Dimmalimm og Muggur

Nýverið auglýsti Óðinsauga að von væri á nýrri útgáfu af Dimmalimm með nýjum og fleiri teikningum. Hugmyndin hefur fengið misjafna dóma og töluverðar rökræður átt sér stað hér og þar í netheimum. Ættingjar Muggs hafa einnig lýst andúð sinni á útgáfunni og í grein á Vísi segir “Aðstandendur Muggs segja ósiðlegt að útgáfan verði undir hans nafni því verkið sé ekki eftir hann þegar myndum hans hefur verið skipt út.” og einn af sonum Dimmalimm, eins og þeir orða það, segir: “En það sem aðstandendunum svíður sé að verið sé að nota nafn Muggs við verk sem er ekki hans.” Greinina má finna hér:

https://www.visir.is/g/20232469241d?fbclid=IwAR3ukk97HTlfVeNhHpSWvRzBDthq2eS2ADuJnrcN28MRIHEmJtm-ditqwbw_aem_AQtLwyishR7qlLTcunlnNR_7TqK3FcDQCoyfi2Mqj5CsljabOLTKHkQWUGzwsWnsoIg

Við fyrstu sýn datt mér helst í hug að AI hefði teiknað myndirnar en útgefandi svaraði fyrirspurn minni um hver myndskreytti bókina á þessa leið “Myndirnar eru undir áhrifum frá frummyndunum. Þær eru svo unnar í teymisvinnu þriggja listamanna, frá Íslandi, Úkraínu og Argentínu. Þeir eru eftirtaldir: Huginn Þór Grétarsson, Olena Soroka og Vladimir Rikowski.” M.a.o. byggt er á myndum Muggs og það eitt og sér vekur margar spurningar, ekki síst hvort ekki hefði verið betra að gera alveg nýjar myndir og þá kannski nýtískulegri. En hvað um það röksemdafærslur útgefanda og vangaveltur annarra má m.a. lesa á Facebook síðu útgáfunnar þar sem bókin er auglýst. Ég hvet fólk til að beita gagnrýnni hugsun á hvoru tveggja. Mig langar þó að nefna eitt sem kemur fram í rökum fyrir nýju myndunum og það er að þær séu fleiri en áður. Dimmalimm Muggs hefur sjö síður með stuttum texta og átta myndir, því eru myndirnar bara nokkuð margar miðað við lengd sögunnar en það er jú bara mín skoðun, auðvitað má klippa textann enn meira niður ef bókin er ætluð yngstu börnunum. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að saga eins og Dimmalimm Muggs henti börnum frá 3-4 ára aldri og þá eru átta myndir og sambærilegur fjöldi lína á blaðsíðu ágæt samsetning. Kannski er nýja Dimmalimm harðspjaldabók fyrir allra yngstu börnin. Kannski.

Dimmalimm er ein af mínum uppáhalds bókum, sannarlega barn síns tíma en í sögunni er Dimmalimm barn, það sést á teikningunum og það finnst mér dýrmætt. Annar kostur við söguna er að Dimmalimm tekst á við sorg og missi þegar svanurinn hennar deyr og hún syrgir hann um tíma. Bókin er, eins og áður segir, prýdd átta myndum, sem hver og ein er listaverk, líka myndin af trénu á lokasíðu bókarinnar sem mér fannst svo ævintýralega fallegt með öllum sínum litlu hjörtum. Dimmalimm elskaði náttúruna, kom vel fram við dýrin og lék sér fyrir utan höllina, sem var svolítið eins og hún væri að stelast og þar fann hún vin í svaninum á tjörninni. En vísukornið í lokin er auðlært og fallegt, sérstaklega þegar lesandinn man að höfundur var með litlu frænku sína í huga þegar sagan var samin.

Engin er eins þæg og góð
og Dimmalimmalimm
Engin er eins hýr og rjóð
og Dimmalimmalimm

Og fyrir þau sem vilja meina að bókin hafi vondan boðskap, sérstaklega fyrir stelpur þá mega stelpur alveg vera þægar og góðar líka, það er ekki slæmir eiginleikar, sérstaklega þegar rætt er við þær um hvað er að vera þægur og góður (skilgreiningin er nefnilega ekki ein og meitluð í stein). Um jákvæðan boðskap sögunnar hef ég þegar rætt.

Mér finnst hugmyndin um nýja Dimmalimm verri eftir því sem ég sé fleiri myndir úr nýju útgáfunni, nú siðast uppgötvaði ég að tréð með hjartalaga blöðunum sem Muggur gerði svo brothætt og fallegt er endurgert í nýju útgáfunni. Hvenær hættir málverk eða teikning að vera endurgerð og verður stuldur? Hví var ekki gert valið annað konsept í stað þess að nota tréð sem hefur enga tilvísun í sögunni? Ég er orðin efins um hve mikið nýtt er í þessum nýju myndum en það verður að segjast að bókin er enn ekki komin út en ég er reikna svo sem ekki með að kaupa bókina.

…Hér var ég búin að setja inn mynd af trénu í nýju útgáfunni en ég tók hana út, ég bara gat ekki horft á hana lengur en aftur að Mugg.

