Pæling um AI eða gervigreind á föstudagskvöldi 

Það er kannski ekki besta hugmynd sem ég fengið að skrifa vitrænan texta eftir tvö hvítvínsglös og tónleika tileinkaða Ellu Fitzgerald en undanfarið hefur AI eða gervigreind verið mikið til umfjöllunar í allskonar samhengi og margt farið um hugann. Ég hef umgengist tölvur lengur en margir, átti snemma afar forneskjulega Apple llC sem var svo framúrstefnuleg á sínum tíma að hún hafði tvö diskettu drif svo það var hægt að keyra stýrikerfið upp af öðru drifinu og forrit af hinu. Já, ritvinnslan var á einni diskettu og stafirnir á skjánum voru grænir. Við áttum forritin Apple writer og Apple works og eitthvað fleira. Málin flæktust ögn þegar kom að því að vista gögn því þá þurfti að fjarlægja diskettuna með forritinu, setja diskettuna í sem átti að vista á, dúddi (minnislykill) þess tíma. Þá voru engar nettengingar, þær komu miklu seinna og vefurinn varð ekki til fyrir 1989 (opnað fyrir almenning fyrr en eftir 1990). Við vorum ægilegir nördar og frumburðurinn fékk tölvuleiki og góðan aðgang að tölvum 3 ára gömul og við uppfærðum við tölvubúnaðinn jafnt og þétt eftir því sem tæknin þróaðist og tækin urðu betri, og það gerum við enn.

Við hjónin erum leikskólakennarar og innleiddum tækni í skólastarf, fyrst þegar ég stalst til að leyfa börnunum á Hlíðabóli, þar sem ég var skólastjóri, að leika í tölvu skólastjórans (og sagði ekki nokkrum lifandi manni frá því) og svo síðar fékk ég tölvu fyrir börnin á gamla Iðavelli með Arnar á hliðarlínunni með ráðleggingar um vélbúnaðinn. Svo hóf Arnar störf á Iðavelli og þar var nú gaman, einmitt vegna þess að við unnum með skólastjóra sem var á sömu línu. Við tókumst á við vanþekkingu, efasemdir og mótbárur og foreldrar barnanna í skólanum voru okkar bestu bandamenn. Ég skrifaði eitt sinn grein um frumkvöðlana í stafrænni tækni í leikskólanum og greinina má lesa hér:

Eins og fram kemur í greininni er snjalltæknin áfangi í tæknisögunni en að mörgu leyti var hún kynnt eins og allt væri nýtt og áður óþekkt. Sannleikurinn er samt sá að heilmikið hafði verið gert áður og margt af því hélt áfram, bara með betri tækjum, meiri hraða og þægilegri í notkun t.d. fyrir börnin og svo auðveldara aðgengi fyrir alla. Mér finnst við enn einu sinni vera á sama núll punktinum, þ.e. nú höfum við enn og aftur heilmikla nýja tækni, ótal ferska möguleika og ósköpin öll af hættum en margt er gamalt og þekkt. AI er hugtak sem nú er notað um svo margt sem áður hét annað en ég veit auðvitað að þróunin og getan er umfram allt sem hægt var að hugsa sér hér áður og þetta gerist lygilega hratt. Nú er kennarinn kominn upp í mér og ég ætla að lista upp nokkur atriði sem ég hef verið að hugsa um (já, bókstaflega gera lista). Þið takið það með í reikninginn að þetta eru mínar vangaveltur og skilningur á þessum tímapunkti.

