Vangaveltur um yngstu börnin og snjalltækin

Erindi haldið á foreldramorgni í Glerárkirkju 7. mars, 2024

Á heilsuvera.is eru leiðbeiningar um skjánotkun barna og eru þær ágæt viðmið sem vert er að kynna sér og fara eftir.
https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/throskaferlid/uppeldi-barna/skjarinn-og-boernin

Þar er foreldrum meðal annars ráðlagt að forðast skjánotkun barna yngri en 18 mánaða. Nokkuð skýrt og skorinort en með þeim fyrirvara að hér er auðvitað ekki átt við þegar börn eiga samskipti við ættingja í gegnum myndsímaforrit og þess háttar notkun sem getur verið hreint frábær leið til að vera í samskiptum við afa, ömmur eða aðra ættingja. Ég er tækninni ævarandi þakklat fyrir þennan möguleika og tæknin getur verið dásamleg

En aftur að viðmiðum um skjánotkun á heilsuveru. Af hverju eru sett viðmið og af hverju þessi viðmið? Ég ætla að setja mínar útskýringar og niðurstöður rannsókna á viðmiðin. Í fyrsta lagi þá eru snjalltæki annars eðlis en sjónvarp. Sjónvarpið er einhliða en snjalltækin gagnvirk. M.a.o. þú bara horfir á það sem er í sjónvarpinu en börn læra fljótt að pota í skjá snjalltækja og breyta, kannski mikið og oft. Því það er jú spennandi að hafa stjórn, sjá eitthvað gerast og af hverju er það ekki bara í lagi? Það er m.a. vegna þess að á fyrstu árunum er mikilvægt að efla getu barna til að gera margt það sem skjátími tekur frá þeim eða hefur neikvæð áhrif á. Svo sem færnina til að einbeita sér, getuna til að halda athygli, það að hafa eirð, eða getað dundað sér. Allt er þetta spurning um æfingu og þjálfun og allt eru þetta atriði sem marklaust pot eða skroll barnanna á skjám vinnur gegn. Svo læra ung börn best með því að hafa eitthvað í höndunum og þau þurfa þannig æfingu, eitthvað sem snjalltækin geta ekki gefið. Það eru nefnilega til hafsjór af “menntunar- eða þroska forritum” sem eru að mínu viti gagnslaus, jafnvel fyrir börn eldri en 2 ára. Svo verið gagnrýnin og veljið aðrar leiðir ef þið getið. Það er nefnilega mikið ofmat í gangi á námi sem fer fram í snjalltækjunum, sérstaklega hjá allra yngstu börnunum

Ég er ekki antí tæknimanneskja, ég er ein af frumkvöðlum í snjalltækni með yngstu börnunum, hef unnið með leikskólabörn og tölvur frá 1987. Ég skil og þekki hvað tæknin getur gert gott og hvar hún er til trafala. M.a.o. það er ekkert að því að setja myndaalbúmið í símanum á sjálfvirkt rúll og leyfa börnunum að horfa af og til og það er enginn skaði af því að hlusta á tónlist eða sögu í snjalltæki. Það er svo sem ekkert að því heldur að grípa í símann í neyð. En  það sem er varhugavert er að ala börn frá unga aldri upp í að hafa símann alltaf við höndina, tæknin sé fyrsta val þegar takasta þarf á við allt mögulegt. Við vitum hvað það getur gert fullorðnum, hvað þá litlum börnum. Síminn/snjalltækin er með öllu mögulegu inna seilingar og við þekkjum kannski öll hve auðvelt er að týna tímanum í tilgangslausu skrolli eða vera með símann í höndunum innan um fólk þegar samskipti ættu að vera aðal atriðið. Alla vega þarf ég að passa vel upp á sjálfa mig að þessu leyti og get ímyndað mér að svo sé um fleiri

Viðfangsefnið í erindinu er 6-24 mánaða gömul börn og snjalltækin og það er ljóst að viðvera yngstu barnanna í snjalltækjum hefur aukist gífurlega, bæði í símum og spjaldtölvum enda eru þessi tæki sítengd við internetið og einföld að grípa í þegar þarf. Á hinn bóginn taka tækin þá um leið frá börnunum þann möguleika að tíminn sé notaður í spjall, í að skoða bækur eða leika einfalda leiki en allt fyrr talið má gera í flestum aðstæðum í stað þess að opna skjá. Allt viðfangsefni sem börnin virkilega þurfa til að þroskast, til að læra samskipti, til að læra tungumálið, til að læra að vera til í samfélagi við aðra

