Titlatog og fallegir kjólar

7C1B3F27-54C7-409E-A12E-4C271929780C

Dagurinn í dag er eftirminnilegur fyrir margra hluta sakir. Hann hófst snemma þegar Marion Overson kom við og keyrði okkur á fund í Pakistan Muslim Centre i Darnall. Þar hittum við Lee Crookers og einn stjórnenda miðstöðvarinnar, Shahid Ali til að ræða um makerspace. Brennandi áhugi Lee á samfélagslegi ábyrgð háskóla (University of Sheffield) er einkar hvetjandi og Marion segir hann einkar örlátann á tíma sinn þegar að slíkum verkefnum kemur. Lee þessi er annar aðal leiðbeinanda Marion í doktorsverkefninu hennar sem einmitt snýr að samfélagslegri ábyrgð háskóla, ekki bara þegar það kemur þeim vel og fjárhagslegur ávinningur fylgir heldur ekki síður þegar það gerir það ekki. Við hittum hinn leiðbeinandann í síðustu viku, mann að nafni Tim, einkar geðþekkan prófessor sem var nánast einn við vinnu í húsi kennslufræðanna daginn fyrir páska

9452CC4F-7611-4C76-BEA2-2E9ABB9A5784

Fyrsti hluti heimsóknar okkar í Pakistan Muslim Centre fólst í leiðsögn um húsakostinn. Geðþekkur maður sem kynnti sig sem Hafies sýndi okkur byggingarnar sem áður voru skólar, grunn- og framhaldsskóli, í sitt hvorri byggingunni. Megin verkefnið framundan er að fjármagna viðgerðir og endurbyggingu á húsnæðinu sem er bísna lúið. Hann fræddi okkur um aðkomu háskólans og stúdentanna sem m.a. fólst í að nemar í arkitektúr settu fram tillögur að hönnun fyrir svæðið, bæði úti og inni. Annað samvinnuverkefni fólst í að nemar og kennarar þeirra í læknisfræðum unnu með útvarpstöð stöðvarinnar að þáttum um heilsu og heilbrigði

837965E9-43B8-48DD-AF7D-C3F95B1A6F88

Við funduðum um möguleika skapandi rýmis (makerspace), fjármögnunarleiðir og eftirsóknarverð verkefni. Og ég verð að segja að ég held við höfum öll grætt töluvert á því að skiptast á skoðunum, taka hugmyndir áfram og móta mögulegar leiðir. Ég veit að ég fer heim með góðar minningar um fólkið sem býr röngu megin við lestarteinana í orðsins fyllstu merkinu og leggur sitt af mörkum til að bæta líf samborgara sinna og þá ekki síst barnanna og eldra fólksins með starfi sínu i pakistönsku miðstöð múslima hérna hinum megin við hæðina

89CC42AD-39D2-41E4-9E1E-F6FC51B51F1B

Síðdeginu eyddum við síðan í bíltúr um The Peek District. Sheffield stendur nefnilega að hluta til í þjóðgarði og Marion keyrði okkur um svæðið sunnan við borgina. Hér er óneitanlega fallegt, dalir og hæðir sem liðast um og lítil þorp við veginn sem láta lítið yfir sér. Við stoppuðum í Bakewell en þar er fæðingastaður puddings, sel það ekki dýrara en ég keypti það en auðvitað urðum við að borða á staðnum þar sem undrið gerðist, fyrsti búðingurinn varð til. Ég pantaði mér roast with pudding og svo fékk ég allt annarskonar pudding í eftirrétt. Skemmtileg upplifun og bragðgóð í æfafornu húsi og notalegu eftir því

Eftir matinn gengum við um þröngar og einkar krúttlegar göturnar, kíktum inn í búðir og eyddum peningum, þ.e. Marion og ég, Arnar tók bara myndir. Nú er ég tveimur gullfallegum kjólum ríkari

209F9274-E1CF-4964-AC3D-98B51129E75B

Á heimleiðinni keyrðum við fram hjá kunnuglegri byggingu, ég er ekki frá því að þarna hafi hroki og hleypidómar verið tekinn upp og líklega ýmsar fleiri myndir og þáttaraðir. Gerið þið svo vel, svipmyndir frá Chatsworth þar sem hesthúsin hæfa kóngi

D3D35E45-E893-4870-A2D3-C4B136E10886

892850B0-4172-4668-BAA1-6C738E16507A

89755606-37D4-4CA4-A1E5-D09C4E0E1F89

Það vakti athygli mína að í tveimur þorpum sem við keyrðum um voru gluggapóstar, hurðir og öll skilti í blágrænn dimmum lit sem ég kann ekki að lýsa betur. Aðspurð sagði Marion mér að að þetta væri einkennislitur hertogans á svæðinu sem á, gerið þið svo vel, allt þarna með manni og mús. Hvernig hægt er að eiga tvö þorp og allt þar í kring er ofar mínum skilningi en svona er þetta nú sums staðar

63002E79-37C9-44D6-91EC-DD060639C320

Veðrið lék við okkur í dag, sól og blíða og hellidembur í bland. Þrumur og eldingar og allt gerði þetta veröldina enn fallegri en ella

07382546-B962-4E4C-AD98-7CAF44C5FF15

Góður dagur að kveldi kominn og annar spennandi rétt handan við hornið

 

Páskadagur 2019

90364DE7-C09E-42E0-8899-64E79FA476B0

Horft yfir útlenda borg
með nafn eins og áin í fjarska
Mengunin frá í gær
horfin líkt og fyrir kraftaverk
Heimurinn skýr
í morgunkyrrðinni

Lötrað niður fornan stíg
sem man fífil sinn fegurri
Tiplað yfir lestarteina
Í átt að miðbænum
sagan barin augum
kirkjurnar, listin, fólkið

Læstar dyr guðshússins
vernda tilbiðjendurna
og ferðalangurinn horfir inn
utangátta í sólinni
meðan kirkjuklukkur
minna á upprisuna

Turnspíra kinkar kolli
og teygir sig til himins
yfir götum sem hlykkjast
um hæðir og byggingar
hjartanlega sama
um mannanna amstur

1967CF3F-914A-4DE8-AFC1-E7A9D7DC4CD8

DA3827D9-1C6A-45FB-A527-DEF68E6718AC

Við gengum fram hjá The Old Queens Head í dag. Lítið hús sem kúrir í skugga háhýsanna stutt frá lestarstöðinni og rétt að baki rútustöðvarinnar. Byggt árið 1475 og því elsta húsið sem enn stendur uppi í borginni

Kaffi og meðþví inn á milli göngutúra í sólinni og við nánast þau einu sem völdu að sitja inni. Feistæmum á ormana heima og fengum þær fréttir að páskaeggin hefðu komið í leitirnar, léttir að vita það