  1. Það er engin ein viðurkennd skilgreining til á AI
  2. Hugtökin sem notuð eru um AI eru (mögulega) villandi, s.s. greind, nám, skilningur, skapandi
  3. AI er ekki eitthvað eitt (hún er ýmislegt og alls konar) 
  4. AI er í grundvallar atriðum tvenns konar, sú sem miðar að því að ná mannlegri hæfni og hin sem byggir á kerfum og logik (s.s. reiknilíkan fyrir veður)
  5. AI sem snýr að mannlegri hæfni getur unnið með texta, hljóð, myndi og þh.
  6. AI er mis öflug og mis viðtæk (fer eftir tilgangi hverju sinni og gagnabankanum sem liggur að baki og sum AI byggir á netleit)
  7. AI er alls staðar (filterar tölvupóstinn þinn, les andlit, yfirfærir texta í hljóð og öfugt, sérsníður upplýsingar að notenda, hún er á bak við sjálfvirkt vefspjall stofnanna og fyrirtækja (spjallmenni), Siri og Alexa eru dæmi og sjálfkeyrandi bílar líka en hún er svo ótal margt fleira
  8. AI hefur fleiri nöfn s.s. spjallmenni (sjá ofar), emotional AI sem les í og túlkar svipbrigði, Voice AI sem vinnur úr hljóði ofl. ofl.
  9. AI byggir gjarnan á gagnabanka, samsafni upplýsinga
  10. AI á að geta búið til eitthvað nýtt, lært og þróast þannig af sjálfsdáðun (ég skrifa viljandi ekki að hún geti, því það liggur mikill efi í sköpunarmætti AI ekki sist vegna þess að grunnurinn er sóttur eitthvert)
  11. Allan Turing, sá merki maður, fann upp próf til að reyna gæði AI og fólst í stuttu máli í að ef prófandinn (spyrill) greinir ekki mun á því sem tölvan skilar (svarar) og þess sem manneskja skilar í gegnum tölvu þá er um AI að ræða. Turing tók mannlegu samskiptin út fyrir sviga og er próf hans enn að einhverju marki gagnlegt. Það kemur betur í ljós síðar hví ég nefni Turing
  12. Það sem flestu fólki finnst auðvelt er AI erfiðast en það er að greina svipbrigði og lesa í hegðun
  13. Það sem er AI auðveldast er að gera það sem flestu fólki finnst erfiðast, s.s. að reikna úr flóknum tölum eða gögnum (ég vildi samt heldur segja sú AI sem fólki gengur best að skapa, því ekki má gleyma því að AI er mannan verk)
  14. Sum AI eru fyrir textavinnslu og önnur ætluð tónlist eða myndlist. Eitt þekktasta AI dæmið er líklega ChatGPT sem vinnur með texta. Dæmin eru ófá en rétt til að setja orð á fáein þá breytir DALL-E texta í myndir, AI art generator er eins og nafnið bendir til um listir. Openart.ai vinnur með hönnun en forrit eins og þessi hljóta að byggja á undirliggjandi gögnum eða safni texta, mynda osfrv. og þá erum við komin að viðkvæma hlutanum, hvernig er gagnagrunnurinn gerður, hvað er í honum og hver á upphaflega efnið. Sum AI hafa byggt upp banka sem þegar hafa verið keypt leyfi fyrir svo sem Shutterstock en það er langt í frá augljóst með flest AI hvernig gögnin eru fengin og hvort raunverulegir höfundar eða listafólk hafi nokkuð um það að segja að verkin þess séu notuð. Það gefur nefnilega augaleið að ein tenging lista AI við leitarvél opnar á ægilega margt og þá er AI á hálli braut siðferðilega
  15. Mikilvæg gagnrýni á AI er að hún í raun skapi ekkert nýtt heldur raði saman upplýsingum skipulega og þá vakna spurningar um atriði eins og ritstuld þar sem AI er þjófurinn og notandinn í raun líka. Myndverk unnin af AI eru þá byggð á listaverkum sem eru 100% stuldur
  16. Önnur gagnrýni er að hún takmarki útkomuna og með tímanum geri margt keimlíkt og þar með fátækara, s.s. textar í greinum, ritgerðir samskipti ofl
  17. Það er erfitt að vinna á eða gegn AI markaðsdrifinni sölumennsku
  18. Ein gagnrýnin sú að mikil oftrú ríki á getu AI, sannarlega er margt hægt en þegar upp er staðið er það val mannanna hvernig og hvort þeir nota einstaka AI möguleika, ja, nema auðvitað þá sem er teoðið upp á okkur eða koma okkur vel og við viljum nýta okkur, hví ekki?
  19. Svo er AI auðvitað mikið notað til að svíkja og pretta, gabba og hvekkja svo sem til að stela auðkenni fólks og svo má nefna fleira s.s. (net)veiðar, djúp fölsun, falskar fréttir, yfirtaka og stjórnun á samfélagsmiðlum eða með spjallmennunum og að lokum fjármálasvik
  20. Sölumennirnir, því það er á endanum það sem málið snýst um, hafa markaðsett AI einstaklega vel og þó sumt sé nýtt og þróaðra en áður var skyndilega skellt nýjum merkimiðum á margt sem þegar var til. Kannski er þetta bara rökrétt þróun en gagnrýnin hugsun er gott veganesti í allri umræðu um AI. Á einum tímapunkti urðu tölvur að snjalltækjum, forrit urðu öpp og nú eru allskonar forrit AI. Einföldun? Kannski
  21. Endilega hættu að hugsa um AI og googlaðu (ein AI í viðbót): Allan Turing. Ég himsótti eitt minnismerkið um hann í Manchesterer fyrir nokkru og skrifaði þá pistil sem má lesa hér https://annaelisaisl.wordpress.com/2019/03/02/ferdalangurinn-er-manchester-meira-en-old-traford-og-etihad/
  22. Annars bara góða helgi og nú skríð ég í bólið