Muggur hét Guðmundur Thorsteinsson og lést rétt liðlega þrítugur að aldri. Hann kom þó miklu í verk og arfleifð hans dýrmætar þjóðagersemar á borð við altaristöfluna í Bessastaðakirkju svo dæmi sé tekið. En mörg verk Muggs tengjast börnum og um hann er skrifað: “Honum var sérstaklega sýnt um að segja sögur, enda var hann barngóður með afbrigðum og þekkti betur sálarlíf barna en flestir aðrir fullorðnir”.

Muggur mynskreytti Þulur Theodóru Thoroddsen en Theodóra var móðursystir hans. Mynskreyting hans á 10 litlu negrastrákum er einnig mörgum kunn og endurútgáfa þeirrar bókar olli nokkru fjaðrafoki fyrir nokkrum árum en það er efni í annan pistil.

Ég á einnig bókina Búkolla sem er myndskreytt af Muggi en sú sem ég á kom út árið 1951 og hann teiknaði myndir við fleiri ævintýri. Það er því skemmtilegt að Dimmalimm rataði inn í barnaleiki íslenskra barna með leiknum 1 2 3 4 5 Dimmalimm.

Sagan um Dimmalimm og vatnslitamyndirnar sem prýða hana verða til árið 1921 og Muggur gerði sem gjöf til systurdóttur sinnar, Helgu Egilsson. Dimmalimm kom fyrst út árið 1942 í blárri harð kápu sem vafin var í hlíf með forsíðumyndi og örlitlum upplýsingum um Mugg.

Þar stendur m.a. um Mugg að hann hafi verið “einn gáfaðasti og fjölhæfasti listamaður sem Ísland hefur átt”. Muggur var leikari góður og lék árið 1919 í fyrstu leiknu íslensku kvikmyndinni. Hann var einnig gamanvísnasöngvari og tróð á stundum upp sem slíkur þegar hann skorti fé.

Ég fékk 1. útgáfu af Dimmalimm í 50. ára afmælisgjöf og sú er með kápunni (hlífinni utan um bókina). Það er fátítt að finna fyrstu útgáfu með kápunni því þær voru gjarnan innrammaðar eða gefnar sem tækifærisgjafir en undir hlífinni er kápan fallega blá á litinn. Eintakið mitt fannst í Bandaríkjunum og því fylgja upplýsingar um bókina og þýðing á sögunni á ensku.

Bókin með sögunni um Dimmalim hefur verið endurútgefin þó nokkrum sinnum í gengum tíðina og ég á útgáfu sem Helgafell gaf út en hún er án árs. Þar er sagan um Dimmalimm sögð á íslensku, dönsku, ensku, þýsku og frönsku. Greinilega hugsuð til tækifærisgjafa til erlendra vina og ættingja.

Eins og ég nefndi veit ég ekki hvar í röðinni sú útgáfa er en áttunda útgáfa bókarinnar er með harðspjalda kápu og ögn stærri en fyrri útgáfur 1991 (1. prentun), 1992 (2. prentun). Mig vantar því þó nokkrar útgáfur í safnið mitt sem komu út þarna á milli.

Níunda útgáfa bókarinnar kom út 2004 og er ljósmynduð frumútgáfa.

Árið 2006 var Dimmalimm gefin út, þá með hvíta harða kápu.

Fram til ársins 2006 höfðu því komið út 10 útgáfur af Dimmalimm en ég á bara þær sem hér hafa verið nefndar. Á tímabili, fyrir svona tíu árum síðan, var hægt að fá Dimmalimm á nokkrum erlendum tungumálum í ferðamanna hluta Eymundsson en það er þó nokkuð síðan þær hættu að sjást.

Fyrir áratug gaf dótturdóttir mín ömmu sinni heimatilbúna útgáfu af Dimmalimm í sumardagsgjöf og hér neðar má sjá myndir af þeirri útgáfu. Textinn er skrifaður á pólsku og söguþráðurinn hinn sami og Muggs þó höfundur þessarar útgáfu taki sér það bessaleyfi að sleppa Pétri í hásætinu enda eru prinsar að dómi höfundarins vita gagnslausir.

Sagan um Dimmalimm hefur verið sett á fjalirnar sem leikrit, ballet og brúðuleikrit. Atli Heimir Sveinsson gerði tónlist við verkið og Atli Már Árnason texta sem má heyra hér:https://www.bornogtonlist.net/Dimmalimm/

Jóhannes úr Kötlum samdi ljóðið Guðsbarnaljóð um Mugg og ljóðið má finna hér:https://timarit.is/page/6278000#page/n43/mode/2up

Fyrstu útgáfuna má skoða hér:http://baekur.is/bok/d6359c2c-ce94-4e68-9d34-33b47df4effc/Sagan_af_Dimmalimm

Spilin sem Muggur hannaði:

Dimmalimm er ekki bara bók heldur menningaarfur sem hefur fylgt þjóðinni um langt skeið og dýrmæt sem slík. Sagan og myndirnar eru samstæð listaverk og því ekki furða þó fólki misbjóði ef því finnst að sögunni, eða arfleifð Muggs, vegið. Undrar hvern sem vill.

Ein hugrenning um “Dimmalimm og Muggur

  1. Ágætis skrif, málefnaleg gagnrýni. Það eru vissulega margir fletir á málinu. Þykir barnabarnið þitt í reynd hafa hina rétta nálgun. Laust við þröngsýni og höft eldri kynslóða. Nýtir það sem gott er og skapar fallegt verk. Tel hið sama eiga að gilda um fullorðna, svo bara nýta þeir sem nýta vilja.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd