyggju og börn þrífast á henni. Ertu nokkuð búin að gleyma Harry Frederick Harlow?

http://www.bbc.com/news/blogs-trending-39381889

Leikskólakennaranám við Háskólann á Akureyri

Háskólinn á Akureyri tók til starfa árið 1987 og kennaradeild var stofnuð árið 1993. Haustið 1996 settust síðan fyrstu leikskólakennaranemarnir á háskólabekk undir dyggri leiðsögn Guðrúnar Öldu Harðardóttur brautarstjóra leikskólabrautar. Áhersla í náminu var á listir og sköpun, leikskólafræði, heimspeki, umhverfi og náttúru, með samþætting þessa sviða að leiðarsljósi. Lögð var áhersla á vettvangsnám og unnin vönduð handbók sem fylgdi nemum á vettvang. Fjarnám hefur alla tíð verið mikilvægur þáttur í námi kennaranema við HA.

Hugtakið leikskólafræði varð til og annað einkennishugtak leikskólabrautar var vísindasmiðja en Kristín Dýrfjörð hefur í gegnum árin þróað og byggt upp vönduð námskeið með áherslu á fjölbreytt vísindi í leikskólastarfi.

Árið 1998 bauð kennaradeild upp á sérskipulagt nám fyrir leikskólakennara með „gamla“prófið og var ég ein af þeim fjölmörgu fóstrum/leikskólakennurum sem nýttu sér tækifæri til að bæta við menntunina og vinna að B.Ed. gráðu í leikskólafræðum. Framhaldsnám í leikskólafræðum hófst haustið 2000 og þar mátti ljúka námi,  fyrst til diplómu, en síðar til meistaraprófs en þeir sem fyrst hófu námið þurftu að bíða í eitt ár áður en seinni hluti námsins var í boði. Stjórnun og sérkennsla voru námsleiðirnar fyrstu árin en síðar bættust fleiri við og nú síðast upplýsingatækni í námi og kennslu.

Árið 2008 breyttu ný lög stöðunni umtalsvert og nám til kennarafræða við HA var tekið til endurskoðunnar og skipulagt í takt við nýjar áherslur, sem fimm ára nám til meistaragráðu. Nú síðustu ár hefur einnig verið boðið upp á diplómu í leikskólafræðum en þá geta nemar lokið tveggja ára diplómu á grunnstigi sem veitir tiltekna stöðu í leikskólum eða einnig er hægt að haldið hikstalaust áfram og klára eitt ár í viðbót, þriðja árið, til B.Ed. gráðu.

Leikskólafræðin samanstanda af fjölmörgum námskeiðum, sum eru samkennd með grunnskóla- og íþróttafræðum en önnur sérkennd. Jórunn Elídóttir kennir námskeið um leikskólakennarann svo dæmi séu tekin og Kristín Dýrfjörð kennir t.d. námskeið um sjálfbærni og umhverfismennt. Auk þess kennir Kristín vísindasmiðju, en orðspor hennar á þessum vettvangi hefur farið víða. Góður gaumur hefur verið gerður að námskeiðum hennar annars vegar um kennsluaðferðir leikskóla og hins vegar um yngstu börnin í leikskólanum en einnig sér hún um námskeið í stjórnun í leikskóla þar sem áherslan er á deildarstjórnun.

Sjálf hef ég fengið að setja mitt spor á námið, m.a. með námskeiði sem kennt er á 4. ári um ævintýri og ljóð sem kennsluleið í leikskólastarfi auk þess sem ég ber ábyrgð á tveimur námskeiðum um leikinn. Fleiri áhugaverð námskeið má nefna s.s. námskeið um foreldrasamstarf í leikskólum, um málþroska, um bernskuna og barnið í samfélaginu, barnabókmenntir og fleira.

Vettvangsnám er enn stór þáttur í náminu. Nemar fara í skólaheimsóknir á fyrsta ári, dvelja vikur á vettvangi tvisvar á öðru ári og eru viðloðandi vettvang vormisseri þriðja árs. Nemar i diplómunámi ljúka tveimur slíkum námskeiðum. Að lokum er haustmisseri fjórða árs námstími á vettvangi en vormisser fer svo i rannsóknarritgerð og er því allt fimmta árið nokkuð öðruvísi en árin á undan.

Nemar í leikskólafræðum eru annað hvort í staðnámi eða fjarnámi og er fjarnám í auknum mæli sveigjanlegt nám með takmarkaðri viðveru. Það er einkar ánægjulegt og þakklátt starf að kenna leikskólakennaranemum og oft líflegt í tímum. Það fylgir því alltaf nokkurri eftirsjá að sjá hópana brautskrást og yfirgefa skólann til að hefja starfsferil í leikskólum landsins, eftirsjá en einnig mikið stolt og ánægja.

Það eru margar leiðir færar við kennaradeild HA fyrir þann sem vill verða leikskólakennari eða stunda símenntun. Sem dæmi má nefna að starfandi kennarar geta sótt valin námskeið á meistarastigi í gegnum símenntun HA. Ef þeir kjósa geta þeir lokið námskeiðum á sömu forsendum og aðrir nemar og fengið einingar metnar inn á meistarastigið, kostur fyrir þann sem langar að læra meira en veigrar sér við þeirri skuldbindingu sem það er að skrá sig í meistaranám.

Kennaradeild HA er góður kostur fyrir þann sem hefur hug á að verða kennari eða bæta við sig námi. Aðgengi að kennurum er gott, staðblærinn jákvæður og góður og nemendur gjarnan ánægðir að námi loknu.

annaelisa@unak.is

http://www.unak.is/hugogfelagsvisindasvid/kennaradeild

Heimildir eru m.a. sóttar í heimasíðu HA og bókina Háskólinn á Akureyri 1987-2012 sem kom út árið 2012 í ritstjórn Braga Guðmundssonar og gefin út af Háskólanum á Akureyri, höfundar kafla í bókinni eru fjölmargir.

