Barbie myndin og ég

Ég fór að sjá Barbie-myndin um daginn og hún kom mér á óvart. Ég hló mikið og sá helling af tengingum og hugsaði svolítið um sögu dúkkunnar og meintan tilgang. Mig langar að koma þessu frá mér í þessari röð. Athugið að nú segi ég meira frá myndinni en gott er fyrir þá sem ætla sér að sjá hana að stoppa hér og skrolla á eitthvað annað til að lesa. Ef einhver er eftir sem nennir að lesa meira, gjörið svo vel:

Myndin er fyndin og ég heyrði í bióinu að konur á besta aldri hlógu meira og oftar en aðrir. Það er líka gaman að sjá Mattel (fyrirtækið sem framleiðir Barbie) fá á baukinn og þá ber hæst atriðið þar sem stjórn fyrirtækisins, haugur af miðaldra körlum reynir að réttlæta það að engin kona kemur að framleiðslunni og voru í þessum dúr: Það vann hérna kona þarna um árið, var það ekki 1980 og eitthvað?…, og svo kliktu þeir út með því að útskýra: Og við elskum allir konur…

Myndin er uppfull af tilvísunum í aðrar kvikmyndir og greinilega gert út á að tengja við þekkt minni í kvikmyndasögunni. Ég er enn að kveikja á páskaeggjunum (easter egg) sem leikskstjórinn felur um alla mynd. Fyrst má nefna upphafsatriðið sem þótti mér þó nokkuð skemmtilegt en um leið er augljóst að þar er unnið með upphafsatriðið í 2001: A Space Odyssey. Kvikmyndarýni er ekki mín sterkasta hlið svo ég fer hratt yfir sögu og tæpi á því sem mér finnst merkilegt. Þarna má sjá þó nokkur skot sem eru sambærileg við skot úr Harley Quinn (2019) sem er sérlega skemmtileg þar sem sama leikkona leikur bæði hlutverkin.

Ég sá strax tilvísanirnar í Rocky myndirnar og Silvester Stalone, svo sem hvíta loðkápan sem Ken (Ryan Gosling) leikur. Svo er vísað til mynda eins og Godfather, Clueless, Shining, Monty Pyton and the holy gral, ofl. ofl. en andi Audrey Hepburn svífur líka yfir vötnum (The Philadelphia story) og þetta nefni ég bara fyrir hann Arnar minn sem hefur sérstakt dálæti á Hepburn, verði þér að góðu væni og ps. mig minnir að Gene Kelly hafi hagað sér svipað og Barbie í morgunrútínunni í American in Paris. Nú þarf að tékka og bera saman. En áfram með söguna. Diskógellan tengdi diskóatrið í myndinni við Saturday Night Fever enda búningarnir áþekkir og Grease atriðið var frábært líka. Rauða pillan/bláapillan atriðið úr Matrix kom vel út þegar skrítna Barbie bað venjulegu Barbíe að velja á milli sandala eða hárra hæla og hugmyndin um skrítnu Barbie var öll nokkuð skemmtileg. Andi Top Gun sveif yfir vötnum í strandblaki Ken-anna og fleira mætti nefna. Einhversstaðar las ég að ferðalag Barbie mætti líkja við ferð Dorotheu inn í Oz en ég sel það ekki dýrar en ég keypti það, bleika hellu gatan á hið minnsta samsvörun í þeirri gulu (yellow brick road) í Galdrakarlinum í Oz. Sviðsmynd og lýsing er áþekk og í Trumans show og lögin í litunum eru sótt er í smiðju franska leikstjórans Jacques Demy en þetta fattaði einhver annar en ég.

En hver var hún þá, þessi Barbie? Ég hef lengi haft áhuga á leikföngum, sögu þeirra og fleiru í þeim dúr og því vissi ég eitt og annað þegar ég settist niður til að horfa á myndina. Um leið og ég vil að það sé á hreinu að það er svo sem ekkert rangt í því sem þar k eur fram en sagan er flóknari og hér er ein útgáfa frá mínum bæjardyrum.

Til að gera langa sögu stutta. Ruth Handler kemur fyrir í myndinni en hún var og er sögð höfundur/skapari Barbie, Ok, kannski það, en áður en hún kom Barbie á Amerískan markað þá fór Handler fjölskyldan, Ruth, Elliott og börn þeirra Barbara og Kenneth (Barbie og Ken) í ferðalag til Evrópu. Elliott þessi framleiddi í litlu magni plastdót til sölu, m.a. dúkkuhúsgögn en Ruth vann sem ritari á þessum tíma. Í Sviss eða Þýskalandi (sögum ber ekki saman) rakst Ruth á dúkku sem bar heitið Bild Lilli og hún keypti dúkkur til að taka með heim og á þeim er Barbie byggð.