Myndirnar eru teknar á Listasafni Reykjavíkur í síðustu viku

Dimmalimm og Muggur

Nýverið auglýsti Óðinsauga að von væri á nýrri útgáfu af Dimmalimm með nýjum og fleiri teikningum. Hugmyndin hefur fengið misjafna dóma og töluverðar rökræður átt sér stað hér og þar í netheimum. Ættingjar Muggs hafa einnig lýst andúð sinni á útgáfunni og í grein á Vísi segir “Aðstandendur Muggs segja ósiðlegt að útgáfan verði undir hans nafni því verkið sé ekki eftir hann þegar myndum hans hefur verið skipt út.” og einn af sonum Dimmalimm, eins og þeir orða það, segir: “En það sem aðstandendunum svíður sé að verið sé að nota nafn Muggs við verk sem er ekki hans.” Greinina má finna hér:

https://www.visir.is/g/20232469241d?fbclid=IwAR3ukk97HTlfVeNhHpSWvRzBDthq2eS2ADuJnrcN28MRIHEmJtm-ditqwbw_aem_AQtLwyishR7qlLTcunlnNR_7TqK3FcDQCoyfi2Mqj5CsljabOLTKHkQWUGzwsWnsoIg

Við fyrstu sýn datt mér helst í hug að AI hefði teiknað myndirnar en útgefandi svaraði fyrirspurn minni um hver myndskreytti bókina á þessa leið “Myndirnar eru undir áhrifum frá frummyndunum. Þær eru svo unnar í teymisvinnu þriggja listamanna, frá Íslandi, Úkraínu og Argentínu. Þeir eru eftirtaldir: Huginn Þór Grétarsson, Olena Soroka og Vladimir Rikowski.” M.a.o. byggt er á myndum Muggs og það eitt og sér vekur margar spurningar, ekki síst hvort ekki hefði verið betra að gera alveg nýjar myndir og þá kannski nýtískulegri. En hvað um það röksemdafærslur útgefanda og vangaveltur annarra má m.a. lesa á Facebook síðu útgáfunnar þar sem bókin er auglýst. Ég hvet fólk til að beita gagnrýnni hugsun á hvoru tveggja. Mig langar þó að nefna eitt sem kemur fram í rökum fyrir nýju myndunum og það er að þær séu fleiri en áður. Dimmalimm Muggs hefur sjö síður með stuttum texta og átta myndir, því eru myndirnar bara nokkuð margar miðað við lengd sögunnar en það er jú bara mín skoðun, auðvitað má klippa textann enn meira niður ef bókin er ætluð yngstu börnunum. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að saga eins og Dimmalimm Muggs henti börnum frá 3-4 ára aldri og þá eru átta myndir og sambærilegur fjöldi lína á blaðsíðu ágæt samsetning. Kannski er nýja Dimmalimm harðspjaldabók fyrir allra yngstu börnin. Kannski.