Leikskólinn og valið

Ég var skólastjóri upp úr 1990 og þá voru valkerfi vinsæl. Börnin völdu sér viðfangsefni í lengri eða skemmri tíma og valið var mis umfangsmikið, allt frá vali á einni deild til þess að vera val í skólanum öllum. Auðvitað kvaddi valið aldrei en ég kvaddi valið á sínum tíma, aftur af því síðar. Valið vakti mér margar spurningar og ýmsar vangaveltur, hvað ætti að velja um, hvernig umgjörðin ætti að vera, hvað um þá sem veldu síðast, hvaða áhrif valið hefði á vináttu og samsetningu barnahópa á valsvæðum, áhrif kennara á valið eða hvernig kennarar veldust á valsvæðin… Mér fannst mikilvægt að valið væri sem mest sjónrænt með ljósmyndum sem auðvelt væri að skilja, mikilvægt að kennarar veldu líka þannig að þeir væru mest á þeim svæðum þar sem þeim fannst gaman að vera eða sérhæfing þeirra eða sérhæfni nyti sín best. Valið vakti margar spurningar og sífellt nýjar eftir því sem leið á.

Val í mínum skóla var val um langan samfelldan leiktíma þar sem svigrúm var til að skipta um viðfangsefni, val um rúmgott svæði með ýmsum möguleikum fremur en val um afmarkað viðfangsefni, val um tiltekið herbergi í skólanum þar sem ótal margt var í boði en hvert herbergi með sína sérhæfingu, kubbar, skapandi starf, hreyfing og svæði yngstu barna þar sem einhver gátu valið að vera með og aðstoða eða leika sér. Biðin á meðan valið fór fram var annað sem þvældist fyrir mér, börn eiga ekki að bíða lengi og sem minnst eyða tíma í ekkert. Þannig er bara alltof illa farið með námstíma barnanna og biðtímar eru efni sem ég á örugglega eftir að skrifa um síðar, bið í forstofu, bið eftir að fara inn, bið í kringum salerni eða matartíma, geymum það umræðuefni ögn og aftur að valinu. Valið varð staðreynd og eftir stóð ákveðnar efasemdir og varfærni sem fólu í sér vilja til að taka ekki ákvörðunarréttinn af börnunum, gera þau ekki óvirk og passív því það er hættan sem fylgir því að ákveða fyrir börnin hvað þau gera eða geta gert, börn sem bíða eftir að fá möguleikana gefna og fara svo eftir því. Þetta er línudans.

Það er ekki þannig að mér finnist val rangt eða að það sé slæm leið, langt í frá. Þessi pistill snýr meira að því að sýna fram á að allt sem gert er í leikskólanum þarf að vera úthugsað, meðvitað og framkvæmt af fagmennsku.

Leikurinn og leikskólinn

Mynd

Í lok skólaársins er gott að líta um öxl og velta fyrir sér því sem hefur verið mér ofarlega í huga …

Ég hugsa oft og mikið um leikinn og leikskólann og er alltaf jafn glöð þegar ég sé og heyri um kennara og skóla sem muna hvað þeir eiga að standa fyrir; nám í gegnum leik, leik fyrir lífið, leikinn og glugga tækifæranna og allt hitt sem fræðin og rannsóknirnar segja. Þær eru nefnilega sterkar, faglegur ástæðurnar fyrir leiknum. Ástæður sem snúast um þroska, líðan og framtíð barnanna, leikurinn er eiginlega háalvarlegt mál og því má ekki gleyma, hið minnsta alls ekki innan veggja leikskólans. Að sama skapi finnst mér mikilvægt að muna að leikur og það að hafa gaman af verkefni er ekki hið sama, leikur er ekki vinna né viðfangsefni með eina mögulega útkomu þó börn séu mörg hver nógu dásamleg til að láta slíkt ekki stoppa sig frá að leika sér og finna fleiri möguleika ef þeim er gefið færi á því. Mér finnst mikilvægt að leikskólakennarar rugli ekki saman þessu tvennu leik og verkefnum/vinnu, börnin þurfa lífsnauðsynlega leik og hafa á honum löglegan rétt. Heyrt hef ég kennara tala fjálglega um leik og lýsa síðan kennarastýrðum aðstæðum. Ég geri mér fulla grein fyrir að í leikskóla eru viðfangsefni, umhverfi og dagskipulag kennarastýrð, þannig sér kennarinn til þess að nám eigi sér stað, það er ekki það sem ég á við. Fagþekking kennara dugar þeim til að þekkja muninn, vita hvað er rétt og hvað er rangt og geta gefið börnunum það sem kemur þeim best. Leik þar sem ímyndunaraflið fær að njóta sín, hlutverkaleik og fjölbreyttar aðstæður til að gleyma sér, skapa, búa til og bulla, reyna hlutverk og takast á við tilfinningar, samskipti og líðan, læra á heiminn, læsið, vísindin og allt hitt. Verkefni sem passa ekki aldri og þroska eru vel til þess fallin að draga úr sjálfstrausti og námsáhuga en þau eru líka ægileg tímasóun frá alvöru námi; leik. Fagþekking kennara segir þeim hvað börn almennt geta á hverju aldursbili og út frá því á að vinna. Það er tímasóun að ýta að þeim því sem kemur auðveldlega örlítið seinna og börn eiga ekki að eyða miklum tíma í að bíða. Þau eru svo afar stutt lítil og tímann þarf að nýta vel í það sem skiptir máli. Leikur er nefnilega ekki leikur ef hann er vinna, það er bara þannig…  (mynd: Amelia Anna, 8 ára)IMG_1887