Eftir opinbera heimsókn til Kóreu vildi Ceaușescu endurgera Bucharest í líkingu við höfuðborg Norður Kóreu, Pyongyang. Í fyrri pistli nefndi ég hvernig stór svæði voru jöfnuð við jörðu til að rýma til fyrir nýbyggingunum og markmiðið að eyða öllum táknum og minningum tengdum fortíðinni. En það sem færri vita er að verkfræðingur að nafni Eugeniu Iordăchescu fann upp aðferð til að færa hús heilu og höldnu (þið getið lesið um það i tenglum hér neðar) og þannig var átta kirkjum bjargað í Bucharest og fimm annarsstaðar sem og hóteli, banka og tveimur íbúðabyggingum, sumum með fólkinu enn inni. Ferðalag bygginganna var mislangt, allt að 300 metrar í þeim tilvikum sem lengst var farið. Kirkjurnar kúra nú í felum undir veggjum blokkanna, utan sjónmáls eins og forsetinn vildi hafa það og þær eru ekki auðfundnar nema þú sért beinlínis að leita að þeim. Sagan segir að forsetinn hafi gefið flutningsleyfi vegna þess að hann var sannfærður um að þetta væri ómögulegt í framkvæmd. Í dag lagði ég upp í leiðangur til að leita að fjórum af þessum kirkjum og borða hádegismatinn úr bréfpoka eins og innfædd
Fyrsta kirkjan sem við leituðum að og fundum eftir smá labb fram og til baka er
Biserica Mihai Vodă. Sextándu aldar bygging og sú er þyngsta byggingin sem flutt var, um 9000 tonn. Klukkuturninn var einnig fluttur þá 24 metra sem þurfti til að ná honum úr vegi nýbygginganna
Því næst var stefna okkar sett á Biserica Schitul Maicilor en hún er frá 18. öld og var fyrsta kirkjan sem var flutt, ekki minna en 245 metra, árið 1982. Verkefnið tók fimm mánuði. Tuttugu og tvær kirkjur voru á lista yfir byggingar sem mátti flytja en óþolinmæði forsetans olli því að ekki var hægt að bjarga fleirum
Verkfræðingurinn Eugeniu Iordăchescu segir að verkamenn hafi neitað að eyðileggja kirkjurnar og þá hafi fangar verið látnir vinna verkið, eitt sinn með þeim afleiðingum að prestur kirkjunnar lést úr hjartaáfalli við að sjá kirkjuna sína hverfa. Næst styttum við okkur leið frá fyrri áætlun og römbuðum nær viðstöðulaust á kirkju númer þrjú á listanum Mănăstirea Antim en hún er talin gimsteinn, byggð í Brancovan stíl.
Eftir kyrrláta dvöl í forgörðum við kirkjuna steingleymdum við upphaflegri áætlun , að leita að Biserica Schitul Maicilor og stefndum beint að kirkju númer fjögur á listanum mínum, Biserica Sfântul Ilie Rahova
Ég mæli með gönguferð að baki blokkanna sem ramma inn strætið sem liggur að höll fólksins, þar er margt að sjá en áður en ég segi skilið við kirkjurnar sem var bjargað er hér ein að lokum, Sfantul Ioan, hana höfðum við skoðað áður
https://www.theguardian.com/cities/2016/dec/14/bucharest-moved-churches-safety-communist-romania
Communism vs. Religion in Romania: How churches were saved from demolition by a brilliant engineer
Gaman að fylgjast með ykkur. Ég er stórum fróðari þó ég kannist við ýmislegt síðan ég var þarna í vor og haust. Hér er gaman að kíkja við!
Líkar viðLíkar við
Bakvísun: Ferðabloggin – Rúmenía | Koffortið