Sátum dágóða stund í Peace Garden og horfðum á mannlífið. Börnin sulla í gosbrunnunum, foreldrar narta í nesti eða sleikja sólina og engin lætur sér bregða þó börnin, rennvot og skríkjandi, svetti vatni yfir gesti og gangandi í galsaskap. Merkilega afslappaður páskadagur í mannhafi þar þjóðerni og trúarbrögð skipta engu máli og fólk sleikir sólina í sátt og samlyndi. Ég nenni varla að draga upp myndavél, hvað þá pára neitt gáfulegt á blað, kannski seinna bara en páskakveðju semdi ég heim á klakann og verð að viðurkenna að mig langar ögn í væna lambasteik með brúnni sósu eða hangikjöt og jafning. Svona týpískan íslenskan hátíðarmat,

FE2CF630-5B4E-4F98-83A5-6260993486E2

Í sumar og sól

Í dag var meiningin að taka lífinu með ró og rölta um og koma snemma heim en ferðin varð lengri en áætlað var. Við gistum í airbnb stúdíóíbúð rétt ofan við lestarstöðina og hófum ferðina með því að ganga yfir Park Hill í átt að ánni Don

88FF5A02-A90A-4B62-BA84-1880076883D0

Park Hill hefur ekki gott orð á sér, það fann ég fljótt þegar ég sagði fólkinu hérna hvar ég dvel en það fer vel um mig og umhverfið ekkert til að hafa áhyggjur af. Það á kannski hið sama við og um Eyrina heima, það getur verið erfitt að reka af sér slyðruorðið en um 1930 var Park Hill hverfið þekkt fyrir lélegan aðbúnað og háa tíðni ofbeldisglæpa og að þeim sökum kallað litla Chicago

FCFB6E43-4124-412B-A153-296C14CA4FA6

Veröld borgarbúa virðist hafa verið frekar aum á þeim tíma, fátækt og eymd fyrir bísna marga. Glæpagengi réðu ríkjum og tókust á, ofbeldi var daglegt brauð og lögreglan stofnaði sérstaka sveit óeinkennisklæddra rummunga til að berja á þeim sem ráfuðu út af beinu brautinni. Hrikalega áhugaverð saga sem ég er alveg dottin á kaf í. En aftur að hverfinu, upp úr 1930 hófst endurbygging sem tafðist í kringum stríðið. Götunni þar sem ég bý núna og öðrum hér í kring var lýst á þennan veg: „…the dwelling houses in that area are by reason of disrepair or sanitary defects unfit for human habitation, or are by reason of their bad arrangement, or the narrowness or bad arrangement of the streets, dangerous or injurious to the health of the inhabitants of the area … and that the most satisfactory method of dealing with the conditions in the area is the demolition of all the buildings in the area.“

1FF7DA58-4024-4584-9859-31D8F147DC17

Árið 1957 hófst endurbyggingin og teiknaðar voru blokkir í brutaliskum stíl sem liðast hver um aðra eftir hæðinni norðanverðri. Sagan virðist einhverjum þyrnum stráð og nú er stór hluti blokkanna í endurbyggingu, standa auðar og tómar í arfabeði á bak við víragirðingar byggingafyrirtækis.

9B671CC1-C90F-4E6E-8625-1CB34F9373A9

Við lögðum blokkirnar á hæðinni að baki og gengum norður yfir ána Don, ráfuðum um þar til við enduðum loks á Kelham Island. Iðnaðarsafni borgarinnar, sem á laugardeginum á páskahelginni var harðlokað. Röbbuðum við íbúa hjólhýsa og húsbíla sem hreiðrað höfðu um sig í krika á bak við safnið og þeir buðu okkur á tónleika síðar, einhverkonar þjóðlagahátíð í vændum og hver veit nema við skellum okkur

BA65FD99-13A1-4998-BC4D-D02E8DE977B2

3653FA08-7FF8-4199-9A92-E149D16CB07C

Mér finnst alltaf gaman að skoða vel unnið grafittí og Sheffield geymir einmitt nokkur verk eftir innfæddan listamann sem kallar sig Phlegm. Verk hans má finna víða um borgina, nokkur í nágrenni lestarstöðvarinnar, svo sem við The Leadmill, The Moor og Charter Row. Eitt er á vegg The Rutland Arms pub en verkið sem ég ljósmyndaði er á vegg húss á norðurbakka Don, rétt áður en komið er að Kelham Island úr austur átt. Phlegm vinnur verk sín í borgarlandslagið, gjarnan á yfirgefnar eða illa hirtar byggingar og eru verk hans súrealísk og virðast segja sögur eða ævintýri í óraunveruleika sínum. Sérstæðar myndfléttur sem minna á comic, eða teiknimyndasögu

FFEA1CE4-BB98-486F-B3D9-BD6C113D75C7

Hér eru svo önnur verk, bara til gamans

 

 

Eftir sumar ólympíuleikana 2010 heiðuðu bretar vinningshafa sína með því að mála póstkassa í borgunum þeirra gullna. Í Sheffield er slíkur póstkassi til heiðurs Jessica Ennis-Hill sem hlaut verðlaun í sjöþraut. Framtakið átti að standa tímabundið en vegna vinsælda póstkassanna fengu þeir að halda gullna litnum. Mér láðist að segja ykkur frá því í blogginu gær að Sheffield á sitt eigið Walk of Fame en það má finna utan við Town Hall og á fyrrnefnd Jessica skjöld þar ásamt Sean Bean sem ég verð að viðurkenna að er eina nafnið sem ég kannaðist við þarna á frægðargöngunni

2DE43044-0DD7-4562-9272-AE8CF63799E1

Hér heilsar fólk þegar það mætir fólki á götu, ekki kannski í miðbænum en í öðrum hverfum sem við höfum gengið um. Sumir nota orðið love í staðinn fyrir halló og það var pínu skrítið fyrst en venst bara nokkuð vel

D9D3740A-DA46-4D13-AE8A-D602D7B818EC

Við gengum í gegnum iðnaðarhverfi í dag, síðan þvert yfir miðborgina að Moor markaðnum og þar eru síðustu myndir dagsins teknar og við hvílum lúin bein og kælum sólbrunann

C16C8B2B-D0D1-4105-AB46-511F89508477

34519206-7674-4CC0-9324-B2B2E1C91933

67CFEAA9-EC8A-44BB-BA18-93AA326D05B5

A21D06B9-DA12-4C35-BD54-6A5FEFDBB1AA

 

Á rölti á föstudaginn langa

9B0ED105-189B-48B9-B95B-A795B2CBC494

Sólin skín í gegnum mistrið og við höldum af stað á listasafnið sem samanstendur í raun af þremur söfnum, Graves Gallery, Weston park Museum og Millenium Gallery. Á því síðast nefnda eru teikningar Leonardo daVinci til sýnis en víða um Bretland eru sambærilegar sýningar í gangi i tilefni þess að fimm hundruð ár eru liðin frá láti meistarans. Ég sit frammi á gangi á þessu dásamlega safni, pára þessi orð og bið eftir karlinum sem þarf örugglega fimm sinnum meiri tíma með Vinci en ég sem nú byggi upp eftirvæntingu eftir að finna náttúrumyndir og annað úr safni John Ruskin sem sannarlega tónar vel við rannsakandi nálgun daVinci en eru meira svona ég…

 

 