Dimmalimm er ein af mínum uppáhalds bókum, sannarlega barn síns tíma en í sögunni er Dimmalimm barn, það sést á teikningunum og það finnst mér dýrmætt. Annar kostur við söguna er að Dimmalimm tekst á við sorg og missi þegar svanurinn hennar deyr og hún syrgir hann um tíma. Bókin er, eins og áður segir, prýdd átta myndum, sem hver og ein er listaverk, líka myndin af trénu á lokasíðu bókarinnar sem mér fannst svo ævintýralega fallegt með öllum sínum litlu hjörtum. Dimmalimm elskaði náttúruna, kom vel fram við dýrin og lék sér fyrir utan höllina, sem var svolítið eins og hún væri að stelast og þar fann hún vin í svaninum á tjörninni. En vísukornið í lokin er auðlært og fallegt, sérstaklega þegar lesandinn man að höfundur var með litlu frænku sína í huga þegar sagan var samin.

Engin er eins þæg og góð
og Dimmalimmalimm
Engin er eins hýr og rjóð
og Dimmalimmalimm

Og fyrir þau sem vilja meina að bókin hafi vondan boðskap, sérstaklega fyrir stelpur þá mega stelpur alveg vera þægar og góðar líka, það er ekki slæmir eiginleikar, sérstaklega þegar rætt er við þær um hvað er að vera þægur og góður (skilgreiningin er nefnilega ekki ein og meitluð í stein). Um jákvæðan boðskap sögunnar hef ég þegar rætt.

Mér finnst hugmyndin um nýja Dimmalimm verri eftir því sem ég sé fleiri myndir úr nýju útgáfunni, nú siðast uppgötvaði ég að tréð með hjartalaga blöðunum sem Muggur gerði svo brothætt og fallegt er endurgert í nýju útgáfunni. Hvenær hættir málverk eða teikning að vera endurgerð og verður stuldur? Hví var ekki gert valið annað konsept í stað þess að nota tréð sem hefur enga tilvísun í sögunni? Ég er orðin efins um hve mikið nýtt er í þessum nýju myndum en það verður að segjast að bókin er enn ekki komin út en ég er reikna svo sem ekki með að kaupa bókina.

…Hér var ég búin að setja inn mynd af trénu í nýju útgáfunni en ég tók hana út, ég bara gat ekki horft á hana lengur en aftur að Mugg.

Muggur hét Guðmundur Thorsteinsson og lést rétt liðlega þrítugur að aldri. Hann kom þó miklu í verk og arfleifð hans dýrmætar þjóðagersemar á borð við altaristöfluna í Bessastaðakirkju svo dæmi sé tekið. En mörg verk Muggs tengjast börnum og um hann er skrifað: “Honum var sérstaklega sýnt um að segja sögur, enda var hann barngóður með afbrigðum og þekkti betur sálarlíf barna en flestir aðrir fullorðnir”.

Muggur mynskreytti Þulur Theodóru Thoroddsen en Theodóra var móðursystir hans. Mynskreyting hans á 10 litlu negrastrákum er einnig mörgum kunn og endurútgáfa þeirrar bókar olli nokkru fjaðrafoki fyrir nokkrum árum en það er efni í annan pistil.

Ég á einnig bókina Búkolla sem er myndskreytt af Muggi en sú sem ég á kom út árið 1951 og hann teiknaði myndir við fleiri ævintýri. Það er því skemmtilegt að Dimmalimm rataði inn í barnaleiki íslenskra barna með leiknum 1 2 3 4 5 Dimmalimm.