Tvennum sögum fer af tilgangi Lilli, ein er sú að hún var ekki barnaleikfang heldur framleidd sem partýgjöf eða grín (gag) og þótti ekki barnameðfæri. Hin sagan er að Lilli var tískudúkka og líklega rétt að hún byrjaði sem hið fyrra en endaði í höndum barna. Bild Lilli stendur fyrir Lilli úr Bild ef svo má að orði komast. Bild var heitið á tímariti og Lilli var teiknimyndafígúra (comic strip) sem kom fyrir í blaðinu. Skapari Lilli (teiknari) var Reinhard Beuthien og þótti Lilli bæði djörf og óviðeigandi enda var gert út á kynþokkann og Lilli lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna, hlutgerði karla, var gullgrafari og því óumdeilanlega umdeild. Það var svo Max Weissbrodt sem mótaði þýsku dúkkuna og hægt var að kaupa föt sér og klæða dúkkuna uppá, ekki ósvipað og Barbie síðar. Lilli ar fyrsta fjöldaframleidda tískudúkan og sú fyrsta sem hægt var að fá í fleiri en einni stærð. Í kjölfarið voru dúkkur ekki ósvipaðar Lilli (knock off) framleiddar víðar um heim en víkjum sögunni til Barbie. Þú getur borið þær saman, Bild Lilli og Barbie Teen-Age Fashion Model (1959):

Barbie er nauðalík Lilli eins og sjá má á myndum af fyrstu útgáfunum og munurinn ekki alveg ljós. Að auki eru uppi sögur um að Ruth hafi ekki sjálf mótað dúkkuna sem við þekkjum sem Barbie heldur maður að nafni Antony Bulone. Hann segist hafa fengið 800 $ fyrir og að konan hans hafi verið fyrirmyndin af skúlptúrnum. Ég reikna með að fáir hafi heyrt hann nefndan og sorglegt, ef rétt er, hvernig heiðurinn (og ágóðinn) á það til að fara fram hjá þeim sem verkið vann. Hér getur þú séð viðtal við Bulone

https://youtu.be/2-dIA-lPvbE

Frumleiki Barbie og hönnun Ruth er því hið minnsta ýkt og spurningin um það hvort Ruth skapaði Barbie þarf að svara með loðnu svari. Fyrir mér var Ruth meira bissnes kona en annað og þau hjónin tóku höndum saman við Harold Mattson og stofnuðu Mattel (blanda úr nöfnum karlanna tveggja) en eins og flest kannski vita framleiðir Mattel Barbie. En veistu að frá því fyrsta Barbie dúkkan kom á markað 1959 hafa verið framleiddar allskonar útgáfur og seríur af dúkkunni og nú allra síðustu árin dúkkur með meira kjöt á beinunum, smávaxnar og hávaxnar, dúkkur með fötlun en Unique línan hefur 176 mismunandi dúkkur með 34 mismunandi húð liti og 94 gerðir af hári. Careers Barbie er ein línan og sýnir dúkuna við hin ýmsu störf (1972-) alls um 200 mismunandi dúkkur. Fyrsta Celebrity Barbie var Tviggy en fleiri fylgdu í kjölfarið..

Þannig eru til 91 Barbie of the world og ein af þeim er íslenska Barbie sem kom á markað 1987, tveimur árum eftir að Hólmfríður Karlsdóttir var kosin ungfrú heimur þó ég viti ekki hvort þarna hafi verið tenging.

Barbie dúkkur koma af og til aftur í nýjum útgáfum og eitt og annað má færa til bókar s.s. að árið 1971 matti fyrst sjá Barbie bros (svo sá í tennur), samkvæmt Guinnes er Totaly hair Barbie mest selda týpan (1992) og ef þú átt réttu dúkkuna þá eru líkur á að þú getir hagnast umtalsvert. Stefani Canturi Barbie (2010) seldist á ríflega 300.000 $ enda ber hún alvöru eðalsteina en fyrsta útgafan að Barbie fer á 25.000 $.