Á meðan ég doka get ég rifjað upp fyrir ykkur að síðustu fimmtán ár hefur partur miðborgarinnar verið endurskipulagður og verkefnið ber heitið The Heart of the City enda er um stórt svæði í miðbænum að ræða. Verkefnið felur í sér byggingar og háhýsi en einnig mikið af opnum svæðum og grænum með endurteknum tilvísunum í vatn. Víða er hægt að setjast niður og fólk gerir það óspart, það er sem sé pláss fyrir fólkið sem er meira en má segja um borgina sem ég heimsótti síðast. Á eftir ætla ég að rölta um Peace Garden og umhverfi í kring en fyrst er það Ruskin því Arnar skilaði sér á endanum, handviss um að daVinci hafi verið aspargus (með einhverfu)

4194EA40-F740-49EC-BE9D-469F3BE0162F

Peace Garden eru á svæði sem áður var kirkja heilags Pál og er fyrir framan gotneska ráðhús borgarinnar, skipulagður rétt fyrir seinna stríð sem tafði framkvæmdina fram til ársins 1997 þegar grafreiturinn var var loks færður var svæðið endurgert og meðal annars byggðir gosbrunnar og útisvæði sem vísar sterklega til ánna sem lögðu grunninn að borginni. Það vakti forvitni mína að vita söguna að baki kirkjunni sem hvarf. Átjándu aldar bygging kostuð af auðugum gullsmið. Einhver snurða hljóp á samastarfsþráðinn og kirkjunnar menn og gullsmiðurinn voru ekki á eitt sáttir. Um tíma tilbáðu mótmælendur sinn guð í kirkjunni þar til hún hlaut loks blessun árið 1740. En lukkan er fallvölt og árið 1938 taldi The Church of England sig ekki hafa frekari not fyrir bygginguna og hún var rifin

C31C7AFC-F6D1-4347-876E-3B7A3BCFC7E7Rétt fyrir framan ráðhúsið er The Goodwin Fountain, 89 vatnsbunur sem dansa í dag í sólinni rétt eins og börn á öllum aldri. Goodwin þessi tengdist stáliðnaðinum, nema hvað, en gosbrunnurinn átti að heiðra Alderman James Sterling en var í daglegu tali kallaður Goodwin brunnurinn þar til nafnið varð á endanum opinbert. Átta stórir vatnsbrunnar úr bronsi standa við inngangana í garðinn og eru vatnsbunurnar tákn fyrir brætt fljótandi stálið sem einkenndi borgina en um leið árnar fimm sem gerðu iðnaðinn mögulegann. Brunnarnir eru tileinkaðir Holberry Cascades og bera nafnið hans. Sá var leiðtogi the Sheffield Chartist Movement en hreyfingin var verkamanna og barðist fyrir pólitískum réttindum s.s. kostningarétti

CE7BACA1-732A-43D4-B7D3-E33A857A4576

Við garðinn má einnig finna The Bochum Bell, litla skipsbjöllu sem aldrei kom nálægt söltum sjó heldur stendur sem tákn um vinabæjartengsl við þýsku stálborgina Bochum. Bjallan lætur lítið yfir sér og er hálf falin í blómabeði út við jaðar svæðisins

85CA7B22-AEA5-49B7-B5F1-8E030CFEF97BSvo allrar sanngirni sé gætt þá á ég ísinn á þessari mynd. Arnar var svo vænn að gæta hans fyrir mig á meðan á myndatökunni stóð…

Áður en þú yfirgefur garðinn ættir þú að kíkja á opinberu mælieininguna á milli garðsins og hússins. Á sínum tíma var til siðs að gera opinberar mælieiningar aðgengilegar til að leysa deilur og þarna má berja augum menjar um slíka einingu sem reyndar er nýtilkomin á þessum stað en var er gott dæmi um fyrri tíma neytndavernd. En nóg um Friðargarðinn í bili

16B4A215-D3CD-4728-8B8D-1E0CB169EF16

Hinum meginn við ráðhúsið kúrir litill skúr undir vegg, síðasti sinnar tegundar og varðveittur sögu sinnar vegna. Hér er um að ræða Police box sem sögur herma að geymi hlið inn í annan raunveruleika og þar megi ferðast í tíma og rúmi. Sannleikurinn er hins vegar sá að slíkir skúrar voru víða um borg á þeim tíma sem farartæki og fjarskipti vorumaf skornum skammti og í skúrunum höfðu lögreglumenn afdep, gátu hringt inn eftir aðstoð eða borðað skrínukostinn sinn. Þar mátti jafnvel hýsa fanga tímabundið ef svo vildi til

92F007BC-F51E-4EDC-9748-41CF53B8D27F

Við hvíldum síðan lúin bein á bekk í Winter Garden áður en lagt var upp í síðasta labb dagsins en allt er þetta í raun og veru á sama blettinum og endalaust hægt að skoða og njóta

5BED7B59-9891-4D67-82A4-0A11E6BBAA66

 

Fyrstu dagarnir í Sheffield

A6FE6C51-68C5-40C3-883B-B16497182197Sheffield er, eða heldur var, þekkt fyrir að vera þungamiðja stáliðnaðar en löngu fyrir þann tíma var hún, má segja hún? Mér finnst borgin vera kvenkyns og stíg þá kannski á einhverjar tær en allt svo hún, borgin var löngu fyrr þekkt fyrir að hér mátti fá gæða hnífa, beitt áhöld og vopn framleidd úr innfluttu evrópsku stáli. Sami grautur í sömu skál en sagan er óralöng og nátengd ánum fimm sem renna um svæðið. Don liðast um nyrsta hluta miðbæjarins, m.a fram hjá Ketham Island sem ég ætla að heimaækja einhvern daginn og er víst alls ekki eyja. Áin Sheaf er suðvestur af miðbænum í ónáttúrulega þráðbeinum farvegi. Rivelin og Porter má finna í vesturátt og Loxley í norðvestur. Í einu úthverfa borgarinnar má finna safn þar sem hægt er að skoða 18. aldar vinnustofu sem á sínum tíma var knúin vatni með vatnsmyllu sem enn stendur og kölluð er Shepherd Wheel

(Húsið til hægri er spítali og nútímaskrípð fyrir aftan gleypir gamla húsið alveg þó sumir myndu kannski segja að það faðmaði það. Svarti kumbaldinn er hús tónlistarakademíunar, einkar óvenjulegt og að mestu glugga laust)

Morguninn notuðum við til að kynnast hverfinu okkar betur og ég mun örugglega nefna það aftur síðar en við gengum fram á litla kirkju, það er litla á innfæddra mælilvarða, ekki íslenskan. Þar hittum við einkar vingjarnlegar konur sem sögðu okkur að skoða minnismerki þar rétt hjá um þá er létust úr kóleru. Við auðvitað hlýddum og fundum fallegan garð þar sem minnismerkið tróndi út á brekkubrún. Í garðinum voru grafnir hundruð manna í fjöldagröf þegar kóleran geysaði árið 1832