Einna algengast er að foreldrar opni Youtube fyrir yngstu börnin (Davidson o.fl. 2017) og notkun á Youtube með yngstu börnunum óx mikið á covid tímanum (Lozano-Blasco o.fl. 2021). Nú má ekki skilja mig sem svo að öll skjánotkun sé slæm, síður en svo. Stundum er handhægt að hafa ofan af fyrir börnum á þennan hátt, sérstaklega ef foreldri þarf smá næði eða ef aðstæður kalla á. Hins vegar á vel við að skoða hvað mælir með því að nota aðrar leiðir

Rannsóknir hafa sýnt að ung börn (6-12 mánaða) læra ekkert af youtube (og já, rannsakendur tóku svona djúpt í árina). Í rannsókninni kom fram að yngstu börnin (6 mán.) hlustuðu á tónlist og fóru síðan, með auknum aldri, að fylgjast með myndböndum. Smám saman lærðu þau að snerta skjáinn og breyta en því fylgdi ekki skilningur á því hvað þau voru að gera. M.a.o börn að tveggja ára aldri geta notið þess að horfa, það er hægt að hafa ofan af fyrir þeim með snjalltækinu en ekki var hægt að greina að þau lærðu neitt (Yadav o.fl. 2018). Stórum hluta vinsælustu Youtube rásanna er beint að allra yngstu börnunum og margt sem þar er virkar bara nokkuð gott efni. Það er samt staðreynd að hættan á að börnin sjái óviðeigandi efni er umtalsverð og sumt þannig efni er viljandi falið í sakleysislegum búningi. Það er ekki langt síðan að í gangi var virkilega truflandi Gurra Grís efni. Svo í raun þarf að horfa með börnunum, alltaf, til að vera örugg og sannleikurinn sá að rannsakendur fundu töluvert óviðeigandi efni á yngstu barna rásunum á youtube 2019 (Papadamou, 2019).

Markaðurinn í kringum youtube/kid veltir óhemju háum upphæðum og sem dæmi má nefna FunToyzCollector (379  milljón áhorf á mánuði og 5 million dollara veltu) eða LittleBabyBum (270  milljón áhorf á mánuði og 3.4 milljón dollara veltu á ári (Ferenstein, 2015). Það eru miklir peningar í spilinu og litlu börnin eru markaðurinn

Munið samt að stafrænt efni getur þó verið til gagns ef foreldrar eru með barni í tækinu, setja  orð á athafnir og spjalla (Ebbeck, o.fl. 2016). Þetta er mikilvægur þáttur til að muna og nýta sér

En kíkjum á niðurstöður fleiri rannsókna:

Skjánotkun hefur áhrif á nám, þroska og þætti eins og svefn, augu, heyrn og samskipti barna og foreldra (Bozzola, o.fl. 2018) og skjánotkun hefur verið tengd við seinkun á málþroska (van den Heuvel o.fl. 2019). Því meiri tíma sem 8-17 mánaða börn eyddu í stafrænni tækni því minni getu höfðu þau í grunn samskiptahæfni, eftirhermu hæfni  (e. mimic-gestural skills) og þau höfðu minni málfærni  (Operto o.fl. 2020). Eftirhermu færnin skiptir máli fyrir samskiptahæfni, málþroska, traust ofl. Í stuttu máli sagt þá skiptir máli á hvaða aldri börnin eru og því yngri því betra að velja aðrar leiðir

Annað sem skiptir máli að foreldrar viti er að aldursviðmiðum má þrepaskipta í börn yngri en tveggja ára, og svo aftur 2-3 ára, osfrv.. Skiptingin er tengd við þroska og hún er tengd við aðra aldurssvarandi þætti. M.a.o. ákveðin forrit, eða ákveðin notkun getur verið gagnleg fyrir börnin þegar þau ná ákveðnum aldri en í takmörkuðu magni, þ.e. að skjátími sé ekki of mikill. Hver klukkutími sem bætist við daglega skjánotkun 8-16 mánaða barna lækkaði útkomu þeirra á skala sem mælir málþroska. Ef börnin voru ögn eldri eða 17-24 mánaða mældist engin fylgni (Zimmerman, 2006). Því yngri sem börnin eru því meira máli skiptir að gefa þeim önnur viðfangsefni og svo þarf varla að nefna að auðvitað skiptir máli að efnið sem börnin horfa á sé á þeirra móðurmáli