Aftur að Barbie eintökum sem féllu ekki alveg í kramið. Ég verð eiginlega að biðja ykkur að flétta sjálf upp Growing up Skipper (1975) og geta ykkur til um hvernig fólki þótti þetta góð hugmynd og sama má segja um Video girl Barbie en þá flæktist FBI í málið en aftur á léttar nótur. Það hafa ekki allar Barbie vörurnar gert það gott og í kvikmyndinni er m.a. vísað til Midge (2002), ófrísku Barbie en bæði hún og kærastinn Allan (líka í myndinni) voru hluti af Happy family línu og gott ef ekki líka Tanner sem floppaði algerlega enda var víst lítill markaður fyrir hund sem gerði þarfir sýnar út um allt. Aðrar sem ekki voru í myndinni eru t.d. var share a smile Becky (1997) í hjólastól en svo kom í ljós að stólinn og þar með Becky, komst ekki inn um dyrnar eða í lyftuna í Barbie húsinu, ögn kaldhæðnisleg. Það er reyndar með Becky eins og margar aðrar.

Mesti skandallinn er líklega þegar Barbie barnapía var seld með lítilli matreiðslubók sem hét Dont eat diet (1963) jamm, þú last þetta rétt og kannski gott að tengja á greinar um áhrif Barbie, þú finnur þær hér neðar en einföld leit á Google Scholar að Barbie gefur marga möguleika.

Tíundi áratugurinn var ekki góður í Barbie- sögunni og eitt og annað setti neytendur út af laginu. Fyrst má nefna Rollerblade Barbie (1991) eða Barbie Inline Skater en skautarnir hennar skutu eldglæringu og reyndust hættulegur, fóru t.d. illa saman með hárspray sem þá var bísna algengt. Ég er bara nokkuð lukkuleg með að eiga eins slíka dúkku, Þá kom Teen talk línan (1992) á markað og táningarnir gátu talað, a.m.k. sagt eina setningu og þá fór illa í mæður að heyra dúkkuna lýsa því yfir að stærðfræði sé erfið. Fyrirtækið viðurkenndi að þetta væri óheppilegt en dúkkan var seld áfram. Fiðrilda Barbie (Butterfly art Barbie, 1998) með sitt tattú var hafnað af amerískum foreldrum, Oreo fun Barbie (1997) var innkölluð end misbauð AfrískAmerískum tengingin við orðið oreo og Earring Magic Ken, (1993) þótti of samkynhneygður (afsakið orðalagið) en hann er samt mest selda Ken- útgáfan. Ég get ekki sleppt að nefna Palm Beach Sugar Daddy Ken (2009) afar óheppileg, en fyndin saga því þarna átti að vitna til hundsins sem þessi skrautlega karlfígúra á, auðvitað.

Allra allra nýjustu Barbie dúkkurnar eru auðvitað persónurnar í kvikmyndinni og hver veit hvað kemur næst en mín skoðun er sú að Barbie ruddi ekki brautina á neinn hátt heldur þróaðist í kjölfar samfélagsbreytinga. Carrier Barbie kom ekki á undan jafnrettisbaráttunni heldur kallaði samfélagið á fjölbreyttari möguleika og sama á við um fyrstu hörundsdökku Barbie og fleiri mætti nefna. Stærsta gagnrýnin á Barbie er jafn gömul framleiðslunni og snýst um áhrifin sem það hefur á börnin sem leika með dúkkur sem eru í fyrsta lagi fullorðnar og í öðru lagi með óeðlilegan líkamsbyggingu.

Eftir að hafa stytt þetta blaður um heilan helling held ég að ég hemdi þessu út í kosmóið ef einhver nennir að lesa… kannski skrifa ég næst um gorminn, þ.e. þennan sem getur labbað (ef svo má segja) niður tröppur eða um bangsa, hver veit.

Rannsóknir

https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/16569167/

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2991547/

https://ir.library.oregonstate.edu/downloads/kp78gm857

Tilvísanir ofl.

https://economictimes.indiatimes.com/news/international/us/who-created-the-barbie-doll-know-all-about-ruth-handler-the-woman-behind-mattel/articleshow/102040688.cms?utm_source=contentofinterest&utm_medium=text&utm_campaign=cppst

https://hobbylark.com/collecting/The-Stolen-Legacy-Of-Bild-Lilli

https://economictimes.indiatimes.com/news/international/us/who-created-the-barbie-doll-know-all-about-ruth-handler-the-woman-behind-mattel/articleshow/102040688.cms?from=mdr#

https://www.history.com/news/barbie-through-the-ages

https://www.rd.com/article/barbie-facts/#:~:text=3.,one%20of%20seven%20Roberts%20kids.&text=Over%20the%20years%2C%20her%20siblings,Kelly%2C%20Tutti%2C%20and%20Todd.