Borgin er einkar falleg og nóg af grænum svæðum, görðum og trjám af öllum stærðum og gerðum. Hún stendur á sjö hæðum og göturnar i miðbænum liðast hver um aðra í algerri óreiðu upp og niður hæðina. Jarðfræðilega er fjölbreytnin hér mikil og sem dæmi má nefna að lægsti punktur borgarinnar er tæpir þrjátíu metra yfir sjávarmáli en sá hæsti rúmum fimm hundruð metrum hærra, geri aðrir betur

Við ráfuðum inn í Sheffield Cathedral fyrir hálfgerða rælni eftir að hafa notið blíðunnar úti, mest vegna þess að mig langaði í segul á ískápinn minn og ekki verra að styrkja kirkjuna í túristafílingnum. Inni var messa í gangi og við settumst niður og nutum áður en við skoðuðum okkur um og ég mæli með að gefa sér tíma til að stoppa, ganga um og horfa vel í allar áttir því margt er að sjá og sumt sem íslendingnum þótti skrítið, eins og sverð og hnífar sem afmarka eitt svæðið með æfaforna fána blaktandi yfir (jamm hér þarf að nota ímyndunaraflið því auðvitað blakta fánarnir ekki þarna inni). Kirkjan var byggð í mörgum áföngum og það sést vel þó bútasaumurinn hafi bara tekist bísna vel. Rétt inn af innganginum er tilvalið að líta til himins og dást að The lantern tower…

3C4AEC10-FAB8-4FDE-99B0-13660A1D9D39

…sem ég las einhversstaðar að væri falinn gimsteinn og fallegur var hann í sólinni sem skein gegnum glerlistaverk Amber Hiscott frá 1998/9. Viðarverkið er tákn þyrnikórónu Krists og á vel við að nefna nú þegar föstudagurinn langi bíður hinum megin við miðnættið. Kirkjan sjálf er elsta byggingin í borginni sem enn er í notkun og á sér sögu aftur á tólftu öld. En rúsínan i pylsuendanum var samt að berja augum styttu Brian Fell sem í kirkjunni stendur. Styttan sú er úr stáli og sýnir Betlehemssenuna en það sem mér þykir skemmtilegt er að Jósef heldur á barninu en ekki María eins og algengara er

Þá lá í augum uppi að leita næst uppi aðra styttu, þessa af konunum sem unnu í stálinu í bæði fyrri og seinni heimstyrjöldinni. Verkið er úr bronsi og kallast Women of steel. Martin Jennings heitir listamaðurinn og verkið var sett upp árið 2016 og hlaut hann verðlaun fyrir verkið ári síðar. Við afhjúpunina voru viðstaddar hundrað konur sem höfðu unnið við stáliðnaðinn á sínum tíma en þær og stöllur þeirra voru einnig heiðraðar með heiðursmerki

Eftir snarl á ágætu veitingahúsi í miðbænum var tímabært að hitta Marion vinkonu okkar í húsakynnum háskólans í húsi kenndu við Edgar Allen en hann var verkfræðingur og rak mikinn bissnes i kringum stálið marg um rædda. Húsið er ein af ótal byggingum Sheffield University í miðborginni en háskólarnir tveir, hinn heitir Hallam University, eru frekir a plássið og umhverfið hefur lagað sig að þeim með keðjumatsölustöðum og börum fyrir stúdenta, í götunum allt í kring en útsýnið úr glugganum hennar er töluvert ólíkt mínu og hún hafði orð á því, nýkomin frá Akureyri rétt eins og ég

Marion dró mig á pub og bauð mér upp á bjór bruggaður á svæðinu, þótti ótækt að ég hefði ekki þegar heimsótt krá í landi englendinganna. Nú er ég búin að því og hafði gaman af enda félagsskapurinn góður. Við kváðum að hittast fljótt aftur og við Arnar röltum yfir hæðirnar tvær heim á leið

Að lokum er hér kort af hluta af háskólasvæðinu máli mínu til stuðnings

4AD91C92-EC7F-4A58-9553-EFF6EEDF1878

Dagur einhverfu 2019 – foreldrarnir

F6D83F88-C759-49BF-8BB7-A32977E8A67DDagur einhverfu og ég lofa að þreyta ykkur ekki á ítrekuðum áminningum enda skipta þær engu ef engar fylgja efndirnar. Það segir lítið að dreifa stolti, ánægju og stuðningi ef þú gerir ekki neitt í málefnum einhverfa, a.m.k. þess með einhverfu sem þú þekkir. Heimsókn, símtal eða stund með viðkomandi er meira virði en allar dreifingar heimsins, skilningur, umburðalyndi eða úthald … og það þarf úthald til að halda slíku sambandi gangandi, það er þetta sem þú þarft að gera. Margir með einhverfu eru einangraðir, ekki af því að þeir vilja það heldur af því að hinir nenna ekki að leggja á sig fyrirhöfnina við að eiga samskipti við þá. Samskipti af þessari sortinni krefjast þess að þú hættir að hugsa um sjálfan þig fyrst og fremst og oh boy hvað fólk á erfitt með það nú til dags. Samskiptin krefjast þess líka að þú hættir að lesa í orð og athafnir, því fólk með einhverfu segir hlutina gjarnan hreint út og þá er alveg óþarfi að móðgast þó ekki sé fylgt ströngustu kurteisisreglum. Gestir hafa snúið upp á sig þegar aspargusinn minn kemur í dyrnar og spyr: Hvað er hann að gera hér? Er hann ekki að fara? Þurfti hann að koma með börnin sín? Allt spurningar til að fá svör, ekkert meira, ekkert minna. Hann er í stöðugri upplýsingaleit og það væri okkur hollt að líta á heim einhverfra meira eins og google. Þú finnur svo sannarlega ekki alltaf það sem þú leitaðir að en það þýðir ekki að svarið sé ekki rétt, spurningin var bara röng

Og hættið að dæma foreldrana, þetta er alveg nógu erfitt án þess. Hve oft ætli ég hafi þurft að hlusta á vel meint orð vina og kunningja, ættingja eða bara ókunnugra um það sem ég ætti að gera eða oftar, það sem ég ætti að hætta að gera. Fólk greinir barnið og okkur hiklaust, setur á okkur stimpla og dóma hægri vinstri og nú nota ég þekkta skammstöfun til að segja það sem mér finnst um slíkt FO! (afsakið orðbragðið en kommon?). Getið þið ekki bara notað facebook á okkur og sent like og hjörtu í staðinn?