Leikskólakennarar hafa fundið fyrir að börn hafa minni athyglispan en áður og sumir nefna einnig lélegri málþroska og tilfinningaþroska. Það er sem sé sitthvað sem við sem samfélag geturm gert betur til að gefa börnunum bestu möguleikana. Hvortuveggja, seinkun á mál- og tilfinningaþroska, hefur verið orðað í tengslum við skjánotkun foreldra. Nú er ég ekki að vísa í rannsóknir, heldur vangaveltur kennara en þeir virðast hafa eitthvað fyrir sér því rannsóknir sýna að símanotkun foreldra hefur áhrif á öryggi barna þeirra, tilfinngalega velferð og samskipti innan fjölskyldunnar. Áhrif á þroska eru t.d. á vitrænanþroska, málþroska og tilfinningaþroska og skjánotkun foreldra minnkar samskipti þeirra við börnin með augnsambandi sem er mikilvægur liður í jákvæðum þroska. Börn þurfa athygli foreldra með augnsambandi, þau þurfa viðurkenninguna og samskiptin. En aftur að rannsókn Glascoe o.fl. (2010). Ung börn þurfa raunverulega hluti að fást við og þau þarfnast mikilla samskipta maður á mann og virkra samskipta við foreldra, ekkert kemur í stað þess

Áður en lengra er haldið má nefna að Duch (2013) tók saman rannsóknir þar sem viðfangsefnið var yngstu börnin og skjátími. Niðurstöðurnar sýna að ekki fundust tengsl á milli þess að börn hefðu langan skjátíma og annarra þátta, s.s. af hvaða kyni barnið er, hvar það er í systkinaröðinni, menntun foreldra, hvort barnið er af erlendu bergi brotið eða hvort á heimilinu eru tveir foreldrar. Ekkert af þessu virtist hafa áhrif á það hve löng skjánotun barnanna er

Almennt er foreldrum ráðlagt að stilla skjánotkun ungra barna í hóf og helst hlífa þeim yngstu alveg við skjánotkun og foreldrar geta gætt þess að vera ekki sjálf með símann í höndunum þegar verið er að sinna börnunum. Það er nefnilega vinna, þetta uppeldi og foreldrar eru fyrirmyndir í þessu sem öðru

Og hvað má þá gera í staðinn? Hvað kemur börnum vel? 

Sem dæmi má nefna að muna að horfa í augun á barni þegar þið eruð saman
Spjalla, skiptast á að “tala” og kenna þannig grunnfærni í samræðu en muna að samtal snýst um að hlusta líka (skiptast á)
Setja orð á athafnir: húfan fer á höfuðið og vettlingar á hendurnar þegar þau eldast þá fer rauða húfan a höfuðið og barnið fer í 1, 2, vettlinga
Benda á og nefna líkamshluta (nef, augu…)
Syngja og lesa og leika við börnin og svo eru til margir góðir hreyfisöngvar
Nota tákn með tali (TMT), börn geta notað tákn töluvert áður en þau geta notað orð, margt af þessu gera foreldrar óskálfrátt s.s. með hreyfingum (táknum). Hvaða hreyfingu/tákn má nota til að tákna:
Datt
Hvar? Eða týnd
Svona stór
Svona sterk
Bless, vinka
Senda fingurkoss

Gott er að leika leiki sem snúast um snertingu, hreyfingu og augnsamband
Hvar er nefið, augun, eyrun, fingurnir?
Punktur, punktur, komma, strik (fara með vísuna og teikna á barnið (andlit, háls, búk, hendur og fætur)
BÖ leikir (fela andlit og kíkja)
Hossa (xxx var að sauma og þá kom gat)
Svona ríður presturinn …. svona ríður bóndinn á bykkjunni sinni
Fagur fiskur er fliðran í sjónum
Þumalfingur, hvar ert þú
Þumalfingur er mamman

…og fleira og fleira, þið kunnið án efa sjálf sitthvað sem dugar vel

Athugið líka að ég er ekki að setja reglur eða segja að þetta eða hitt sé bannað. Tilgangur minn er að benda ykkur á hvað rannsóknir segja, hvað þykir skynsamlegt, þið metið svo sjálf hvað á við hverju sinni. Takmörkuð skjánotun sem afþreying eða til að gefa foreldra smá næði er líklega bara partur af lífinu og mikilvægt að gefa sjálfum sér slaka í þessu sem öðru. Þegar upp er staðið þá er þetta tímabil svo agnar stutt og mikilvægt að nota það vel en vera um leið umburðalynd við sig sjálf sem foreldri. Ég óska ykkur alls hins besta í uppeldinu og segi eins og AA Milne, höfundur Bangsímon: Þú ert hugrakkari en þú trúir, sterkari en þú virðist, og klárari en þú heldur

