Dagurinn í dag er eftirminnilegur fyrir margra hluta sakir. Hann hófst snemma þegar Marion Overson kom við og keyrði okkur á fund í Pakistan Muslim Centre i Darnall. Þar hittum við Lee Crookers og einn stjórnenda miðstöðvarinnar, Shahid Ali til að ræða um makerspace. Brennandi áhugi Lee á samfélagslegi ábyrgð háskóla (University of Sheffield) er einkar hvetjandi og Marion segir hann einkar örlátann á tíma sinn þegar að slíkum verkefnum kemur. Lee þessi er annar aðal leiðbeinanda Marion í doktorsverkefninu hennar sem einmitt snýr að samfélagslegri ábyrgð háskóla, ekki bara þegar það kemur þeim vel og fjárhagslegur ávinningur fylgir heldur ekki síður þegar það gerir það ekki. Við hittum hinn leiðbeinandann í síðustu viku, mann að nafni Tim, einkar geðþekkan prófessor sem var nánast einn við vinnu í húsi kennslufræðanna daginn fyrir páska
Fyrsti hluti heimsóknar okkar í Pakistan Muslim Centre fólst í leiðsögn um húsakostinn. Geðþekkur maður sem kynnti sig sem Hafies sýndi okkur byggingarnar sem áður voru skólar, grunn- og framhaldsskóli, í sitt hvorri byggingunni. Megin verkefnið framundan er að fjármagna viðgerðir og endurbyggingu á húsnæðinu sem er bísna lúið. Hann fræddi okkur um aðkomu háskólans og stúdentanna sem m.a. fólst í að nemar í arkitektúr settu fram tillögur að hönnun fyrir svæðið, bæði úti og inni. Annað samvinnuverkefni fólst í að nemar og kennarar þeirra í læknisfræðum unnu með útvarpstöð stöðvarinnar að þáttum um heilsu og heilbrigði
Við funduðum um möguleika skapandi rýmis (makerspace), fjármögnunarleiðir og eftirsóknarverð verkefni. Og ég verð að segja að ég held við höfum öll grætt töluvert á því að skiptast á skoðunum, taka hugmyndir áfram og móta mögulegar leiðir. Ég veit að ég fer heim með góðar minningar um fólkið sem býr röngu megin við lestarteinana í orðsins fyllstu merkinu og leggur sitt af mörkum til að bæta líf samborgara sinna og þá ekki síst barnanna og eldra fólksins með starfi sínu i pakistönsku miðstöð múslima hérna hinum megin við hæðina
Síðdeginu eyddum við síðan í bíltúr um The Peek District. Sheffield stendur nefnilega að hluta til í þjóðgarði og Marion keyrði okkur um svæðið sunnan við borgina. Hér er óneitanlega fallegt, dalir og hæðir sem liðast um og lítil þorp við veginn sem láta lítið yfir sér. Við stoppuðum í Bakewell en þar er fæðingastaður puddings, sel það ekki dýrara en ég keypti það en auðvitað urðum við að borða á staðnum þar sem undrið gerðist, fyrsti búðingurinn varð til. Ég pantaði mér roast with pudding og svo fékk ég allt annarskonar pudding í eftirrétt. Skemmtileg upplifun og bragðgóð í æfafornu húsi og notalegu eftir því
Eftir matinn gengum við um þröngar og einkar krúttlegar göturnar, kíktum inn í búðir og eyddum peningum, þ.e. Marion og ég, Arnar tók bara myndir. Nú er ég tveimur gullfallegum kjólum ríkari
Á heimleiðinni keyrðum við fram hjá kunnuglegri byggingu, ég er ekki frá því að þarna hafi hroki og hleypidómar verið tekinn upp og líklega ýmsar fleiri myndir og þáttaraðir. Gerið þið svo vel, svipmyndir frá Chatsworth þar sem hesthúsin hæfa kóngi
Það vakti athygli mína að í tveimur þorpum sem við keyrðum um voru gluggapóstar, hurðir og öll skilti í blágrænn dimmum lit sem ég kann ekki að lýsa betur. Aðspurð sagði Marion mér að að þetta væri einkennislitur hertogans á svæðinu sem á, gerið þið svo vel, allt þarna með manni og mús. Hvernig hægt er að eiga tvö þorp og allt þar í kring er ofar mínum skilningi en svona er þetta nú sums staðar
Veðrið lék við okkur í dag, sól og blíða og hellidembur í bland. Þrumur og eldingar og allt gerði þetta veröldina enn fallegri en ella
Góður dagur að kveldi kominn og annar spennandi rétt handan við hornið