Það ruglar marga þegar aspargusarnir spyrja -af hverju eða -hvers vegna, um atburði sem “allir hljóta nú að skilja” en er bara ekki svo einfalt. Það sem þú þarft að gera er einfaldlega að svara hreint og beint, án útúrsnúninga og án kaldhæðni. Spurningum eins og -af hverju þarf að segja bless? -Af hverju þarf að þakka fyrir matinn? -Af hverju þarf að heilsa? -Af hverju? Og þetta eru alvöru spurningar sem þarf að svara með alvöru svörum. Leitaðu ráða hjá viðkomandi ef þú ert ekki viss og fáðu svörin þar sem þau eru. Ekki taka sjálfræðið af þeim og halda að þú vitið betur. Ekki takmarka möguleika aspargusanna þarna úti, leyfið þeim að takast á við lífið og aðstæður og verkefni, á sínum hraða og með sínu lagi en með dyggri hjálp og allri þeirri aðstoð sem þeir þurfa. Ekki halda að þú vitir betur og í guðanna bænum hlustaðu á foreldrana, merkilegt nokk þau hafa ótrúlega mörg svör og verða fljótt hokinn af reynslu

Mömmuráð mitt til hinna foreldranna er eftirfarandi. Greindu aðstæður þegar allt fer á hliðina og lærðu af þeim. Það er alltaf ástæða þó við sjáum hana ekki alltaf. Stundum er það hljóð eða ljós, snerting eða atburður, stundum kvíðinn sem tekur yfir en það er alltaf ástæða, alltaf. Pabbinn vill minna ykkur á að þið finnið ekki uppskrift á netinu til að fara eftir. Þetta er bara vinna, þangað til þú röltir síðustu ferðina fyrir ætternistapann, vinna og aftur vinna. Og þó við brosum stundum af listunum sem aspargusinn er snillingur í að gera til að halda jafnvægi á tilfinningavoginni þá ættum við að læra af þeim og gera lista, í samráði við einstaklinginn sem um ræðir, um það sem hentar og má og hins sem ber að varast að gera eða segja. Kannski getur þú smella einum úrklippuvegg á Instagram um málefnið enda skiptir það meiru en margt annað sem á Instagram-ið ratar

Ef þið þekkið aspagusfjölskyldu þarna úti, farið í heimsókn, talið við barnið/einstaklinginn, leggið ykkur fram við að eiga samskipti því oft er það ekki mikið mál, bara sýna lit og finna þá leið sem hentar. Setjast með viðkomandi við púsl, tölvuleik, skoðið bók, teiknið, perlið…eða hvað það nú er sem þeim þykir gaman. Bjóða viðkomandi út úr húsi í eitthvað það sem honum líkar og látið vita að hann þarf ekkert að tala, ekkert að segja nema hann vilji. Það dásamlega í þessu sambandi er að ef við einhvern er hægt að eiga hrein og bein samskipti þá er það fólk af þessari sortinni. Því skaltu bara spyrja, hvað finnst þér gaman að gera? Viltu kenna mér það? Eða, getum við gert það saman? Og þú gætir komist í dýrlingatölu með því að bjóða pössun eða hlé, vinna að því að fá barnið til að gista eða það sem er enn betra flytja inn svo foreldrarnir geti fengið kvöldstund, nótt eða helgi til að sofa. Jamm helsti draumur foreldra í þessari stöðu getur verið að sofa í friði

Ef þú átt börn kenndu þeim að vera almennilegar manneskjur því merkilegt nokk, börn hafa svo lélegar fyrirmyndir allt í kringum sig að þetta þarf að kenna. Kenndu þeim að gefa af sjálfum sér, gefa tíma sinn og athygli, vera örlát og mjúk í samskiptum. Og vertu góð fyrirmynd, vertu örlát(ur) og mjúk(ur), gefðu af sjálfum þér og gefðu af tíma þínum og athygli.

Ég hef litla þolinmæði fyrir umræðum um að frávik og fatlanir séu gjöf, því fer fjarri, mest megnis vegna þess að samfélagið gerir slíkt að hindrun, að ókleyfum vegg, að hrösunarhellu. Foreldrar þurfa að berjast, barnið þarf að berjast og sem fullorðinn þarf einstaklingurinn að berjast og það er óásættanlegt. Við þurfum að skapa betra samfélag þar sem allir eru samþykktir og allir duga eins og þeir eru og hafa sitt pláss, líka félagslega

Ég vona innilega að þú notir aprílmánuð eða hið minnsta daginn í dag, DAG EINHVERFRU … til að gera eitthvað fyrir málefni einhverfra, fyrir foreldrar einhverfra eða það sem væri allra best, fyrir einhvern með einhverfu. Og hástafanotkun mín hér rétt framar mun rugla minn aspargus í ríminu en við verðum nú að hafa gaman af þessu líka … góðar stundir

Blogg um sama efni frá í fyrra: https://annaelisaisl.wordpress.com/2018/04/02/dagur-einhverfu-2018-stubburinn-minn/

Pallborðsinnlegg um raun- og tæknigreinar… #visindi19

Ég sat í pallborði ráðstefnu MSHA og málþings um náttúrufræðimenntun þann 30. mars 2019, Vísindi í námi og leik. Þar var tekist á um tvær spurningar og eru svör mín hér neðar

Hverjar eru helstu áskoranir í skólakerfinu þegar nám og kennsla í raungreinum og tækni eru annarsvegar? 

Ég sit hér sem leikskólakennari og sem slíkur veit að í leikskólanum er löng hefð fyrir samþættu skólastarfi, viðfangsefni eru fléttuð saman og unnið með þroska og nám á mörgum sviðum með einu og sama viðfangsefninu. Það er því áskorun í því að fá hinn almenna kennarar til að flétta raun- og tæknigreinar inn í starf sitt eða nota þær sem útgangspunkt

Í leikskólanum og yngri bekkjum grunnskóla er unnið með grunnþætti, og þeir eru almenns eðlis og á valdi þess kennara sem vill. Nú vona ég að engin misskilji mig og telji að ekki þurfi sérþekkingu til að kenna sérhæfð viðfangsefni, það er ekki það sem ég á við og sérfræðiþekkinguna má bæta t.d. í kennaranámi og við þurfum einnig að vinna með kennurum að því að efla bæði stelpur og stráka í þessum greinum. Þar liggur ein áskorunin

Það virðast vera til svið sem fólk hefur það viðhorf til að allir geti kennt það. Man eftir því í tengslum við dönsku á sínum tíma og reyndar einnig um leikskólakennslu. Og önnur sem sett hafa verið á stall, svo sem tölvurnar og snjalltæknin En það eru einnig svið sem í gegnum tíðina hafa verið vafin ákveðinni dulúð eins og ég held eigi við um raun- og tæknigreinar. Grunn þekking í rafleiðni, kóðun, eðlis- eða efnafræði eða stærðfræði getur verið á valdi hins almenna leik eða grunnskólakennara ef hann setur sig inn í efnið og lærir um það. Ekkert síður en leikskólakennarinn getur sungið með börnum, unnið með hljóðfæri, hljóð, takt, hljómfall og grunnþætti tónlistar án þess að vera langskólagenginn í tónlist. M.a.o. tel ég áskorun felast í að vekja athygli hins almenna kennara á því sem hann getur gert á þessu sviði, dags daglega, í þemaverkefnum eða í einstökum verkefnum

Yngri börn læra á með því að leika sér með viðfangsefnið, leikur er námsleið leikskólabarna og við ættum að læra af börnunum og tenga raungreinar og sköpun saman. Margir leikskólakennarar vinna heilmikið með náttúruvísindi, tilraunir og athuganir tengdar náttúrinni ofl. Einnig líffræði og jarðfræði, náttúruöflin  s.s. veður og fleira. Rannsóknir, uppgötvanir, lausnaleit og ígrundun eru einnig hluti af leikskólastarfi

Sem sagt að samþætta viðfangsefni, að kennarar veigri sér ekki við að gera það sem þeir geta, gleyma ekki sköpuninni og að hafa gaman af

Til hvaða aðgerða þarf að grípa til að mæta þeim áskorunum sem hér hafa verið nefndar? 