Heimildir

Bozzola, E., Spina, G., Ruggiero, M. et al. (2018). Media devices in pre-school children: the recommendations of the Italian pediatric society. Ital J Pediatr 44, 69. https://doi.org/10.1186/s13052-018-0508-7

Davidson, C.  Given, L. M., Danby, S. og Thorpe, K. (2015). Talk about a YouTube Video in Preschool: The Mutual Production of Shared Understanding for Learning with Digital Technology. Australasian Journal of Early Childhood, 39(3), 76-83. 

Duch, H., Fisher, E. M., Ensari, I. et al. (2013). Screen time use in children under 3 years old: a systematic review of correlates. Int J Behav Nutr Phys Act 10, 102. https://doi.org/10.1186/1479-5868-10-102

Ebbeck, M., Yim, H. Y., Chan, Y, Goh, M. (2016). Singaporean parents’ views on their young children’s access and use of technological devices. Early Childhood Educ J. 44:127–34.

Ferguson, C.J. og Donnellan, M. B.  (2007). Is the association between children’s baby video viewing and poor language development robust? A reanalysis of Zimmerman, Christakis, and Meltzoff (2007). Dev Psychol, 50(1), 129-37. doi: 10.1037/a0033628.

Ferenstein G. (2015). YouTube’s 10 most profitable channels of 2014 were, um, not what I expected. Venturebeat. Retrieved from http://venturebeat.com/2015/01/02/youtubes-10-most-profitable-channels-of-2014-were-um-not-what-i-expected/

Glascoe, F. P. og Leew, S. (2010). Parenting behaviors, perceptions, and psychosocial risk: impacts on young children’s development. Pediatrics. 2010;125:313–9.

Kılıç, A.O., Sari, E., Yucel, H. et al. (2019). Exposure to and use of mobile devices in children aged 1–60 months. Eur J Pediatr 178, 221–227. https://doi.org/10.1007/s00431-018-3284-x

Lozano-Blasco, R., Quilez-Robres, A., Delgado-Bujedo, D og Latorre-Martínez MP. (2021). YouTube’s growth in use among children 0-5 during COVID19: The Occidental European case. Technol Soc. 2021 Aug;66:101648. doi: 10.1016/j.techsoc.2021.101648. Epub 2021 Jul 7. PMID: 34840364; PMCID: PMC8604349.

Operto, F.F, Pastorino, G. M. G, Marciano J, de Simone V, Volini A. P, Olivieri M, Buonaiuto, R, Vetri, L, Viggiano A, Coppola G. (2020). Digital Devices Use and Language Skills in Children between 8 and 36 Month. Brain Sciences, 10(9):656. https://doi.org/10.3390/brainsci10090656

Yadav, S., Chakraborty, P., Mittal, P. og Arora, U. (2018). Children aged 6-24 months like to watch YouTube videos but could not learn anything from them. Acta Paediatr. 107(8):1461-1466. doi: 10.1111/apa

Papadamou, K., Papasavva, A., Zannettou, S., Blackburn, J., Kourtellis, N., Leontiadis, I., Stringhini, G. og Sirivianos, M. (2019). Disturbed YouTube for Kids: Characterizing and Detecting Inappropriate Videos Targeting Young Children. International Conference on Web and Social Media. https://doi.org/10.48550/arXiv.1901.07046

Zimmerman, F. J., Christakis, D. A. og Meltzoff, A. N. (2007). Associations between media viewing and language development in children under age 2 years. J Pediatr. 2007 Oct;151(4):364-8. doi: 10.1016/j.jpeds.2007.04.071.

van den Heuvel, M., Ma, J., Borkhoff, C. M., Koroshegyi, C., Dai, D. W., Parkin, P. C., Maguire, J. L. og Birken, C. S. (2019). Mobile Media Device Use is Associated with Expressive Language Delay in 18-Month-Old Children. Journal of Developmental & Behavioral Pediatrics 40(2):p 99-104, February/March 2019. | DOI: 10.1097/DBP.0000000000000630

Hér neðan við eru slóðir á eldri færslur sem tengjast: