Er ekki kominn tími til að tala um leikskólann með aðkomu leikskólakennara?

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að gagnrýna sjónvarpsþáttinn Börnin okkar en ég bara get ekki þagað. Svo ótal margt stakk í eyru og hjarta, leikskólahjartað. Fyrst má nefna gamaldags og löngu úreldar hugmyndir um að leikskólinn henti yngstu börnunum ekki, þegar hið rétta er að góður leikskóli, skóli með gott rými og vel mannaður af leikskólakennurum hefur ótal kosti fyrir yngstu börnin. Til að allt sé með sem bestum hætti þá þarf samfélagið að hlú betur að leikskólanum, gæta þess að börnin hafi nægt rými í húsnæðinu, nægan mannafla til að sinna þeim og sveitarfélög/rekstraraðilar verða að borga mannsæmandi laun.

Saga starfsmannaveltu í leikskólum er nátengd launum og möguleikum á að fá betur launað starf utan leikskólans. Þá er ég komin að því sem kom einkar illa við mig í þættinum og það er hvernig var rætt um ófaglærða starfsfólk leikskólans, fólkið sem er á allra lægstu laununum í leikskólanum. Ákjósanlegasta staðan er auðvitað sú að leikskólar séu fullmannaðir af leikskólakennurum og fólki með menntun sem þar kemur sér vel. Raunveruleikinn er hins vegar sá, og hefur alltaf verið, að það er tilfinninglegur skortur á leikskólakennurum. Þess vegna hefur ófaglært starfsfólk lagt sitt af mörkum til að halda leikskólastarfi í landinu gangandi frá upphafi leikskólasögunnar. Ófaglært stafsfólk hefur þannig sinnt íslenskum leikskólabörnum af alúð, stutt við foreldra, hjálpað nýjum starfsmönnum, m.a. leikskólakennurum að ganga inn í starf og staðblæ, það hefur sinnt verkefnum sem eru oft langt fyrir utan þægindaramma og þekkingu þeirra, sett sig inn í ótrúlegustu viðfangsefni og lyft grettistaki, oft í þungum mótbyr. Það hefur mætt virðingaleysi og hunsun og, eins og þarna er gert, ósanngjarni óvirðingu.

Ófaglært starfsfólk leikskóla er ekki einsleitur hópur og ekki sanngjarnt að meðhöndla sem slíkann. Margt af þessu fólki hefur síðan menntað sig sem leikskólakennara og haldið áfram sínu góða starfi, aðrir unnið alla sína starfsævi í þessu hlutverki. Þetta er erkitípan ófaglært starfsfólk, konur sem gera sitt besta. Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé og engin þekkja það betur en leikskólastjórar að sumir í þessum hópi eru ungir að árum, stoppa stutt við eða reynast ekki nægilega vel. Gleymum þá ekki að þessum hóp er ætlað að sinna starfi fagmanneskju, ganga í starf leikskólakennara án menntunar og reynslu á skammarlega lágum launum. Það er því ekki furða að fólk gefist upp eða leiti á mið sem gefa betur. Ábyrgðin á aðstæðum liggur á herðum samfélagsins sem samþykkir það með orðum sínum og gerðum að viðhalda láglaunastefnu í leikskólum, óvirða starf sem þar fer fram og hunsa leikskólakennara sem fagfólk á sínu sviði.

Starf í leikskóla er krefjandi starf bæði líkamlega og andlega, það kallar á fjölbreytta þekkingu og færni, mikla samskiptahæfni, úthald og almennt töluverða mannkosti. Hver sem skoðun fólks er á hlutverki ófaglærðs starfsfólks í leikskólum er staðreyndin sú að leikskólar standa og falla með því að þessi hópur sé við vinnu. Það er kómískt í ljósi sögunnar, í ljósi aðstæðna og þegar foreldrar kalla hátt á fleiri leikskóla, að gera lítið úr starfi þessa hóps.

Það er vel þess virði að endurtaka að ófaglært starfsfólk leikskóla hefur í gegnum tíðina verið, og er enn, mest megnis konur, láglaunaðar og falla vel við höggi en þær eiga bara svo miklu betra skilið en umræðu af þessu tagi.

Ég þakka öllu því frábæra ófaglærða fólki sem ég hef verið svo heppin að vinna með, kærlega fyrir mig, af öllu hjarta um leið og ég lýsi mig reiðubúna til að ræða málin þegar tala á um leikskólann, víð erum ótal mörg hérna úti, allt sem þarf er að spyrja.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s