Það er margt sem má gera til að efla raun- og tæknigreinar og út frá mínu kennaramiðaða sjónarhorni þá vil ég byrja á að nefna þá sem valdið og peningana hafa. Menntamálaráðuneytið leggur mikla áhersla á læsi og það hefur varla farið fram hjá neinum. Fjölmörg sveitarfélög hafa lagst á árina með þeim í læsisverkefnum og átaksvinnu á þessu sviði. Þetta tel ég hafa komið niður á öðrum þáttum í skólastarfi, ekki síst í leikskólaumhverfinu … en þetta er ekki tvennt ólíkt og aðskiljanlegt

Sveitarfélögin þurfa að fjármagna skólana þannig að mögulegt sé að kaupa þau tæki og efni sem þarf til að kenna börnunum í gegnum „hands on“ aðferðir, með því að gera og hafa í höndunum. Þannig læra ung börn best en þetta kostar peninga

Háskólarnir geta boðið upp á símenntunarnámskeið og opnað þau námskeið sem þegar eru í boði á þessu sviði fyrir starfandi kennara og við í HA höfum stigið fyrstu skrefin í þessa átt

Kennarar þurfa að bera sig eftir björginni. Sækja nám og námskeið ef þeir telja sig skorta þekkingu eða vilja læra meira

Kennarasambandið sinnir kannski fyrst og fremst kjaramálum en ég tel það geta, í samvinnu við samband íslenskra sveitarfélaga, haft í huga þegar samið er að símenntun kennara að hún sé markvissari en nú … amk geta báðir þessir hagsmunaaðilar lagt sitt af mörkum 

Margt er vel gert og víða í skólum eru fyrsta flokks kennarar á þessu sviði að gera góða hluti og kannski ættum við að draga fram bestu dæmin, því oft held ég að kennarar læri best af jafningjum um hagnýtar útfærslur

Ábyrgðalaus pæling um tækni, ensku, uppeldi og fleira

1395DB57-546A-4897-A674-B7030F84F264Nokkrir dagar með karlinum í útlöndum um daginn og fátt að gera annað en tala saman. Hingað til höfum við tekið umræðuna um börn í heimi tækni (tölvur, síma, spjöld) eða kannski frekar talað um foreldra, kennara og fullorðna í tækniheimi því það verður að segjast að mér finnst fæstir fullorðnir sérlega góð fyrirmyndir eða skynsamir þegar að þessu kemur.

Tæknin er í eðli sínu bara tæki, …kóðar, forrit og jú möguleikar, endalausir möguleikar. Ég elska iPadinn minn meira en ég ætti en eiginlega væri réttara að segja að ég elskaði möguleikana sem iPadinn minn gefur mér því ef þessi gefur upp öndina uppfæri ég hið snarast í næsta stykki iPad 3.0. Ég er sem sé á öðrum iPadnum og sá fyrst gat ýmislegt, þessi sem ég á núna getur enn meira. Hann gerir samt i raun ekkert nema ég segi honum að gera það, þess á milli liggur hann bara hógvær og hljóður og bíður eftir mér en í honum hef ég bókasafnið mitt og því endalaust úrval af lesefni, ég hef tónlistina mína og því get ég hlustað þegar mig langar … nú eða hlustað á hljóðbók, tær snilld á ferðalögum. Ég hef dagbókina mína í spjaldinu og hún sinkar við dagatalið í vinnunni og Arnars svo nú skiptir engu þó hann gleymi að segja mér hlutina, þeir eru þarna á vísum stað. Ég hef netið og þar með bókasöfnin út um allan heim eða hvað sem mig langar að fræðast um og grúska. Ég get tekið ljósmyndir, hreyfimyndir, hljóðupptökur og unnið með þetta allt. Barnabörnin (og ég) eigum þarna nokkra leiki til afþeyingar og ég er með forrit til að halda utan um bókanir á flugi, gistinu, brottafararspjöld og hvaðeina. Ég get samið ljóð hvar sem er, skrifað pistla, sett saman efni og birt, haft samskipti um vefinn eða tölvupóstinn. Dásamlegt alveg í örþunnu 10” tæki sem vegur sama og ekkert. Ég get unnið hvar sem er, notið hvar sem er og gleymt mér hvar sem er. Sem sé tæknin er frábær.

Nóg um mig en tvennt vil ég segja um fullorðna, svona utan við að þeir mættu margir hverjir sýna betra fordæmi, það er mikilvægt. Nenni ekki að skrifa um kurteisi, samskipti, tilitsemi og á stundum tilætlunarsemi í kringum tækninotkun fullorðinna (m.a. síma) eða hvernig þeir deila sora, vitleysu eða myndum af börnum, fötluðum og slíku, um það hef ég tjáð mig áður (Arnar skrifaði um foreldra og tæknina á féssíðu sinni 2.3 2019).  Í fyrsta lagi þá er mýtan um tæknigetu barna og ungmenna er stórlega ofmetin. Já, ég hef mál mitt á fullyrðingu og læt aðra, nátengda fylgja í kjölfarið, ensku kunnátta barna er einnig stórlega ofmetið fyrirbrigði og þvi miður oft á kostnað islenskunnar. Börn þurfa sterkan grunn í móðurmáli til að eiga bestu möguleikana á að fóta sig í næsta máli og allt hangir þetta saman við líkur á gengi í námi til fullorðinsára. 

Foreldrum er ekki einum um að kenna, stjórnvöld hafa að mínum dómi allt of þrönga sýn á læsi og ættu að láta sig meiru varða vandað barnaefni á góðri íslensku fyrir yngstu börnin. Þau þurfa góðar bækur því það verður að segjast að það er lítill metnaður á bak við of margar barnabækur. Og þó að það kosti þarf að gera vönduð forrit fyrir yngstu börnin, forrit sem byggja á öllu þrennu þekkingu og hæfni í forritun, í hönnun og í námi og þroska ungra barna. Oft vantar hið minnsta síðasta þáttinn. Að lokum þyrfti að gera kröfu á barnaefnið sem sýnt er í íslensku sjónvarpi og í guðanna bænum koma böndum a Dóru landkönnuð, Manna meistara og aðra sambærilega sem rugla tungumálum skammlaust og án aðgeiningar þvert á fræði um máltöku, bæði íslensku og annars máls en við fullorðna fólkið þurfum að draga úr oftrú á mikilvægi enskunnar, því eins og kemur fram framar, þarf sterkan grunn í móðurmáli og þann grunn verðum við að gefa börnunum. Það er ekkert fínt að smábörn bregði fyrir sig ensku, krúttlegt já en ekki eitthvað sem á að gera mikið úr eða halda að standi fyrir eitthvað meira. Börn þurfa að fá upplýsingar á borð við “já, þetta er red á ensku en á íslensku heitir þessi litur rauður”.  Ég átti samræður við fimm ára gutta um daginn sem upplýsti mig um að hann og félagarnir töluðu ensku í leikskólalanum og þá, sagði hann, þá segja kennararnir okkur að tala íslensku. Hvað veldur því að fimm ára krakkar vilja heldur tala ensku en móðurmálið? Á hvaða leið erum við eiginlega? Og margt ungt fólk getur vel bjargað sér á ensku en það er ekki hið sama og hafa djúpa þekking eða færni í málinu. Ég vildi óska að fólk hætti að slá um sig með staðhæfingunum börn eru svo fær í tækninni, og krakkar eru svo klárir í ensku. Staðreyndin er sú, eins og með aðrar mýtur, sumir eru færir og klárir, margir kannski meðal eða lítið og sumir afar lélegir. Afhverju haldið þið að börn séu eitthvað öðruvísi sem heild en aðrir hópar samfélagsins?