Sagan um Dimmalimm og vatnslitamyndirnar sem prýða hana verða til árið 1921 og Muggur gerði sem gjöf til systurdóttur sinnar, Helgu Egilsson. Dimmalimm kom fyrst út árið 1942 í blárri harð kápu sem vafin var í hlíf með forsíðumyndi og örlitlum upplýsingum um Mugg.

Þar stendur m.a. um Mugg að hann hafi verið “einn gáfaðasti og fjölhæfasti listamaður sem Ísland hefur átt”. Muggur var leikari góður og lék árið 1919 í fyrstu leiknu íslensku kvikmyndinni. Hann var einnig gamanvísnasöngvari og tróð á stundum upp sem slíkur þegar hann skorti fé.

Ég fékk 1. útgáfu af Dimmalimm í 50. ára afmælisgjöf og sú er með kápunni (hlífinni utan um bókina). Það er fátítt að finna fyrstu útgáfu með kápunni því þær voru gjarnan innrammaðar eða gefnar sem tækifærisgjafir en undir hlífinni er kápan fallega blá á litinn. Eintakið mitt fannst í Bandaríkjunum og því fylgja upplýsingar um bókina og þýðing á sögunni á ensku.

Bókin með sögunni um Dimmalim hefur verið endurútgefin þó nokkrum sinnum í gengum tíðina og ég á útgáfu sem Helgafell gaf út en hún er án árs. Þar er sagan um Dimmalimm sögð á íslensku, dönsku, ensku, þýsku og frönsku. Greinilega hugsuð til tækifærisgjafa til erlendra vina og ættingja.

Eins og ég nefndi veit ég ekki hvar í röðinni sú útgáfa er en áttunda útgáfa bókarinnar er með harðspjalda kápu og ögn stærri en fyrri útgáfur 1991 (1. prentun), 1992 (2. prentun). Mig vantar því þó nokkrar útgáfur í safnið mitt sem komu út þarna á milli.

Níunda útgáfa bókarinnar kom út 2004 og er ljósmynduð frumútgáfa.

Árið 2006 var Dimmalimm gefin út, þá með hvíta harða kápu.

Fram til ársins 2006 höfðu því komið út 10 útgáfur af Dimmalimm en ég á bara þær sem hér hafa verið nefndar. Á tímabili, fyrir svona tíu árum síðan, var hægt að fá Dimmalimm á nokkrum erlendum tungumálum í ferðamanna hluta Eymundsson en það er þó nokkuð síðan þær hættu að sjást.

Fyrir áratug gaf dótturdóttir mín ömmu sinni heimatilbúna útgáfu af Dimmalimm í sumardagsgjöf og hér neðar má sjá myndir af þeirri útgáfu. Textinn er skrifaður á pólsku og söguþráðurinn hinn sami og Muggs þó höfundur þessarar útgáfu taki sér það bessaleyfi að sleppa Pétri í hásætinu enda eru prinsar að dómi höfundarins vita gagnslausir.

Sagan um Dimmalimm hefur verið sett á fjalirnar sem leikrit, ballet og brúðuleikrit. Atli Heimir Sveinsson gerði tónlist við verkið og Atli Már Árnason texta sem má heyra hér:https://www.bornogtonlist.net/Dimmalimm/

Jóhannes úr Kötlum samdi ljóðið Guðsbarnaljóð um Mugg og ljóðið má finna hér:https://timarit.is/page/6278000#page/n43/mode/2up

Fyrstu útgáfuna má skoða hér:http://baekur.is/bok/d6359c2c-ce94-4e68-9d34-33b47df4effc/Sagan_af_Dimmalimm

Spilin sem Muggur hannaði:

Dimmalimm er ekki bara bók heldur menningaarfur sem hefur fylgt þjóðinni um langt skeið og dýrmæt sem slík. Sagan og myndirnar eru samstæð listaverk og því ekki furða þó fólki misbjóði ef því finnst að sögunni, eða arfleifð Muggs, vegið. Undrar hvern sem vill.