En þá aftur að tækninni. Fullorðnir eiga til að hafa oftrú á að tæknin efli nám, hún getur sannarlega gert það ef viðeigandi tækni, notuð i samvinnu og með aðstoð foreldra (kennara) sem leið að tilteknum þroska, færni eða getu. En að rétta ungu barni youtube og gefa því lausan tauminn er ekki bara líklegt til að lenda fljótt inn á óviðeigandi efni heldur getur það unnið gegn því að barnið efli athyglisgáfu sína, úthald og eftirtekt svo dæmi séu tekin. Og að rétta krakka eða ungling snjalltæki og ýta því svo út í lífið er glapræði. Foreldrar verða að taka ábyrgð á tækninotkun barnanna, ábyrgð sem þýðir að þeir setja reglur og viðmið, læsa tækjum á ákveðnum tímum, sjá til að þau séu ekki við rúmin á nóttunni eða í notkun rétt fyrir svefnin, gæta þess að börnin séu ekki ínáanleg alltaf eða hvernig sem er og já það eru stillingar fyrir þetta allt. Svo þarf að opna allar síur og varnir sem hægt er en eina alvöru vörnin er sífellt og stöðugt eftirlit með tækninotkun barnanna. Börn eiga ekki rétt á einkalífi í þessu samhengi en þau eiga rétt á vernd og vörn í öllu því sem hægt er, það er skylda foreldra. Stundum spyr ég mig hver sé sá fullorðni í sambandinu þegar fólk veigrar sér við að setja reglur eða takmarka notkun barnanna. Séð hef ég börn kúska foreldra sína með hótunum eða væli um að allir aðrir hafi meira frelsi, meira val, engir aðrir foreldrar séu eins og þeirra, svona strangir, svona vondir. Og börn eru klár og vita hvaða rökum má beita til að ná sínu fram, þau nefna að þau verði útundan, þeim strítt, þau missi af, þau hafi ekki sömu möguleika og hinir í von um að foreldrarnir láti undan. Tækninotkun barna snýst um uppeldi og kannski meira nú en nokkru sinni fyrr og foreldrar verða að sinna þessu uppeldi. Ég gæti talið endalaust upp hætturnar, hættur á að ókunnugir nái tengslum við barnið, að þau komist í óviðeigandi efni, séu lögð í neteinelti eða bara fái leiðinleg skilaboð, þau verði varnarlaus þegar efni um þau er dreift eða þau leggi aðra í einelti, dreifi efni sem gerir önnur börn varnarlaus eða falli í skaðlegar gryfjur af öðrum toga. Ég gæti rætt um klám og áhrif þess á samskipti til langframa og svo má endalaust telja upp en ég ætla ekki að gera það heldur hvetja foreldra til að ræða við börnin, reglulega og aftur og aftur, um hvað þau eru að gera á netinu, um hættur, um siðferðir, kurteisi og allt þetta sem þarf að ræða. Og ég hvet foreldra til að setja reglur, vera foreldrar.

Þankar inn í skólamálaumræðuna

Í Fréttablaðinu í dag (14.3. 2019) segir Margrét Pála margt og sumt fékk mig til að staldra við, sumu er ég hjartanlega sammála og margt má til sannsvegar færa. Sannarlega skortir fé í menntakerfið og búa má mun betur að börnum og kennurum. Það er einnig nauðsynlegt að huga að jafnrétti innan skólastofa og utan og ekki ætla ég að ræða aðferðir Hjallastefnunnar í þeim málum, hitt er mikilvægt að muna í þessu samhengi og það er að höfundur er stofnandi Hjallastefnunnar, fyrirtækis sem rekur fjölmarga skóla, í hagnaðaskyni, i einkarekstri, og samkeppni við aðra skóla

Fyrsta atriðið sem ég rak mig á eru tölur um góðan árangur Hjalla drengja í lestri, athugið að hér er bara rætt um lestur ekki læsi. Umhugsunarefni mitt í þessu samhengi er hvort það geti verið að nemendahópur einkarekins skóla endurspegli ekki þverskurð af samfélaginu. Félagsleg staða barna, bakgrunnur og aðstæður að öðru leyti skipta máli fyrir námsárangur og mikilvægt að vita hve stór hluti nemendahópsins er af erlendum uppruna, með fötlun eða greiningar, hver menntun foreldra og fjárhagsstaða heimilanna er. Allt eru þetta atriði sem taka þarf með í reikninginn þegar árangur skóla er metinn, hver sem skólinn er

Annað atriðið sem ég staldra við er að mér finnst drengir talaðir niður eða stúlkur upp sitt á hvað og hvoru tveggja leggst illa í mig, kennarann og jafnréttissinnann. Fleira ræður námsárangri en kyn og tær eðlishyggja er af mörgum talin gamaldags eða hið minnsta bara hálfur sannleikurinn. Stúlkur eru ekki allar eins og drengir ekki heldur og jafnvel þó höfundur nefni það er eðlishyggjan þó ríkjandi í gegnum textann

Tilvitnun  í greinina “Það myndast talsvert þroskabil milli stúlkna og drengja á fyrstu æviárunum sem verður mjög afdrifaríkt í kringum 5, 6 ára aldurinn. Þar byrjar vandinn því að þroskabilið veldur umtalsverðum frammistöðumun milli kynjanna.” Sem leikskólakennari með langa starfsreynslu hef ég að efasemdir en leiðréttið mig ef ég fer rangt með en sýna mælingar mikinn kynjamun í námsárangri við grunnskólabyrjun og mikinn þroskamun? (Sem ekki er tengdur þeim þáttum sem ég hef þegar talið upp, greiningum, fötlunum, bakgrunni osfrv.) Á árunum mínum sem leikskólakennari fimm ára barna sá ég ekki svona skýran kynjamun í öllum þeim árgöngum sem skólinn skilaði af sér á næsta skólastig. Ég á við mun í þvi sem skiptir máli fyrir nám og þroska, og ég gáði, því ég líka var alin upp í menntakerfinu með ótal mýtum um drengi og stúlkur. Ég get vitnað í erlendar rannsóknir sem sýna að við grunnskólabyrjun er ekki munur á getu barna eftir kyni í stærðfræði. Niðurstöður úr Hljóm2, stafrænni stafaþekkingu og öðrum þeim prófum sem lögð voru fyrir bentu ekki til áberandi kynjamunar en allt gat tónað vel við greiningar, frávik eða útskýrða þroskaseinkunn barna og önnur atriði svo sem ef íslenska var þeirra annað mál. Ef einhver veit um rannsóknir hér á landi sem sýna sláandi kynjamun í þroska og námsgetu við grunnskólabyrjun vil ég gjarnan fá upplýsingarnar ef þið viljið vera svo væn

Í greininni eru margar fullyrðingar, mikið um sterkar lýsingar og efnið sett fram eins um sannleika sé að ræða en ég er engan vegin sannfærð og þykir sérlega miður þegar fullyrt er um að stúlkur fái minni athygli eða strákar séu skammaðir. Rannsóknir hafa sýnt að slíkan halla má finna tengdan kyni, kynþætti og fleiru en okkur skortir íslenskar rannsóknir á þessu og ég veit að margir kennarar eru meðvitaðir um áhættuna og gæta sín á henni

Höfundi er einnig tíðrætt um kynjamenningu og ég verð einfaldlega að láta þá umræðu bíða betri tíma svo einhver nenni nú að lesa þessa þanka til enda. Að lokum ítreka ég það sem ég skrifaði ofar, menntakerfið er sárlega fjársvelt en góðu fréttirnar eru að við eigum ótal færa kennara sem sinna starfi sínu af dugnaði og fagmennsku. Það er sannarlegs kominn tími til að samfélagið standi betur við bakið á þeim en einkarekstur í grunnþjónustu er að mínu viti aldrei rétta leiðin og í besta falli til að ýta undir samfélagslega mismunun. Ástæða þess að ég setti hugleiðingar mínar niður á blað eru ekki síst hagsmunatengsl höfundar greinarinnar og ég tel hollt að lesa greinina út frá því sjónarhorni.

Greinin sem vitnað er til: https://www.frettabladid.is/frettir/nu-urfa-drengir-og-karlar-a-risa-upp

Heimildir

Gibbs, B. (2010). Reversing fortunes or content change? Gender gaps in math-related skill throughout childhood. Social Science, 39(4), 540–569.

Goetz T., Bieg , M., Lüdtke, O., Pekrun, R. og  Hall, N. C. (2013). Do Girls Really Experience More Anxiety in Mathematics? Psychological Science, 24(10) 2079–2087l

Worell og Goodheart (2006). Handbook of Girls’ and Women’s Psychological Health: gender and wellbeing across the lifespan. New York, NY, US: Oxford University Press.

Ferðalangurinn í Manchester – líður að heimferð

Ráðstefnur og fundir, margt fólk og spjall um fög og fræði, ég þreyti ykkur ekki á því öllu og geri því skil á öðrum vettvangi en í dagslok gekk ég um borgina og rakst þá stundum á eitthvað óvænt, eins og gamla byggingu á fjórum hæðum með allskonar sérkennilegum smáverslunum hverri innan um aðra í Kolaportsstíl (í norðurhluta miðborgarinnar). Alltaf gaman að ganga um og skoða gamla tölvuleiki og allskonar dót og drasl. Við gengum líka fram á Out house alveg óvart þó það hafi reyndar verið á dagskránni fyrstu dagana en urðu útundan í öllu brasinu. Norðarlega í miðbænum má finna kamra nokkra sem eitt sinn voru yfirgefnir steinkumbaldar og mikið lýti þar til árið 2010 að listamennirnir Tasha Whittle og Ben Harrison, tóku sig saman og umbreyttu salernunum í gallerí. Á þriggja mánaða fresti eru settar upp nýjar sýningar. Á sömu slóðum er eina verk Banksy í borginni frá árinu 2001 sem smám saman hefur horfið á bak við auglýsingar, skemmdir ofl. 

Athugull gæti tekið eftir litlum glugga undir gluggum Manchester Craft and Designe Centre (Copperas street megin). Byggingin er frá Victoríutímanum og þjónaði fyrst sem markaður fyrir fasteignaviðskipti ef ég skil þetta rétt en þarna er nú m.a. kaffihús. Verkið lítiláta ber nafnið Mr Smith’s Dream. Smith þessi var gæludýrabúðareigandi og um tíma mátti á þessum slóðum finna fjölmargar slíkar verslanir í hverfinu. Verkið hannaði Liz Scrine til minningar um Smith sem sagt er að hafi gjarnan haft draumfarir um dýrin sín en það er vel þess virði að guða á gluggann og virða draum herra Smith fyrir sér

Ef þú stendur á einni af þeim þremur brúum sem þvera ána Irwell hver ofan í annarri í miðborginni getur þú komið auga á Cathedral steps, menjar um iðnaðinn sem einkenndi borgina lengst af. Þarna er falið þónokkuð mikið rými neðanjarðar sem notað var sem sprengjubyrgi í seinni heimstyrjöldinni og opnaðist upp í fyrirtæki í kring til að auðvelda aðgang. Svæðinu var lokað þar sem áin flæddi reglulega og olli skemmdum á því og þó umræða hafi verið um að opna svæðið fyrir almenningi hefur ekki orðið af því. Fornir inngangar eru greinanlegir frá Greengate Square. Núna voru hins vegar miklar vega- og byggingaframkvæmdir í gangi og ekki hægt að komast að svæðinu

Piccadilly station – lestarstöðin í miðborg Manchester er nýtýskuleg bygging en rétt undir teinunum má sjá gömlu stöðina, Mayfield Railway Station. Byggð árið 1910, henni var lokað 1960 og núna er hún í endurbyggingu og fær vonandi nýtt hlutverk. Gamla stöðin hefur verið sögusvið nokkurra kvikmynda í heimsendastíl ef einhver hefur áhuga á að fletta því upp

Það er margt fleira að gera í Manchester en ég komst til að skoða, sögusafn, asískt listasafn, gallerí og ég hef ekki nefnt að ég heimsótti listasafnið Manchester art gallery, sem er alveg heimsóknarinnar virði. Hins vegar sakna ég grænna svæða í borginni og er ekki viss um að ég sækist sérstaklega eftir að koma hingað aftur, upplifunin einhvernveginn been there done that en að því sögðu verð ég hérna aftur innan skamms

D22C54E4-0AAA-42D3-B8EA-0C06CAC09417

Daginn endaði ég svo á að sofa i gamla þvottahúsinu mínu frá því ég bjó í Reykjavík á námsárunum. Núna er það ein sú minnsta stúdíóíbúð sem ég hef séð, eða öllu heldur herbergisnefna með baði. Það er svona þegar landsbyggðarfólk lendir í Keflavík klukkan 16.30 og engar samgöngur norður fyrr en á morgun. Í borginni okkar fengum við okkur mat á notalegum stað við Laugaveginn, Arnar lallaði síðan með mig á kaffihús og við endum kvöldið í Pennanum. Enn höfum við ekki fengið neinn til að tala við okkur á íslensku og þannig lýkur þessu ferðalag í þetta sinnið. Þakkir fyrir samveruna